Bloggfærslur mánaðarins, september 2017

Eru umsagnir "valinkunnra manna" ekki allar af sama toga?

Vegna afgreiðslu erinda um "uppreist æru" hefur verið farið fram á umsagnir þriggja "valinkunnra manna" um skikkanlega hegðun viðkomandi glæpamanns eftir afplánun fangelsisvistar, oftast í a.m.k. fimm ár eftir tugthússvistina.

Umsagnir þessara "valinkunnu" eru ekki réttlæting af neinu tagi á verknaði glæpamannanna, né ábyrgð á því hvernig þessir menn muni haga sér til framtíðar, en vottunin snýr eingöngu að því að lýsa eftir bestu vitun um óaðfinnanlega hegðun á undangengnum árum, að viðkomandi hafi tekið á sínum málum og jafnvel verið duglegir og samviskusamir í vinnu.

Allt ferlið er hugsað sem aðstoð við viðkomandi afturbataglæpamann að verða virkur í samfélaginu á ný, enda ávallt talað um að fangelsun eigi ekki eingöngu að vera refsins heldur betrun afbrotamannsins.  Sem sagt allt á að snúast um að endurhæfa viðkomandi og gera hann á ný að nýtilegum borgara í þjóðfélaginu, þó það sé fyrst og fremst í hans eigin höndum að vinna sér traust samborgaranna aftur.

Allt væri þetta auðskiljanlegt ef ekki hefði upp á síðkastið nánast verið glæpavætt að hafa skrifað slíkar umsagnir um fyrrum glæpamenn og jafnvel reynt að gera einstaka stjórnmálaflokka ábyrga fyrir þeim glæp umsagnaraðilanna að hafa viljað taka þátt í að aðstoða afturbataglæpamenn í ferli þeirra til að betrumbæta líf sitt.

Það undarlega við umræðuna í þjóðfélaginu er að svo virðist sem hinir "valinkunnu" fái misjafna meðhöndlun eftir því hvaða stjórnmálaflokk þeir hafi stutt samkvæmt áliti þeirra sem mest fjalla um málin á samfélagsmiðlunum.

Það virðist sem sagt annað gilda um umsagnir Tolla Mortens en Benedikts Sveinssonar, þó enginn efnislegur munur sé á umsögnum þeirra og báðir að vitna um breytta hegðun manna sem höfðu afplánað fangelsisdóm fyrir viðurstyggilega glæpi.


mbl.is Gögn aftur til 1995 afhent
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Syndir feðranna......

Björt framtíð hefur fundið sér tilefni til að hlaupa frá ríkisstórnarsamstarfi, sem flokkurinn hefur aldrei verið fær um að axla.  

Tilefnið sem flokkurinn nýtir er að fram hefur komið að faðir forsætisráðherra var einn "valinkunnra" manna sem vitnaði um að kynferðisafbrotamaður sem aplánað hafði sinn dóm hefði hagað sér skikkanlega, eftir því sem hann best vissi, eftir tugthússvistina.

Í allt sumar hefur verið mikil umræða í þjóðfélaginu um úrelt lög um "uppreist æru" glæpamanna ákveðnum árum eftir afplánun og vélræna afgreiðslu ráðuneytisins slíkra mála.  Fram að þeim tíma hafði þessum málum verið lítill gaumur gefinn í þjóðfélaginu, enda sami háttur verið hafður á slíkum málum áratugum saman og öll mál afgreidd á sama hátt, hver sem í hlut átti.

Eftir að umræðan fór af stað í sumar jókst krafa um að upplýst væri hverjir þessir "valinkunnu" menn væru í því máli sem hæst bar í umræðunni á þeim tíma.  Ráðuneytið taldi sig ekki geta upplýst um þessi mál, fyrr en eftir að kærunefnd upplýsingamála hefði lagt blessun sína yfir hvaða upplýsingar mætti veita vegna svona mála.  

Af einhverjum ástæðum stigu hinir "valinkunnu" ekki fram og einfaldlega skýrðu frá sinni aðkomu að málunum, enda fyrst og fremst um umsagnir um hegðun brotamannanna eftir afplánun að ræða. Hefðu hinir "valinkunnu" einfaldlega stigið fram er ólíklegt að umræðan um þeirra að komu hefði orðið eins og hún varð, með allri þeirri heift, stóryrðum og dylgjum og raunin varð.

Nú er komið í ljós að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna forsætisráðherra, var einn hinna "valinkunnu" vegna umsóknar kynferðisglæpamanns um "uppreist æru" og í fyrsta lagi er fuðulegt að hann skuli hafa lagt nafn sitt við slíka umsókn vegna stöðu sonarins og ekki síður að hann skuli þá ekki hafa stigið fram strax í sumar og birt það afsökunarbréf sem hann hefur nú sent frá sér.

Meðmæli föðurins hefur nú orðið til þess að Björt framtíð hefur gripið það sem hálmstrá til að slíta ríkisstjórninni.  

Þar með sannast enn og aftur að "syndir" feðranna bitna á börnum þeirra, eins óverðskuldað og það er nú alla jafna.


mbl.is Slíta samstarfi við ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósvífin skattahækkanaáform fjármálaráðherra

Með fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra fyrir árið 2018 eru boðaðar svívirðilegar skattahækkanir á mörgum sviðum, t.d. hækkun skatta á áfegni og tóbak og ótrúlega bíræfnar hækkanir á bifreiðasköttum, sem þó er alls ekki ætlað að renna til vegaframkvæmda.

Óli Björn Kárason og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lýst efasemdum um að meirihluti sé á þinginu fyrir þessum skattahækkunum og verður að treysta því að þeir berjist með oddi og egg gegn þessum ófyrirleitnu áformum fjármálaráðherrans.

Stjórnarandstöðunni finnst aldrei nóg að gert varðandi skattahækkanir og því er alls ekki ótrúlegt að hún sameinist um að styðja fjármálaráðherrann í þessu efni og þannig kæmi ráðherrann álögunum í gegn um þingið í óþökk meirihluta þjóðarinnar og vonandi þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Kæmi þessi staða upp í þinginu væri ríkisstjórnin auðvitað fallin og í framhaldinu yrði þá vonandi boðaða til nýrra kosninga, þó hugsanlegur möguleiki yrði á nýrri vinstri stjórn undir forsæti VG með þátttöku allra flokka á Alþingi, annarra en Sjálfstæðisflokksins.  

Stjórnarslit, frekar en skattahækkanir, er sá möguleiki sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins verða að velja til að standa undir stefnu flokksins og væntingum kjósenda flokksins.  Þar er ekki hægt að semja um neina afslætti, aðra en afslætti á núverandi skattlagningu, þ.e. með lækkun skatta í stað hækkunar.

Framundan eru kjarasamningar og með tekjuskattsinnheimtu sinni mun ríkissjóður gleypa hátt í fjörutíu prósent þeirra launahækkana sem um semjast til handa launþegum.  Sá tekjuauki ríkisins hlýtur og verður að duga óseðjandi fíkn stjórmálamanna í aukna hlutdeild í ráðstöfunartekjur almennings.

Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki látið þessar hótanir um skattahækkanir yfir sig ganga án harkalegrar mótspyrnu.


mbl.is Eru efins um þingmeirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Læra þarf af reynslunni vegna straums hælisleitenda

Fyrir tæpum tveim árum greip Alþingi fram fyrir hendur þeirra stjórnsýslustofnana sem með framkvæmd málenfna hælisleitenda fara og samþykkti að veita tveim albönskum fjölskyldum ríkisborgararétt, sem áður hafði verið synjað um landvist.  

Núna hafa einstakir þingmenn lýst því yfir að þeir ætli að leggja fram frumvarp til laga um að veita tveim fjölskyldum ríkisborgararétt vegna þess að þær falla ekki innan ramma laga og reglna um skilyrði til landvistar.

Fljótfærni Alþingis, sem auðvitað byggðist á vorkunn með bágum aðstæðum viðkomandi fjölskyldna, hafði það í för með sér að straumur "hælisleitenda" frá Albaníu, Rúmeníu, Makedóníu og jafnvel fleiri löndum margfaldaðist, enda flaug fiskisagan fljótt um þessi lönd af þessum ótrúlegu viðbrögðum löggjafaþingsins sem auðvitað hafa hvergi verið leikin eftir í veröldinni svo vitað sé.

Allir geta verið sammála um að þeir einstaklingar, sem mikið hefur verið fjallað um upp á síðkastið, séu alls góðs maklegir, en ótrúlegt er að hlusta á og lesa um að Þýskaland sé svo mannfjaldsamlegt land að þangað sé ekki óhætt að senda nokkurn mann, jafnvel þó hann hafi áður verið búinn að sækja þar um landvist.

Afar áríðandi er að um þessi mál séu skýr lög og reglugerðir um framkvæmd þeirra, samræmi sé í afgreiðslu stjórnsýslunnar og ekki sé sköpuð hætta á fordæmum sem jafnvel margfaldi fjölda hælisleitenda til landsins, sem þó er ærinn nú þegar og að verða óviðráðanlegur.


mbl.is Verður að ganga jafnt yfir alla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband