21.4.2020 | 11:37
Trúir einhver sögum Kínverja um COVID-19?
Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur gefið í skyn að þörf sé á að rannsaka trúverðugleika þeirra upplýsinga sem Kínverjar hafa gefið á uppruna COVID-19 faraldurins, bæði hvernig og hvar hann byrjaði.
Kínverjar eru farnir að dreifa þeim falsfréttum að veiran hafi alls ekki átt sér uppruna í borginni Wuhan eða Kína yfirleitt og sendiherrar þjóðarinnar, bæði í Svíþjóð og á Íslandi, hafa skrifað blaðagreinar um að það sé nánast móðgandi við kínversku þjóðina að halda því fram að veiran hafi átt upptök sín á kínversku landsvæði.
Miðað við útbreiðslu veirunnar í öðrum löndum, sérstaklega vesturlöndum enn sem komið er, eru smit- og dánartölur frá hinu ofurfjölmenna kínverska ríki vægast sagt ótrúverðugar. Veiran kom skyndilega upp í nóvember eða desember 2019 og kom öllum að óvörum og til að byrja með töldu Kínverjar og WHO að hún smitaðist ekki milli manna og væri tiltölulega meinlaus.
Þessu var haldið fram a.m.k. langt fram eftir janúarmánuði 2020 og þá fyrst gripu Kínverjar til einhverra harkalegustu aðgerða sem þekkjast til að kveða veiruna í kútinn og nú segjast þeir nánast vera búnir að fría ríkið af ófögnuðinum.
Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu í dag hélt Merkel, Þýskalandskanslari, blaðamannafund í gær og sagði þar m.a: "Ég trúi því að því meira sem Kínverjar geina frá upphafi veirunnar, því betra sé það fyrir heimsbyggðina alla til að læra af því".
Einnig hafa Macron, Frakklandsforseti, Dominics Raabs, staðgengill forsætisráðherra Bretlands, ásamt yfirvöldum í Ástralíu mælst til að fram fari óháð rannsókn á upphafi faraldursins og upplýsingagjöf Kínverja og WHO um það mál allt.
Þó enginn vilji koma sérstakri sök á Kínverja vegna þessa heimsfaraldurs er lágmarkskrafa að þeir segi satt og rétt frá upphafinu og hvers vegna svo lítið var gert úr honum í upphafi.
Það hefði getað munað miklu fyrir heimsbyggðina að fá gleggri upplýsingar strax í upphafi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.4.2020 | 14:59
Hvert á að fara í ferðalag á næstu misserum?
Útbreiðsla COVID-19 veirunnar hefur verið ótrúlega hröð á þessum stutta tíma sem hún hefur verið á sveimi um veröldina. Þann 01/02 s.l. voru skráð 14.553 veikindatilfelli og þar af 304 sem látist höfðu af völdum veirunnar.
Á tveim mánuðum, þ.e. til 01/04 var fjöldi þeirra sem skráður höfðu verið smitaðir orðnir 936.851 og fjöldi látinna 47.210. Þann 15/04 var fjöldi þeirra sem skráðir voru smitaðir af veirunni orðinn hvorki meira né minna en 2.062.418. Fjöldi skráðra smita hafði sem sagt meira en tvöfaldast á fimmtán dögum og fjöldi látinna var þá orðinn 134.560.
Í Bandaríkjunum, með 331 milljón íbúa, eru skráð tilfelli orðin 645.000 og fjöldi látinna þar um 29.000. Þetta er gríðarlegur fjöldi, en til samanburðar má taka saman fimm Evrópulönd, Spán, Ítalíu, Frakkland, Þýskaland og Bretland, en mannfjöldi þessara ríkja er samtals um 325 milljónir. Í þessum löndum eru skráðar sýkingar um 719.000 og fjöldi látinna 75.000. Með sama hraða á útbreiðslu veirunnar má búast við að fjöldi sýktra í USA fari fljótlega fram úr þessum fimm Evrópuríkjum þar sem þau eru lengra komin í ferlinu og smithraði er minnkandi, en líklega er sömu sögu ekki að segja um USA.
Miðað við uppgefnar smittölur COVID-19 eru framangreind lönd með samtals 1,364.000 sýkta og 104.000 sem látist hafa og öll önnur lönd því með samtals 698.000 sýkta og 31.000 andlát.
Nánast öll lönd heimsins, nema Norður Kórea, eru í baráttu við þennan ófögnuð sem COCID-19 veiran er og ekki er séð fyrir endann á baráttunni við þennan heimsfaraldur, sem sum lönd virðast vera að ná tökum á en flest eiga löndin langt í land með að komast í skjól fyrir óværunni.
Þetta vekur upp brennandi spurningu: Hvert halda menn að hægt verði að ferðast á næstu misserum?
Fyrir Íslendinga er svarið aðeins eitt: ÍSLAND.
Tillögur um ferðamál á næstu dögum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.4.2020 | 19:55
Ótrúleg ummæli Frosta um baráttuna gegn covid-19
Mín niðurstaða er þessi: við getum alltaf komið hagkerfinu í lag aftur en við getum ekki fengið lífin til baka sem tapast." er haft eftir Frosta Sigurjónssyni, rekstrarhagfræðingi, í meðfylgjandi frétt. Ekki er þó vitað til að Frosti hafi sérstakt vit á smitsjúkdómum og faraldursfræðum, þó hann leyfi sér að setja fram slíkar hugsanir.
Þetta eru ótrúlega óprúttin ummæli, enda virðist hann gefa í skyn að hægt sé að kenna "þríeykinu" um þau líf sem tapast í baráttunni við skæðasta veirufaraldur sem geysað hefur um hnöttinn frá því að "Svarti dauði" herjaði á lönd og álfur.
Á Facebook hafa sést ótrúlega orðljótar umsagnir um "þríeykið" og sumir hafa tekið jafn djúpt í árinni og Frosti og sumir dýpra og kennt því persónulega um dauðsföll af hálfu covid-19 veirunnar.
Slík stóryrði og brigsl í garð þremenninganna, þó frá miklum minnihluta "kóvita" sé að ræða, geta orðið til að enn brenglaðra fólk taki slíkt alvarlega og gangi lengra en orðasóðarnir hefðu kannski reiknað með, eða ætlast til.
Þessir orðsins ofbeldismenn ættu að hugsa áður en þeir skrifa og muna að orðum fylgir ábyrgð, en eftir því sem fram kom í frétt Stöðvar2 í kvöld eru einhverjir rugludallar farnir að senda "þríeykinu" morðhótanir, sem væntanlega eiga upphaf í öfga- og ofbeldisskrifum.
Ég vil að þetta sé rætt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.3.2020 | 17:05
Duga smitvarnir okkar gamlingjanna ekki?
Í tæpan mánuð hefur COVID-19 verið að herja á landsmenn, en hún er talin hafa borist til landsins í lok febrúar frá skíðasvæðunum í Ölpunum, þó ekki séu óyggjandi sannanir fyrir því að hún gæti ekki hafa tekið sér far með ferðamönnum annarsstaðar frá áður en hún uppgötvaðist hérlendis með vissu.
Frá upphafi hefur baráttunni geng veirunni verið stjórnað af fulltrúa ríkislögreglustjóra og land- og sóttvarnalæknum, ásamt stórum hópi sérfræðinga og starfsmanna embættanna, ásamt starfsfólki Landspítalans.
Starfsaðferðir þessara aðila hafa notið mikils stuðnings í þjóðfélaginu, þó ekki hafi hann verið algerlega einróma. Ekki hefur hins vegar borið á öðru en læknastéttin væri almennt fylgjandi þeirri aðferðafræði sem beitt hefur verið til þessa, þ.e. að skima fyrir veirunni, setja útsetta í sóttkví og hvetja eldri borgara og aðra með undirliggjandi sjúkdóma til að halda sig heima og forðast mannleg samskipti, nema með fjarskiptum.
Nú hafa hins vegar tveir heilsugæslulæknar á norðausturhorni landsins farið fram á að landshlutanum verði lokað fyrir allri utanaðkomandi umferð og að hver sá sem kæmi inn á svæðið yrði settur í fjórtán daga sóttkví. Þessari málaleitan var algerlega hafnað og í meðfylgjandi frétt er haft eftir sóttvarnalækni:
"Sagði Þórólfur samhljóm um að það að ekki næðist árangur með því að loka sig af. Það væri skammgóður vermir og að faraldurinn myndi koma í bakið á okkur fyrr eða síðar, nema við myndum loka okkur af í mjög langan tíma, eða eitt til tvö ár."
Samkvæmt annarri frétt var svar læknisins fyrir austan við þessum rökum á þessa leið:
"Atli gefur lítið fyrir þessi rök og segir þau ekki halda. Hann segir að sóttvarnalæknir sé um leið þá líka að segja að varnarhugmyndir þeirra fyrir fólk í áhættuhópum á t.d. hjúkrunarheimilum haldi ekki heldur. Hversu lengi þarf að vera sjálfstætt sóttvarnaumdæmi. Því er sjálfsvarað. Það verður hægt að opna á sama tíma og sóttvarnarlæknir blæs af viðbrögðin innanlands almennt. Hann veit ef til vill hvenær það verður? segir hann."
Þessi deila vekur upp þá spurningu hvort tilgangslaust sé að loka fyrir heimsóknir á sjúkrastofnanir, þ.m.t. hjúkrunarheimilin og að hvetja aldraða og aðra sem veikir eru fyrir til að einangra sig á heimilum sínum.
Þremenningarnir sem eru í framlínu sóttvarnanna verða að svara því skilmerkilega hvað þeir reikna með að innilokanirnar þurfi að endast lengi. Eru þær tilgangslausar nema þær standi yfir þangað til búið verður að útrýma veirunni algerlega á landinu, eða þarf að bíða þangað til hún hefur endanlega gengið sér til húðar í heiminum öllum.
Verður þetta fólk í hættu um leið og það fer á stjá meðal fólks og hvenær verður það óhætt?
Samgöngubann yrði skammgóður vermir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23.2.2020 | 13:50
Covid-19 veiruna þarf að taka alvarlega hér á landi
Eftir því sem best er vitað átti Covid-19 veiran upptök sín á "matarmarkaði" í Wuhan í Kína seinnihluta desembermánaðar s.l., þannig að hún hefur einungis herjað á fólk í u.þ.b. tvo mánuði. Á þessum stutta tíma hafa tugþúsundir manna smitast af veirunni og þúsundir látist af hennar völdum.
Í upphafi var sagt að veiran smitaðist alls ekki á milli manna, en fljótlega var þeirri yfirlýsingu breytt og þá sagt að smitleiðin gæti verið með snertingu og því var fólk hvatt til að þvo sér vel um hendur og spritta þær á eftir til að drepa veiruna og hindra smit þannig.
Í Kína hafa nokkrar milljónaborgir og nærsveitir þeirra verið settar í sóttkví og ferðir bannaðar á milli svæða og allt reynt til að hefta útbreiðslu óværunnar og virðast þær hörðu ráðstafanir hafa skilað þeim árangri að nýsmituðum virðist heldur fækka þar í landi, þó smitin séu fjölmörg ennþá frá degi til dags.
Nú er svo komið að veiran hefur borist til tuga landa utan Kína og jafnvel svo komið að nýjustu smitin er alls ekki hægt að rekja beint til Kína og ekki hefur tekist að upplýsa í öllum tilfellum hvernig fólk hefur smitast. Líklegast af öllu er að viðkomandi hafi verið í nálægð við kínverskan ferðamann eða einhvern sem hefur jafnvel hitt slíkan ferðamann á förnum vegi.
Þessar nýjustu fréttir af útbreiðslu veirunnar virðast benda til þess að smit geti borist manna á milli án snertingar, þ.e. þá með andardrætti, hósta og hnerra. Því hefur verið haldið fram að veiran gæti ekki lifað á dauðum hlutum, þ.e. fatnaði og umbúðum vara í sendingum milli landa.
Alltaf þegar fréttir eru sagðar af fjölda sýktra og þeirra sem látist hafa af hennar völdum er alltaf tekið fram að svo og svo margir hafi náð sér af veikindunum og virðist það látið fylgja með til að róa fólk og minnka kvíða vegna þessa óhugnaðar sem nú herjar á mannfólk.
Veiran virðist hafa verið höfð í hálfgerðum flimtingum hér á landi og lítið gert úr hættunni sem af henni stafar. Nú hlýtur að vera kominn tími til að landlæknir, smitsjúkdómalæknir og aðrir opinberir aðilar fari að leggja spilin á borðið og útskýra almennilega fyrir þjóðinni hvernig á að bregðast við þegar fárið skellur yfir landið af fullum þunga.
50 þúsund Ítalir í sóttkví | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.2.2020 | 12:37
Alvarleg og yfirvofandi ógn við heimsbyggðina
Ekkert lát er á útbreiðslu 2019-nCOV veirunnar, sérstaklega í Kína, en sífellt fleiri tilfelli greinast í öðrum löndum sem farin eru að líta á veiruna sem ógn við allan heiminn. Í viðhangandi frétt segir m.a:
"Breskir fjölmiðlar greina frá því að þarlend stjórnvöld lýsi útbreiðslunni sem alvarlegri ógn við lýðheilsu í landinu. Alls eru átta staðfest tilfelli í Bretlandi og eru smitaðir í sóttkví á spítala í London."
Bresk stjórnvöld líta sem sagt þetta alvarlegum augum á þessa hættu, þrátt fyrir að aðeins fjórir einstaklingar hafi greinst með vírusinn í landinu.
Í Kína hafa rúmlega 2% látist af þeim sem greinst hafa sýktir af veirunni, samkvæmt opinberum tölum, en a.m.k. tvær til þrjár vikur hefur tekið að jafna sig af veikindunum fyrir þá sem það gera og þurfa þá að vera í einangrun allan þann tíma.
Það er fyrirkvíðanlegt að þessi óværa berist til landsins, en vonandi eru heilbrigðisyfirvöld og sjúkrahúsin tilbúin með einangrunarbúðir, þó ekkert hafi verið gefið upp um slíkt ennþá.
Hægt að fylgjast með útbreiðslu veirunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.2.2020 | 12:02
Eru Íslendingar of kærulausir vegna kórónuveirunnar?
Samkvæmt myndum sem fylgja viðhangandi frétt taka Kínverjar veirusýkinguna skæðu föstum tökum og virðast gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ráða niðurlögum hennar eftir mörg og afdrifarík mistök í upphafi.
Hálfgert útgöngubann hefur verið sett á í mörgum borgum Kína, þ.m.t. höfuðborgin, og í nokkrum milljónaborgum hefur íbúum verið bannað að fara út fyrir borgarmörkin og skipað að halda sig meira og minna heima hjá sér.
Hér á landi hefur umræðan um þessa stórhættulegu og bráðsmitandi veiru verið á nokkuð léttum nótum og virðist ekki vera tekin eins alvarlega og full ástæða er til að gera.
Fjöldi smitaðra í heiminum, aðallega í Kína ennþá, vex um þúsundir á dag og tugir manna látast á hverjum sólarhring, sem sýnir að þessa plágu ætti ekki að hafa í neinum flimtingum.
Vonandi berst hún aldrei til landsins og ef hún gerir það er rétt að krossa fingur og vona að heilbrigðisyfirvöld verði í stakk búin til að berjast við hana.
Tómar götur á háannatíma í Peking | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.2.2020 | 11:24
Umferðarruglið í Reykjavík
Ljóst er á tímum loftslagsbreytinga að ekki er í boði að halda áfram að setja meira fjármagn í framkvæmdir sem skapa aukið rými fyrir bílaumferð þar sem þær framkvæmdir munu bæði skapa aukna bílaumferð og auka losun á CO2 frá samgöngum. Þetta segir m.a. í bókun fulltrúa meirihlutaflokkanna í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkur.
Meirihlutinn í Reykjavík stenduir á því fastar en fótunum að lagning gatna í borginni leiði einungis til fjölgunar bíla og þar með umferðar. Borgarfulltrúum dettur ekki í hug að bætt umferðarmannvirki verði til þess að greiða fyrir umferð og minnka óþarfa tafir og öngþveiti.
Einnig verður að telja undarlegt að nota losun á CO2 sem afsökun fyrir því að vilja ekki greiða fyrir bíláunferð þar sem öll þróun bílaframleiðslunnar er í átt til umhverfisvænna bíla, t.d. rafmagns- og metanknúinna. Þáttur í þeirri þróun er bann við innflutningi bíla sems knúðir eru olíu og bensíni sesm taka á gildi innan tiltölulega fárra ára.
Umhverfisvænir bílar þurfa vegi eins og óvistvænir bílar og almenningur mun ekki hætta að nota einkabílinn í nánustu framtíð og ekki mun borgarlínan væntanlega breyta því.
Fé ekki veitt til að auka rými fyrir bíla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.1.2020 | 12:37
Ríkið skili fjármunum Ofanflóðasjóðs strax
Þegar Ofanflóðasjóður var stofnaður var hvergi minnst á að framlag fasteignaeigenda væri skattur sem renna ætti í ríkissjóð og sem mætti nota í almennan rekstur rísins.
Þvert á móti var gert ráð fyrir að stjórn sjóðsins færi með ákvarðanatöku um árlegar framkvæmdir sjóðsins í samráði við sveitarstjórnir á hættusvæðum og árlega skyldi ríkissjóður leggja sjóðnum til fé við afgreiðslu fjárlaga.
Í 12. grein laganna um sjóðinn segir um tekjuöflun hans að fasteignaeigendur skuli greiða 0,3% af vátryggingarmati fasteigna og svo segir í næstu málsgrein:
"Árlegt framlag á fjárlögum í samræmi við framkvæmdaáætlun sem lögð skal fram við gerð fjárlaga hverju sinni."
Það kemur sem sagt skýrt fram að ríkissjóður skal leggja fram fjármagn árlega til ofanflóðavarna, en alls ekki er reiknað með að fjármálaráðherra hverju sinni, eða Alþingi, eigi að ákveða hvernig framkvæmdum skuli hagað og hvað þá að þingið geti ákveðið að haldleggja framlög fasteignaeigenda til sjóðsins og eyða þeim í eitthvað algerlega ótengdu ofanflóðavörnum.
Nú er rætt um að endurskoða málið við næstu endurskoðun fimm ára fjárhagsáætlunar ríkisins, þ.e. fyrir árin 2021-2025.
Að sjálfsögðu á að endurskoða allt þetta mál nú þegar og setja framkvæmdir við ofanflóðavarnir í gang strax í samræmi við upphaflegan tilgand sjóðsins.
Brotnaði niður á íbúafundinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2020 | 10:57
Ofanflóðasjóður
Eftir hörmulegar afleiðingar snjóflóða á Vestfjörðum fyrir tuttuguogfimm árum voru sett lög um stofnun "Ofanflóðasjóðs" sem fjármagnaður var með sérstöku álagi á fasteignatryggingar. Eins og nafnið sýnir glögglega var ætlunin að sjóðurinn yrði notaður til að verja mannslíf þar sem hætta væri á "ofanflóðum". Í upphaflegu lögunum hljóðaði 9. grein laganna svona:
"9. gr.
Ráðherra skipar þriggja manna nefnd, ofanflóðanefnd, til fjögurra ára í senn til að annast þau verkefni sem greinir í 2. mgr. Formaður nefndarinnar skal skipaður án tilnefningar, en aðrir nefndarmenn samkvæmt tilnefningu [ráðherra er fer með sveitarstjórnarmál] 1) og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Verkefni ofanflóðanefndar eru:
1. Að fjalla um og taka afstöðu til tillagna sveitarstjórnar skv. 10. og 11. gr.
2. Að ráðstafa fé úr ofanflóðasjóði skv. 13. gr.
Ákvarðanir ofanflóðanefndar skv. 2. mgr. öðlast fyrst gildi þegar ráðherra hefur staðfest þær. Ráðherra getur sett nánari reglur um störf nefndarinnar."
Af þessu sést greinilega að nefndin átti að sjá um að ráðstafa fé sjóðsins, þó ætlast væri til að ráðherra staðfesti þær ákvarðanir.
Frá og með árinu 2011 virðist fjármálaráðherra hvers tíma hafa tekið sér það vald með samþykkt svokallaðs "bandorms" í tengslum við afgreiðslu fjárlaga að nánast ræna þessum sjálfstæða sjóði og taka fjármuni hans til almennra nota ríkissjóðs. Þessu hefur verið náð fram með eftirfarandi árlegri breytingu á lögunum um sjóðinn:
"Breyting á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997, með síðari breytingum.
20. gr. 12. gr. laganna orðast svo:
Leggja skal árlegt gjald á allar brunatryggðar húseignir sem nemur 0,3 af vátryggingarverðmæti. Gjaldið skal innheimt ásamt iðgjaldi til Náttúruhamfaratryggingar Íslands og fer um innheimtu þess samkvæmt lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, þar á meðal skal gjaldið njóta lögtaksréttar og lögveðsréttar í vátryggðri eign.
Tekjur af gjaldinu renna í ríkissjóð.
Álagning gjalds þessa skal ekki hafa áhrif til hækkunar á innheimtuþóknun til vátryggingafélaga samkvæmt lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands.
Sérstakur sjóður ríkisins, ofanflóðasjóður, er í vörslu ráðuneytisins.
Tekjur sjóðsins eru:
Fjárveiting á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum sem byggist á rekstri sjóðsins, framkvæmdaáætlun til næstu fimm ára og öðrum verkefnum.
Framkvæmdaáætlun skal miðast við markmið reglugerðar um hættumat vegna ofanflóða og flokkun og nýtingu hættusvæða.
Vaxtatekjur, sbr. 13. gr.
Aðrar tekjur."
Þessi árlega meðferð á sjóðnum er til algerrar skammar og ekki í neinu samræmi við upphaflegan tilgang hans. Sú réttlæting fjármálaráðherra að nauðsynlegt hafi verið að ráðstafa fjármunum sem innheimtust í sjóðinn til að rétta við fjárhag ríkissjóðs gæti hafa verið fyrirgefanleg fyrstu árin eftir hrun, en alls ekki lengur og reyndar hefði fyrir löngu átt að vera búið að endurgreiða alla skuld ríkissjóðs við þá sem í lífshættu eru vegna "ofanflóða".
Ríkisstjórnin verður að bæta ráð sitt í þessu efni ekki seinna en strax og koma byggingu flóðvarnagarða í það horf sem lögin hafa alla tíð gert ráð fyrir.
Við hljótum að geta gert betur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)