Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Hvers konar vinnubrögð eru þetta?

Meint efnahagsbrotamál fyrrverandi framkvæmdastjóra Verðbréfaþjónustu sparisjóðanna hefur verið í rannsóm hjá Ríkislögreglustjóra í þrjú og hálft ár og sætti framkvæmdastjórinn margra mánaða farbanni á rannsóknartímanum.  Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um hvort ákæra verðu gefin út í málinu.

Framkvæmdastjórinn var grunaður um stórfelld efnahagsbrot, sem fólust í útgáfu tilhæfulausra ábyrgðaryfirlýsinga og fyrir utanaðkomandi hefði mátt álykta að tiltölulega fljótlegt hefði átt að vera að sjá hvort þessar ábyrgðaryfirlýsingar hafi verið tilhæfulausar eða ekki.  Hvað er hægt að rannsaka í þrjú og hálft ár vegna þessa?  Voru yfirlýsingarnar ekki á auðskiljanlegu máli og lá ekki tilefni útgáfu þeirra ljóst fyrir?  Þegar málavextir virðast ekki flóknari en þetta, er algerlega óverjandi að hanga svo lengi yfir rannsóknum og láta sakborninginn sæta farbanni og allri þessari bið, vegna að því er virðist eintóms sleifarlags við rannsóknir.

Ef það tekur svona mörg ár að rannsaka "smámálin" sem tilheyra bankaruglinu fyrir hrun, hvað má þá reikna með mörgum áratugum, áður en einhver botn kemst í stærri og flóknari málin?  ,

Með slíkum hraða lýkur rannsóknunum væntanlega sjálfkrafa og málin felld niður jafn óðum og sakborningarnir látast í hárri elli, sem þeir munu vel njóta með afrakstri "bankarána" sinna.


mbl.is Ekki víst að ákæra verði gefin út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upprifjun fyrir minnislausa þjóð

Á Haustráðstefnu KPMG í dag rifjaði Már Guðmundsson upp fyrir fundarmönnum að búið var að ræða um væntanlega niðursveiflu í íslenska hagkerfinu eftir "loftbóluárin" sem hófust með innkomu bankanna á fasteignamarkaðinn seinni hluta ársins 2004 og í framhaldi af því trúnni á "nýja hagkerfið", sem átti að byggjast á því að allt væri keypt, sem falt væri, á lánum og engar áhyggjur þyrfti að hafa af endurgreiðslunum, því verðmæti eigna myndi hækka endalaust og því yrði aldrei hægt að tapa á fjárfestingum framar.

Þessu gleypti almenningur við og yfirbauð hver annan á fasteignamarkaði, með þeim afleiðingum að húsnæðisverð rauk upp úr öllu valdi og meðfylgjandi lántökur sömuleiðis, bílar voru keyptir sem aldrei fyrr, bæði fínni og dýrari en áður, gegn erlendri lántöku, húsvagnar, tjaldvagnar og aðrar dýrar neysluvörur voru rifnar út á lánum og yfirdráttar- og greiðslukortaskuldir fóru upp úr öllu valdi.  Allir vildu baða sig í fínheitunum og tóku lán fyrir öllu sem hægt var að taka lán fyrir og mikill fjöldi fjölskyldna stefndi beint í gjaldþrot, þótt engin sérstök kreppa hefði skollið á, því lántökuæðið var þvílíkt hjá mörgum, að engin leið hefði verið að endurgreiða öll lánin, miðað við eðlileg og stöðug laun í þjóðfélaginu.

Núna þykist enginn hafa tekið þátt í þessu lánarugli sjálfviljugur, því allir segjast hafa verið plataðir til að taka óhófleg lán og ekki gert sér nokkra einustu grein fyrir því hvað þeir hafi verið að gera, segjast ekki hafa skilið áhættu gengis- og verðtryggðra lána, ekki skilið hvað annuietslán væri, eða hvernig slík lán væru endurgreidd og yfirleitt ekki botnað upp eða niður í fjármálum yfirleitt og því orðið fórnarlömb "glæpamanna" í bönkunum, sem hafi logið út lánum, eins og þeir fengju borgað fyrir það, sem var auðvitað reyndin.  Nú er svo komið að enginn vill endurgreiða lánin sem hann tók, hvort sem hann getur það eða ekki, því ef greiðslugeta er fyrir hendi er bara borið við skorti á greiðsluvilja og þess krafist að vegna þessa skorts á greiðsluvilja einstaklinganna verði einhver annar látinn greiða skuldirnar fyrir þá.

Vegna alls þessa er upprifjun seðlabankastjórans gott innlegg inn í umræðuna og ekki síst eftirfarandi:  "Már sagði einnig að hafa beri í huga að margs konar áföll hafi dunið á íslenska hagkerfinu árið 2008. Gengi krónunnar hafi hrunið vorið 2008, bankahrun haustið sama ár og mikill samdráttur í erlenda hagkerfinu á fjórða ársfjórðungi 2008 og fyrsta fjórðungi 2009. Sagði Már að það væri verðugt rannsóknarefni að skoða hver þessara þátta hefði ráðið mestu um þann samdrátt sem varð hér á árunum 2009 og 2010, en það myndi hins vegar ekki koma honum á óvart ef í ljós kæmi að bankahrunið sjálft hefði ekki ráðið mestu."

Ef að líkum lætur mun ekki standa á gagnrýninni á þessa ræðu Más Guðmundssonar og bendingar á allan þann skara "glæpamanna" sem ollu lánabrjálæði heimilanna á þessum árum "nýja hagkerfisins".


mbl.is Samdráttur lá alltaf fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða hald er í ESB?

Össur Skarphéðinsson fer mikinn í fjölmiðlum þessa dagana og dásamar ESB og segir að innlimun Íslands í stórríkið verði landinu og þjóðinni til mikillar blessunar og ekki síst muni upptaka evru bjarga atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar.  Öll hans rök eru þó falsrök, en slíkir smámunir hafa aldrei flækst neitt fyrir þeim ágæta manni.

Grikkland, sem er innlimað í ESB og notar evru sem gjaldmiðil er að hruni komið efnahagslega og hafa ýmsir efnahagssérfræðingar sagt, að eina bjargráð Grikkja sem hald myndi vera í, væri að skipta aftur í sinn gamla gjaldmiðil, Drökmuna, enda hentaði evran, sem í raun er þýska markið undir nýju nafni, alls ekki öðrum ríkjum en Þýskalandi sjálfu og ef til vill nágrannaríkjum þess.

Á fjármálaráðstefnu Financial Times hélt Mohamed El-Erian, framkvæmdastjóri PIMCO, stærsta skuldabréfasjóðs heimsins, ræðu og sagði að gjaldþrot gríska ríkissjóðsins væri óumflýjanlegt innan þriggja ára, þrátt fyrir fjáraustur AGS og ESB til Grikklands í þeirri örvæntingarfullu von að bjarga mætti ríkissjóði landsins og þar með evrunni, sem myndi hrynja sem trúverðugur gjaldmiðill með hruni gríska ríkissjóðsins og þar með sönnun þess að evran væri ónýt sem fjölþjóðamynt.

El-Erian taldi að skuldastaða Grikklands minnti mjög á stöðu sumra ríkja Rómönsku-Ameríku fyrir nokkrum áratugum opg að mikil hætta væri á því að næstu tíu árin í Grikklandi myndu einkennast af miklu atvinnuleysi og litlum hagvexti á meðan ríkið skæri niður útgjöld til þess að standa undir skuldabyrðinni. Með þessu vísaði hann til níunda áratugarins sem oft verið kallaður „týndi áratugurinn“ í hagsögu Rómönsku-Ameríku. Grikkir hafa nú þegar fengið forsmekkinn af þessu. Atvinnuleysi hefur ekki mælst meira í tíu ár og er nú um 12%. Á sama tíma er gert ráð fyrir að hagvöxtur dragist saman 4% í ár og 2,6% á næsta ári.

Þrátt fyrir að á Íslandi hafi orðið það sem margir segja mesta efnahagshrun veraldarsögunnar, spáir ríkisstjórnin 3% hagvexti hérlendis á næsta ári og þó varlega skuli treysta því sem frá stjórninni kemur, er þó a.m.k. ekki líklegt að hagvöxtur verði minni en enginn næstu misseri og er það eingöngu krónunni að þakka og sterkri stöðu útflutningsatvinnuveganna hennar vegna.

Skyldi það vera tilviljun að raddir skuli vera farnar að heyrast frá írskum hagfræðingum, að eina bjargráð Írlands út úr kreppunni þar í landi sé úrsögn úr ESB og nýr gjaldmiðill í stað evru?


mbl.is Grískt greiðslufall óumflýjanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að bjarga rjúpnaskyttum þessa helgina?

Á morgun opnast fyrir hina árlegu rjúpnaveiði og einhver hundruð manna hafa beðið spennt eftir því að komast til þess að ná í jólamatinn og svo eru nokkrir, sem þessar veiðar stunda af hreinni peningagræðgi og skjóta nánast á allt kvikt, þrátt fyrir sölubann á rjúpunni.  Einmitt vegna sölubannsins selst rjúpan á svarta markaðinum á háu verði og eins og annarri svartri starfsemi fylgja skattsvikin jólamatnum, sem settur er í pottinn með þessari aðferð.

Hverri einustu rjúpnavertíð hefur fylgt að björgunarsveitir séu kallaðar út til að leita að týndum rjúpnaskyttum og hafa þessar óeigingjörnu sveitir þrautþjálfaðra karla og kvenna bjargað ófáum rjúpnaskyttulífum í áranna rás.  Á hverri einustu rjúpnavertíð hafa verið gefnar út viðvaranir frá veðurstofum vegna líklegra óveðra, en oftast láta rjúpnaskytturnar slíkar viðvaranir sem vind um eyru þjóta og halda eftir sem áður til fjalla eftir jólamatnum og björgunarsveitir hafa svo fylgt í kjölfar búdrýgindamannanna.

Nú er spáð snarvitlausu veðri nánast um allt land á opnunardegi rjúpnaveiðanna.  Hvað skyldu margar skyttur lenda í vandræðum og villum vegna veðurs þessa helgina?


mbl.is Útlit fyrir afar slæmt veður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynfæramynd á bakið - dæmi um sanna vináttu

Ástralinn sem "féllst á" að leyfa vini sínum að húðflúra saklaust jin og jang merki á bakið á sér, axlaði allt annað en hann hafði reiknað með, þar sem vinurinn brenndi risastóra mynd af karlmannskynfærum á hann, með dyggri aðstoð og hvatningu enn eins vinar.  Með myndinni var brennt í hörundið slagorð sem gaf í skyn að þessi fallega mynd væri tákn um samkynhneigð mannsins.

Þegar stoltur merkisberinn kom heim og sýndi kærustunni sinni listaverkið á bakinu, sagði blessuð konan bara sí svona:  "Mig grunar að þetta sé ekki húðflúrið sem þig langaði í."  Ekki fylgir sögunni hvernig henni leist á listaverkið, eða hvort hún hefði viljað halda því á baki kærastans til að dást að framvegis.

Hvernig sem á því stendur, varð maðurinn ekkert kátur við listsköpunina, né að eiga að hafa verkið á þessum grunnfleti til frambúðar og kærði vin sinn til yfirvaldanna fyrir uppátækið og krefst fjárbóta til að eyða þessu líklega einstaka listaverki.  Ekki hefur heldur spurst til viðbragða ástralskra listgagnrýnenda vegna verksins, eða örlaga þess.

Sagan er hins vegar hjartnæm og hugljúf lýsing á sannri vináttu og hve djúpt hún ristir stundum.


mbl.is Húðflúrað kynfæri á bak vinar síns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsætisráðherralaunin fæla lækna úr landi

Síðan óhæfasti forsætisráðherra lýðveldistímans gaf út þá fyrirskipun að enginn á landinu, sérstaklega ekki í starfi hjá hinu opinbera, skyldi hafa hærri laun en hún sjálf, hefur verið stöðugur og sívaxandi atgerfisflótti úr landinu, ekki síst úr heilbrigðisgeiranum.

Læknar voru til skamms tíma einna hæst launaða stétt landsins, enda íslensku sjúkrahúsin og heilbrigðiskerfið í heild, talin með því besta sem heimurinn hafði upp á að bjóða, en líklega verður það ekki svo mikið lengur.  Íslenskir læknar eru eftirsóttur starfskraftur erlendis og eiga ekki í minnstu erfiðleikum með að fá þar vinnu, jafnvel hlutastörf sem skapa þeim forsætisráðherralaun á fáeinum dögum og hina daga mánaðarins vinna þeir þá hér á landi nánast í þegnskylduvinnu.

Jóhanna gleymdi hins vegar að setja viðurlög við því að Íslendingar tækju við launum sem væru hærri en hennar eigin, þannig að nú þyrfti hún að endurbæta lögin og setja inn háar sektir og fangelsisvist, sem refsingu fyrir að fara í kringum lögin og þiggja laun annarsstaðar, sem t.d. koma læknum langt upp fyrir hana í mánaðarlaunum. 

Slíka ósvífni er ekki hægt að þola af læknunum, né nokkrum öðrum, og því gæti jafnvel verið áhrifaríkara að banna fólki að sækja vinnu til útlanda og reyndar þyrfti að banna búferlaflutninga alfarið, til þess að girða endanlega fyrir þessa viðleitni manna til að þéna meira en forsætisráðherrann.

Til að flýta málinu gæti þurft að taka það fyrir á Alþingi á undan frumvarpinu um kjarnorkuvopnalaust Ísland, sem þó þolir ekki mikla bið að áliti flutningsmanna þess.


mbl.is Læknarnir leita til útlanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vændið veldur bílslysum

Vændið á Spáni, sem er leyfilegt, er stórhættulegt bílstjórum og því hafa yfirvöld gripið til réttra ráðstafana til að auka umferðaröryggi á vegunum í kringum borgir og bæi, en það er auðvitað gert með því að gera vændiskonurnar sýnilegri, þannig að auðveldara verði fyrir akandi viðskiptamenn að koma auga á þær án þess að aka yfir þær fyrst.

Þessi klausa úr fréttinni segir það sem segja þarf um þetta mál:  "Vændiskonum, sem leita viðskiptavina við þjóðveg nærri borginni Lleida í Katalóníu, hefur verið gert að klæðast gulum endurskinsvestum, ellegar greiða 40 evra sekt. Lögregluyfirvöld segja þetta gert til að tryggja öryggi ökumanna."

Einhver hefði getað látið sér detta í hug, að þessi aðgerð væri til að auka öryggi vændiskvennanna, en það er víst alger misskilningur, þar sem þetta er greinilega gert til að tryggja ökumanninum örugg vændisviðskipti, með því að forða honum frá að keyra yfir seljanda þeirra gæða. sem leitað er eftir í myrkrinu.

Umhyggja Spánverja fyrir ökumönnum er afar virðingarverð.


mbl.is Vændiskonur skikkaðar í vesti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atli vill ákæra án fullnægjandi rannsókna

Atli Gíslason, vinstri grænn, lætur Bloomberg fréttastofuna hafa það eftir sér, að hann sé farið að lengja eftir ákærum frá Sérstökum saksóknara, vegna þeirra glæparannsókna sem hann annast vegna reksturs banka og fyrirtækja útrásargengja á árunum fyrir hrun og svona til að sýna hve alvarlega Atli tekur á málum, þá segir hann ýmislegt benda til afbrota á þessum tíma.

Eins og vitað er, er Atli yfirleitt ekkert að tvínóna við hlutina, þegar ákærur eiga í hlut, því hann lagði fram ákærur á fjóra fyrrverandi ráðherra fyrir það sem Atli vildi kalla hugsanleg brot á ráðherraábyrgð, sem hann sagðist alls ekki viss um að væri raunin, en það væri um að gera fyrir sakborningana að sanna sakleysi sitt fyrir Landsdómi.  Vegna þess að Atli taldi sakborningana hafa svo gaman af því að koma fyrir dóm, taldi hann enga nauðsyn sérstakri rannsókn málsins og ekki fannst honum heldur taka því að gefa þeim kost á að leggja fram sín gögn, áður en ákærur væru gefnar út, enda væri það þeirra að sanna sakleysi, en ekki sitt mál að sýna fram á sekt.

Svona lúxus í sakamálarannsóknum getur sá sérstaki ekki leyft sér, því ætlast er til að hann leggi fram ýmis sönnunargögn í þeim málum, þar sem hann mun gefa út ákærur og því þarf hann bæði að rannsaka málin og yfirheyra sakborninga og vitni.  Eins og sést af viðtali Atla við Bloomberg, finnst honum svoleiðis rannsóknaraðferðir alger tímasóun og óþarfi að vera að eyða tíma í öflun sönnunargagna.

Varla tekur því, að vera að minnast á þau ósmekklegheit þingmannsins að vera yfirleitt að skipta sér af dómstólum landsins, en vegna þrískiptingar valdsins eru slík afskipti langt utan verkahrings þingmanna og ættu þeir heldur að einbeita sér að því, sem þeirra verkum tilheyrir, en það er að setja landinu lög, sem síðan er dómstólanna að fara eftir í úrlausnum mála.

Atli er ekkert að láta smáatriðin vefjast fyrir sér, þegar hann kveður upp dóma yfir öðrum.  Sjálfsgagagnrýni er hins vegar alls ekki fyrir að fara í hans ranni.


mbl.is Farið að lengja eftir ákærum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannkölluð hrunstjórn

Samkvæmt væntingavísitölu Gallup fyrir október eykst svartsýni almennings gífurlega milli mánaða, en hafði farið heldur vaxandi fram að því, en greinilegt að ljós hefur runnið upp fyrir fólki í október um að núverandi ríkisstjórn muni alls ekki leiða þjóðina út úr kreppunni, heldur þvert á móti dýpka kreppuna og lengja vegna harðrar baráttu hennar gegn hvers kyns atvinnuuppbyggingu í landinu og þar með gegn lífskjörunum og velferðinni.

Eftirfarandi samantekt úr Gallupskýrslunni segir allt sem segja þarf um örvæntingu fólks um betra líf undir stjórn Samfylkingar og VG:  "Allar undirvísitölur lækka að þessu sinni og munar þar mestu minnkandi tiltrú fólks á að ástandið í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar muni batna á næstunni. Þannig lækka væntingar neytenda til næstu 6 mánaða um  52,7 stig og mælast nú 48,6 stig og er um verulegt bakslag að ræða enda hefur vísitalan mælst yfir 100 stigum síðustu þrjá mánuði.

Mat á núverandi ástandi lækkar um 10,2 stig og mælist nú 7 stig. Mat á atvinnuástandinu lækkar um 40,1 stig og mælist nú 32,5 stig og mat á efnahagslífinu um 34,9 stig og mælist nú 31,4 stig."

Hér á landi varð harðara og meira efnahagshrun vegna óhæfra og óheiðarlegra rekstraraðila banka-,fjárfestingarfélaga og fyrirtækja, sem nánast öll voru í eigu sömu glæframannanna og allir væntu þess að út úr þeirri kreppu sem af hlaust, myndi þjóðin komast á þrem til fjórum árum og þeir allra bjartsýnustu töldu að það myndi ekki taka nema tvö ár.

Allt byggðist sú bjartsýni á því að kapp yrði lagt á að efla atvinnulífið og aukna verðmætasköpun í landinu, en þær vonir hafa allar brugðist vegna forhertrar og fyrirlitlegrar baráttu ríkisstjórnarinnar gegn öllum atvinnuuppbyggingarhugmyndum, sem upp á borð hafa borist og því harðnar kreppan sífellt og hefur ekki verið verri en nú frá hruninu og gerir ekki annað en að fara versnandi.

Eigi einhver ríkisstjórn skilda nafnbótina "hrunstjórn", þá er það sú sem nú situr.


mbl.is Íslendingar verulega svartsýnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegt fár út af Gillzenegger

Ef satt er að undirskriftasöfnun sé hafin á netinu gegn því að Gillzenegger starfi að útgáfu símaskrárinnar, þá eru slíkar undirskriftarsafnanir komnar niður á nýtt stig ómenningar og pólitísks rétttrúnaðar, sem slær marga aðra vitleysuna í þjóðfélaginu gjörsamlega við í drullupollaslagnum.

Egill Einarsson, hefur búið sér til nokkrar perónur sem hann leikur til skiptis, enda hefur maðurinn lifibrauð sitt af fíflagangi í bland við annað, rétt eins og Sveppi og Auddi og fleiri slíkir og allir muna eftir Silvíu Nótt, sem þjóðin elskaði og dáði, þrátt fyrir að vera einhver auðvirðilegasta persóna, sem sköpuð hefur verið í íslenskum leikbókmenntum.  Engum datt þó í hug að krefjast útilokunar leikkonunnar, sem lék hana, frá öðrum störfum í þjóðfélaginu, enda hefur hún leikið og sungið síðan við ágætar undirtektir.

Ef femínistar standa á bak við þessa undirskirftasöfnun, vegna þess að leikpersónan Gillzenegger, hefur sínar skoðanir á þeim, eins og ýmsu öðru, þá er þetta framtak þeim til mikillar minnkunnar og er þó ekki úr háum söðli að detta fyrir þær vegna ýmissa furðuuppátækja sinna.

Annars er þetta svo hlægilegt og ótrúlegt uppátæki, að manni finnst sennilegra að þetta sé gert að frumkvæði Gillzeneggers sjálfs í auglýsignaskyni fyrir hann sjálfan og símaskrána.


mbl.is Safna undirskriftum gegn Agli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband