Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Peningamenn óvelkomnir

Hatur og óvild í garð allra sem liggja undir grun um að eiga einhverja peninga eða hafa laun yfir milljón á mánuði virðist vera orðin svo rótgróin hérlendis, að allir slíkir aðilar eru undir eins stimplaðir þjófar og glæpamenn, sem réttast væri að útskúfa gjörsamlega úr þjóðfélaginu og halda eingöngu eftir láglaunafólki og bótaþegum.

Sæki algerlega fjárvana útlendingar og flóttamenn eftir íslenskum ríkisborgararétti þykir flestum sjálfsagt að veita hann umsvifalaust og líta á það sem hreint mannréttindabrot að neita fólkinu um svo sjálfsagðan rétt, jafnvel þó ekkert sé vitað um fortíð viðkomandi og nafnvel ekki hvort hann sé sá sem hann segist vera eða frá því landi, sem hann segist koma frá.

Jafn sjálfsagt þykir að taka á móti hópi flóttafólks frá stríðshrjáðum löndum, ekki síst konum, jafnvel þó vitað sé að margt af því fólki muni aldrei aðlagast íslenskum háttum og siðum, enda frá fjarlægum menningar- og trúarheimum.  Margt af því fólki kemst aldrei út á vinnumarkað og er því haldið uppi af bótakerfum ríkis- og sveitarfélaga og allir eru fyllilega sáttir við slíka fyrirgreiðslu.

Hins vegar verður allt vitlaust, ef minnst er á ríka útlendinga sem hingað myndu vilja flytjast og fá hér ríkisborgararétt til þess að stunda héðan sín viðskipti og eiga þar með greiðari aðgang að Shengenlöndunum og EES svæðinu.  Skiptir þá engu þó um "þekkta" fjárfesta sé að ræða, sem stundað hafa viðskipti áratugum saman og ekki komist neinsstaðar í kast við lögin svo vitað sé.

Að sjálfsögðu á ekki að hlaupa upp til handa og fóta þó útlendir auðmenn óski eftir ríkisborgararétti hér á landi, en jafn fáránlegt er að bregðast við eins og hér sé um innrás mótorhjólagengis að ræða.

Málin eiga auðvitað að skoðast í rólegheitum, bakgrunnur skoðaður, kannað hvaða fjárfestingum þessir menn hafa helst áhuga á og í framhaldi af því að taka afstöðu til hverrar og einnar umsóknar.

Auðmenn eru ekki allir auðrónar, sem eyða auði allrar þjóðarinnar í fíkn sína, þó þeir íslensku hafi verið það.


mbl.is Stýra fjársterkum sjóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar búnir að borga sitt vegna Icesave

Með neyðarlögunum var forgangi krafna í bú Landsbankans breytt á þann veg að Breskir og Hollenskir innistæðueigendur á Icesavereikningum voru settir í forgang, fram yfir alla aðra kröfuhafa í bankann, sem fyrir vikið munu ekki fá neitt upp í sínar kröfur.

Þessu eru gerð góð skil í grein eftir Jón Gunnar Jónsson í Viðskiptablaði Moggans í dag og rétt að undirstrika vandlega það sem fram kemur í úrdrætti þeirrar greinar á mbl.is, en kjarni málsins er þessi: "Hann segir að neyðarlögin hafi fært Bretum og Hollendingum 600 milljarða króna á kostnað almennra kröfuhafa Landsbankans, sem eru til að mynda íslenskir lífeyrissjóðir, Seðlabanki Íslands, alþjóðlegir bankar og skuldabréfasjóðir sem lánuðu íslensku bönkunum.Jón Gunnar bendir á að Ísland hafi sýnt mikla sanngirni í Icesave-málinu. Miðað við fyrirliggjandi samning við Breta og Hollendinga sé hins vegar öll áhætta sem neyðarlögunum fylgir færð yfir á Ísland, en Bretar og Hollendingar njóti alls ábata sem af þeim stafar."

Fram hefur komið að Bretar og Hollendingar hafi hafnað því að ljúka málinu með eingreiðslu upp á 47 milljarða króna, vegna þess að með því væru ÞEIR að taka of mikla áhættu, enda reikna þeir með að fá margfalda þá upphæð í vöxtum frá íslenskum skattgreiðendum.  Væri það ekki svo, hefðu þeir þegið þessa 47 milljarða og málið hefði verið dautt.

Því verður seint trúað, að almenningur á Íslandi selji sig sjálfviljugur í skattaþrældóm vegna þessar fjárkúgunar, sem hvergi finnst lagalegur grundvöllur fyrir.  

Þar fyrir utan er almenningur búinn að taka á sig meira en nóg, með tapi lífeyrissjóðanna og Seðlabankans vegna þessa máls. 


mbl.is 600 milljarða neyðarlög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

OR göspruð í greiðsluerfiðleika?

Samkvæmt yfirlýsingu frá Guðlaugi Gylfa Sverrissyni, fyrrverandi stjórnarformanns OR, var góð samvinna milli OR og helstu lánadrottna allt þangað til nýr meirihluti tók við völdum í Reykjavík á miðju síðasta ári og hringlandaháttur hófst með stjórnun fyrirtækisins og að ekki sé talað um gaspur borgarstjórans og stjórnarmanna OR um fjárhagsstöðu fyrirtækisins og hugsanlegt gjaldþrot.

Í yfirlýsingu sinni varpar Guðlaugur Gylfi fram ýmsum spurningum, t.d. þessum: "Hvað breyttist eftir júní 2010? Núverandi forstjóri hefur staðfest án frekari skýringa að skyndilega um áramótin 2011 hafi viðhorf til félagsins gjörbreyst. Höfðu þá nýir stjórnendur setið að félaginu í hálft ár, skipt um forstjóra, sett bráðabirgðaforstjóra og hækkað gjaldskrá á almenning. Getur verið að yfirlýsingar stjórnenda og eigenda um stöðu og greiðslugetu OR hafi haft áhrif til hins verra við útvegun fjármagns til rekstrar OR? Fullyrðingar nýrra stjórnenda OR um gjaldþrot fyrirtækisins er algjörlega á þeirra ábyrgð."

Upplýsingar Guðlaugs um greiðan aðgang OR að lánsfé og góðu samstarfi við lánadrottna allt þar til nýr meirihluti tók við völdum, eru afar merkilegar og það verður verðugt verkefni fyrir fyrirhugaða rannsóknarnefnd um rekstur OR undanfarin ár, að rekja söguna allt til dagsins í dag.

Böl OR, eins og flestra annarra fyrirtækja og einstaklinga í landinu, er sú furðulega ákvörðun að taka erlend lán, þrátt fyrir að mestur hluti teknanna væru í íslenskum krónum.  Sú árátta "fjármálasnillinganna" sem réðu ferðinni síðustu árin fyrir hrun verða seint skilin til fullnustu, svo fáránleg sem hún var.

Burt séð frá því, þá þarf að upplýsa hvað breyttist í afstöðu lánadrottna við meirihlutaskiptin í borginni á síðast liðnu ári. 


mbl.is Höfðu yfirlýsingarnar áhrif?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt réttarhneyksli ofan á annað?

Afgreiðsla Alþingis á tillögum um að stefna nokkrum ráðherrum síðustu ríkisstjórnar fyrir Landsdóm endaði með pólitískri valdníðslu gegn einum manni, þ.e. Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, og er þeim þingmönnum sem að því stóðu til ævarandi skammar og þá ekki síst þeim þingmönnum Samfylkingarinnar sem greiddu atkvæði gegn því að stefna ráðherrum síns flokks fyrir dóminn, en með því að Geir yrði einn ákærður.

Nú hamast Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, í því að fá lögum um Landsdóm breitt til að auðvelda saksóknina gegn Geir H. Haarde og nýtur til þess aðstoðar Ögmundar Jónassonar, Innanríkisráðherra, sem var einn þeirra sem samþykkti að ákæra og saman ætla þau að knýja lagabreytingar, sem eru sakborningi í óhag, í gegn um Alþingi.

Andri Árnason hrl., verjandi Geirs mótmælir þessari ótrúlegu málsmeðferð og í fréttinni kemur fram m.a:  "Andri segir að sé grafalvarlegt mál hvernig þetta beri að. Landsdómur sjálfur, eða forseti hans, sem fer með dómsvaldið í málinu, leggi til breytingarnar, geri tillögu í samráði að því er virðist við ráðherra, sem var einn af þeim sem samþykktu málshöfðunarályktunina, og fái síðan Alþingi, sem ákærir, til að breyta lögunum."

Slíkar breytingar á lögunum um Landsdóm, eftir að búið er að stefna sakborningi fyrir dóminn, væri hreint réttarhneyksli, sem bættist ofan á upphaflega réttarfarsskandalinn.

Miðað við annað, þarf svo sem enginn að verða undrandi á svona vinnubrögðum, nema þá Steingrímur J., sem alltaf er hissa á öllu.


mbl.is Saksóknari á ekki að reka á eftir lagabreytingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin verði með NÚNA eða fari frá ella

Í marga mánuði hefur verið reynt að draga upplýsingar upp úr ríkisstjórninni um hvaða aðgerðum hún hyggist beita til að koma einhverri hreyfingu á fjárfestingar í landinu og nýrri sókn í atvinnumálin, en skapa þarf a.m.k. 20.000 störf á næstu misserum í stað þeirra sem tapast hafa í kreppunni.

Á morgun er síðasti dagur sem hægt er að leggja fram ný frumvörp á Alþingi, ef þau eiga að fást afgreidd fyrir vorið og af biturri fyrri reynslu er engum loforðum ríkisstjórnarinnar treystandi, nema þau séu komin í frumvarpsform og reyndar varla fyrr en þau hafa verið samþykkt á þinginu, því ríkisstjórnin hefur ekki fyrirfram tryggan þingmeirihluta fyrir einu einasta máli og því eins líklegt að þau dagi uppi í þinginu.

Ríkissjórnin hefur daginn í dag og morgundaginn til að sýna hvort hún sé yfirleitt fær um að fást við þau vandamál sem við er að eiga í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar, en launþegar í landinu geta ekki tekið á sig meiri byrðar án þess að fá einhverjar raunhæfar vonir um að betri tíð sé framundan.

Eru menn eða mýs í ríkisstjórninni? Nú er að duga eða drepast. Aðeins tæpir tveir sólarhringar til stefnu, ef stjórnin ætlar ekki að eyðileggja kjarasamningana.


mbl.is Funda með stjórnvöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arfur R-listans

Borgarstjórnarmeirihlutinn boðar róttækar aðgerðir til björgunar Orkuveitu Reykjavíkur, sem felast m.a. í eignasölu, risaláni frá eigendum, fækkun starfsmanna og að hætt verði við arðbærusta rekstur fyrirtækisins, þ.e. sölu á rafmagni til stóriðju. Afleit staða fyrirtækisins sést líklega best af því að enginn lánastofnun skuli treysta sér til að lána því til fjárfestinga vegna orkuöflunar til þess hluta rekstrarins, sem mestum arði skilar.

Þegar fyrirtæki eins og OR lendir í þvílíkum fjárhagsvanda og hér um ræðir, er líklega best að skera sjúklinginn upp strax og reyna að fjarlægja meinið í heilu lagi, þó það kosti lagnvarandi lasleika í langan tíma á eftir, en sé þó líklegt til að bjarga lífi hins sjúka. Svona aðgerðir eru líka þungbærar fyrir aðstandendur, sem í þessu tilfelli eru að stærstum hluta Reykvíkingar, en öðrum stendur ekki nær að sinna og kosta endurhæfinguna.

Ofan á annað í kreppunni mun þessi kostnaðarsama björgun OR koma illa niður á viðskiptavinum fyrirtækisins og þá að stærstum hluta Reykvíkingum, en hjá þeim er kreppan greinilega fyrst núna að bíta svo undan muni svíða og næstu ár munu verða mörgum erfið.

Jafnframt hefur verið samþykkt að setja á fót rannsóknarnefnd til að kanna rekstur OR nokkur ár aftur í tímann og ýmsar ákvarðanir um fjárfestingar, sem teknar voru í tíð R-listans og hafa leitt fyrirtækið í þær ógöngur sem það nú er í.

Loksins mun verða upplýst um þann tíma sem Alfeð Þorsteinsson stjórnaði OR eins og kóngur í ríki sínu og vegna oddaaðstöðu sinnar í borgarstjórn, hélt R-listanum í gíslingu vegna ýmissa mála sem hann vildi fá samþykkt í meirihlutanum.

Valdatími Ingibjargar Sólrúnar og Alfreðs Þorsteinssonar verður vonandi krufinn í eitt skipti fyrir öll og stjórnarhættir þeirra settir fram í dagsljósið.


mbl.is Starfsmönnum fækkað um 90
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er hissa á því að Steingrímur J. sé hissa?

Steingrímur J. er algerlega steinhissa á því að aðilar vinnumarkaðarins hafi reiknað með að eitthvað væri að marka yfirlýsingar sem frá ríkisstjórninni hafa komið á undanförnum mánuðum um aðkomu ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum, til þess að hægt væri að ganga endanlega frá þeim, með vissu um þann grundvöll sem stjórnin ætlast til að atvinnulífið búi við á næstu árum.

Frá því í janúar s.l. hafa aðilar vinnumarkaðarins verið í viðræðum við Steingrím J. og félaga í ríkisstjórn um þær aðgerðir sem þarf að grípa til, til þess að koma einhverri hreyfingu á atvinnulífið, en allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar á valdatíma hennar hafa snúist um að tefja og þvælast fyrir allri uppbyggingu í atvinnumálum og í raun haldið þeim málaflokki í gíslingu með alls kyns yfirlýsingum um þjóðnýtingu, uppsögn eða breytingu samninga sem í gildi hafa verið við erlenda fjárfesta, að ekki sé talað um hvernig sjávarútveginum hefur verið haldið í helgreipum síðustu tvö ár.

Steingrímur J. var mjög hissa á því að þjóðin skyldi ekki nánast springa af fagnaðarlátum þega hinn "glæsilegi" samningur Icesave I var dreginn með töngum út úr honum, jafn undrandi varð hann þegar þjóðin kolfelldi Icesave II í þjóðaratkvæðagreiðslu og ekki minnkaði undrunin þegar ýmsir létu í ljós óánægju með Icesave III.

Steingrímur J. er steinhissa á því að hans eigin ríkisstjórn skuli hafa samþykkt árásir á Líbíu og enn meira undrandi á því að ríkisstjórnin skuli hafa veitt NATO umboð til að stjórna árásunum. 

Sennilega er enginn maður jafn undrandi í landinu og Steingrímur J.  Nema ef vera skyldu þeir sem eru steinhlessa á því, hvað Steingrímur J. er alltaf hissa á öllu.


mbl.is Hissa á Samtökum atvinnulífsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin að eyðilegga kjarasamningana

Undanfarna mánuði hefur verið reynt að draga út úr ríkisstjórninni fyrirheit um ákveðnar aðgerðir af hennar hálfu til að hægt verði að ljúka gerð kjarasamninga í landinu, en áratugahefð er fyrir aðkomu ríkisins að allri kjarasamningagerð. Ríkið hefur þannig lagt sitt af mörkum til að stuðla að friði á vinnumarkaði, aðallega með aðgerðum í skattamálum og fyrirgreiðslu til uppbyggingar nýrra atvinnufyrirtækja.

Nú kemur hins vegar fram frá Vilmundi Jósefssyni, formanni SA, að samtökin séu búin að gefast upp á samræðum við ríkisstjórnina, enda hafi ekkert út úr þeim komið og ekki sé hægt að bíða lengur eftir einhverju úr þeirri átt, eða eins og eftir honum er haft í fréttinni: "Staðan er hins vegar sú að það er svo margt sem stendur út af, gagnvart ríkisstjórninni, svo mörg stór mál, að við sjáum okkur alls ekki fært að gera það."

Áður hefur ASÍ lýst svipuðum skoðunum og báðir aðilar vinnumarkaðarins benda á, að gagnvart þessari ríkisstjórn sé engu treystandi og eigi að taka mark á því sem frá stjórninni komi, verði það að vera komið í frumvarpsform fyrir Alþingi, áður en aðilar vinnumarkaðarins lokið samningsgerðinni svo öruggt verði að ríkisstjórnin standi við sitt. 

Sem víti til varnaðar er bent á undirrituð loforð ríkisstjórnarinnar í Stöðugleikasáttmálanum frá árinu 2009, en ríkisstjórnin stóð ekki við eitt einasta loforð, sem hún undirritaði þá um aðgerðir til að koma atvinnumálunum á rekspöl, heldur þvert á móti hefur hún unnið dyggilega gegn sínum eigin orðum í því loforðaplaggi.

Þær eru ekki margar þjóðirnar á vestulöndum a.m.k. sem sitja uppi með ríkisstjórn, sem kyndir undir atvinnuleysi og örbirgð í landi sínu.  Við slíkt verða þó Íslendingar að búa. 


mbl.is SA gefast upp á ráðaleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný rannsóknarnefnd um stríðsþátttöku VG og Samfylkingar?

Í fyrravetur fluttu allmargir þingmenn, aðallega úr VG og Samfylkingu, þingsályktunartillögu á Alþingi um að þingið setti á fót sérstaka rannsóknarnefnd til að rannsaka aðdraganda samþykktarinnar um stuðning Íslands við innrásina í Írak fyrir átta árum.  Þessa þingsályktunartillögu má sjá HÉRNA

Ef rétt er munað dagaði tillöguna uppi á þinginu í fyrra og hefur ekki verið endurflutt, en í ljósi síðustu stríðssamþykkta ráðherra VG og Samfylkingarinnar, vaknar sú spurning hvort ekki sé tímabært að endurflytja tillöguna með þeim endurbótum að bætt verði við rannsókn á aðdraganda samþykktarinnar um stuðning við árásina á Líbíu,  því nánast hvert einasta tilmæli um rannsókn, sem nefndinni var ætlað að vinna að, eiga nákvæmlega eins við um aðdraganda stríðssamþykktanna núna.

Samkvæmt því sem sumir VG þingmenn halda fram, þá var ekkert samráð haft við þingflokka, ekki við einstaka þingmenn og alls ekkert við Utanríkismálanefnd Alþingis, en slíka vöntun á samráði töldu flutningsmenn tillögunnar í fyrra einmitt vera einna veigamestu ástæðuna til rannsóknar.

Til að alls samræmis sé gætt í störfum Alþingis, verður ekki hjá því komist að skipa nýja rannsóknarnefnd um stríðssamþykktir Íslendinga í gegn um tíðina, sérstaklega þar sem hægt er að endurnýta tillöguna frá fyrra ári í sparnaðarskyni. 

Varla verður það látið viðgangast að sambærileg stríðssamþykkt árið 2011 og samþykkt var 2004 verði látin falla í gleymskunnar dá, algerlega rannsóknarnefndarlaus.


mbl.is Styrkja bandalag gegn Gaddafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matarskattur hækkaður til að borga Icesave?

Matarskatturinn svokallaði, þ.e. 7% þrepið í virðisaukaskattinum, er eini skatturinn sem fyrirfannst í kerfinu þegar núverandi ríkisstjórn komst til valda og ekki hefur verið hækkaður verulega.  Þetta virðisaukaskattsþrep nær yfir nokkra aðra vöruflokka en matvöru, þrátt fyrir gælunafnið "Matarskattur", svo sem bækur, hljómdiska o.fl.

Hér á landi munu vera staddir fjórir fulltrúar frá AGS í þeim erindagjörðum að fara yfir hvaða skatta muni verða hægt að hækka á næstunni, enda þarf að gera ráð fyrir miklum skattahækkunum,  til viðbótar við það skattahækkanabrjálæði sem þegar hefur verið bitnað á þjóðinni, til að standa undir væntanlegum útgjöldum vegna Icesave, verði þrælalögin samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 9. apríl n.k., eins og ríkisstjórnin vonast til.

Ríkisstjórnin og aðrir áhugaaðilar um samþykkt þrælasamningsins um Icesave hafa þagað þunnu hljóði um það, hvernig og með hvaða skattahækkunum eigi að borga Bretum og Hollendingum, fari svo að skattgreiðendur samþykki að selja sig sjálfviljugir í slíka ánauð til næstu ára eða áratuga.

Það er jafnvíst og að dagur kemur á eftir nótt, að engan veginn verður hægt að standa undir Icesaveklafanum nema með gríðarlegum skattahækkunum, en mikill blekkingarleikur er stundaður til að fela þá staðreynd og reynt að telja fólki trú um að aukinn hagvöxtur einn saman muni greiða þetta, en að sjálfsögðu verður þá ríkissjóður að skattleggja þann hagvöxt til að afla tekna, enda eru engin útgjöld greidd úr ríkissjóði, nema aflað sé tekna fyrir þeim með skattheimtu.

Steingrímur J. heldur því fram að ekki sé von á "stórfelldum" skattabreytingum á næstunni, en ýmsar "lagfæringar" þurfi að gera.

Reynslan kennir að því minna sem Steingrímur J. gerir úr væntanlegu skattahækkanabrjálæði, því ofsafengnari verður framkvæmdin.


mbl.is Ekki von á stórfelldum skattabreytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband