Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015

Það á ekki að leggja mikið á sig til verndar undirmönnum

Lærdómurinn sem lekamálið svokallaða skilur eftir virðist vera í aðalatriðum sá, að yfirmenn skuli ekki standa með undirmönnum sínum og verja þá með kjafti og klóm þegar þeir sverja af sér afglöp í starfi þegar og ef slíkt er á þá borið.

Hanna Birna Kristjánsdóttir gekk á allt sitt starfsfólk í Innanríkisráðuneytinu og óskaði eftir því að ef einhver þeirra hefði lekið upplýsingunum um Tony Omos þá gæfi sá hinn sami sig fram og stæði fyrir máli sínu.

Enginn í ráðuneytinu viðurkenndi nokkra sök í málinu og því reyndi Hanna Birna að standa með sínu fólki og verja það, bæði gagnvart dómstóli götunnar sem dæmir og framfylgir dauðadómum án nokkurra réttarhalda og lögregluyfirvöldum sem höfðu málið til formlegrar rannsóknar.

Þegar mannleysan sem sendi fjölmiðlum upplýsingarnar játaði loks á sig verknaðinn var það mikið áfall fyrir Hönnu Birnu, sem gengið hafði lengra í vörnum sínum fyrir undirmennina en æskilegt hefði verið úr því að naðra hafði gert sér bæli á vinnustaðnum.

Yfirmenn, a.m.k. hjá hinu opinbera, munu væntanlega ekki leggja á sig erfiði til að verja undirmenn sína í framtíðinni ef og þegar á þá verða bornar sakir um óvarlega upplýsingagjöf til fjölmiðla um þau verkefni sem til umfjöllunar eru á viðkomandi vinnustað.


mbl.is „Þú ert með sjö, þú ert með sjö!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf endilega að móðga, þó það sé leyfilegt

Eftir morð öfgafullra islamista í París á teiknurum og ritstjórn grín- og háðblaðsins Gharlie Hedbo hafa vesturlandabúar sameinast um að lýsa yfir stuðningi við mál- og tjáningarfrelsi.  

Hefur sá stuðningur átt sér samnefnara í orðunum "Je suis Charlie" sem er bein yfirlýsing um staðfastan stuðning við að tjáningarfrelsið skuli aldrei skert, hvað sem á dynur.

Viðbrögð útgefenda blaðsins voru þau að gefa strax út nýtt tölublað af Charlie Hedbo með skopmynd af Múhameð spámanni á forsíðu, ásamt háði og spéi um morðingjana sem réðust inn á ritstjórnina vikuna áður.  Charlie Hedbo seldist í fimm milljónum eintaka eftir morðárásina, en hafði að meðaltali selst í um sextíuþúsundum áður.

Sjálfsagt og eðlilegt er að verja tjáningarfrelsið fram í rauðan dauðann, auðvitað með þeim takmörkunum að það sé ekki nýtt til að ljúga upp á fólk og ræna það ærunni. Málfrelsið ber því að takmarka eins lítið og mögulega þarf, en ætlast verður til að fólk hafi sjálft vit og rænu til að nota það af skynsemi og réttlæti. 

Tveir milljarðar manna í veöldinni líta á það sem grófa móðgun við sig og trúarbrögð sín að skopteikningar, eða teikningar yfirleitt, séu birtar opinberlega af spámönnum sínum og þá alveg sérstaklega af Múhameð, sem æðstur er allra spámanna í augum áhangenda Islam.

Þrátt fyrir frelsið til að tjá sig um nánast hvað sem er og gera grín að hverju því sem fólki dettur í hug verður að gera þá kröfu að frelsið sé notað skynsamlega og alls ekki til að móðga, særa og reita til reiði tvær milljónir manna margítrekað með aðferðum sem viðtað er að verst mun undan svíða.

Væri ekki öllum í hag að beita tjáningarfrelsinu af svolítið meiri skynsemi en þessar móðganir eru dæmi um?


mbl.is Brenndu franska fánann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reiður, hæddur, sár og móðgaður maður er til alls vís

Undanfarna áratugi hafa vesturlandabúar margir hverjir misst trúna á Guð, son hans og heilagan anda og í nafni tjáningarfrelsins er oft skopast að trúnni sjálfri og ekki síður þeim sem trúa kenningunum.

Þetta umburðarlyndi virkar í báðar áttir, því flestir eru hættir að kippa sér upp við það sem bistist opinberlega í blöðum, sjónvarpi og vefmiðlum og á það jafnt við guðlast, klám og svívirðingar um náungann.

Virðing fyrir skoðunum og tilfinningum annarra er hverfandi og kröfur verða æ háværari um að allar refsingar vegna móðgana og ærumeiðinga verði felldar úr lögum og framvegis verði nánast allt leyfilegt ef ekki fylgja stórkostlegar líkamsmeiðingar eða manndráp.

Hins vegar þykir alls ekki öllum jarðarbúum jafnsjálfsagt að ganga svona langt í að hæðast og niðurlægja tilfinningar og trúarlíf fólks, t.d. tveir milljarðar múslima sem búsetu hafa vítt og breitt um heiminn og þar á meðal á vesturlöndum.

Háð um islam og skopmyndir af Múhameð móðga múslima og særa illilega, en til þess er ekkert tillit tekið af hinum trúlitlu og frelsisunnandi brandarasmiðum og teiknurum sem allt láta flakka í nafni skoðanafrelsisins.

Í eina tíð þótti kurteisi vera dyggð og frekja og yfirgangur gagnvart náunganum illa liðið.  Háðið og teiknimyndagrínið um Múhameð spámann særir, móðgar og reitir fylgendur spámannsins til reiði, jafnvel friðsama borgara sem ekkert kjósa frekar en að fá að lifa sínu lífi í friði, stunda sína vinnu, lifa heimilislífi og rækja trúna óáreitt fyrir utanaðkomandi trúleysingjum sem ekki kunna lágmarks umgengnisreglur siðaðra manna.

Innan Islam eru líka stórir hópar sem alls ekki þola þessa framkomu gagnvart trúnni, fyllast gríðarlegri heift sem hvað eftir annað leiðir til hefnda með tilheyrandi blóðbaði.  Séu hvítir menn drepnir í slíkum hryðjuverkum fer allt á annan endann og þjóðarleiðtogar flykkjast t.d. til Parísar til að láta mynda sig haldandi hver í annar hönd til að sýna samstöðuna um tjáningarfrelsið.

Engum þeirra virðist hins vegar detta í hug að ræða um kurteisi og að aðgát skuli höfð í nærveru sálar.  


mbl.is Vekur umræðu um tjáningarfrelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryðjuverkamenn "undir eftirliti"

Hroðalegar fréttir berast nú frá Frakklandi, þar sem hryðjuverkamenn hafa drepið a.m.k. sextán manns í tengslum við hermdarverk gagnvart skopblaði sem dirfst hafði að birta grínmyndir af Múhameð spámanni.

Hryllingurinn hófst með morðárás franskra bræðra, sem ættir eiga að rekja til Alsír en þó fæddir og uppaldir í Frakklandi, inn á ritstjórnarskrifstofur skopblaðsins Charly Hedbo þar sem þeir drápu tólf manns áður en þeir flúðu af vettvangi.  Til stuðnings bræðrunum réðst félagi þeirra inn í verslun og tók þar gísla með hótunum um að drepa þá alla væri umsátri um bræðurna ekki hætt.  Áður en yfir lauk féllu hryðjuverkamennirnir fyrir byssukúlum lögreglunnar en höfðu þó drepið a.m.k. fjóra gísla áður.

Afar athyglisvert er að þessir menn allir eru sagðir hafa verið undir eftirliti lögreglunnar vegna aðildar sinnar að hryðjuverkasamtökum, eða eins og fram kemur í viðhangandi frétt:  "Reu­ters-frétta­stof­an hef­ur fengið það staðfest hjá lög­reglu að morðing­inn hafi verið liðsmaður sama hryðju­verka­hóps og bræðurn­ir Chérif og Saïd Kouachi. Um er að ræða hryðju­verka­hóp sem hef­ur verið kennd­ur við 19. hverfi Par­ís­ar­borg­ar þar sem fjöl­marg­ir mús­lím­ar búa. Cherif Kouachi var dæmd­ur í fang­elsi fyr­ir aðild sína að hópn­um árið 2008. Sá sem tal­inn er hafa skotið lög­reglu­kon­una var dæmd­ur árið 2010 fyr­ir hlut sinn í að und­ir­búa flótta Smains Alis Belkacems úr fang­elsi en Belkacem er hug­mynda­smiður­inn á bak við hryðju­verka­árás á lest­ar­stöð í Par­ís árið 1995. Þar lét­ust átta manns og 120 særðust."

Hvernig má það vera að hryðjuverkamenn sem eru undir eftirliti lögreglu geta vopnast hríðskotabyssum, skotheldum vestum og öðrum þungavopnum án þess að nokkur verði þess var?  Hvernig geta hryðjuverkahópar starfað í borgum Evrópu og undirbúið hermdarverk sín án nokkurra afskipta yfirvalda?

Fyrst svona getur gerst þar sem eftirlit á að vera virkt, hvað getur þá gerst þar sem ekkert eftirlit er með svona brjálæðingum?


mbl.is Ný gíslataka í París
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband