Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Besti flokkurinn er bull og "brandarinn" búinn

Jón Gnarr lýsti því yfir í morgun að Besti flokkurinn væri bara bull og hefði í raun aldrei verið til.  Einnig lýsti hann því yfir, sem allir vissu fyrir, að hann sjálfur væri enginn stjórnmálamaður og myndi því ekki gefa kost á sér aftur í borgarstjórnarkosningum.

Jón Gnarr hefur í raun aldrei verið borgarstjóri, heldur fyrst og fremst gínari á borgarstjóralaunum og hefur tekist að draga ótrúlega stóran hóp borgarbúa á asnaeyrunum allt kjörtímabilið eins og skoðanakannanir hafa ítrekað sýnt.

Borgarstjórnarþátttaka Besta flokksins hefur verið einn stór og misheppnaður brandari sem loksins virðist vera farið að sjá fyrir endann á.  

Vonandi færist stjórn borgarinnar í eðlilegt horf eftir kosningarnar á voi komanda. 


mbl.is Jón í sjónvarpsefni um pólitík?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið spari og skeri niður, nema bara ekki hjá mér og mínum

Allir virðast sammála um að forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar eigi að vera að endurreisa heilbrigðiskerfið, sem komið er fram af bjargbrúninni fjárhags- og rekstrarlega eftir "forgangsröðun" vinstri stjórnarinnar síðast liðin fjögur ár.  

Þrátt fyrir þennan meinta einhug um aukin fjárframlög til velferðar- og heilbrigðismálanna vill ekki einn einasti aðili láta spara í sínum málaflokki og láta til dæmis listamenn öllum illum látum vegna þess að fjárframlög næsta árs skuli vera hugsuð á svipuðum nótum og þau voru áður en Þráinn Bertelsson seldi stuðning sinn við ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. gegn því gjaldi að styrkir til kvikmyndagerðar yrðu hækkaðir verulega.

Sama er að segja um alla aðra málaflokka, talsmenn þeirra mótmæla harðlega öllum sparnaði sem viðkomandi þyrfti að taka á í sínum ranni, en þykir eðlilegt og sjálfsagt að sparað sé og skorið niður hjá öðrum.

Ekki poppar upp í minninu að þessir aðilar hafi mótmælt því að öryrkjar og aldraðir hafi verið skertir um milljarða króna á síðasta kjörtímabili til þess að hægt væri að hækka framlög til annarra, t.d. til ýmissa menningarmála og listamannalauna.

Ríkissjóður verður að forgangsraða og á meðan fjármunir eru af skornum skammti verða ýmsir málaflokkar, sem ekki teljast nánast lífsnauðsynlegir, að þreyja þorrann og bíða betri tíma sem mun koma með blóm í haga. 


mbl.is Misráðið að skera niður í menningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðvörunarbúnað í alla síma

Hleranir Bandaríkjamanna á símum þjóðarleiðtoga og almennings um allan heim hafa verið að komast á almennaviðhorf undanfarið vegna uppljóstrana Snowdens, fyrrum verktaka hjá bandarísku þjóðaröryggisstofnuninni, og hefur umfangið algerlega ofboðið siðferðiskennd fólks og þá ekki einungis í þeim löndum sem fyrir hafa orðið svo vitað sé.

Ekki þarf að láta sér detta annað í hug en að allar aðrar tæknivæddar þjóðir stundi slíkar njósnir og það eina sem hugsanlega takmarki þeirra njósnir sé að þeirra leyniþjónustur séu skemmra á veg komnar tæknilega en þær bandarísku.  Njósnir hafa verið stundaðar frá örófi alda og enginn skal láta sér detta í hug að þeim hafi nokkurn tíma verið hætt af einni einustu þjóð, sem þær hafi einhvern tíma stundað, heldur þvert á móti aukist eftir því sem tæknibúnaður hefur þróast og orðið fullkomnari.

Nú berast hins vegar fréttir af því að brátt verði hægt að fylgjast með því hver er að njósna um netnotkun manns í rauntíma, samanber þessa frétt á DV vefnum, sem vonandi er marktækari en margar aðrar á þeim slóðum:  http://www.dv.is/frettir/2013/10/26/bratt-haegt-ad-fylgjast-med-hver-er-ad-fylgjast-med-ther-netinu/

Slíkt "varnarforrit" hlýtur að koma í alla nýja síma fljótlega og þar með verða net- og símanjósnir vonandi úr sögunni.  Gallinn við slíkt er auðvitað að þar með verður ekki hægt að njósna um glæpagengi og hryðjuverkasamtök, en þegar yfirvöld ganga of langt í yfirgangi sínum gagnvart allt og öllu í umhverfinu verða þau að reikna með því að gripið verði til varna og mótaðgerða.

Vonandi verða fréttirnar af þessum siðlausu hlerunum og njósnum til þess að þær varnir sem gripið verði til losi heiminn endanlega við a.m.k. þessa tegund eftirlits með orðum og gerðum almennings. 


mbl.is Hafa hlerað síma Merkel í 11 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíðkast dýraníð virkilega við tamningar á Íslandi?

Í annað sinn á stuttum tíma berast fréttir af misþyrmingum hrossa við tamningu þeirra og í báðum tilfellum er framferðið afsakað með því að um "hefðbundnar tamningaaðferðir" sé að ræða.

Varla er hægt að trúa því að hestamönnum þyki sjálfsagt að kvelja hross og pína við tamningar og gera skepnurnar sér undirgefnar af skelfingu um að annars verði kvölunum fram haldið.

Opinberar stofnanir tala oftar en ekki undir rós og nota torskilið stofnanamál í þeim ályktunum sem þær senda frá sér, en Matvælastofnun tala óvenjuskýrt um þann níðingsskap við tamningar sem hún tók til skoðunar þegar hún segir:  "Það er niðurstaða Matvælastofnunar að tamningaraðferð þessi byggi á grófri valdbeitingu sem ekki er ásættanleg út frá sjónarmiði dýravelferðar. Aðrar mildari aðferðir eru enda vel þekktar til að ná sama markmiði við tamningar."

Dýraníð á hvergi að tíðkast né líðast og furðulegt að slíkum hrottaskap skuli beitt við tamningar hrossa á Íslandi á tuttugustuogfyrstu öldinni.  Slíkt hefði maður haldið að heyrði til myrkra miðalda en ekki nútíma. 


mbl.is Trippið barðist um í 45 mínútur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhjákvæmileg vernd lögreglu við framkvæmdir

Burtséð frá því hvað fólki finnst um vegalagninguna um Garðahraun, þá hefur framkvæmdin farið sína leið um kerfið, þ.e. skipulagsyfirvöld, umsagnaferli og umræðu sveitarstjórnar.  

Eftir að verkefni hefur fengið slíkt samþykki verður fólk að sætta sig við niðurstöðuna, þó hún gangi þvert á skoðanir þess enda eðli lýðræðisins að sumir verða að lúta í lægra haldi með sínar tilfinningar endrum og sinnum.

Fámennur hópur fólks má ekki komast upp með að stöðva framkvæmdir sem uppfyllt hafa skilyrði laga og reglna þjóðfélagsins, enda væri þá stutt í algert stjórnleysi í landinu ef slíkt yrði látið viðgangast.

Í því samhengi skiptir engu máli hvaða fólk á í hlut, hvorki hvað það heitir eða hver staða þess er í þjóðfélaginu að öðru leyti. 


mbl.is Öllum verið sleppt úr haldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, utanríkisráðherra

Já, ráðherra voru geysivinsælir grínþættir í sjónvarpi fyrir allmörgum árum og lýstu vel hvernig embættismenn breskra ráðuneyta sáu til þess að ráðherrum tækist ekki að gera neinar breytingar í ráðuneytum sínum og allra síst ef þær kölluðu á ný og skilvirkari vinnubrögð starfsmannanna.

Þó þættirnir hafi verið breskir endurspegluðu þeir vinnubrögð ráðuneytisstarfsmanna víðast hvar og eitt stórkostlegt dæmi um sannleikann á bak við þessa þætti er hinn nýji utanríkisráðherra Íslands, sem virðist hafa látið ráðuneytisstarfsmennina telja sér trú um að hlegið sé að íslensku utanríkisþjónustunni  erlendis vegna mannfæðar hennar og lágra fjárveitinga til starfseminnar.

Það er þyngra en tárum tekur að horfa upp á ráðherra gera jafn lítið úr sjálfum sér og Gunnar Bragi hefur gert með því að sýna alþjóð hversu auðveldlega starfsmenn utanríkisráðuneytisins plötuðu hann upp úr skónum og létu hann gera lítið úr sjálfum sér opinberlega með ummælum sínum. 


mbl.is Verður að forgangsraða eins og aðrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fresta tekjuskattslækkun - upphæðina í heilbrigðiskerfið

Viðskilnaður vinstri stjórnarinnar við heilbrigðiskerfið í landinu  er svo skelfilegur að í málaflokknum ríkir nú algert neyðarástand og kerfið í raun að hruni komið.

Tækjakostur Landspítalans er meira og minna úr sér genginn og úreltur og sú sáralitla endurnýjun tækja sem átt hefur sér stað á undanförnum árum hefur komið frá ýmsum félagasamtökum eftir fjársafnanir meðal þjóðarinnar.

Ný ríkisstjórn hefur boðað að miðþrep tekjuskatts einstaklinga skuli lækkað um 0,8% og spara launþegum þannig um fimm milljarða króna á næsta ári.  Vinstri stjórnin var nánast skattaóð og hækkaði alla skatta sem hægt var að hækka og bætti við nýjum svo lengi sem hugmyndaflugið dugði til.

Þrátt fyrir að þjóðin sé orðin fullsödd af skattaáþján vinstri stjórnarinnar verður hreinlega að fresta fyrirhugaðri tekjuskattslækkun um eitt ár og láta fimm milljarðana renna til heilbrigðiskerfisins, en með því móti væri hægt að bjarga því frá hruninu sem annars er stórhætta á að verði.

Ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks lofaði skattalækkunum á almenning og atvinnulíf.  Henni verður fyrirgefið þó lækkuninni yrði frestað um eitt ár vegna neyðarinnar sem vinstri stjórnin skildi eftir sig. 

 


mbl.is Öll myndgreiningartæki LSH biluð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr þarf að kynna sér afstöðu borgarbúa

"Ég hvet fólk til að kynna sér málið frá öllum hliðum áður en það tekur afstöðu," segir borgarstjóri í viðtali við Kjarnann og er þá að ræða um Reykjavíkurflugvöll.  Fá mál, ef nokkurt, hefur verið meira í umræðu manna á milli undanfarna mánuði og Reykjavíkurflugvöllur, staðsetning hans nú og í framtíðinni.

Nýbúið er að afhenda borgaryfirvöldum mótmæli tæplega sjötíuþúsund landsmanna við þeim skipulagstillögum að flugvöllurinn verði afmáður í Vatnsmýrinni og byggðar íbúðir þar í staðinn.  Því er haldið fram að enginn sem þar myndi  búa þyrfti að eiga bíl og allir myndu ganga eða hjóla í vinnuna.  Líklega er þá reiknað með að hver einasti íbúi svæðisins myndi vinna á Landspítalanum, því tilhneygingin er ávallt sú að helstu framleiðslu- og þjónustufyrirtæki, færist í útjaðra borgarinnar.

Benda má á efri byggðir í austurhluta borgarinnar því til sönnunar og líklegt að á næstu áratugum færist fyrirtækin sem þar eru enn lengra frá miðkjarnanum og íbúðabyggð rísi þar í staðinn.  Segja má að sú þróun sé þegar hafin, þar sem mikið af ósamþykktum íbúðum eru nú þegar í þessum iðnaðarhverfum og margt af atvinnuhúsnæðinu byrjað að drabbast niður.

Jón Gnarr Kristinsson, borgarstjóri, þyrfti að kanna betur hver hugur borgarbúa til flugvallarins er, en í síðustu skoðanakönnun kom fram að 72% Reykvíkinga vill hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni áfram.  

Þó ekki væri af öðrum ástæðun en efnahagslegum ætti ekki að vera að ræða um flutning vallarins núna, því  hvorki Reykjavíkurborg né ríkissjóður hefur efni á því næstu áratugi að flytja hann eitt eða neitt.


mbl.is „Ljóst að flugvöllurinn þarf að fara“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. rausnarlegur við hrægammana

Frá ársbyrjun 2009 og fram á mitt ár 2013 hafa nýju bankarnir hagnast um 5,7 milljónir króna á hverri einustu klukkustund, eða samtals um 223,4 milljarða króna.  Þetta verður að teljast lygilegur hagnaður á krepputímum og ólíklegt að nokkurs staðar þekkist annar eins gróði og þetta í löglegum viðskiptum a.m.k.

Steingrímur J. og félagar í fráfarandi ríkisstjórn afhentu hrægömmunum, eigendum gömlu bankanna, Aríon- og Íslandsbanka nánast á silfurfati á árinu 2009 og síðan hafa bankarnir tveir skilað eigendum sínum 150 milljarða króna hagnaði.  Það er upphæð sem slagar upp í þá sem ætlað er að hafa af hrægammasjóðunum til að lækka verðtryggð íbúðalán vegna verðbólguskotsins sem skall yfir í aðdraganda og kjölfar bankahrunsins.

Ekki verður annað sagt en að Steingrímur J. og félagar hafi verið einstaklega rausnarlegir í samskiptum sínum við hrægammana.  Það er sama fólkið og nú lætur eins og það hafi efni á að gagnrýna nýja ríkisstjórn fyrir heinnar fyrsta fjárlagafrumvarp, sem aðeins hefur haft rúma þrjá mánuði til að vinna í ríkisfjármálunum.

Það er eins með ríkissjóð og risaolíuskip. Því verður ekki snúið á siglingu nema með góðum fyrirvara og á talsverðum tíma.


mbl.is Sex milljónir á klukkustund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flest jákvætt í fjárlagafrumvarpi, þó ekki allt

Við fyrstu sýn á fjárlagafrumvarpið, þ.e. það sem heyrst hefur og sést í fjölmiðlum síðasta klukkutímann eða svo, virðist flest vera þar jákvætt í þeirri erfiðu stöðu sem við er að glíma í efnahagsmálunum en a.m.k. eitt atriði virkar afar neikvætt.

Útvíkkun og hækkun bankaskatts er ágæt aðgerð en innlagnargjald á sjúkrahúsum er afar neikvæð "nýjung" og á þar að auki ekki að skila svo miklum tekjuauka til spítalanna að hægt sé að réttlæta þennan "sjúklingaskatt".

Innlagnargjaldið virðist aðeins eiga að skila fjögurhundruðmilljónum króna í viðbótartekjum og er það engan vegninn réttlætanlegt að bæta slíkum skatti á veikustu sjúklingana, því enginn leggst inn á sjúkrahús að gamni sínu eða að eigin frumkvæði.

Nær væri að fresta lækkun miðþreps tekjuskattsins, en það myndi auka tekjur ríkissjóðs á næsta ári um tæpa sex milljarða króna.  Þá upphæð óskerta mætti láta renna í heilbrigðiskerfið og afar líklegt verður að telja að skattgreiðendur myndu sætta sig við frestun skattalækkunarinnar því allir vilja halda heilbrigðiskerfinu sem öflugustu.

Í þessu tilfelli mundu skattgreiðendur sætta sig við eigin skatta en ekki eingöngu krefjast skattahækkana á alla aðra en sjálfa sig. 


mbl.is Hækka bankaskatt um 11,3 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband