Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Banna þetta og banna hitt, vegna þess að fólk er fífl

Nefnd forsætisráðherra um afnám verðtryggingar virðist hafa komist að þeirri niðurstöðu að Íslendingar séu fífl upp til hópa og hafi ekki gripsvit á fjármálum fyrst þeir hafi komið sér upp húsnæði á undanförnum áratugum með því að taka til þess verðtryggð lán.

Langtímalán án verðtryggingar, hvorki til húsnæðiskaupa eða annars,  hafa varla verið í boði síðastliðin þrjátíuogfimm ár og ef draga ætti ályktanir af niðurstöðu nefndarinnar og margra annarra, sem tjáð hafa sig um málið, ætti hver einasti maður sem húsnæðislán hefur  tekið á þessum tíma að vera gjaldþrota og búa á götunni eða í tjöldum einhversstaðar.

Staðreyndin er auðvitað allt önnur og flestir sem tóku verðtryggð húsnæðislán á upphafsárum þeirra eru löngu búnir að greiða þau upp og eiga nú íbúðarhúsnæði sitt skuldlaust, eins og t.d. upplýsingar frá skattstjóra hafa sýnt þegar veittar eru upplýsingar um eignir og skuldir landsmanna.

Nú orðið er farið að bjóða upp á óverðtryggð íbúðalán og ef marka má fréttir hefur eftirspurn eftir þeim minnkað, vegna þess að greiðslubyrði verðtryggðu  lánanna eru lærgi í upphafi lánstímans og afborganir jafnari allan lánstímann.

Nefndin nefnir fjörutíuára jafngreiðslulánin "eitraðan kokkteil" vegna þess að á lánstímanum greiðir skuldarinn mun meira til baka en sá sem tekur tuttuguogfimm ára lán.  Þetta hefur auðvitað verið viðtað frá því að byrjað var að veita þessi lengri lán og var mikið um þau ritað og rætt á sínum tíma, en flestir húsnæðiskaupendur valið þau þrátt fyrir þá vitneskju.

Nú er lagt til að lengstu lánin verði bönnuð og mismunun tekin upp varðandi  vaxtabætur eftir lánsformum húsnæðislána.  Varla mun slík mismunun standast mannréttindaákvæði stjórnarskrár, enda gjörsamlega galið að gera tillögu og þannig framkomu við landsmenn.

Það er merkilegur hugsunarháttur að hafa ekkert merkilegra fram að færa í tillögugerð um húsnæðislán en að allir skuli taka nákvæmlega eins lán til ákveðins lánstíma og sæta mismunun við álagningu  opinberra gjalda ella.

Þrátt fyrir að nefndin virðist álíta að fólk sé almennt ekki með fullu viti er alveg óhætt að mótmæla því og leyfa sér að fara fram á að lántakendur fái sjálfir að ákveða hvaða lánsform þeir kjósi sér og eins verði lánstíminn samningsatriði milli lánveitanda og lántakanda.

Versta niðurstaða málsins yrði EITT RÍKISLÁN fyrir alla, eins og fræg persóna Ladda myndi segja. 

 


mbl.is Hægt að afnema verðtrygginguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólarnir, Höfðaborgin, braggarnir og nútíminn

Eftir seinni heimstyrjöldina varð mikill uppgangur í landinu og reyndar má segja að með stríðinu hafi þjóðin stokkið inn í nútímann og út úr þeirri örbirgð sem flestir landsmenn höfðu búið við frá landnámi. 

Hraðastar breytingarnar urðu í Reykjavík og þangað streymdi fólk alls staðar af landinu í atvinnuleit og þó flestir hafi getað fengið einhverja vinnu var húsnæði af skornum skammti og varð fólk að sætta sig við hverja þá kompu sem til boða stóð.

Herinn hafði skilið eftir sig braggahverfi víða um bæinn sem nýttir voru til íbúðar fyrir aðflutta og nokkuð var byggt af íbúðarhúsnæði til að leysa brýnasta vandann og átti þetta allt að vera til bráðabirgða á meðan að úr húsnæðismálunum rættist.  

Næstu áratugina var búið í þessu "bráðabirgðahúsnæði" öllu, sem ekki var orðið mönnum bjóðandi og var þá sama hvort um braggana væri að ræða, eða Höfðaborgina sem byggð var sem "bráðabirgðaíbúðir", Pólana eða aðra kumbalda sem fólk varð að láta sér lynda til íbúðar.

Undanfarin ár hefur orðið sívaxandi skortur á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og margir sem verða að láta sér nægja húsnæði til íbúðar sem lítið eða ekkert er skárra en braggarnir, Pólarnir og Höfðaborgin voru á árum áður.

Vítt og breitt um borgina og nágrenni stendur ónýtt skrifstofuhúsnæði, sem í mörgum tilfellum er bæði traust og gott en byggt af allt of mikilli bjartsýnisþörf og því standa tugþúsundir fermetra af slíku húsnæði verkefnalausir og engum til gagns.

Yfirvöld verða að leyfa breytingar á slíku húsnæði, þannig að það nýtist til útleigu til fólks sem þarf á litlu og ódýru húsnæði að halda.  Þetta þarf að gera núna, en ekki einhvern tíma í óvissri framtíð. 


mbl.is „Viljum ekki hafa þetta svona“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað vita þingmenn um lög sem þeir samþykkja sjálfir?

Hvað eftir annað koma upp mál þar sem í ljós kemur að mistök hafi verið gerð við samþykkt laga á Alþingi og eitthvað hafi slæðst inn í lög, eða gleymst að taka með í þau, þegar frumvörp hafa verið samþykkt.  

Vikum, mánuðum og árum eftir samþykkt sumra laga hafa þessir gallar komið í ljós og þá verið hlaupið upp til handa og fóta til að leiðrétta lög eða setja ný í stað þeirra gölluðu.  Þegar slíkir gallar hafa komið í ljós man yfirleitt undantekningalaust enginn eftir því hvernig lagasetningin slapp í gegn um þingið án þess að nokkur uppgötvaði gallana og aldrei játar nokkur þingmaður, hvað þá þeir embættismenn sem yfirleitt semja frumvörpin, á sig sérstök mistkök en benda oftast á að mál komi seint fram og lítill tími sé til að fjalla um einstök mál.

Rétt fyrir áramót voru fjárlög samþykkt frá Alþingi í tengslum við þau nýr, eða breyttur, bankaskattur sem fjármagna á skuldaniðurfellingu verðtryggðra íbúðalána og innihélt hann fimmtíumilljarða frískuldamark lánastofnana, sem ætlað er til að létta smærri lánastofnunum skattheimtuna.

Nú bregður svo við, örfáum vikum síðar, að enginn man hverjum datt í hug að setja þessa vörn inn í lögin og hvað þá hver það var sem stakk upp á þessum fimmtíumilljörðum og hversvegna, en ekki einhverri allt annarri upphæð.  Upphæð frískuldamarksins virðist því hafa komist inn í lagasetninguna fyrir einhverja tilviljun eða klaufaskap og að minnsta kosti lítið rætt og metið hvar mörkin áttu að liggja.

Óhætt er að taka undir með Fjárlaganefnd þegar hún segir um sín eigin vinnubrögð að þau þurfi að endurmeta og skoða betur hvernig farið er með upphæðir og tölur fjárlaganna.  

Reyndar þyrftu þingmenn allir að endurmeta vinnubrögð sín við meðferð og samþykktir frumvarpa og þá ekki eingöngu frumvarp til fjárlaga. 


mbl.is Talan líklega komin frá nefndinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn sótti um útvarpsstjórastarfið

Fjörutíu manns sóttu um starf útvarpsstjóra og virðist Enginn  hafa verið þar á meðal og fengið númerið þrettán á umsækjendalistanum.

Allt eru þetta hinar vænstu manneskjur og er Enginn þar undanskilinn.  Úr vöndu verður að ráða að velja úr þessum hópi og öruggt er að einhver verður valinn og þó þrjátíuogátta umsækjendur verði ekki ráðnir, mun Enginn telja sig hlunnfarinn við ráðninguna og krefjast rökstuðnings fyrir því að hafa ekki verið valinn.

Ef að líkum lætur verður engin sátt í þjóðfélaginu með ráðninguna og myndi líklega engu breyta þó Enginn yrði ráðinn, því þá yrði einfaldlega hægt að rífast um hvers vegna það hafi verið.

Eitt er alveg öruggt og það er að mikið verður þráttað og þrasað um þetta mál næstu vikur, mánuði og ár og Enginn verður ánægður, hvernig sem fer. 

 


mbl.is Enginn var númer 13
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðir lekar og slæmir

Vítt og breitt um heiminn hefur alls kyns lekum frá opinberum aðilum verið fagnað óskaplega og uppljóstrarar, sem stolið hafa gríðarlegum gagnabönkum úr opinberum tölvukerfum, verið dýrkaðir og dáðir.

Því hefur verið haldið mjög á lofti að almenningur eigi rétt á upplýsingum um allt sem opinberir aðirlar, hermálayfirvöld og leyniþjónustur eru að aðhafast dags daglega og að þeir sem miðla slíkum upplýsingum skuli vera friðhelgir og eigi alls ekki  að þurfa að þola ákærur eða önnur afskipti lögreglu eða dómstóla vegna lekastarfsemi sinnar.

Á einhvern hátt bárust upplýsingar til fjölmiðla á Íslandi um athugun opinberra aðila á ákveðnum hælisleitanda og þá bregður svo við að sá upplýsingaleki er af ýmsum álitinn stórkostlegt hneyksli og miklu  verri en þó um viðkvæmustu ríkisleyndarmál væri að ræða.

Svo alvarlegur er þessi leki álitinn að Innanríkisráðherra og allt starfsfólk ráðuneytisins hefur verið kært til ríkissaksóknara og þá líklega með þeim tilgangi að koma þessu fólki öllu í fangelsi fyrir að leka "viðkvæmum" upplýsingum sem ekki hefðu átt að komast úr húsi nema til útvalinna.

Það er vandlifað í veröldinni og ýmsar upplýsingar kærari mörgum en aðrar.


mbl.is Ríkissaksóknari athugar leka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barátta gegn okri

Þegar gengi íslensku krónunnar lækkar stendur ekkert á því að hækka verð á erlendum vörum og venjulega fylgja svo innlendir framleiðendur á eftir með hækkun á sínum vörum, þó ekkert mjög sýnilegt tilefni sé til.

Þegar gegni krónunnar styrkist verður sjaldan vart við að vöruverð lækki, heldur hefur þróunin undanfarin ár verið sú að verðbólga hefur verið stöðugt hækkandi, enda hugarfarið orðið þannig að verðhækkanir séu óbreytanlegt náttúrulögmál.

Á eftirfarandi töflu sést hvernig gengi krónunnar hefur styrkst gagnvart helstu viðskiptagjaldmiðlum síðast liðna tólf mánuði. Þrátt fyrir þessa styrkingu hefur verðlag stöðugt hækkað, jafnt innfluttar vörur sem og íslenskar.

Gjaldmiðill                         31. des. 2012                31. des. 2013        Breyting

Bandaríkjadalur USD             128,740                        115,030            -10,65 %

Sterlingspund GBP                 208,150                       190,210              -8,62 %

Kanadadalur CAD                  129,360                        108,070            -16,46 %

Dönsk króna DKK                     22,760                          21,248              -6,64 %

Norsk króna NOK                     23,043                          18,919             -17,90 %

Sænsk króna SEK                     19,758                          17,949              -9,16 %

Svissneskur franki CHF           140,640                        129,190              -8,14 %

Japanskt jen JPY                         1,495                            1,096             -26,73 %

SDR XDR                                  197,990                        177,340             -10,43 %

Evra EUR                                  169,800                        158,500              -6,65 %

Kínverskt júan CNY                    20,663                          19,002               -8,04 %

Vegna nýgerðra kjarasamninga og harðra mótmæla gegn hvers konar verðhækkunum ætla nokkrar verslanir að lækka verð á innfluttum vörum um 2-5% og það þrátt fyrir að erlendur gjaldeyrir hafi lækkað í verði frá 6,64% til 26,73%. Það er japanska jenið sem hefur lækkað um tæp 27% síðast liðna tólf mánuði, en ekki hefur samt orðið vart við að t.d. japanskir bílar hafi lækkð um fjórðung á sama tíma.

Nú virðist loksins hafin raunveruleg barátta gegn verðbólgunni og sífelldum tilefnislausum verðhækkunum og vonandi sniðganga neytendur hvern þann framleiðanda og kaupmann sem ekki heldur vöruverði a.m.k. óbreyttu á næstunni og jafnvel lækka verð sín, enda virðast allar forsendur vera fyrir hendi til þess.

Okur er óþolandi, bæði vöru- og vaxtaokur. Vonandi tekst að ráða niðurlögum hvors tveggja í þessari atrennu.


mbl.is Bónus lækkar verð á matvöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmynda- og dáðleysi verkalýðsfélaganna

Undanfarna daga og vikur og mánuði hafa verið að birtast fréttir af uppsögnum sjómanna á frystitogurum og að skipin hafi verið seld úr landi eða að þeim verði breytt og þau gerð út sem ísfisktogarar framvegis.

Þetta er gert vegna þess að nú er sagt að hagstæðara sé að vinna aflann í landi og frystitogararnir séu of takmarkaðir til þess að hægt sé að hafa vinnsluna nógu sveigjanlega til að þjóna mörkuðunum hverju sinni.  Einnig hefur komið fram að launakostnaður landvinnslunnar sé svo miklu lægri að arðsemi vinnslunnar muni aukast mikið við að verða færð frá frystitogurunum til landvinnslunnar.

Verkalýðshreyfingin hefur valið þann kost undanfarna áratugi að miða alla kjarasamninga við greiðslugetu lökustu atvinnugreinanna, enda ástandið orðið þannig að Íslendingar fást varla lengur til að vinna við fiskverkun og vinnslu vegna lágra launa og erfiðrar vinnuaðstöðu.

Verklýðsfélögin virðast ætla að sitja algerlega aðgerðarlaus hjá við þá þróun að hálaunastörf frystitogaranna verði lögð niður og verkefnin færð til láglaunafólksins í fiskvinnslustöðvunum án þess að lyfta litla fingri til þess að fá háu launin flutt með verkefnunum til landverkafólksins.

Afkoma fiskvinnslunnar hefur verið afbragðsgóður undanfarin ár án þess að gert hafi verið átak til að hækka laun starfsmannanna og nú virðist eiga að sitja með hendur í skauti og horfa aðgerðarlaust á hálaunastörfin lögð niður en verkefnin færð til láglaunafólksins.

Vonandi verður verkalýðsforystan búin að sjá ljósið áður en næstu kjarasamningar verða gerðir. 


mbl.is Uppsagnir áhafna hjá Þorbirni hf.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband