Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Eru Reykvíkingar ónýtt auðlind?

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hefur ákveðið að hækka útsvarið úr 13,03% í 13,20% og þykir víst flestum meira en nóg um slíka hækkun þegar tekjur og atvinna allra borgarbúa hafa dregist gífurlega saman og fólk á í erfiðleikum með að treina laun sín, eða bætur, út mánuðinn. 

Einum borgarbúa þykir þó ekki nóg að gert með þessari hækkun og hefði viljað hækka útsvarið upp í 13,28%, enda finnst henni engin hemja að láta þessi 0,08% "ónýtt" enda þýddu þau 230 milljóna króna tekjuauka fyrir borgarsjóð.  Þessi Reykvíkingur er Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG, sem lýtur á Reykvíkinga sem ónýtta auðlind, sem sjálfsagt sé að ganga í, enda hafi borgarbúar ekkert við þessa peninga að gera í heimilishaldi sínu.

Það er alveg ótrúlegur hugsunarháttur að líta svo á, að sé skattpíning ekki algerlega keyrð í botn eftir gildandi lagabókstaf, þá sé þar um "ónýtta" auðlind að ræða, en sjá ekki að einfaldlega er verið að kafa dýpra í vasa launþega og gera þeim þar með erfiðara fyrir í lífsbaráttunni.

Ef og þegar sá skilningur vaknar að fólkið í borginni og landinu eru einstaklingar með vonir, væntingar, þarfir og langanir en ekki "ónýttur" tekjustofn fyrir eyðsluglaða pólitíkusa, þá gæti orðið einhver von til þess að lífvænlegt yrði í landinu aftur. 


mbl.is Hefði viljað hækka útsvar meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágætis fulltrúar á Stjórnlagaþing

Nú er búið að opinbera listann yfir þá frambjóðendur sem náðu kjöri til Stjórnlagaþings og við fyrstu sýn virðist hann vera ágætis blanda af fulltrúum flestra aldurshópa, stjórnmálaskoðana, ESB sinna og andstæðinga, þannig að reikna má með heilmiklu fjöri í umræðum á þinginu.

Nú er bara að sjá hvort allir frambjóðendur sætti sig við niðurstöðuna, eða hvort kærur koma fram vegna talningar og síðan eiga sjálfsagt eftir að skapast líflegar umræður um lélega kosningaþátttöku og hvað hafi valdið því að tveir þriðju hluti kjósenda skyldu hundsa málið algerlega.

Sjálfsagt verða allir sárir sem ekki náðu kjöri og margir þeirra telja sig hafa verið hæfasta til að taka þátt í samningu nýrrar stjórnarskrár og t.d. hefur Jónas Kristjánsson, f.v. DVritstjóri, lýst þjóðinni sem samansafni hálfvita fyrir að hafa ekki mætt á kjörstað og greitt sér atkvæði.

Ekki er líklegt að margir séu eins svekktir og Jónas, enda er mikilmennska hans og ófyrirleitni í garð kjósenda áreiðanlega einsdæmi.

 

 


mbl.is 25 kjörin á stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að nota eftirlaunin til að viðhalda sjóðum borgarinnar?

Reykjavíkurborg á í varasjóðum rúmlega sautjánmilljarða króna, þar af tíumilljarða til að grípa til lendi OR í vandræðum, en rúma sjömilljarða í varasjóði borgarinnar.

Þrátt fyrir þetta góða bú, sem Besti flokkurinn og Samfylkingin taka við í borginni, er ætlun þeirra að hækka útsvar á borgarbúa, ásamt því að hækka öll þau þjónustugjöld sem fyrirfynnast, en áður hefur gjaldskrá OR verið hækkuð um tugi prósenta.

Í því árferði sem nú ríkir eru Reykvíkingar ekki borgunarmenn fyrir hærra útsvari og þjónustugjöldum ofan á allt skattahækkanabrjálæði ríkisstjórnarinnar til viðbótar tekju- og atvinnumissi sem nú eru farin að sverfa alvarlega að.

Reykjavíkurborg ætti að dreifa byrðunum á fleiri ár og ganga frekar að einhverju leyti á sjóði sína, frekar en að hækka álögur á borgarbúa, því þeir hafa enga sjóði að ganga í lengur, nema ef vera skyldi séreignarlífeyrissjóðina, en margir eru þegar búnir með allar inneignir sínar í þeim.

Það er illa gert af borgaryfirvöldum að ætlast til þess að íbúar á besta aldri gangi á eftirlaunin sín til að geta viðhaldið varasjóðum borgarinnar.


mbl.is Gert ráð fyrir afgangi hjá Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

492 eða 498 verða ósáttir

´Seinnipartinn í dag verða birt 25 nöfn þeirra sem kosnir voru á Stjórnlagaþingið, eða 31 nafn ef rétta þarf af kynjahlutföll. Þá verða 492 eða 498 frambjóðendur fúlir og munu fara mikinn á næstunni við að kenna öllu mögulegu um, að þeir hafi ekki náð kosningu.

Það verður kosningafyrirkomulagið sem verður gagnrýnt, að ríkisstjórnin skuli ekki hafa séð um að kynna frambjóðendur nógu vel, tíminn frá því að framboðsfrestur rann út til kosninga hafi verið of stuttur, kynning fyrir Íslendingum erlendis hafi ekki verið næg, sjómenn gátu ekki kosið margir hverjir og svona mætti lengi telja.

Tveir, þrír, frambjóðendur misnotuðu Úrvarp Sögu sér í vil og ráku gengdarlausan áróður fyrir sjálfum sér vikurnar fyrir kosninguna og taugaveiklun þeirra er slík, á meðan þeir bíða úrslitanna, að stöðin hefur verið undirlögð kvörtunum þeirra vegna kosninganna í morgun og hafa þeir nefnt allt til, sem hér að ofan var nefnt og margt fleira.  Svo langt var komið að farið var að krefjast erlendrar rannsóknarnefndar til að fara ofan í saumana á kosningunum og til að komast að því hvort hér hafi ekki verið á ferðinni eitt allsherjar samsæri, án þess þó að hugmyndaflugið næði til þess, hverjir stæðu á bak við það.

Nái Þessir frambjóðendur Útvarps Sögu ekki kosningu, munu þeir aldrei láta sér detta í hug að það hafi verið vegna þess að þeir væru ekki hæfastir frambjóðenda, heldur mun það vera öllu mögulegu öðru um að kenna.

Sama mun verða uppi á tengingnum hjá mörgum hinna 492 eða 498. 


mbl.is Úrslitin kynnt síðdegis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áttundi hver kjósandi skilaði "vafaatkvæði"

Margt á sjálfsagt eftir að ræða og rita um kosninguna til Stjórnlagaþings, sem fram fór á Laugardaginn var og tveir þriðju hlutar kosnigabærra manna hunsaði og liggja sjálfsagt margar ástæður þar að baki.

Eitt það merkilegasta við kosninguna er að áttunda hvert atkvæði skyldi vera "vafaatkvæði" vegna þess að það var vitlaust fyllt út að einhverju leyti, t.d. með númerum sem ekki voru til, auðum línum eða óskýrum tölustöfum.  Það verður að teljast ótrúlega mikill fjöldi "vafaatkvæða" í þó ekki flóknari kosningu en þarna var um að ræða.

Það sem hins vegar er flókið við svona kosningu er útreikningurinn og úthlutun sæta á þingið, en afar erfitt verður fyrir kjósandann að átta sig á því eftirá hverjum nýttist atkvæðið hans, a.m.k. ef fleiri en einn af hans kjörseðli nær kosningu.  Ekki er ólíklegt að þessi kosning drepi að mestu niður allar kröfur um persónukosningar í Alþingiskosningum og jafnvel kröfuna um að gera landið að einu kjördæmi.

Hvað sem því líður þá erum það við, rúmur þriðjunugur kjósenda, sem tókum að okkur að velja þá fulltrúa, sem eiga að leggja drög að stjórnarskrá fyrir alla þjóðina, hvað sem meirihlutinn meinti með því að skipta sér ekki af kosningunni.


mbl.is Skilja ekki „hrufóttu“ atkvæðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir skulu teljast saklausir.......

Gunnar í Krossinum bregst harkalega við ásökunum á hendur sér fyrir kynferðislegt áreyti og harðneitar öllum sökum og lýsir því skýrt og skorinort yfir að um hreinar lygar sé að ræða af hálfu kvennanna.

Þar með liggja konurnar undir ásökunum um að vera lygarar og geta ekki með nokkru móti sannað sakleysi sitt af þeim, frekar en Gunnar af þeim ásökunum sem að honum beinast.

Þar sem allir skulu teljast saklausir þar til sök er sönnuð, hlýtur Gunnar að teljast alsaklaus af þessum áburði kvennanna og þær jafn blásaklausar af því að vera að skrökva þessu upp á manninn og þar með er málið fyrst orðið snúið.

Nú er það lagt í hendur hvers og eins hverjum hann vill trúa og ekki mun standa á alls kyns dómum í þessum málum og báðir aðirlar sýknaðir og sakfelldir til skiptis og þar sem tæplega er hægt að reikna með neinum sérstökum sönnunum á hvoruga veru, verður að reikna með að málið leysist í raun og veru aldrei.

Við allt þetta vaknar sú spurning hvort leyfilegt eigi að vera að ásaka nafngreinda menn opinberlega áratugum eftir meinta atburði, án þess að nokkrar sannanir sé hægt að leggja fram til styrktar ávirðingunum.

Skiptir þá auðvitað ekki hvort um kynferðislegt ofbeldi er að ræða, eða eitthvað allt annað.


mbl.is Gunnar stígur til hliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ásakanir eða sannanir?

Nokkrar konur hafa komið fram og sakað Gunnar í Krossinum um kynferðislegt áreiti, sem á að hafa átt sér stað fyrir fimmtán til tuttugu árum síðan og jafnvel þaðan af fyrr. Slíkar ásakanir eru gífurlega alvarlegar og karlmenn sem slíkt gera eiga þungar refsingar skyldar, enda áhrif slíks athæfis og afleiðingar fyrir fórnarlömbin alvarleg.

Þegar slíkar ásakanir eru bornar á menn, jafnvel áratugum eftir að brotin eiga að hafa verið framin, verður að leggja fram óhrekjanlegar sannanir fyrir þeim, ásakanirnar einar og sér duga ekki, því sá sem sakaður er um svona brot verður fyrir algerum álitshnekki og mannorðsmissi og því má alls ekkert vafaatriði vera fyrir hendi, ekki síst þegar slík mál eru flutt í fjölmiðlum, en þeim ekki vísað til þar til bærra rannsóknaraðila.

Svona ásakanir eru svo alvarlegar að þungar refsingar ættu að liggja við upplognum sögum af þessum toga og ættu þær ekki að vera vægari en kynferðisafbrotamenn eru dæmdir í við sínum brotum. Það á ekki að duga að segjast koma fram með þessar upplýsingar áratugum eftir meint brot, eingöngu til að létta á eigin sálarlífi, því ósannaðar og jafnvel upplognar geta þær lagt líf þess ásakaða og fjölskyldu hans algerlega í rúst.

Karlmaður sem fær yfir sig slíkar ásakanir á sér aldrei viðreisnar von, því jafnvel þó ekkert væri á bak við þær, verður aldrei hægt að afmá stimpilinn og vafann sem þeim fylgir.


mbl.is Fleiri konur saka Gunnar um kynferðisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engan skattaþrældóm fyrir Breta og Hollendinga

Það er og hefur verið kýrskýrt að tilskipun ESB um tryggingasjóði innistæueigenda og fjárfesta og því algerlega óskiljanlegt að íslensk stjórnvöld skuli nokkurn tíma hafa svo mikið sem hugleitt að ganga að kröfum fjárkúgaranna Bresku og Hollensku um að gera Íslendinga að skattaþrælum erlendra ofstopaþjóða vegna skulda íslenskra einkabanka og þeirra fjárglæframanna sem þá áttu og stjórnuðu.

Steingrímur J. samþykkti og ætlaði að troða samningi Svavars Gestssonar, sem ekki nennti að hanga yfir málinu, óséðum ofan í kok þings og þjóðar í júnímánuði 2009, en vegna mikillar baráttu stjórnarandstöðunnar tókst að setja svo stranga fyrirvara við staðfestingu Alþingis á samningnum, að kúgararnir erlendu samþykktu þá ekki fyrir sitt leyti.  Steingrímur J. ætlaði að enn að lúffa fyrir yfirgnginum og þröngvaði breytingum, sem felldu alla fyrirvara úr gildi, í gegnum Alþingi en til allrar lukku neitaði þá forsetinn að veita lögunum staðfestingar og því gafst skattgreiðendum tækifæri til að losa sig undan áþjáninni í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 6. mars s.l.

Forsetinn verður að neita staðfestingar á hverri einastu tilraun Steingríms J. og ríkisstjórnarinnar til að selja þjóðina í skattaánauð fyrir erlenda kúgara, því þjóðin á ekki að borga, vill ekki borga og ætlar ekki að borga kröfur sem henni koma nákvæmlega ekkert við.

Vonandi sér Steingrímur J. að sér og hættir að vinna gegn sinni eigin þjóð í þágu Breta og Hollendinga.


mbl.is Lokaorðið hjá kjósendum segir forseti Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Bjarnason er góður fjölskyldumaður

Jón Bjarnasons, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skipaði nýlega nefnd til að fara yfir ýmis atriði sem lúta að fiskveiðum og fiskveiðistjórnun og fannst meira en tilvalið að skipa son sinn í nefndina, enda væri hann líffræðingur og vel metinn sem slíkur þar að auki, eins og Jón sagði á Alþingi í vörn sinni fyrir skipun sonarins í nefndina.

Nú boðar Jón skipan nefndar á vegum ríkisstjórnarinnar nr. 151 á síðustu tuttugu mánuðum, og á hún að fjalla um svín, þ.e. svín í svínabúum, líðan þeirra í lifanda lífi og fantalegar geldingar á grísum, þ.e. afkvæmum svína.  Nú vill svo vel til að sonur Jóns er líffræðingur og vel metinn sem slíkur, meira að segja, og því hlýtur hann að vera flestum öðrum mönnum heppilegri til að sitja í þessari svínanefnd og helst að stjórna henni.

Ekki eru tiltækar upplýsingar um fjölskyldu Jóns Bjarnasonar, ættboga eða vinatengsl, svo vel getur verið að í þeim hópi séu meira en nógu margir hæfir einstaklingar til þess að skipa alla nefndina og auðvitað er þægilegast og fljótlegast að þurfa ekkert að fara með svona smámál út fyrir fjölskylduna.

Það er svínslegt fyrir ráðherra að þurfa að sitja undir gagnrýni fyrir að vera góður fjölskyldufaðir.


mbl.is Jón skipar starfshóp um vandamál svínaræktar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignarétturinn þarfast ekki endurskoðunar

Árni Páll Árnason segir að löggjafinn þurfi að fara yfir ákvæði laga um eignarrétt í kjölfar dóms Hæstaréttar um að Sparisjóði Vestmannaeyja hafi verið heimilt að ganga að ábyrgðarmönnum láns, sem sparisjóðurinn hafði þó fellt niður gagnvart lántakanda, sem fengið hafði samþykkt allra aðila, þ.m.t. sparisjóðsins fyrir skuldaaðlögun og niðurfellingu skulda.

Um þessa glæpamennsku Sparisjóðs Vestmannaeyja var fjallað í fréttum í gær og var af því tilefni  BLOGGAÐ um málið og þessa ótrúlegu bíræfni stjórnenda sparisjóðsis, sem algerlega gengur fram af fólki fyrir þá ósvífni sem að baki liggur.

Hins vegar þarf ekkert að breyta lögum um eignarrétt, eða skerða hann á nokkurn hátt, í framhaldi þessa dóms Hæstaréttar.  Það sem þarf að gera, er að þeir starfsmenn sem sjá um frágang samninga um skuldaniðurfellingar og skuldaaðlögun gangi almennilega frá málunum, þ.e. að fá uppáskrift lánadrottna um að niðurfelling skuldar sé alger niðurfelling og kröfum verði ekki haldið á lofti gagnvart öðrum en upphaflegum skuldara, hvort sem ábyrgðarmenn hafi verið á lánunum eða veð fengið að láni frá ættingjum eða vinum.

Með skuldaaðlögun og skuldaniðurfellingu verði mál afgreidd í eitt skipti fyrir öll, þannig að siðlausir stjórnendur lánastofnana eða aðrir siðleysingjar gangi ekki að óviðkomandi fólki með kröfur sínar, eftir að hafa þóst fella þær niður áður gagnvart lántakandanum sjálfum.

Það eina sem þarf er heiðarleiki í uppgjör þessara mála.


mbl.is Löggjafinn fari yfir dóm Hæstaréttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband