Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014

Af hverju að skipa Árna Þór í sendiherrastöðu?

Geir H. Haarde verður glæsilegur fulltrúi Íslands í stöðu sendiherra á erlendri grund, enda varla hægt að finna vandaðri mann með víðtæka reynslu af opinberri stjórnsýslu en hann.  Fyrir utan langan þingmannsferil hefur hann bæði gegnt starfi forsætis- og utanríkisráðherra og því gjörkunnugur þeim störfum sem sendiherrar landsins þurfa að inna af hendi.

Hins vegar veldur meiri undrun að Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, skuli einnig vera skipaður i sendiherrastöðu, enda með tiltölulega litla reynslu af utanríkismálum þó hann hafi setið á Alþingi í sjö ár og reyndar haft þar nasasjón af störfum utanríkismálanefndar.  

Ekki leikur nokkur vafi á að Geir H. Haarde mun verða landi og þjóð til sóma á sínum nýja starfsvettvangi og verði hann sendiherra í Wasington, eins og mbl.is getur sér til, mun hann örugglega vinna ötullega að því að efla á ný vináttu og samvinnu Íslands og Bandaríkjanna, sem Össur Skarphéðinsson virtist gera allt sem hann mögulega gat til að spilla í sinni utanríkisráðherratíð.

Vonandi stendur Árni Þór sig einnig vel í sendiherrastarfinu, þó mun meiri vonir hljóti að verða gerðar til Geirs H. Haarde í þeim efnum.  Báðum er þeim óskað velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi. 


mbl.is Geir Haarde sendiherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullæðið að kaffæra sjálft sig?

Mikið gullæði hefur gripið um sig í landinu vegna snöggt vaxandi fjölda ferðamanna, en fjöldi þeirra stefnir í að ná milljóninni á þessu ári.  Gangi spár eftir mun ferðamönnum enn fara fjölgandi á næstu árum, enda enn verið að byggja hótel út um hvippinn og hvappinn og alger sprenging hefur orðið í útleigu íbúða til túristanna og ekkert lát virðist á þeirri þróun, frekar en í hótelfjölguninni.

Norðurslóðir eru í tísku um þessar mundir og að sjálfsögðu nýtur Ísland góðs af því, en ekki er líklegt að ferðamenn sem landið heimsækja muni koma hingað aftur og aftur, nema auðvitað lítill hluti þeirra sem fá dellu fyrir landinu, eins og gengur og gerist með það sem grípur um sig í huga fólks og vill ekki þaðan víkja.

Tíska getur verið duttlungafull og breyst á undraskömmum tíma og þegar norðrið dettur úr tísku, sem getur gerst hvenær sem er, verður mikið hrun í ferðamannaiðnaðinum íslenska og þá ekki síst í gistihúsageiranum, en þar munu verða mörg og mikil gjaldþrot.  Líklega mun eins fara fyrir mörgu veitingahúsinu, en í þeim geira hefur verið og mun verða mikil fjárfesting eins og í gistingunni.

Þrátt fyrir að ferðamannastraumurinn sé ekki kominn í það hámark sem spáð er, eru gistihúsaeigendur þegar farnir að kvarta undan offjárfestingu í greininni og að verð þurfi að lækka vegna samkeppninnar sem þegar er orðin, a.m.k. í miðborg Reykjavíkur.

Gullgrafaraæði hefur áður gripið um sig hér á landi í ýmsum atvinnugreinum og alltaf hefur slíkt endað illa.  Af þeirri reynslu draga menn hins vegar aldrei neina lærdóma og því endurtekur sagan sig sífellt.

Efnahagslíf þjóðarinnar kemst aldrei í jafnvægi á meðan gullgrafarahugsunarhátturinn verður ríkjandi meðal þjóðarinnar.

 


mbl.is Sprenging í útleigu íbúða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pútin er ábyrgur fyrir fjöldamorðunum á flugfarþegunum

Pútin, Rússlandsforseti, reynir á aumlegan hátt að kenna stjórnvöldum í Úkraínu um þann ómennska glæp að farþegaþota hafi verið skotin niður yfir yfirráðasvæði uppreisnarmanna þar í landi, sem sameinast vilja Rússlandi og hafa yfir ótrúlega miklum og fullkomnum vopnabirgðum að ráða.  

Annað eins vopnabúr er ekki frá neinum komið öðrum en rússneskum yfirvöldum og staðfest hefur verið að eldflaugar sem ætlaðar eru til að granda flugvélum í mikilli flughæð voru einmitt nýlega flutt frá Rússlandi yfir til uppreisnarmannanna í Úkraínu.

Þó tilgangur Rússa með þessum vopnasendingum hafi verið að láta pótintáta sína í Úkraínu skjóta niður úkraínskar flugvélar eru glæpaverkin sem unnin eru með þessum vopnum algerlega á ábyrgð Rússa og undan þeirri ábyrgð getur Pútin ekki skotið sér.

Því miður er hætta á því að þessi glæpaverk falli í skuggann af þeim voðaatburðum sem eiga sér stað í Ísrael um þessar mundir og munu því ekki verða fordæmd af jafn mikilli hörku og annars hefði verið.  Í báðum tilfellum eru það óbreyttir borgarar sem verst verða úti og þola þjáningar og dauða sem enginn virðist geta eða vilja stöðva.


mbl.is Pútín varpar ábyrgð á Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eru "stóru leigusalarnir"?

Húsaleiga hefur farið ört hækkandi á markaði undanfarna mánuði og er "stórum leigusölum" ekki síst kennt um að spenna upp verðið á leiguíbúðunum.

Nokkur félög, sem keypt hafa upp tugi íbúða, eru orðin talsvert ráðandi á leigumarkaðinum og þegar þau kaupa íbúðir sem þegar eru í leigu, hækka þau leiguverðið um allt að 30%, enda reikna rekstraraðilar félaganna með því að leigendur samþykki slíka hækkun þegjandi og hljóðalaust þar sem þeir hafi hvort sem er ekki í nein önnur hús að venda.

Í ljósi þess að einstaklingar kvarta yfir því að bankar séu orðnir afar strangir á greiðslumati og fólki sé jafnvel neitað um lán til húsnæðiskaupa þrátt fyrir að slík kaup kæmu betur út en að leigja, er að mörgu leyti undarlegt að "stórir leigusalar" virðast hafa ótakmarkaðan aðgang að lánsfé sem þeir endurgreiða með síhækkandi húsaleigu.

Þessir sömu "stóru leigusalar" spenna upp verðið á íbúðum með yfirboðum og eru því ekki síður til tjóns fyrir þá sem eru í kauphugleiðingum en hinum sem þurfa að greiða sífellt hærri húsaleigu vegna innkomu þessara aðila á markaðinn. 


mbl.is 500 vildu leigja eina íbúð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira frelsi og ekki bara fyrir Costco

Eftir að út spurðist að bandaríska verslunarkeðjan Costco hefði áhuga á að opna verslun í Reykjavík og selja þar, ásamt öðru, áfengi, lyf, og ferskt innflutt kjöt, hefur mikil umræða orðið í þjóðfélaginu  um málið og til að byrja með virtist sá skilningur ríkja að keðjan væri að fara fram á alls kyns undanþágur frá þeim lögum og reglum sem gilda í landinu.

Þegar rykið fór að setjast og línur að skírast kom í ljós að Costco rekur t.d. verslanir í Kanada en þar er algerlega bannað að flytja inn bandarískt nautakjöt, hvort sem það er af heilbrigðisástæðum eða til að vernda innlenda framleiðslu, en Kandada flytur hins vegar mikið af nautakjöti til Bandaríkjanna.

Hérlendis er orðið tímabært að endurskoða lög og reglur um innflutning á kjöti og mætti rýmka til fyrir innflutningi á svína- kjúklinga- og nautakjöti frá Evrópu, enda standist það allar kröfur um heilbrigði og aðrar vottunarreglur ESB.  

Algerlega er tímabært að færa sölu á öllu áfengi, hverju nafni sem það nefnist, til almennra verslana eins og tíðkast í nánast öllum vestrænum ríkjum.  Að sjálfsögðu þurfa að gilda um slíka sölu álíka reglur og eru við lýði í nágrannalöndunum.

Boðað hefur verið að frumvarp til laga verði flutt á Alþingi í haust þar sem áfengissölunni verði gjörbreytt og er það mikið fagnaðarefni og vonandi að því  verði betur tekið en áður hefur verið þegar álíka frumvörp hafa verið flutt. 


mbl.is „Sjálfsagður hlutur að leyfa þetta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjór og brennd vín í búðirnar

Andrúmsloftið sem virðist ríkja á samfélagsmiðlunum, eftir að vitnaðist að Costco hefði áhuga á að opna verslun í Reykjavík, er á þann veg að sjálfsagt sé að breyta lögum í þá veru að áfengi verði selt í matvörubúðum ásamt nánast ótakmörkuðum innflutningi á fersku kjöti.

Af og til hafa verið settar fram hugmyndir og jafnvel flutt um það frumvörp á Alþingi að leyft verði að selja bjór og létt vín í matvörubúðum, en allar slíkar hugmyndir hafa jafnan verið kaffærðar og þeim mótmælt harðlega, enda slíkar tilslakanir á áfengislöggjöfinni aldrei fengist samþykktar.

Hugmyndir um að matvöruverslanir selji aðeins bjór og létt vín leiðir auðvitað af sér að ÁTVR yrði að halda áfram rekstri sinna verslana, en selja þar aðeins sterkt áfengi sem vonlaust er að borgaði sig, enda bjór og létt vín orðin uppistaða áfengissölunnar nú orðið.

Verði á annað borð leyft að selja bjór og annað áfengi í matvöruverslunum ætti auðvitað að ganga alla leið og loka verslunum "ríkisins", en láta frjálsa markaðinn alfarið um áfengissöluna eins og gert er víðast hvar í veröldinni.

Umræðan um ferska kjötið ætti svo að vera á vitrænni nótum en að tala um að hollusta íslensks kjöts sé meiri en erlends, en slíkt er auðvitað fjarri öllum sanni enda lifir fólk ágætu lífi víðast hvar af þeim matvælum sem framleidd eru í viðkomandi löndum.

Það sem í raun er um að ræða varðandi kjötið er hvort reka skuli landbúnað á Íslandi eða ekki, a.m.k. í þeirri mynd sem verið hefur fram til þessa.  Þá umræðu á ekki að rugla með þrugli um heilbrigðismál, enda yrði aldrei leyft að flytja inn kjöt sem ekki væri heilbrigðisstimplað í bak og fyrir. 


mbl.is Vínið verði ekki selt í samstarfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vörur lækka EKKI í verði við tollalækkanir

Fríverslunarsamningur milli Íslands og Kína tók formlega gildi í gær og strax í dag koma fram yfirlýsingar frá talsmönnum verslunareigenda að vörur, t.d. fatnaður, muni ekkert lækka í verði þrátt fyrir samninginn.

Skýringin sem gefin er, er sú að Kínverjar afgreiði ekki nema risapantanir og því verði íslenskir kaupmenn að flytja allar kínverskar vörur inn frá milliliðum í Evrópu, sem hvorki nenni né vilji útfylla upprunavottorð vegna framhaldssendinga á vörum til Íslands.

Þær skýringar að Kínverjar vilji ekki afgreiða nema risastórar pantanir stemma illa við þá staðreynd að almenningur á Íslandi hefur í síauknum mæli pantað sér fatnað og annan varning beint frá Kína í gegnum vefverslunina Aliexpress og í mörgum tilfellum án þess að sendingarkostnaði sé bætt við uppgefið verð vörunnar.  

Þegar virðisaukaskattur á matvælum var lækkaður fyrir nokkrum árum lækkaði útsöluverð lítið, sem ekkert, en álagning verslana var hækkuð sem þeirri lækkun nam, þannig að neytendur voru ekki látnir njóta lækkunarinnar.

Barátta samtaka verslunarinnar fyrir tollalækkunum á ýmsum vörum og ekki síst matvöru þarf að skoða í þessu ljósi.  Sporin hræða og engin trygging virðist fyrir því að tolla- eða skattalækkanir á vörum og þjónustu skili sér til neytenda. 


mbl.is Áhrif Kínasamnings á fatnað takmörkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband