Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Lausn fyrir ESB eða Ísland?

Joe Borg, sjávarútvegsstjóri í framkvæmdastjórn ESB, segist viss um að ásættanleg lausn fyndist í sjávarútvegsmálum, ef Ísland sækti um aðild að ESB.  Þessu slær mbl.is upp, eins og þar með sé komin staðfesting á að enginn hætta sé á að Íslendingar missi yfirráð yfir sjávarauðlindum sínum.  Hvað héldu menn að Joe Borg myndi segja?  Dettur einhverjum í hug að hann myndi segjast vera afar efins um að lausn fyndist?  Auðvitað gat hann ekki sagt neitt annað.

Í fréttinni segir einnig:  "Þetta kom fram á blaðamannafundi, þar sem Borg kynnti skýrslu, svonefnda grænbók, um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Þar kom m.a. fram að níu af hverjum 10 fiskistofnum í lögsögu bandalagsins væru ofveiddir. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er að skoða hvort taka eigi upp frjálst framsal á veiðikvótum að íslenskri fyrirmynd og vísaði Borg til þess á blaðamannafundinum." 

Gæfuleg sjávarútvegsstefna þetta hjá ESB, eða hitt þó heldur.  Framkvæmdastjórnin er að skoða hvort taka eigi upp frjálst framsal á kvótum að íslenskri fyrirmynd.  Íslenska ríkisstjórnin er að skoða að afnema frjálsa framsalið, þannig að sennilega fylgist Joe Borg ekki vel með væntanlegum viðsemjendum sínum, eða vinstri menn á Íslandi viti ekkert hvað er að gerast innan ESB.  Reyndar ganga allar breytingar innan ESB á hraða snigilsins, svo ekki þarf að reikna með að neitt gertist í þessum efnum á næstu árum og þá verða allir fiskistofnar ESB væntanlega útdauðir.

Svo klikkir Joe Borg út með þessu:  "... mun landið finna í framkvæmdastjórninni samningsaðila sem er reiðubúinn til að ræða með mjög jákvæðum hætti hvort hægt sé að finna lausn sem tryggir að framtíð íslenskra sjómanna verði svipuð og þeir hafa haft það til þessa, en það yrði að vera innan marka sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar."

Lykilatriðið í þessu er niðurlag setningarinnar sem kemur á eftir orðinu en.  Það verður ekkert samið við Íslendinga nema á grundvelli sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB.

Hvað ætli ESB sinnar skilji ekki í þessari einföldu setningu?


mbl.is Viss um að lausn fyndist á sjávarútvegsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útflutningstekjur þjóðarinnar

Í kjölfarið á hruni banka- og útrásarævintýra er þjóðin að verða ónæm fyrir þeim upphæðum, sem menn leyfðu sér að spila með í þeirri óráðsíu allri.  Allar upphæðir sem talað er um, nema hundruðum eða þúsundum milljarða og er skemmst að minnast, að innstu koppar í búri Kaupþings lánuðu sjálfum sér fimm hundruð milljarða króna rétt fyrir bankahrunið.

Með hliðsjón af þeim glæfraskap (eða glæpamennsku) sem viðgekkst í útrásarkerfinu, er fróðlegt að skoða þær upphæðir, sem útflutningsatvinnuvegirnir eru að skapa þjóðinni, eða eins og segir í fréttinni: 

"Fyrstu þrjá mánuðina 2009 voru fluttar út vörur fyrir 100,7 milljarða króna en inn fyrir 86,1 milljarð króna. Afgangur var því á vöruskiptunum við útlönd, reiknað á fob verðmæti, sem nam 14,6 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau óhagstæð um 37,5 milljarða á sama gengi. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 52,1 milljarði króna hagstæðari en á sama tíma árið áður." 

Þessir 14,6 milljarðar króna, sem gjaldeyrisafganginum nemur, eiga að duga til að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum þjóðarbúsins.  Þetta dugar ekki einu sinni til að endurgreiða bruðl þjóðarinnar fyrstu þrjá mánuði síðasta árs, ekki einu sinni vextina af eyðslufylleríi síðustu ára.  Erlendar skuldir bankanna og útrásarvíkinganna verða aldrei greiddar, þar sem þær sitja eftir í gömlu bönkunum og erlendir lánadrottnar munu tapa þeim að verulegu leyti.

Þessir erlendu lánadrottnar eru stórir bankar og fjármálastofnanir um allan heim og þeir munu ekkert gleyma þessum lánum og hverrar þjóðar lántakendurnir voru, sem hlupu frá skuldum sínum.

Útrásarvíkingunum mun ekki duga að skipta bara um jakkaföt til að öðlast traust aftur og Íslendingum mun ekki heldur takast að skapa sér nýtt lánstraust, eingöngu með því að skipta um nafn á gjaldmiðlinum.

Það mun taka að minnst kosti tíu ár að skapa nýtt traust á Íslandi, sem viðskiptalandi og þangað til verða menn að sætta sig við að lifa á eigin aflafé, því "lánærin" eru liðin tíð.


mbl.is Vöruskiptin hagstæð í mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxtaokrinu verður að linna

Fyrir þrem vikum var bloggað hér um óheyrilega raunvexti, en þá var verið að miða við að verðbólga innan ársins yrði innan við 5%.   Líklega mun verðbólgan hjaðna hraðar en þar var gert ráð fyrir, því samkvæmt nýjustu útreikningum Hagstofunnar jafngildir núverandi verðbólga, reiknuð til næstu tólf mánaða, aðeins 1,4% á ári, eða eins og segir í fréttinni: 

"Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,4% sem jafngildir 1,4% verðbólgu á ári"

Vægast sagt, er afar villandi að birta alltaf verðbólgutölur fyrir tólf mánuði aftur í tímann, því það er ekki sú verðbólga sem skiptir öllu máli nú eða í framtíðinni.  Stýrivextir eru nú 15,5% og sjá þá allir þvílíkir okurvextir þetta eru, eða 14% raunvextir.  Slíkt vaxtaokur þekkist hvergi í veröldinni og allir seðlabankar heimsins keppast við að lækka sína vexti, til að örva atvinnulífið í heimalöndum sínum.

Peningastefnunefnd, norski förusveinninn, fjármálaráðherrann og ríkisstjórnin öll virðist vera algerlega úr takti við raunveruleikann og vinstri flokkarnir eyða nú tímanum í karp um einskisverða hluti í stjórnarmyndunarviðræðunum.

Þessu vaxtaokri verður að linna og ríkistjórnarflokkarnir og seðlabankinn þurfa að fara að vakna.


mbl.is Verðbólgan nú 11,9%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurtekið efni

Það er leiðigjarnt að vera sífellt að staglast á sömu hlutunum, en stundum verður ekki hjá því komist og vonandi lítur það ekki út eins og þráhyggja.  Þráhyggja er einmitt það sem helst kemur upp í hugann, þegar fylgst er með Smáflokkafylkingunni og öðrum fylgjendum ESB aðildar hérlendis.

Þegar venjuleg rök fyrir aðild að ESB gengu ekki í þjóðina, var áróðrinum beint gegn krónunni og hún sögð ónýtur gjaldmiðill, vegna þess að útlendingar treystu henni ekki og hún væri ekki gjaldgeng lengur í alþjóðaviðskiptum.  Þetta er auðvitað tóm vitleysa, enda hefur utanríkisverslun íslendinga aldrei byggst á krónunni, heldur hefur allur út- og innflutningur verið greiddur með erlendum gjaldeyri.  Ísland komst í hóp ríkustu þjóða veraldar með krónuna sem gjaldmiðil og verðbólga og önnur hagstjórnarvandamál í gegnum tíðina hafa ekki verið krónunni að kenna, og reyndar engum dottið í hug að kenna henni um, fyrr en ESB sinnar fundu upp á því fyrir þrem árum síðan, eða svo.

Það sem hins vegar er lítið talað um í sambandi við ESB er fullveldisafsalið.  Smáflokkafylkingin heldur ekki mikið á lofti eftirfarandi klausu úr samþykktum sínum um ESB:

 “Hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið strax eftir kosningar og bera samninginn undir þjóðaratkvæði. Setja í stjórnarskrá ákvæði sem heimilar að fullveldi sé deilt með yfirþjóðlegum stofnunum og alþjóðastofnunum samkvæmt ákvörðun Alþingis. Slík ákvörðun tekur því aðeins gildi að sé staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu"

Enn berast tíðindi frá ESB og Evrulandi um kreppuna, sem ekki stafar af óstjórn Sjálfstæðisflokksins eins og sumir vilja vera láta.  Nú síðast frá Írlandi: 

"Írsk sérfræðingastofnun segir, að yfirvofandi niðursveifla í írsku efnahagslífi gæti orðið sú mesta, sem um getur hjá iðnvæddu ríki frá því kreppan mikla reið yfir fyrir sjö áratugum. Reiknað er með samdrætti í írska hagkerfinu til ársins 2010."

ESB sinnar skulda ennþá skýringu á því, hvernig ESB og Evran eiga að bjarga Íslandi.


mbl.is Mesta niðursveifla frá kreppunni miklu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrkur af ESB?

Á Íslandi varð nánast kerfishrun í október 2008, eins og allir vita og með þeim afleiðingum, sem alkunnar eru.  Atvinnuleysi er orðið svo mikið (8,3%) að Íslendingar þekkja varla annað eins og búist er við 10% samdrætti í þjóðarframleiðslu á árinu 2009.  Einn stjórnmálaflokkur og einstaklingar í fleiri flokkum, hafa haldið þeirri firru að þjóðinni að innganga í ESB væri eina von þjóðarinnar til þess að komast út úr þessari kreppu, því aðildin væri öruggt skjól fyrir fjárhagslegum áföllum.

Hins vegar skýtur skökku við, að sífellt berast fréttir af fleiri og fleiri löndum innan ESB, sem sökkva dýpra og dýpra í fjárhagsvandamál, eða eins og t.d. segir í fréttinni af Litháen:

"Hagkerfi Litháens dróst saman um 12,5% á fyrsta fjórðungi ársins samanborið við sama tímabil árið 2008, að sögn hagstofu landsins í dag. Er þetta mesti samdráttur, sem orðið hefur frá því byrjað var að halda skrár yfir hagvöxt árið 1995."

Einnig kemur fram að:  „Efnahagslífið okkar er að hrapa ofan í djúpa gryfju og ég sé engar jákvæðar vísbendingar," sagði Gitanas Nauseda, sérfræðingur hjá SEB Bank í Vilnius. 

Hvernig ætli standi á því að maðurinn sjái engar jákvæðar vísbendingar í veru landsins innan ESB og með gjaldmiðil þjóðarinnar tengdan við Evru?  Hvað geta Íslendingar séð jákvætt við ESB, ef ESB lönd sjá ekkert jákvætt við aðildina?

Fréttin endar á þennan veg:  "Sérfræðingar spá því, að hagkerfi hinna Eystrasaltsríkjanna tveggja, Eistlands og Lettlands, muni einnig dragast saman um yfir 10%.  Fjármálaráðuneyti Lettlands hefur raunar spáð 15% samdrætti í ár." 

Nú verða ESB sinnar á Íslandi að fara að skýra út fyrir þjóðinni, hvaða bjargráð þeir sjá í ESB.

Persónuárásir á ESB andstæðinga og hreinir útúrsnúningar ganga ekki lengur.

 

 


mbl.is 12,5% samdráttur í Litháen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það liggur mikið á

Það lýsir nánast hroka hjá Steingrími J., að gefa í skyn að ekkert liggi á að ljúka við nýjan stjórnarsáttmála.  Almenningur og atvinnulífið getur ekki beðið lengi eftir því að fá að vita til hvaða aðgerða á að grípa til bjargar í þeim vanda, sem við er að glíma.

Sem dæmi má taka, að frá því að peningastefnunefnd og norski förusveinninn tóku við stjórn í Seðlabankanum, hefur gengisvísitalan hækkað úr 186,95 stigum í 223,00 stig, eða um 19,28%.  Erlend lán heimilanna hafa legið í frysti um langan tíma og óvíst að kjósendur Smáflokkafylkingarinnar og VG, sem skulda slík lán, geri sér grein fyrir því, að á valdatíma þessara aðila hafa lánin í frystikystunni hækkað um tæp 20%.  Það þýðir sem sagt það, að lán sem þann 27. febrúar s.l. var að upphæð tíu milljónir króna, stendur nú í tólf milljónum.  Skrílslæti VG og mataráhaldaliðsins hefur því kostað skuldug heimili gífurlegar upphæðir nú þegar og þau geta ekki beðið mikið lengur eftir einhverjum aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

"Steingrímur segir ríkisstjórnina hafa traustan þingmeirihluta og því liggi ekki á að klára stjórnarsáttmálann. Það sé mikill misskilningur að það eina sem hlutirnir snúist um þessa dagana sé ESB. Mörg stór og erfið verkefni bíði ríkisstjórnarinnar."

Hver er að misskilja hvern?  SMF og VG lýstu því yfir löngu fyrir kosningar, að þau ætluðu að starfa saman áfram eftir kosningarnar.  Átti að gera það bara einhvernveginn?  Voru þau ekkert undirbúin undir framhaldið?

Það er ekki boðlegt að tefja tímann með fánýtu karpi um ESB.  Alvarlegri mál bíða úrlausnar.


mbl.is Ekkert liggur á stjórnarsáttmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuleysi eykst í ESB

Smáflokkafylkingin (SMF) og aðrir ESB sinnar, heldur áfram að ljúga því að þjóðinni, að umsókn um ESB aðild, ein og sér, myndi koma Íslandi út úr efnahagskreppunni.  Því skýtur skökku við að fá sífellt fréttir frá fleiri og fleiri löndum innan ESB um stóraukið atvinnuleysi, án bankahruns.  Nú koma fréttir frá Evrulandinu Finnlandi, en þar kemur m.a. fram að:

"Atvinnuleysi eykst í Finnlandi og mælist nú 8,3%, samanborið við 7,6% í mars. Þannig bættust 42.000 atvinnulausir á skrá, sem þýðir að heildarfjöldi atvinnulausra er um 222 þúsund manns. Þetta kemur fram í tölum finnsku hagfræðistofnunarinnar."

Áðildarumsókn að ESB og yfirlýsing um Evruupptöku á að bjarga Íslandi, en vera í ESB og Evra er ekki að bjarga neinu í Finnlandi, frekar en öðrum ESB löndum.  Hvernig skyldu ESB sinnar útskýra þetta?

Í fréttinni kemur einnig fram að:  "Atvinnuleysi mælist mest í yngsta aldurshópnum. Þannig eru 17,5% þeirra sem eru á aldrinum 15 til 24 ára atvinnulausir, samanborið við 16,3% í febrúar sl."

Finnum hefur mikið verið hælt fyrir að leggja ofuráherslu á menntakerfið og þar með hátt þekkingarstig ungu kynslóðarinnar.  Það virðist ekki heldur vera að skila þeim árangri að ungu fólki gangi vel að fá vinnu.  Það fær ekki vinnu með tilliti til menntunar sinnar, það fær bara enga vinnu.

Hér hefur því verið haldið fram að aðildarumsókn að ESB og upptaka Evru einhvern tíma í framtíðinni myndi efla traustið á efnahag landsins svo mikið, að Ísland myndi nánast sjálfkrafa komast út út efnahagskreppunni, ekki síst vegna þess að útlendingar hefðu ekkert traust á krónunni.

Er ekki kominn tími til að viðurkenna það, að útlendingum er alveg sama um krónuna, enda höfum við aldrei greitt fyrir innfluttar vörur með krónum.  Við höfum alltaf greitt með erlendum gjaldeyri, sem undirstöðuatvinnuvegirnir hafa skapað okkur.

Útlendingar vantreysta ekki krónunni, heldur á Íslendingum sjálfum, sem viðskiptamönnum. 

 


mbl.is Atvinnuleysi eykst í Finnlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðstjórn?

Nú virðist vera að koma í ljós, sem oft hefur verið fjallað um hér, að Smáflokkafylkingin (SMF) og VG geti ekki komið sér saman um þær bráðnauðsynlegu efnahagsaðgerðir, sem grípa verður til strax.  Út á við er látið sem ESB málið sé eitthvert aðalatriði í samningaviðræðum flokkanna, svona til að geta kennt því um, ef ekki næst samkomulag um myndun stjórnar.

Hvort sækja á um aðild að ESB er algert aukaatriði í viðræðum flokkanna, því báðir flokkarnir eru gjörsamlega ráðalausir gagnvart efnahagsvandanum og munu ekki geta komið sér saman um nauðsynlegan niðurskurð ríkisútgjalda.  Þó þessir flokkar hafi farið í kringum það mál eins og kettir í kringum  heitan graut fyrir kosningar og aldrei svarað hreinskilnislega, hvernig ætti að taka á vandanum, þá eru þær blekkingar að baki og nú tekur alvaran við.

Það þarf að skera ríkisútgjöld niður um 40% á næstu þrem árum og það sjá allir sem vilja, að þetta verður ekki gert, nema með blóðugum niðurskurði velferðarmála, menntamála, heilbrigðismála og raunar allra annarra útgjalda ríkisins.

Nú, þegar ekki er lengur hægt að skjóta sér undan vandanum, byrja vinstri grænir að tala um þjóðstjórn og að nú þurfi að leggja pólitískt þras til hliðar, því þetta sé svo stórt og alvarlegt mál.

Auðvitað er þetta tilkomið vegna þess að vinstri flokkarnir koma sér ekki saman um neitt.

Líklega verður Sjálfstæðisflokkurinn að koma þeim til bjargar.


mbl.is Atli: Atvinnuleysið er þjóðarböl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarlegra en bankahrun?

Enginn lét lífið í bankahruninu, þótt afleiðingarnar hafi verið skelfilegar fyrir heimilin í landinu, ekki síður en atvinnulífið.  Nú er hins vegar hætta á að ofan í aðra óáran, skelli á landinu plága sem gæti dregið allt að 5000 manns til dauða, eða eins og segir í fréttinni:

"Í áhættumati, sem gert hefur verið á vegum landlæknisembættisins vegna hugsanlegs heimsfaraldus inflúensu, er gert ráð fyrir því að helmingur þjóðarinnar muni sýkjast á 12 vikna tímabili og allt að 3% þeirra, sem sýkjast, geti látist."

Ef það verður raunin, að svínaflensan verði að heimsfaraldri á næstu vikum, verður að setja allt pólitískt þras til hliðar og sameina kraftana til úrlausnar á bráðum efnahagsvanda þjóðarinnar, því ekki mun hann lagast, ef það gengur eftir, sem fram kemur í lok fréttarinnar:

"Þá segir, að gera megi ráð fyrir að atvinnulífið hér á landi lamist í tvær til þrjár vikur, en með gerð viðbragðsáætlunar sé reynt að lágmarka þann skaða sem sjúkdómurinn valdi. En þrátt fyrir að öllum tiltækum ráðstöfunum verði beitt  megi alltaf búast við ófyrirséðum afleiðingum.  Reikna megi með að fjárhagsleg afkoma heimila rýrni tímabundið, verðmæti glatist, til dæmis sjávarfang vegna skorts á vinnuafli og þjóðartekjur minnki í ákveðinn tíma."

Nú er ekki tími til að þjarka um fánýta hluti eins og ESB.


mbl.is Búist við að helmingur þjóðarinnar gæti sýkst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svínaflensa

Í nokkuð mörg ár hafa menn óttast að fuglaflensuveira myndi stökkbreytast og verða að banvænum smitfaraldri milli manna, með upphafi í Asíu, eins og flestar aðrar flensur.  Það hefur ekki gerst ennþá, en nú berast allt í einu fréttir af nýrri stökkbreyttri veiru, sem ættuð virðist vera frá Mexikó og er tekinn að breiðast til annarra landa með miklum hraða.

Nú á dögum er erfitt að verjast faraldri sem þessum, þar sem samgöngur milli heimshluta eru svo miklar og ekki tekur nema hálfan til einn sólarhring að komast með flugi milli fjarlægustu staða veraldarinnar.  Þannig getur veiran hafa borist til margra landa, jafnvel áður en menn átta sig í upprunalandinu, á alvarleika málsins.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld verða að bregðast strax við og hefja allan þann varnarundirbúning sem mögulegur er og ekki síður að setja saman sérfræðingahóp til stjórnar aðgerðum þegar svínaflensan verður að faraldri hérlendis.

Svínaflensan virðist á ótrúlega stuttum tíma ætla að verða að nánast óviðráðanlegri heimsvá, ofan í heimskreppuna í efnahagsmálum.

Allt virðist ætla að verða óláni heimsins að vopni.


mbl.is Óttast svínaflensuna meira en fuglaflensuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband