Bloggfærslur mánaðarins, maí 2016

ASÍ vill veiðigjöld í stað hærri launa til félagsmanna sinna

Það er svolítið skondið að horfa endalaust upp á stöðnun og hugmyndaleysi ASÍ og aðildarfélaga sambandsins þegar kemur að baráttunni fyrir bættum kjörum félagsmanna stéttarfélaganna.

Áratugum saman eru sömu kröfurnar uppi á borðum og nánast má ekki nefna að kröfur um launagreiðslur taki mið af þeim mikla arði sem ýmsar atvinnugreinar skila hluthöfum. Ekki virðist mega nefna mismunandi laun eftir atvinnugreinum, heldur skal tímakaup vera nánast það sama hvort starfað sé í ferðaþjónustunni, verslunum eða í sjávarútvegi.

Undanfarin ár hafa allar þessar greinar skilað miklum hagnaði og í stað þess að starfsmennirnir njóti hluta þessa arðs krefst ASÍ þess að alls kyns skattar og gjöld, þ.m.t. veiðigjöld verði hækkuð og allt saman látið renna í ríkissjóð.  

Einhver hefði getað látið sér detta í hug að stéttarfélögin legðu frekar til að hluti arðsins rynni til starfsmanna fyrirtækjanna, enda verður hann ekki til með hlutafénu einu saman og yrði raunar enginn nema fyrir samspil fjármagsins og vinnuframlagsins.

Sjávarútvegurinn gæti greitt miklu hærri laun en hann gerir núna en aldrei virðast vera gerðar meiri kröfur til launagreiðsla í kalsamri fiskvinnu en til vinnu í iðnaði sem oft á tíðum býr við betri aðbúnað en ýmsir starfsmenn fiskvinnslunnar.

Einnig hefur ASÍ barist hart gegn bónusgreiðslum til stjóranna í hinum og þessum fyrirtækjum í stað þess að krefjast þess að séu greiddir út bónusar og arður í fyrirtækjum, þá gangi slíkar greiðslur til allra starfsmanna burtséð frá launum en miðist við vinnutíma hvers starfsmanns á því árinu sem greiðslurnar taka til.

Það eru aðrir tímar núna en voru í árdaga stéttarfélaganna og kröfur til handa launafólki eiga að taka mið af nútímanum en ekki fortíðinni.

 


mbl.is Vilja auðlegðarskattinn aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margur verður af aurum api

Með birtingu Panamaskjalanna virðast vera að koma upp á yfirborðið ýmis mál sem sanna enn og aftur gamla máltækið að af aurum verður margur api og lætur glepjast af raunverulegum, en oftar ímynduðum, möguleikum á skyndigróða erlendis.

Ekki síður virðist þetta fólk sækjast eftir tækifærunum til að fela fjármuni, reyndar oftast illa fengna, til að komast með því undan skattgreiðslum og þar með þátttöku í rekstri þess þjóðfélags sem þeir þó kjósa í flestum tilfellum að þiggja þjónustu af.

Lengi hefur verið vitað um að fólk sem átt hefur í erlendum viðskiptum, hvort sem um inn- eða útflutning hefur verið að ræða, hefur þegið persónuleg umboðslaun vegna viðskiptanna og látið leggja þau inn á erlenda bankareikninga án þess að þau kæmu fram á reikningum og væri þannig stungið undan tekjuskráningu á Íslandi og þar með skattgreiðslum.

Í dag er í fréttum fjallað um leynisjóð sem bílainnflytjandinn stórtæki, Ingvar Helgason, virðist hafa myndað með slíkum umboðslaunum og farið svo leynt með að eiginkonan og flest börn hans hafa ekki vitað hvernig aðgengi að þessum að því er virðist ólöglegu fjármunum var háttað.  Þó virðist sú undantekning hafa verið þar á að tveir synir hafi vitað um og haft prókúru til að ráðstafa þessum inneignum ásamt Ingvari sjálfum.

Ef marka má þessar fréttir hafa þeir bræður sölsað undir sjálfa sig þessum sjóðum eftir fráfall föðurins og þar með blekkt og svikið sína eigin móður og aðra fjölskyldumeðlimi um þeirra hlut í góssinu.

Það er nánast ekki hægt að trúa því að þeir erfingjanna sem yfirtóku stórfyrirtækið Ingvar Helgason hf. eftir andlát stofnandans hafi nánast komið fyrirtækinu á hausinn á þrem árum og skilið móður sína og ekkju Ingvars eftir tekjulitla en hirt sjálfir ólöglegan "eftirlaunasjóð" sem hún vissi ekki einu sinni hvar eða hvernig var geymdur.

Oftast hefur verið sagt að fjölskyldufyriræki gætu lifað fram í þriðju kynslóð, en í þessu tilfelli hefur sú númer tvö "afrekað" það að setja erfðafyrirtækið á hausinn og að sundra samheldni og samstöðu stórrar fjölskyldu með ásælni sinni í sjóði sem skattayfirvöld hljóta að hafa mikinn áhuga á að frétta nánar af.

Það er auðskiljanlegt hvernig máltækið sem vitnað var til í upphafinu hefur orðið til.

 

 


mbl.is Leita týndra sjóða foreldra sinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fær Sigmundur uppreist æru?

Engum dylst að aðförin að Sigmundi Davíð, fyrrverandi forsætisráðherra, vegna Wintrisfélagsins var vandlega skipulögð með því að sjónvarpa sérstökum Kastljóssþætti á sunnudegi, daginn áður en boðað hafði verið til mótmælafundar á Austurvelli.

Nú, nokkrum vikum síðar, hefur Sigmundur Davíð birt upplýsingar um skattgreiðslur þeirra hjóna síðan fyrir bankahrun og kemur þar fram að allar tekjur og eignir hafa verið taldar fram allan tímann og skattar greiddir samviskusamlega frá upphafi.

Fréttastofa ríkisútvarpsins heldur hins vegar áfram að rugla málið með því t.d. að segja að þau hjónin hafi greitt auðlegðarskatt ÞANGAÐ TIL RÍKISSTJÓRN SIGMUNDAR HAFI FELLT HANN NIÐUR, eins og orðalagið var í fréttatíma kvöldsins.  Þar með var gefið í skin að Sigmundur hefði verið að hygla sjálfum sér og eiginkonu sinni með niðurfellingu skattsins, þegar staðreyndin er sú að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir lagði auðlegðarskattinn á tímabundið og rann hann sjálfkrafa sitt skeið samkvæmt lögum hennar ríkisstjórnar.

Einnig birti fréttastofan viðtal við einhvern skattaspeking sem sagði að Sigmundur hefði í yfirlýsingu sinni um skattamálin misskilið hvernig að framtalinu skyldi staðið og það þrátt fyrir að enduskoðunarskrifstofan KPMG hafi allan tímann séð um þau mál og varla að finna víða meiri þekkingu á skattamálum en þar innandyra.  Reyndar var vitnað á eftir viðtalinu við sérfræðinginn í skriflegt svar Ríkisskattstjóra, sem staðfesti að framtölin hefðu uppfyllt öll skilyrði um framtöl vegna erlendra eigna og tekna.

Hefði Sigmundur Davíð birt þessar upplýsingar strax í mars, eftir að hann var blekktur í viðtal við sænska sjónvarpsmenn vegna félagsins, og áður en sunnudagskastljósið var sýnt er ákaflega líklegt að lítil sem engin umræða hefði orðið um félag þeirra hjóna og viðbrögðin frekar orðið eins og í Bretlandi eftir að Cameron, forsætisráðherra landsins, birti sín gögn varðandi aðkomu að aflandsfélagi og þar með virðist umræða þar um algerlega þögnuð.

Sigmundur Davíð getur því nagað sig í handarbökin vegna eigin klaufaskapar og rangra viðbragða við óheiðarlegri fyrirsát og hernaði RÚV og samverkamanna gegn honum.


mbl.is Hátt í 400 milljónir í skatta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að fortíð skal hyggja, er framtíð skal byggja

Undarlegt er að fylgjast með umræðunni á samfélagsmiðlunum í dag eftir að Davíð Oddsson tilkynnti framboð sitt til embættis forseta Íslands.

Ekki komu á óvart svigurmæli og skítkast þess hóps sem ausið hefur hann svívirðingum og rógi síðan löngu áður en hann hætti í stjórnmálum og hefur haldið því áfram sleitulaust til þess að reyna að endurskrifa stjórnmálasögu síðustu áratuga.  Það níð er uppbyggt af hatri og öfund pólitískra andstæðinga vegna farsældar hans allan hans stjórnmálaferil, fyrst sem borgarstjóra og síðan sem forsætisráðherra.

Það sem kemur hins vegar á óvart er að sjá ummæli í þá veru að hann sé orðinn allt of gamall í embættið og ætti að setjast í helgan stein en standa ekki í vegi fyrir framagjörnu ungu fólki sem telji sig hæft til að gegna embættinu.  Meira að segja er eftirfarandi haft eftir einum meðframbjóðanda Davíðs í mbl.is í dag:  "„Það skerp­ast enn lín­urn­ar um valið á milli fortíðar og framtíðar,“ seg­ir Halla Tóm­as­dótt­ir for­setafram­bjóðandi um þá ákvörðun Davíðs Odds­son­ar að bjóða sig fram til for­seta Íslands."

Það er ótrúlega gamaldags hugsunarháttur að vilja afskrifa fólk sem ónothæft um leið og það kemst virkilega til vits og ára og heldur góðri líkamlegri og andlegri heilsu.

Nýlega var stofnuð deild innan félags eldri borgara sem nefnd er "Grái herinn" og eru hans helstu baráttumál að kraftar og vit eldri kynslóðarinnar verði virt að verðleikum og eldra fólkinu ekki vikið til hliðar og út af vinnumarkaði um leið og það nær 67 ára aldri.

Það er auðvitað ekkert annað en hroki þegar unga fólkið reynir að gera lítið úr þeim sem eldri, reyndari og vitrari eru.


mbl.is „Í þessu embætti eru menn einir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Galdrabrennur hinar síðari

Á árunum 1654 - 1683 voru tuttugu manns brennd á báli á Íslandi fyrir galdra og er það tímabil kallað Brennuöld þó einn maður hafi reyndar verið brenndur á báli fyrir galdra árið 1625.

Núna, þegar nokkuð er liðið á annan áratug tuttugustuogfyrstu aldar, er hafin Brennuöld hin síðari á Íslandi, en nú er fólk brennt táknrænt á báli samkvæmt Dómstóli götunnar að áeggjan fjölmiðla, þar á meðal útvarpsstöðvar þjóðarinnar sjálfrar.

Ekkert í lögum vesturlanda a.m.k. hefur bannað þegnunum að eiga erlendar eignir eða bankareikninga hvar sem þeim hefur sýnst (nema auðvitað á Íslandi eftir bankahrunið), en að sjálfsögðu er þjófnaður bannaður með lögum og þar á meðal fjárdráttur og skattsvik.

Ekkert samhengi þarf að vera í því að eiga slíkar eignir og skattaundandrætti og þegar leki á sér stað um hundruð þúsunda, eða milljóna, nafna fólks og fyrirtækja sem eignir eiga í þessum "aflöndum" og annarsstaðar þar sem hugsanlega er hægt að koma eignum og tekjum undan skattgreiðslum, á auðvitað að miðla slíkum upplýsingum beint til lögreglu- og skattayfirvalda, enda í verkahring slíkra að rannsaka hvort rétt og löglega sé að málum staðið.

Í þessum nýja galdrabrennufári er sönnunarbyrði snúið algerlega á haus og látið eins og allir sem að máli koma sé ótýndur glæpalýður og þvert á alla siði og venjur er ætlast til að viðkomandi sanni sakleysi sitt, en ákærendur þurfi ekki að sýna fram á neina sekt.

Á Wikipedia er fjallað um fyrra galdrafárið á Íslandi og segir þar m.a:  "Ekki var að fullu hægt að sanna sekt sumra galdramannanna en þó voru þeir samt brenndir. Réttarkerfi Íslands var þannig gert að mestu máli skipti framsögn háttsettra manna en minna máli sannannir gegn sakborningum."

Þrátt fyrir framfarir á ýmsum sviðum frá sautjándu öld virðist hugsunarháttur að mörgu leyti vera svipaður.


mbl.is Foreldrar Bjarna áttu aflandsfélag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostnaðarþátttaka sjúklinga of mikil

Heilbrigðisráðherra hefur lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um kostnaðarþátttöku notenda heilbrigðiskerfisins, sem lækkar greiðslur langveikra um hundruð þúsunda og jafnvel milljónir króna.

Í frumvarpinu er reiknað með óbreyttri upphæð frá ríkissjóði til þessara mála, en að kosnaðinum verði dreift á þá sem sjaldan þurfa að leita læknis, þ.e. greiðslur verða hærri fyrir einstakar ferðir til lækna en þó með mánaðarlegu þaki og hámarksgreiðslum hvers sjúklings á hverjum tólf mánuðum.

Mánaðarlega heildarupphæðin, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, verður 33 þúsund krónur og fyrir marga er það alltof há upphæð, þó svo að gert sé ráð fyrir lægri upphæð fyrir öryrkja og ellilaunaþega.

Frumvarpið er nú til meðferðar á Alþingi og reikna verður með því að nefndarvinnan þar skili auknu fjármagni í málaflokkinn, þannig að hægt verði að lækka útlagðan kostnað sjúklinga umtalsvert.  

Staða ríkissjóðs hefur batnað mikið í tíð þessarar ríkisstjórnar og vitað er að langtímamarkmiðið er að lækka kostnað sjúklinganna verulega, en sýna þarf viljann í verki með því að byrja strax og bæta svo um betur á næstu árum.

Núverandi ríkisstjórn hefur leiðrétt og bætt fyrir niðurskurð síðustu ríkisstjórnar til velferðarmálanna og henni verður treyst til að gera enn betur á næstunni.  

Varla vill nokkur maður taka áhættuna af því að þeir flokkar sem stóðu að síðustu ríkisstjórn komist aftur til valda á næstu árum.


mbl.is Telja kostnaðarþakið of hátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður auknum kaupmætti heimilanna mótmælt á Austurvelli?

Undanfarið hefur lítill hópur fólks staðið á Austurvelli og reynt að hrópa niður ríkisstjórnina og gert lítið úr hennar góðu störfum og hafa nokkrir ofstækisfyllstu öfgavinstrisinnar landsins leitt öskrin nánast froðufellandi af ræðupalli hópsins.

Hagdeild ASÍ hefur nú, væntanlega í tilefni af fjöldahátíðarhöldum launafólks, birt hagspá sína og hrakið rækilega helsta slagorð Austurvallahópsins, "vanhæf ríkisstjórn", því í spánni kemur fram að hagdeildin reiknar með kraftmiklum hafgvexti á næstu a.m.k. átta árum og að útlit sé fyrir mesta framfaraskeið í sögu lýðveldisins.

ASÍ segir að kaupmáttaraukning heimilanna hafi verið umtalsverð undanfarin misseri og muni enn aukast á næstu árum og líklega ná hærri hæðum en nokkun tíma fyrr í sögunni.

Ætli þessum stórkostlega árangri ríkisstjórnarinnar í þágu heimilanna í landinu verði mótmælt kröftuglega á Austurvelli á næstunni, eða mun hinn fámenni mótælendahópur skammast sín fyrir ofstopa sinn og öfgar og fara með veggjum á næstunni?

Mikil lifandis ósköp verður að teljast ólíklegt að margt af þessu fólki kunni að skammast sín og því má líklega reikna með áframhaldandi kveðskap öfugmælavísna á vellinum, hópnum sjálfum til skammar og háðungar.

 


mbl.is ASÍ spáir kraftmiklum hagvexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband