Bloggfærslur mánaðarins, október 2017

Langar og strangar stjórnarmyndunartilraunir framundan?

Miðað við niðurstöður kosninganna og fjölda flokka á Alþingi bendir allt til þess að stjórnarmyndun verði erfið og muni taka talsverðan tíma.

Framsókn hefur lýst því yfir að flokkurinn sé ekki hrifinn af því að fara í hreina vinstri stjórn og jafnvel ekki með því að bæta Viðreisn í hópinn, enda komi ekki til greina að efna til kosninga um aðild að ESB, sem er stærsta baráttumál Viðreisnar og eitt helsta áhugamál Samfylkingarinnar.

Sigurður Ingi hefur lýst því sem sinni von að hægt yrði að mynda þriggja flokka stjórn með VG og sjálfstæðisflokknum, en það mun örugglega ekki takast vegna andstöðu innan VG nema stjórnarkreppa væri búinn að ríkja mánuðum saman.

Líklegasta niðurstaðan verður væntanlega sú að mynduð verði ríkisstjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins.  Það mun hins vegar varla gagna heldur til að byrja með vegna persónulegrar togstreitu milli Sigurðar Inga og Sigmundar Davíðs, en að lokum yrðu þeir að slíðra sverðin og kyngja persónulegum ágreiningi sínum.

Vonandi tekst að klára þetta púsluspil áður en allt of langt líður og hvernig sem þetta fer verður Alþingi að ganga frá fjárlögum fyrir áramót.  Ef ekki verður búið að klára stjórnarmyndun tímanlega, yrði það annað árið í röð sem fjárlög fallinnar ríkisstjórnar yrðu til umfjöllunar og afgreiðslu á þinginu.


mbl.is „Handsprengjan“ dregur úr líkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Krafa kjósenda"

Að kosningum loknum keppast spekingar við að túlka niðurstöðurnar og margir segja að niðurstaðan sýni að "krafa kjósenda" sé meiri stöðugleiki í stjórnmálunum og að flokkarnir fari að vinna betur saman í sátt og samlyndi.

Þetta verða að teljast einkennilegar túlkanir í ljósi þess að flokkum sem fá menn kjörna á Alþingi fjölgar sífellt og atkvæðin dreifast þar með á fleiri og fleiri flokka, en eins og kunnugt er náðu átta flokkar mönnum á þing núna og hafa flokkarnir aldrei verið fleiri.

Nær væri að draga þá ályktun af þessum úrslitum að aldrei hafi úlfúðin verið meiri meðal þjóðarinnar og að sífellt verði erfiðara að sætta sjónarmiðin og koma á starfhæfri ríkissjórn.  Ekki var reynslan góð af naumum meirihluta síðustu ríkisstjórnar, enda sprakk hún vegna úthalds- og ábyrgðarleysis Bjartrar framtíðar sem hljópst undan merkjum vegna lélegrar útkomu í skoðanakönnunum.

Ekki verður hægt að reikna með að auðveldara verði núna að mynda starfhæfa ríkisstjórn með auknum fjölda smáflokka og dreifðara atkvæðamagni en nokkurn tíma áður.  Tæplega verður fjögurra eða fimm flokka stjórn samstæð eða líkleg til mikilla afreka við landsstjórnina.

Það er margt ólíklegra en að boðað verði til nýrra kosninga innan fjögurra ára.


mbl.is Verður erfitt að mynda ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Látum skynsemina ráða

Allt útlit er fyrir góða kjörsókn í Alþingiskosningunum í dag eins og mikil aukning utankjörfundaratkvæða gefur fyrirheit um og að um hádegi höfðu talsvert fleiri mætt á kjörstaði en um sama leyti í fyrra.

Eftir kosningarnar í fyrra tók margar vikur að mynda ríkisstjórn, en að lokum var mynduð þriggja flokka stjórn með aðild Bjartrar framtíðar, sem fljótlega sýndi að þar var um flokk að ræða sem hvorki hafði getu eða úthald til stjórnarsamvinnu.

Flokkurinn fór endanlega á taugum og hljópst frá ábyrgð sinni vegna slæms gengis í skoðanakönnunum.  Slíkt ábyrgðarleysi kunna kjósendur ekki að meta og því mun flokkurinn þurkast út og hverfa af þingi eftir kosningarnar í dag.

Sá stjórnmálaflokkur sem sýnt hefur og sannað undanfarna áratugi að sé sá eini sem treystandi er til að stjórna af festu og ábyrgð er Sjálfstæðisflokkurinn og er ótrúlegt annað en að kjósendur muni verðlauna hann með góðri kosningu og kasti ekki atkvæðum á ósamstæða smáflokka.  Slíkt yrði ávísun á nýja stjórnarkreppu sem að lokum myndi leiða til myndunar margra flokka ríkisstjórnar sem nánast yrði óstarfhæf frá fyrsta degi.

Á lokaspretti kosningabaráttunnar í sjónvarpinu í gær, þar sem fulltrúar flokkanna tókust á um stefnumál sín, sýndi og sannaði Bjarni Benediktsson enn og aftur að hann ber höfuð og herðar yfir aðra flokksleiðtoga og að engum sé betur treystandi til að leiða þjóðina inn í framtíðina og til áframhaldandi velferðar.

Bjarni átti gullkorn þáttarins þegar hann sagði:  "Það er ótrúlegt að heyra því haldið fram hér að það hafi verið eitthvað gefið eftir af skattstofnum, þegar við höfum verið að auka ráðstöfunartekjur fólksins í landinu.  Þetta er hugmyndafræðileg atriði, þegar við hugsum um vinnandi fólk, í Sjálfstæðisflokknum, þá sjáum við fyrir okkur harðduglega Íslendinga sem eru að framfleyta fjölskyldum.  Þegar vinstri menn hugsa um vinnandi fólk þá sjá þeir fyrir sér skattstofn."

Látum skynsemina ráða og setjum X við D á kjörseðlinum.


mbl.is Yfir 26 þúsund utankjörfundaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þróunin í átt til smáríkja í stað stórra

Katalónía stefnir í sjálfstæðisátt, þrátt fyrir öfluga mótspyrnu yfirvalda í Madrid, og líklegast er að sjálfstæðiskröfurnar aukist og Katalónar þjappist saman í sjálfstæðiskröfunum í framtíðinni.

Hugsanlega myndu fleiri héruð Spánar fylgja í kjölfarið ef Katalóníu tækist að verða að sjálfstæðu ríki og nægir að nefna Baskahéruðin, Andalúsíu og Aragon sem dæmi í því sambandi, en nú samanstendur Spánn af sautján sjálfstjórnarhéruðum.

Skotar hafa sýnt áhuga á að skera sig frá Bretlandi og verða sjálfstæðir og nú síðast eru að bætast við norðuhéruðin á Ítalíu, þ.e. þau ætla að láta kjósa um hvort þau fengju meiri sjálfstjórn í sínar hendur um málefni og fjárhag héraðanna.

Í fréttinni kemur fram, haft eftir land­stjór Lomb­ar­do-héraðs, Roberto Mar­oni: "Við ætl­um að vera enn inn­an Ítal­íu en með aukna sjálfs­stjórn á meðan Katalón­ía vill verða 29. ríki Evr­ópu­sam­bands­ins. Ekki við. Ekki núna."  Lokaorðin tvö, ekki núna, segja mikið um hvert framhaldið muni verða síðar.

Líklega endar Evrópa með að verða samsafn smáríkja í framtíðinni og ótrúlegt að ESB tórði þá lengi í óbreyttri mynd. 

 


mbl.is Ítölsk héruð vilja aukna sjálfsstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað vilt ÞÚ láta hækka skattaálögur á SJÁLFAN ÞIG mikið?

Allir stjórnmálaflokkarnir, sem bjóða fram lista í komandi Alþingiskosningum, nema Sjálfstæðisflokkurinn boða gríðarlegar skattahækkanir til að fjármagna kosningaloforð sín sem hljóða upp á aukin ríkisútgjöld á bilinu frá fjörutíu til sjötíuogfimm milljarða króna árlega.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ámálgað nokkrar skattalækkanir og stöðugleika efnahagsmálanna á næstu árum og bendir á nauðsyn þess að halda verðbólgu lágri, eins og hún hefur verið undanfarin ár, og að hægt hafi á hagsveiflunni og með óhóflegri aukningu ríkisútgjalda aukist hætta á harði lendingu í efnahagslífinu og þar með miklum skelli á afkomu almennings.

Skattahækkanaflokkarnir lýsa því hver um annan þveran að skattbyrði almennings yrði ekki aukin, heldur eigi að "hliðra til í skattkerfinu" og leggja háu skattana á hátekju- og eignafólk, en sýnt hefur verið fram á að slíkar "hliðranir" munu einungis auka tekjur ríkissjóðs um tiltölulega fáa milljarða króna.

Það sjá allir, sem vilja sjá og skilja, að ríkisútgjöld verða ekki aukin um 40-75 milljarða króna án stórfelldra skattahækkana á almenning í landinu.  Jafnvel þó látið verði líta út fyrir að fyrst og fremst verði um hækkun fyrirtækjaskatta að ræða, eða að skattar verði hækkaðir á alla aðra, munu allar skattahækkanir lenda að lokum á almenningi, enda engin annar til að standa undir ríkisútgjöldunum en hinn almenni borgari.

Vegna þessa verða allir kjóendur, hver einasti, að vera búinn að gera upp við sig hvort og þá hve mikið þeir vilja skerða lífskjör sín áður en hann merkir við flokk á kjörseðlinum.  Spurningin sem svara verður er einfaldlega:  HVAÐ VILT ÞÚ LÁTA HÆKKA SKATTAÁLÖGUR Á SJÁLFAN ÞIG MIKIÐ?


mbl.is Girða fyrir svigrúm til skattalækkana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV í bullandi vandræðum vegna óheiðarleika í fréttaflutningi

Taka verður undir með Sigmundi Davíð að ýmsir hafi farið hamförum í útúrsnúningum vegna skattamála þeirra hjónanna og umfjöllunar vegna úrskurðar ríkisskattstjóra og Yfirskattanefndar vegna þeirra mála.

Við lestur á úrskurði Yfirskattanefndar sést glögglega að allar eignir eiginkonu Sigmundar Davíðs hafa samviskusamlega verið taldar fram á skattframtölum þeirra hér á landi, en hins vegar voru þær allar færðar sem eign á persónulegu framtali þeirra í stað þess sem réttara hefði verið að tilgreina þær á sérstöku eyðublaði samkvæmt svokölluðum CFC reglum.

Það að ekki hafi verið farið eftir CFC reglum breytir það ekki þeirri staðreynd að engar tilraunir voru gerðar til að stinga eignum undan skatti, eða reynt að blekkja skattyfirvöld á nokkurn hátt.  Úrskurður ríkisskattstjóra staðfestir að ekkert tilefni væri til að beita viðurlögum, kærum eða sektum vegna skattskilanna enda ekkert verið undan dregið þó ekki hefðu verið notuð rétt eyðublöð við skattuppgjörin.

Allir sem eitthvað hafa komið nálægt skattskilum fyrirtækja vita að þau geta verið mikill frumskógur og oft koma upp álitamál um hvernig skal fara með hin og þessi atriði og hvernig álagningu skatta skat hagað.  Skattstjórar og ríkisskattstjóri hafa alls ekki alltaf rétt fyrir sér um túlkun skattalaga og því kemur oft og iðulega til kasta Yfirskattanefndar til að skera úr um álitamálin.  Ef allt væri slétt, fellt og auðskilið í skattalögum þyrfti hvorki löggilta endurskoðendur til að vinna að flóknustu framtölunum né Yfirskattanefnd til að dæma í ágreinisngsmálum.

Fréttastofu RÚV tókst ekki einu sinni að fá Indriða G. Þorláksson til að segja í viðtali að um eitthvað misjafnt hefði verið að ræða í skattskilum Sigmundar Davíðs og Önnu, eiginkonu hans, og hvað þá að um lögbrot hefði verið að ræða.  Þar með hlýtur að teljast að fokið sé í flest eða öll skjól fyrir fréttastofuna.

Rétt er að taka fram að skrifari þessara orða hefur aldrei kosið Framsóknarflokkinn eða Sigmund Davíð og mun ekki kjósa Miðflokkinn í komandi kosningum.


mbl.is „Fara hamförum í útúrsnúningum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leysist Spánn upp í frumeindir?

Ótrúlegt var að fylgjast með offorsi spænskra yfirvalda í baráttunni gegn atkvæðagreiðslunni í Katalóníu um hvort lýsa skyldi yfir sjálfstæði héraðsins.  Stjórnlagadómstóll hafði kveðið upp þann úrskurð að atkvæðagreiðslan væri ólögleg og niðurstaða hennar þar af leiðandi ómarktæk.

Miklar líkur eru á að hefðu kosningarnar verið látnar afskiptalausar af hendi yfirvalda í Madrid hefði niðurstaðan orðið sú að meirihlutinn hefði kosið gegn sjálfstæði.  Hefði niðurstaðan orðið önnur hafði ríkisstjórnin dóminn í höndunum og alla möguleika til að berjast gegn sjálfstæðisyfirlýsingum katalóna.

Ekki er ólíklegt að harkaleg framkoma og fantaskapur lögreglunnar á kjördag hafi þjappað íbúum Katalóníu saman gegn ofríkinu og þar með stóraukið fylgið við sjálfstæði héraðsins.  Spennandi verður að fylgjast með framhaldi málsins og vonandi verður allt gert til að koma í veg fyrir frekara ofbeldi, hver svo sem næstu skref yfirvalda í Katalóníu verða.

Að sumu leyti eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar í Madríd skiljanleg í ljósi þess að til viðbótar við Katalóníu eru sextán sjálfstjórnarhéruð á Spáni og verði Katalónía sjálfstætt ríki er nánast viðbúið að sjálfstæðiskröfum vaxi hryggur um hrygg í hinum héruðunum. 

Nægir í því sambandi að benda á Baskaland, Andalúsíu og Galisíu í því sambandi en sjálfstæðiskröfur hafa verið þar á lofti og jafnvel í fleiri héruðum.  Verði af sjálfstæði Katalóníu er ekki ólíklegt að Spánn leysist upp í frumeindir sínar áður en yfir lýkur.

 

 


mbl.is „Gerðist þetta í alvörunni?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband