Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Fórnarlambið Jón Gnarr

„Ég var fórn­ar­lamb míns eig­in brand­ara“ segir Jón Gnarr um framboð sitt og Besta flokksins til borgarstjórnar í Reykjavík og ennfremur segist hann hafa fengið martraðir þegar brandarinn fór að hafa þær afleiðingar að fólk fór að trúa því að framboðið væri í alvöru en ekki í gríni gert.

Nú segir Gnarrinn í viðtali við heimspressuna að hann útiloki ekki forsetaframboð eftir tvö ár, þannig að svo virðist sem að endurtaka eigi brandarann og útvíkka aðeins.  Líklega er Gnarrinn orðinn nógu samlagaður sínum eigin brandara núna, að lítil hætta verði á martröðum að þessu sinni.

Ótrúleg viðkvæmni hefur verið hjá mörgum, ekki síst Jóni Gnarr sjálfum,  fyrir allri gagnrýni á svokallaðan borgarstjóraferil hans sem, eins og allir vita sem vilja vita, var nánast að nafninu til og aðrir sinntu  flestum skyldustörfunum sem titlinum fylgdu á síðasta kjörtímabili.

Sjálfsagt verður sama uppi á teningnum þegar og ef Jón Gnarr fer í raun og veru af stað með grínþáttinn um forsetaembættið. 


mbl.is Fékk martraðir vegna Besta flokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Luis Suárez nokkuð að hugsa?

Spurt er hvað fótboltasnillingurinn Suárez hafi verið að hugsa þegar hann beit ítalska varnarmanninn í öxlina á HM í Brasilíu.  Afar líklegt er að hann hafi alls ekki verið að hugsa nokkuð þegar þetta gerðist, heldur hafi hann þvert á móti verið viti sínu fjær og sjálfsagt varla vitað hvað hann var að gera.

Allir sem fylgjast með HM, sem er stór hluti jarðarbúa,  eru algerlega agndofa yfir þessu atviki og fjölmiðlar og ekki síður netmiðlar loga vegna þessa og öll umfjöllunin snýst að sjálfsögðu um að fordæma atvikið, enda ekki í fyrsta sinn sem Suárez bítur andstæðing á vellinum, heldur a.m.k. í það þriðja og líkur færðar að því að oftar hafi verið reynt án þess að takast.

Suárez gengur greinilega ekki heill til skógar, andlega, því hann virðist hreinlega ekki ráða við skap sitt og gerðir ef eitthvað bjátar á eða er honum mótdrægt, því fæstir skapmiklir menn eru ofbeldismenn sem berja þá sem þeir reiðast hverju  sinni  og hvað þá að þeir bíti mótherja sína í fótbolta hvað eftir annað.

Suárez verður örugglega dæmdur í langt keppnisbann, vonandi bæði frá landsleikjum og leikjum með félagsliðum, enda þarf hann að leita sér lækninga við sínum andlegu veikindum og hefur ekkert inni á fótboltavelli að gera á meðan.

Við umfjöllun um þennan atburð verður að hafa í huga að hér er greinilega um sjúkling að ræða en ekki illmenni. 


mbl.is Hvað var Luis Suárez að hugsa?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarlistamaður lætur af störfum

Jón Gnarr, sem í raun hefur gegnt stöðu borgarlistamanns undanfarin fjögur ár, lætur nú af störfum sem slíkur og snýr sér væntanlega að því að vinna úr þeim mikla efnivið sem hann hefur viðað að sér á þessum árum.

Gnarrinn hefur til viðbótar við "uppistand" við ýmis tækifæri komið út einni eða tveim bókum á starfstímanum og vafalaust verður ekki langt að bíða þess að fjöldi skemmtiþátta í útvarpi og sjónvarpi líti dagsins ljós og verði  byggðir á því sem hann hefur séð til hinna ýmsu stjórnmálamanna sem við völd hafa verið í borginni undanfarin ár.

Dagur B. Eggertsson hefur sinnt borgarstjórastörfum í heilt kjörtímabil, án þess að fá að bera titilinn formlega enda "gleymdist" að kjósa hann í embættið á borgarstjórnarfundi í dag þar sem forseti borgarstjórnar áleit auðvitað, eins og allir aðrir, að Dagur B. hefði verið borgarstjóri allt síðasta kjörtímabil og því væru öll formsatriði varðandi starfið óþörf.

Jón Gnarr hefur alltaf verið góður leikari og ágætur handritshöfundur, þó ekki kunni allir að meta húmor hans og verður fróðlegt að fylgast með úrvinnlu þeirrar reynslu sem hann hefur aflað sér sem borgarlistamaður á síðasta kjörtímabili.

Dagur B. verður sjálfsagt svipaður borgarstjóri áfram og hann hefur verið og ekki að vænta neinna afreka af hans hálfu næsta kjörtímabil, frekar en á þeim fyrri. 


mbl.is Dagur tekinn við taumunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórmerkileg niðurstaða kosninga í Reykjavík

Margt er merkilegt við niðurstöðu borgarstjórnarkosninganna og þá ekki síst að þrátt fyrir mikinn sigur Samfylkingarinnar dugar hann ekki til að hún og arftaki Besta flokksins geti myndað tveggja flokka meirihluta, þar sem arftakinn beið afhroð miðað við útkomu forverans fyrir fjórum árum.

Miðað við kosningafylgi Samfylkingarinnar verður líklega að telja að hún sjálf hafi í raun fengið mest af fylgi Besta flokksins til sín, enda ekki verið neinn greinanlegur munur á flokkunum tveim á síðasta kjörtímabili.

Önnur stórmerk tíðindi þessara úrslita eru slök niðurstaða Sjálfstæðisflokksins, sem þó er mun skárri en skoðanakannanir gáfu til kynna fram á síðasta dag að flokknum myndi takast að ná.  Flokkurinn mun nokkuð örugglega verða í stjórnarandstöðu í borginni  næsta kjörtímabil og í því hlutverki verður hann að vera ákveðinn og áberandi, en var hvorugt undanfarin fjögur ár og geldur þess núna.

Við meirihlutamyndun í borginni verður VG líklega kippt um borð með Samfylkingu og Bjartri framtíð og verður fróðlegt að sjá hvernig þessum flokkum mun ganga að vinna saman, þar sem ekki er líklegt að Sóley Tómasdóttir verði eins fylgispök við Dag B. Eggertsson og Gnarrinn hefur verið undanfarin ár.

Einna merkilegustu tíðindi kosninganna eru þó líklega útkoma Framsóknarflokksins, sem margfaldaði það fylgi sem skoðanakannanir spáðu honum aðeins örfáum dögum fyrir kosningar og verður að skrifa þann sigur á gríðarlegar árásir vinstri manna á efsta mann Framsóknar á öllum vígstöðvum dagana fyrir kosningar.  Þessar ofboðslegu og illvígu árásir gerðu flokkinn svo áberandi að kosningarnar voru að stórum hluta farnar að snúast um Framsóknarflokkinn og aðrir komust varla að með sín málefni.

Við fyrstu sýn virðist Samfylkingarfólk og fréttamenn ljósvakamiðlanna því hafa misst meirihlutann í borginni með sínum illvíga málflutningi um Framsóknarflokkinn, en tryggt honum sinn stærsta kosningasigur í fjörutíu ár.

Þar feilreiknuðu vinstri menn sig illilega á lokadögum kosningabaráttunnar. 


mbl.is Meirihlutinn fallinn í borginni - lokatölur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband