Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Ögmundur styður kvennakúgun

Þó ótrúlegu og stórkostlegu tíðindi hafa gerst, að Ögmundur Jónasson vill ekki samþykkja bann, en eins og allir vita eru Vinstri grænir ekki eins hrifnir af neinu og bönnum allskonar.

Það ótrúlega við þessa frétt er að með afstöðu sinni er Ögmundur að gefa kost á og styðja kúgun kvenna af erlendum (og reyndar innlendum) uppruna, sem væru svo óheppnar að vera giftar körlum sem, með hugarfari Ögmundar, myndu vilja þvinga þær til að klæðast búrkum, sem engu betri eru en strigapokar með gati til að gæjast út um, en þó með neti fyrir.

Sem betur fer á ekki að ríkja ráðherraræði hér á landi, heldur þingræði og því verður að reikna með að þingið samþykki svo sjálfsagðan hlut, eins og að banna svona kvennakúgun eins og hverja aðra. Kúgun og ofbeldi á ekki að líðast, hvorki gangvart komum eða körlum.

Ætli Ögmundur myndi ekki skipta um skoðun, ef hann yrði kúgaður til að ganga sjálfur í búrku í nokkra daga, að ekki sé talað um í nokkur ár.


mbl.is Vill ekki banna búrkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrum er alveg sama um hag skuldara

Í tilefni þess að Creditinfo Lánstraust hefur óskað eftir því að fá að halda skrá yfir þá sem þurfa að ganga í gegnum greiðsluaðlögun vegna óbærilegra skulda sinna, hefur persónuvernd margítrekað farið fram á umsögn Ögmundar Jónassonar, Innanríkisráðherra, og Árna Páls Árnasonar, félags- og tryggingamálaráðherra, um málið og viðhorf þeirra til slíkrar opinberrar upplýsingaöflunar um þetta ógæfusama fólk.

Í fréttinni segir eftirfarandi um þær tilraunir Persónuverndar:  "Við afgreiðslu málsins óskaði Persónuvernd ítrekað umsagnar félags- og tryggingamálaráðherra og síðar dómsmála- og mannréttindaráðherra og innanríkisráðherra um hvort það samrýmist markmiðum lagaákvæða um greiðsluaðlögun einstaklinga að upplýsingar um þessa einstaklinga verði unnar hjá Creditinfo Lánstrausti hf. Engin svör hafa borist."

Þessir tveir ráðherrar geta ekki sýnt fólki í fjárhagsvandræðum meiri fyrirlitningu og áhugaleysi um framtíðarhag þess.  Hins vegar sýnir Persónuvernd að hún stendur undir nafni, þrátt fyrir ræfildóm ráðherranna, með því að banna þessa upplýsingasöfnun um fólk sem orðið hefur verst úti vegna skuldamála sinna, því nógu erfitt verður fyrir fólkið að ná sér aftur á strik fjárhagslega, þó ekki þurfi líka að glíma við afleiðingar þess að vera á skrá Creditinfo.

Ráðherrarnir Árni Páll og Ögmundur ættu að skammast sín fyrir áhugaleysi sitt á örlögum og afkomu þessa hluta þjóðarinnar.  Reyndar hefur svo sem ekkert bólað á áhuga á afkomu annarra þjófélagsþegna heldur frá þessum ráðherrum eða ríkisstjórninni, enda ætti hún að vera farin frá fyrir löngu.

 


mbl.is Fær ekki að safna upplýsingum um greiðsluaðlögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Valur svarar Jóhönnu og Samfylkingunni fullum hálsi

Jóhanna Sigurðardóttir og Samfylkingin er í algeru ráðaleysiskasti þessa dagana vegna dóms Hæstaréttar vegna kosninganna til Stjórnlagaþings.  Skapofsi, ráðaleysi og vonbrigði Jóhönnu hafa brotist út á ýmsan hátt, t.d. með árásum á Sjálfstæðisflokkinn vegna kvótamálsins og nú síðast með svívirðingum um Vilhjálm Egilsson og Samtök atvinnulífsins vegna kröfunnar um niðurstöðu um þá fiskveiðistefnu sem gilda skuli í landinu næstu árin.

Jóhanna smánaði sjálfa sig í einu geðofsakastinu með því að láta fund í Samfylkingunni samþykkja áskorun á sjálfa sig um að skjóta því í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort taka skuli allan kvóta af öllum flotanum og láta hann svo bjóða aftur í fiskveiðiheimildirnar, án þess að útskýra hvort þau kaup eigi að vera til sex mánaða, tólf, eða jafnvel tíu ára.  Enginn getur gert út fiskiskip ef hann á ekki að hafa öruggan grundvöll undir sinni útgerð til meira en einhverra mánaða.  Öll fyrirtæki þurfa að vita við hvaða aðstæður þær muni koma til með að starfa við til einhverra ára og sést það best á sjávarútveginum, að eftir að ríkisstjórnin setti hann í herkví delluhugmynda Samfylkingarinnar um kvótann, hefur ríkt mikil óvissa innan hans og ekki verið lagt í eina einustu fjárfestingu, hvorki í skipum eða búnaði landvinnslunnar.

Meira að segja VG sér vitleysuna í hugmyndum Samfylkingarinnar og er þetta orðið enn eitt deilumálið innan ríkisstjórnarinnar, sem Jóhanna reynir að breiða yfir með ofsafengnum árásum sínum á Sjálfstæðisflokkinn, Vilhjálm Egilsson og SA.  Þegar rússneska ríkisstjórnin gagnrýndi þá kínversku, hér á árum áður, beindi hún skömmum sínum alltaf að ríkisstjórn Albaníu, sem var undir verndarvæng þeirrar kínversku, en allir vissu að gagnrýnin átti við kínverjana en ekki Albanina.  Jóhann beitir nú sömu aðferð og ræðst með offorsi á Sjálfstæðisflokkinn, þegar allir sjá og vita að hún er í raun að skamma VG.

Félagar í VG skilja alveg sneiðina, enda svarar Björn Valur Gíslason Jóhönnu fullum hálsi og segist alvanur árásum úr þeirri átt.  Einnig hafnar hann allri samstöðu með Samfylkingunni í kvótamálinu og lýsir því yfir að sú stefna myndi leiða til allsherjargjaldþrots í greininni.  Skýrar er ekki hægt að svara skapofsakonunni Jóhönnu og þar sem hún er þrjóskari en sá í neðra, verður þetta örugglega ekki endirinn á þessum deilum á milli stjórnarflokkanna.

Alvöru umræðu um kvótamálin má t.d. sjá HÉRNA


mbl.is Leiðir til gjaldþrota í sjávarútvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvótakosning, en um hvað?

Flokkstjórnarfundur Samfylkingarinnar samþykkti tillögu í dag sem á að vera einhvers konar hefnd á SA vegna afstöðu samtakanna um að ganga þurfi frá framtíðarskipan kvótamálanna áður en gengið verður frá kjarasamningum á almennum markaði.  Tillaga flokksstjórnarfundarins gengur sem sagt út á það að Jóhanna Sigurðardóttir beiti sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um að aflaheimildir verði innkallaðar á tuttugu árum og þeim síðan endurúthlutað gegn gjaldi.

Það er gott og blessað að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hin ýmsu málefni, en þá þarf að vera hægt að kjósa um a.m.k. tvo skýra kosti, en ekki eingöngu um hvort þjóðin samþykki hvaða dellu sem ríkisstjórn hverju sinni lætur sér detta í hug að skjóta til þjóðarinnar, án þess að boðið sé upp á annan valkost en einhverja óljósa tillögu, sem enginn veit hvernig á að útfæra.

Á þessu bloggi hefur verið lögð fram tillaga til breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu og hefur hún fengið ágætar undirtektir þeirra sem tjáð hafa sig um hana.  Til upprifjunar má benda á þessa tillögu, en hana má sjá HÉRNA  Væri gaman að fá um hana meiri umræður og tillögur til frekari útfærslu, en allir sjá að ef vísa á einhverju til þjóðarinnar til endanlegrar ákvörðunartöku, þá verða að vera skýrir valkostir í boði.

Samþykkt Flokkstjórnarfundar Samfylkingarinnar er gerð með haturs- og hefnigirnishuga og því algerlega ómarktæk, a.m.k. þangað til hún verður útfærð nánar og aðrir valkostir kynntir til sögunnar.


mbl.is Tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brennuvargar í stjórnarliði

Jóhanna Sigurðardóttir segir að hluti þingflokks VG sé ekkert annað en ótýndir brennuvargar, sem ættu að fara varlega með eldspýturnar.

Gallinn er bara sá að á ríkisstjórnarheimilinu er ekkert eftir óbrunnið og öll ríkisstjórnin þarf að fara að bregða búi.

Því fyrr sem hún áttar sig á því, því betra fyrir alla aðila.


mbl.is Eru að leika sér að eldinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óglæsileg framtíðarsýn

Matsfyrirtækið Moody´s varar Bandarísk yfirvöld við því að lánshæfismat Bandaríkjanna verði lækkað, taki þau ekki kröftuglega á hallarekstri landsins, sem hefur farið sívaxandi undanfarin ár og stefnir í 1.500 milljarða dollara á þessu ári.

Mörg af öflugustu hagkerfunum stefna í miklar ógöngur og má, fyrir utan Bandaríkin benda á Evrópu, sem á nú í miklu basli og útlit fyrir að evran hrynji sem gjaldmiðill á næstu misserum og Japan, en matsfyrirtækið Standard & Poor's lækkaði í gær lánshæfismat Japana, vegna hallarekstrurs landsins og olli það mikilli lækkun Jensins, sem hefur verið með allra sterkustu gjaldmiðlum undanfarin ár.

Nýti Íslendingar ekki þau tækifæri sem nú bjóðast varðandi erlenda fjárfestingu í atvinnufyrirtækjum á landinu mun þeir missa algerlega af lestinni, því innan skamms tíma verður ekki um neina erlenda fjárfesta að ræða hérlendis, því þeir munu hafa nóg með að halda sjó og verja fjárfestingar sínar frá fyrirséðu verðhruni á næstu árum.

Mestar líkur eru á því að gífurleg fjárhagsleg kreppa muni hrjá veröldina næstu tíu til tuttugu árin og verði gæsirnar ekki gripnar núna, munu þær fljúga frjálsar um langan tíma.


mbl.is Líkur á breyttu mati aukast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáheyrð tíðindi

Þau fáheyrðu tíðindi hafa nú gerst, að Landskjörstjórn hefur axlað sinn hluta ábyrgðar af klúðrinu með kosninguna til Stjórnlagaþings og nú verður að reikna með því að einhverjir embættismenn í Innanríkisráðuneytinu og nokkrir ráðherranna fylgi fordæminu fljótlega.

Ef rétt er munað var ein af niðurstöðum Rannsóknarnefndar Alþingis sú, að allt of mikil lausung hefði ríkt í stjórnkerfinu hérlendis og lög og reglur hefðu verið umgengnar með allt of mikilli léttúð með þeim afleiðingum að mikil lausatök hefðu verið í öllu kerfinu og ekki hefði verið festa og samkvæmni í afgreiðslum mála. Af öllum þeim tugum manna, sem mættu fyrir Rannsóknarnefndina til skýrslutöku, taldi enginn sig bera nokkra ábyrgð á því sem gerst hafði og engum datt í hug að segja af sér starfi eða embætti af því tilefni.

Ekki er ólíklegt að Hæstiréttur hafi einmitt tekið mið af þessari hörðu gagnrýni Rannsóknarnefndarinnar og því dæmt eftir ýtrasta bókstaf, ekki síst til að sýna það fordæmi að stjórnkerfinu sé ætlað að starfa samkvæmt lögum landsins í framtíðinni og að Hæstiréttur a.m.k. muni ekki taka neinum vettlingatökum þá sem ákærðir verða fyrir að reyna að fara með léttúð í kringum lögnin.

Mikið má þakka fyrir að Hæstiréttur skuli sýna enn og aftur að í öllu því umróti sem ríkir í þjóðfélaginu, er a.m.k. einn aðili sem rækir skyldur sínar og er haldreipið sem þjóðin getur treyst fullkomlega á til framtíðar.


mbl.is Landskjörstjórn sagði af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægri og vinstri hendur

Greinilegt er að hægri hendin veit ekki hvað sú vinstri er að gera í málefnum dómstóla landsins, því önnur veitir auknum fjármunum til að ráða fleiri dómara til dómstólanna vegna málafjöldans, sem hrúgast upp vegna bankahrunsins, en hin sker framlög til annars rekstur svo mikið niður, að ekki er hægt að ráða fleiri dómara vegna fjárskorts. 

Um þessa fáránlegu stjórnsýslu segir Símon Sigvaldason, formaður Dómstólaráðs í fréttinni:  "Þetta er mjög einkennileg staða að okkur sé gert að skera niður á sama tíma og við fáum fjárveitingar til þess að fjölga fólki. Það leiðir til þess að við getum kannski ekki ráðið í stöðurnar á þeim tíma sem við ættum, því að þó það fylgi með þeim fjármunir er verið að taka þá af okkur á öðrum stað með niðurskurði."

Það má alls ekki skera niður fjárframlögin til rannsóknaraðila og dómskerfisins á meðan að verið er að komast í gegnum að upplýsa og dæma vegna allra þeirra glæpa, sem framdir voru í aðdraganda bankahrunsins, stórra og smárra, en málin eru seinleg í vinnslu og flókin og verða að fá þann tíma og fjármagn sem til þarf.  Ekki síður þarf að hraða byggingu nýs fangelsis, enda bíða 300 manns eftir afplánun og þeim á eftir að fjölga mikið, eftir því sem dómar fara að falla vegna fjármálaglæpanna.

Íslendingar mega ekki láta það um sig spyrjast, til viðbótar við aðra skandala, að þeir tími ekki að koma glæpamönnum á bak við lás og slá.

 


mbl.is Héraðsdómur að drukkna í málum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðmæt kjörbréf með mikið söfnunargildi

Þrátt fyrir kærur til Hæstaréttar um meint ólögmæti Stjórnlagaþingskosninganna hélt Landskjörstjórn og aðrir í kerfinu áfram undirbúningi fyrir þingið, gefin voru út kjörbréf, húsnæði leigt undir þingið, ráðið starfsfólk og húsnæði undir það og með þessu var Hæstiréttur algerlega sniðgenginn og látið eins og niðurstaða hans gæti aldrei orðið nema á þann veg að blessa framkvæmdina, eða að ekkert mark yrði tekið á honum ella.

Eftir að Hæstiréttur kvað upp úrskurð sinn um ólögmæti kosninganna og þar með að enginn hefði þar með hlotið kosningu og því yrði ekkert Stjórnlagaþing haldið á grundvelli þess sex hundruð milljóna króna kostnaðar, sem bramboltið í kringum kosningarnar og fyrirhugað þinghald hafa kostað þjóðina.

Margir frambjóðendur höfðu eytt talsverðum tíma, fé og fyrirhöfn í kosningabaráttu sína og einhverjir hinna tuttuguogfimm sem héldu að þeir yrðu ráðgjafar Alþingis í stjórnarskrármálefnum næstu vikur og mánuði, höfðu gert ýmsar ráðstafanir varðandi vinnu og sumir frestað námi til að geta tekið í þessu fyrirhugaða þinghaldi.

Það eina góða fyrir þessa tuttuguogfimmmenninga er, að kjörbréfin sem gefin höfðu verið út og þeim afhent vegna þingsins og eru nú orðin ógild, verða verðmætir minjagripir í framtíðinni, því fjöldi manna vítt og breitt um heiminn verður vafalaust reiðubúinn til að greiða stórfé fyrir þessi einstöku og sjaldgæfu bréf, sem vitna um mesta kosningaklúður á vesturlöndum í samanlagðri sögu lýðræðis og almennra kosninga.

Nú er eins gott að kjörbréfin hafi ekki verið brotin saman, en hafi það verið gert er rétt að strauja þau strax og koma þeim í þjófhelda geymslu, því söfnunargildi þeirra er mikið og þau munu ekkert gera í framtíðinni annað en að verða sífellt verðmeiri.


mbl.is Útsend kjörbréf teljast ógild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna skuldar afsökunarbeiðni

Jóhanna Sigurðardóttir gerði vægast sagt lítið úr gildi þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave og taldi hana óþarfa og marklausa, enda væri hún þegar farin að huga að nýjum samningi, sem yrði betri en sá gamli. 

Yfir 63% kjósenda mættu samt sem áður á kjörstað og 98% þeirra hafnaði algerlega að þjóðin tæki á sig skattaþrældóm fyrir Breta og Hollendinga til næstu áratuga.  Jóhanna og ríkisstjórnin gerði ekkert með þá skýlausu yfirlýsingu þjóðarinnar og hélt bara áfram að fela fjárkúgunarkröfuna í nýjan búning með þann staðfasta vilja í farteskinu að selja þjóð sína í erlenda ánauð og nú liggur aftur fyrir Alþingi að fjalla um nýjan þrælasamning.

Í tilefni af því að Hæstiréttur dæmdi Stjórnarskrárþingskosningarnar ógildar vegna lélegrar lagasetningar og framkvæmdar á kosningunni, sagði Jóhanna að ekki mætti svíkja þjóðina um Stjórnarskrárþingið, svo sárt hefði þjóðin grátbeðið um slíkt þing, þó hún léti þess ekki getið hvar sú heita ósk hafi komið fram.  Að minnsta kosti kom hún ekki fram í kosningunni til þingsins, þar sem aðeins 32% kjósenda höfðu fyrir því að mæta á kjörstað, en 68% sátu heima, algerlega áhugalaus um þetta þinghald og hverjir myndu þar sitja og smíða tillögur til Alþingis um nýja stjórnarskrá.

Jóhanna skuldar kjósendum afsökunarbeiðni fyrir að hafa vélað þá á kjörstað og nánast haft þá að fíflum og niðurlægt einn helgasta rétt fólks í lýðræðisríki, þ.e. kosningaréttinn. Hún skuldar frambjóðendunum 523 afsökunarbeiðni fyrir að hafa vélað þá til að gefa kost á sér til Stjórnlagaþings og hafa búið svo illa um hnútana að þeirra helgi réttur til framboðs hafi verið smánaður með lélegum lögum og enn verri undirbúningi þeirra kosninga, sem frambjóðendurnir eyddu tíma, fé og fyrirhöfn til þess að taka þátt í. 

Jóhann skuldar þeim 25 einstaklingum sem efstir urðu í kosningunum afsökunarbeiðni fyrir að telja þeim trú um að þeir væru löglega kjörnir þingfulltrúar á Stjórnlagaþingi og hefðu þar með umboð kjósenda til að undirbúa og samþykkja tillögur að nýrri stjórnarskrá til Alþingis og að hafa fengið ólögleg kjörbréf í hendurnar þar um.

Jóhann skuldar öllum framangreindum aðilum afsökunabeiðni fyrir að hafa látið halda áfram við undirbúning stjórnlagaþingsins, leigu á húsnæði og ráðningu starfsfólks eftir að kosningarnar voru kærðar til Hæstaréttar og þar með lítilsvirt æðsta dómstól landsins, með því að gefa í skyn að niðurstaða hans myndi engu máli skipta fyrir framgang málsins. 

Jóhanna skuldar afsökunarbeiðni fyrir að vera ekki búin að panta viðtal við forsetann, þar sem hún myndi biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt og gefa út yfirlýsingu um kjördag vegna nýrra Alþingiskosninga.

 


mbl.is Fyrirkomulagið var ekki lýðum ljóst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband