Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Svíðingsverk Sparisjóðs Vestmannaeyja

Sparisjóður Vestmannaeyja hefur sýnt af sér ótrúlegan svíðingsskap gagnvart ábyrgðarmönnum á láni konu sem var áður búin að fá skuldina fellda niður. Fréttin skýrir svo frá þessu máli: "Konan fékk greiðsluaðlögun á síðasta ári og voru allar samningskröfur gefnar eftir að fullu, þar á meðal kröfur Sparisjóðs Vestmannaeyja á hendur henni. Sjóðurinn taldi hins vegar að ábyrgð ábyrgðarmannanna væri ekki fallin niður og höfðaði mál á hendur þeim þegar þeir neituðu að greiða."

Svona framkoma í samningum er með algerum ólíkindum og líkist ekki neinu öðru en innheimtuaðgerðum handrukkara og annarra glæpamanna.  Að skrifa undir niðurfellingu skuldarinnar gagnvart konunni og innheimta hana svo hjá ábyrgðarmönnunum er svo ósvífið að engin orð ná yfir svona níðingsverk opinberrar lánastofnunar.

Annað hvort samþykkja lánastofnanir niðurfellingu skulda, eða þær samþykkja hana ekki.  Að þykjast fella niður skuldir og innheimta þær svo síðar hjá ábyrgðarmönnum, sem að sjálfsögðu reikna með að ábyrgð þeirra falli niður með eftigjöf skuldarinnar, eru vinnubrögð sem ekki eru sæmandi lánastofnun, sem vill láta taka sig alvarlega.

Stjórnendur Sparisjóðs Vestmannaeyja eiga að skammast sín og biðja fórnarlömbin afsökunar á þessari glæpsamlegu framkomu sinni.


mbl.is Lög um ábyrgðarmenn andstæð stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru einhverjar framkvæmdir umhverfisvænar?

Skipulagsstofnun hefur birt niðurstöðu sína um umhverfisáhrif framkvæmda við Kröfluvirkjun II, Þeistareykjavirkjunar og Álvers á Bakka ásamt tilheyrandi háspennulínum og er niðurstaðan að sjálfsögðu sú, að framkvæmdirnar hafi mikil umhverfisáhrif og sum óafturkræf. 

Varla er nokkur maður undrandi á þeirri niðurstöðu, því naumast er til sú framkvæmd sem ekki hefur áhrif á umhverfið og í flestum tilfellum varanleg og óafturkræf.  Varanlegustu og mestu lýti á umhverfi sitt og flest hver óafturkræf, hefur uppbygging Reykjavíkur vafalaust haft og standa þau landsspjöll yfir enn þann dag í dag og sér alls ekki fyrir endann á þeim.  Svipað má segja um alla aðra þéttbýlisstaði landsins og einnig á þetta við um hvern einasta sveitabæ og raunar hvert einasta atriði, sem skert hefur svo mikið sem eitt grasstrá í náttúrunni.

Úrskurður Skipulagsstofnunar setur þessar umhverfismetnu framkvæmdir alls ekki sjálfkrafa út af borðinu, heldur þarf að meta út frá öllum hliðum málsins hvort ásættanlegt sé, miðað við þann hag sem af framkvæmdunum má hafa, að ráðast í þær og koma þá atvinnumál á svæðinu til skoðunar ásamt öðru sem arðsamt gæti orðið vegna þessara framkvæmda.  Einnig verður að meta hvort aðrir atvinnukostir, sem kalla á minna jarðrask séu í stöðunni, en hver sem verksmiðjan á Bakka yrði, þyrfti væntanlega að fara í virkjanirnar og línulagnirnar, annað hvort óbreyttar eða í eitthvað minna formi.

Ekkert mannanna verk sem hreyfir stein í náttúrunni er eða verður óumdeilt.  Stundum þarf að meta mannlíf á móti gróðurlífi og meta hvort þeirra á meira tilkall til ákveðinna landssvæða og aldrei verða allir á eitt sáttir um hvort lífsformið á meiri rétt til lífssvæðanna.

Austur á Héraði hefur verið plantað ógrynni af barrtrjám, sem skerða munu allt útsýni á þessu fagra landssvæði í framtíðinni og mun því vafalaust verða þeim ferðamönnum til ama, sem hefðu viljað njóta náttúrunnar þarna óspjallaðrar áfram. 

Hefur slík gróðursetning ekki varanleg landsspjöll í för með sér og fór sú ákvörðun um landbreytingu í umhverfismat?


mbl.is Umtalsverð umhverfisáhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn fyrir Landsdóm og annar ekki fyrir sambærilega hluti

Jóhanna Sigurðardóttir hefur nú í tæpa tvo mánuði boðað að aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna verði lagðar fram "eftir helgi" og ítrekaði það loforð á Alþingi í morgun.  Hún segist hafa setið marga fundi undanfarið með fulltrúum bankanna og lífeyrissjóðanna, en því miður vilji þeir ekki fara sömu leið og stjórnvöld í málinu, þ.e. þeir vilja ekki taka á sig kostnaðinn vegna aðgerðanna.

Forsætisráðherrann segir að ríkisstjórnin hafi ekkert boðvald yfir bönkunum og geti því ekki skipað þeir að gera eitt eða neitt, eða eins og segir í fréttinni:  "Jóhanna sagði að talið hefði verið nauðsynlegt að reyna að ná samningum við fjármálastofnanir og fara ekki í aðgerðir í andstöðu við bankana sem gætu leitt til skaðabótakrafna á hendur ríkisins."

Þetta segir forsætisráðherra þeirrar ríkisstjórnar sem beitti sér fyrir því að láta Alþingi samþykkja ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir að hafa ekki skipað bönkunum að gera hitt og þetta á árinu 2008, þar á meðal að hafa ekki nánast upp á sitt einsdæmi flutt Icesave reikninga Landsbankans í dótturfélag í Bretlandi. 

Núverandi ríkisstjórn segist sem sagt ekki hafa heimildir til að skipa bönkunum fyrir um eitt eða neitt vegna hættu á skaðabótakröfum frá þeim á hendur ríkissjóði vegna slíkra afskipta. 

Hvað hefur breyst í þessum efnum frá þeim tíma þegar ætlast var til að ríkisstjórn Geirs H. Haarde  handstýrði einkabönkum úr stjórnarráðinu? 

Hvernig stendur á því að fyrrverandi ráðherra er ákærður fyrir afskiptaleysi af fyrirtækjum sem núverandi ráðherra segjast ekki hafa neitt umboð til að skipta sér af, þó nú hafi meira að segja sú breyting oðið að ríkið á einn bankann nánast alveg og hlut í hinum tveim?

 


mbl.is Skuldaaðgerðir að skýrast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klíka Jóns Ásgeirs skilningslaus á málssóknina

Jón Ásgeir í Bónus og klíka hans skilur ekki upp né niður í málssókn Glitnis á hendur sér, eða eins og segir í greinargerð lögmanns Jóns Ásgeirs fyrir dómstólnum:  "Svo virðist sem bera eigi stefndu fjárhagslegu ofurliði í málinu, enda verður ekki séð að annar tilgangur geti verið fyrir málsókninni."

Málssóknin snýst um skaðabótakröfu á hendur klíkunni vegna þess tjóns sem hún olli bankanum með "bankaráni innanfrá", eins og meðferð klíkunnar á fjármunum bankans hefur verið kölluð,  en Glitnir krefst sex milljarða skaðabóta frá sexmenningunum, sem aðallega er tilkomin vegna um sex milljarða króna lánveitingu til FS38 ehf,  félags í eigu Fons hf, sem var í eigu Pálma í Iceland Express til kaupa á hlut í öðru félagi í eigu klíkufélaga.  Ef rétt er munað munu tveir milljarðar króna hafa horfið í þessum viðskiptum, líklega inn á einkareikninga Jóns Ásgeirs og Pálma.

Svo blind er þessi klíka og sjálfhverf, að hún telur málssóknina vera einhverskonar herferð til að gera þá klíkufélagana fjárhagslega ósjálfstæða, en skilja ekki það tjón sem þeir ollu bankanum og þjóðfélaginu og að krafan sé til þess gerð að láta þá félaga bæta skaðann, að því leyti sem það dugar, með þeim fjármunum sem enn eru í þeirra fórum af þeim feng, sem þeir kröfsuðu til sín persónulega í vægast sagt vafasömun viðskiptum með fjármuni bankans.

Sjálfsagt er ekki hægt að ætlast til þess að siðblindingjar öðlist nokkurn tíma eðlilega sjón á ný.

 


mbl.is Kom að ýmsum málum en réð ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Bretar að búast við sundrungu ESB?

Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, hefur boðið leiðtogum Norður- og Eystrasaltslandanna á fund í Janúar n.k. til viðræðna um styrkari efnahags- og félagslega tengsl þessara landa í Norður Evrópu.

Varla getur tímasetning fundarboðsins verið alger tilviljun einmitt núna, þegar mikil umræða fer fram um framtíð ESB og evrunnar, en að margra mati er hvort tveggja komið að fótum fram og eigi sér ekki langra lífdaga auðið úr þessu.

Bretar hafa alla tíð verið hálfgert vandræðabarn innan ESB, þó ríkisstjórn Verkamannaflokksins hafi verið tiltölulega stillt innan sambandsins og ekki látið sverfa þar til stáls, eins og nýja ríkisstjórnin virðist tilbúin til að gera.

Afleiðingar bankakreppunnar 2008 eru nú að bíta æ fastar í ríkjum ESB og þá sérstaklega þeirra sem nota evruna sem gjaldmiðil, en hún hentar alls ekki hagkerfum annarra ESBríkja en Þýskalands, enda upphaflega byggð á þýska markinu og skilyrðum Þjóðverja um aðild að myntsamstarfinu.

Athyglisvert er að Írum er ekki boðið til þessa fundar, enda efnahagur Írlands hruninn, eins og Grikklands og fleiri ríki eru komin að hruni með sitt efnahagslíf og myntsamstarf.

Greinilega vilja Bretar vera vel undirbúnir ef/þegar ESB sundrast endanlega og vera þá búnir að koma á vísi að nýrri ríkjasamvinnu í norðurhöfum, enda miklir hagsmunir í húfi á þeim slóðum í framtíðinni.


mbl.is Vill styrkja tengsl við Norðurlönd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saksóknari Alþingis hirtir forseta Landsdóms

Geir H. Haarde hefur mótmælt þeirri lögleysu forseta Landsdóms að draga það í tvo mánuði að skipa honum verjanda, þrátt fyrir skýr fyrirmæli í lögunum um dóminn, en þar segir að sakborningum skuli skpipaður verjani svo fljótt sem mögulegt sé. 

Þessa einföldu grein laganna virðist forseti Landsdómsins ekki hafa skilið og sendi því erindi til saksóknara Alþingis með fyrirspurn um hvort skipa mætti verjandann og þá þann verjanda sem sakborningurinn hafði valið sér sjálfur, samkvæmt fyrirfælum laganna.

Saksóknari Alþingis hefur nú svarað hinu fáránlega erindi dómsforsetans á þann einfalda og fyrirséða hátt, að verjandann skuli skipa umsvifalaust og samkvæmt beiðni sakborningsins.  Í svari dómsforetans er samkvæmt féttinni vísað:  "m.a. til þess að þó ákæruskjal hafi ekki verið gefið út, þá sé búið að bera Geir sökum um refsiverða háttsemi með ákvörðun Alþingis um málshöfðun gegn honum fyrir landsdómi. Skv. lögunum um landsdóm fari Alþingi með ákæruvaldið."

Ólíklegt er að nokkur forseti dómstóls hafi verið niðurlægður á jafn auðmýkjandi hátt áður.


mbl.is Ekki mótfallin skipun verjanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þýskaland herðir tökin á ESB smátt og smátt

Ráðamenn ESB tala sífellt opinskár um að herða tökin á efnahagsmálum aðildarlandanna og að færa þurfi þá stjórnun "inn á miðjuna", en á mannamáli þýðir það að Þýskaland, hugsanlega í samráði við Frakkland, eigi alfarið að hafa efnahags- og fjármálastjórnun álfunnar í sínum höndum.

Undanfarna daga hafa þessir ráðamenn einnig viðurkennt að evran sé að hruni komin sem gjaldmiðill og henni verði ekki bjargað nema með harðri miðlægri stjórn aðildarríkjanna og þó Þýskaland hafi hingað til verið sterkasta ríkið í sambandinu vilja Þjóðverjar nú enn herða tökin og stjórna efnahagsmálum Evrópu út frá sínum hagsmunum og önnur lönd verði þar með skattlönd þeirra, eins og Grikkland og Írland eru þegar orðin og fleiri lönd munu fljótlega bætast í þann hóp, t.d. Portúgal, Spánn og Ítalía, svo fáein ESBlönd séu nefnd.

Nú er Merkel, Þýskalandskanslari farin að tala opinskátt um þessi mál og lýsa þeim vilja Þóðverja að fleiri en þýski ríkissjóðurinn taki áhættu af bankarekstri álfunnar og ríkisskuldabréfaútgáfu aðildarlandanna og nefnir þar til sögunnar þá áhættufjárfesta sem keypt hafa ríkispappírana.  Þá er hún einnig loksins farin að viðurkenna veikleika evrunnar, t.d. með þessum orðum:   „Ég vil ekki mála of dramatíska mynd, en ég vil þó segja að fyrir ári síðan hefðum við aldrei getað ímyndað okkur þá rökræðu sem við þurftum að taka í vor og þær aðgerðir sem við höfum þurft að grípa til."

Vonandi fer fljótlega að draga úr Samfylkingarlyginni um dásemd ESB og evrunnar, fyrst leiðtogar sambandsins eru sjálfir farnir að viðurkenna hversu mislukkað hvort tvegga er í núverandi mynd.


mbl.is Merkel segir nauðsyn að setja markaðnum takmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgunarafrek í bankahruni

Ríkisstjórn Geirs Haarde og Seðlabankinn unnu mikið björgunarafrek í bankahruninu með því að ná að skipta bönkunum upp í "gamla" og "nýja", breyta kröfuröð þannig að innistæður hefðu forgang á skuldabréf og halda öllu greiðsluflæði opnu, þ.m.t. greiðslukortakerfi og þrátt fyrir gjaldeyrisþurrð tókst að koma í veg fyrir vöru- og lyfjaskort í landinu.

Ekkert af þessu var einfalt eða sjálfsagt og því mikið afrek miðað við þann skamma tíma sem gafst til að bregðast við, þegar útséð varð að bönkunum yrði ekki bjargað frá hruni.  Með þessu móti var þjóðarbúinu forðað frá "erlendum skuldum óreiðumanna" að upphæð a.m.k. áttaþúsundmilljörðum króna.  Þessar aðgerðir allar ollu miklum titringi í nágrannalöndum og urðu m.a. til þess að Bretar beittu hryðjuverkalöggjöf sinni gegn íslenskum hagsmunum, en jafnvel þeirri árás, sem líkja má við hernaðarárás á þjóðin, tókst að standast og að endingu neyddust Bretar til að afturkalla þá aðgerð sína og nýlega hefur breskur ráðherra beðist afsökunar á þessari efnahagsárás á vinaþjóð.

Því miður hafði þjóðin á þessum tíma ekki skilning á því björgunarafreki sem fyrrverandi ríkisstjórn vann þarna við erfiðar aðstæður og vegna mótmælaaðgerða á Austurvelli missti Samfylkingin kjarkinn og hljóp frá stjórninni og nýtti aðstæður til að neyða VG til að samþykkja innlimun í ESB, gegn ráðherrastólum.

Eftir því sem gleggri fréttir berast frá öðrum löndum um afleiðingar bankahrunsins og þau gríðarlegu mistök sem víða voru gerð til að bjarga bönkum og þær efnahagsþrengingar sem þær aðgerðir munu hafa í för með sér, mun skilningur á íslenska björgunarafrekinu í árslok 2008 vaxa og verða metið að verðleikum.

Í þessum efnum er nóg að líta til Bandaríkjanna, Írlands, Portúgals, Spánar og Grikklands svo nokkur lönd séu nefnd til sögunnar.  Því miður hefur ríkisstjórnin sem nú situr hér á landi hvorki skilning né getu til að fást við efnahagsástandið og því mun kreppan í kjölfar bankahrunsins verða mun lengri og dýpri en hún hefði orðið með alvöru fólki við stjórnvölinn.


mbl.is Fór með síðasta gjaldeyrinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert ESB og engan Icessavesamning á óvissutímum

Kanadamaðurinn Alex Jurshevski, sem er sérfræðingur í skuldakreppum, telur efnahagsástandið á vesturlöndum svo viðkvæmt um þessar mundir að ef eitthvað fari úrskeiðis við að reyna að bjarga ástandinu á næstu misserum, gæti jafnvel svo farið að stríðsátök brytust út vegna yfirráða yfir náttúruauðlindum.

Jurshevski er afar svartsýnn um áframhaldandi samstarf ESB ríkjanna og telur að evran sé nánast dauð og dauði hennar muni hafa gríðarlega slæm áhrif fyrir Evrópu og raunar efnahag alls heimsins.  Ekki er hann bjartsýnni vegna efnahagslegrar framtíðar Bandaríkjanna vegna skulda ríkjanna og þeirra skelfilegu afleiðinga sem það myndi hafa ef Kínverjar hættu að kaupa skuldabréf þeirra og færu jafnvel að krefjast endurgreiðslu á þeim bandarísku skuldabréfum, sem þeir eiga nú þegar.

Í þessu óvissuástandi efnahagsmálanna væri algert glapræði fyrir Íslendinga að samþykkja innlimun í stórríki Evrópu og hrein aðför að efnahag landsins að fara núna að skrifa undir nýjan samning um Icesave, sem myndi binda skattgreiðendur á skuldaklafa í þágu erlendra kúgunarríkja, sem að sjálfsögðu myndu ganga að auðlindum landsins við greiðslufall, sem fyriséð að myndi verða þó spádómar Jurshevskis rættust ekki nema að litlum hluta.

Ríkisstjórnin á að einbeita sér að atvinnumálunum og reyna að gera það sem hægt er í þeim efnum, áður en það yðri of seint og láta allar frekari skuldbindingar gagnvart erlendum ríkjum víkja til hliðar næsta áratuginn að minnsta kosti.


mbl.is Gæti þróast yfir í átök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppan verður langlíf með óbreyttum stjórnarháttum.

Ný þjóðhagsspá Hagstofunnar fyrir næstu tvö ár er ekki glæsileg, en aðeins er gert ráð fyrir 1,9% hagvexti á næsta ári, og er þá miðað við árið 2010 eftir 3% samdrátt frá árinu 2009.  Síðan er spáð 2,9% hagvexti árið 2012, en ekki er spáð að atvinnuástandið skáni verulega á spátímanum, en verði 7,3% árið 2011 og 5,6% árið 2012.

Þetta er hálfgerð bjartsýnisspá, því gert er ráð fyrir stjóriðjuframkvæmdum og ýmsum öðrum þáttum sem eiga að verða til þess að auka atvinnu, en þó er sú spá öll háð mikilli óvissu, en helstu þættirnir sem skapa það óöryggi eru, að:

  • stóriðjuframkvæmdir verði minni 2012 og síðar
  • efnahagsbati í viðskiptalöndum Íslands hægist
  • skuldavandi heimila og fyrirtækja valdi áframhaldandi samdrætti í eftirspurn
  • að kjarasamningum ljúki á annan veg en spáin gerir ráð fyrir.

Því miður er útlit fyrir að enginn þessara óvissuþátta gagni eftir, eins og spáin gerir ráð fyrir og því verði leiðin út úr kreppunni bæði löng og ströng og taki a.m.k. tíu til fimmtán ár.

Þjóðin þarf að fara að samsama sig þessum veruleika og a.m.k. hætta algerlega að reikna með að ástandið geri annað en að versna með óbreyttum stjórnarháttum.


mbl.is Tæplega 2% hagvöxtur 2011
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband