Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Eiður Smári ætti að skipta um lið

Eiður Smári Guðjónssen hefur afrekað það, sem engum öðrum Íslendingi hefur tekist, sem er að verða þrefaldur meistari með erlendu stórliði, reyndar einu mesta fótboltaveldi heimsins.  Mesta afrekið er að vinna Meistaradeild Evrópu með liði sínu Barcelona.

Seinni hluta vetrar hefur Eiður Smári spilað minna en áður með Barcelonaliðinu, enda eintómir snillinar í því liði.  Einungis að vera í slíku liði er mikil upphefð og lífsreynsla fyrir hvaða knattspyrnusnilling sem væri.

Eiður Smári er hins vegar allt of góður knattspyrnumaður til þess að verma varamannabekk og því myndi það vera rétt ákvörðun hjá honum að skipta um lið á næstu leiktíð.  Ekki er vafi að mörg stórlið myndu vilja fá hann til liðs við sig, enda væri styrkur að honum fyrir hvaða lið sem er.

Vonandi fá aðdáendur Eiðs Smára að sjá hann sem fullspilandi leikmann hjá einhverju stórliða Evrópu á næstu árum.


mbl.is Eiður: Held að ég stefni aftur til Englands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga eftir að undrast meira

Samtök ferðaþjónustunnar lýsa furðu á þeim skattahækkunum sem ríkisvinnuflokkurinn lagði í gær á áfengi, tóbak og eldsneyti og telja samtökin þetta hið versta mál fyrir ferðaiðnaðinn.

Í ályktun samtakanna segir m.a:

„Ljóst er að hækkanir á vöru og þjónustu mun draga úr eftirspurn og er því hætt við að ríkissjóður fái lítið fyrir sinn snúð og eina breytingin verði sú að hækkun vísitölunnar stórhækki verðtryggð lán fólks og fyrirtækja auk þess hækkun rekstrarkostnaður mun gera fyrirtækjunum enn erfiðara fyrir."

Allir ættu að vita að þessar skattahækkanir eru aðeins örsmá byrjun á þeirri skattahækkanaskriðu, sem ríkisvinnuflokkurinn er að ýta af stað.  Næst verður hækkaður skattur á sykri, gosdrykkjum, sælgæti og fleiri munaðarvörum.  Þar á eftir verða öll vörugjöld, sem nöfnum tjáir að nefna, hækkuð.  Virðisaukaskattur verður hækkaður í 24,5% af mörgum vöruflokkum, sem nú eru í 7% þrepinu og líklegast verður hærra virðisaukaskattsþrepið hækkað um 2-3%.  Líklega verða tekjuskattar þó ekki hækkaðir fyrr en um næstu áramót, eingöngu vegna þess að erfitt er að hækka þá á miðju ári.

Allar þessar hækkanir munu fara beint út í vöruverðið og þar með neysluverðsvísitöluna og því munu verðtryggð lán heimilanna hækka mikið á næstunni, í boði Jóhönnu og Steingríms J.

Ef Samtök ferðaþjónustunnar furða sig á þessu smáræði, sem ríkisvinnuflokkurinn var að láta samþykkja í gær, eiga þau eftir að verða gjörsamlega furðu lostin á næstu vikum.

Kjósendur Smáflokkafylkingarinnar og VG láta þessa arfavitlausu hagstjórn væntanlega yfir sig ganga.

Og brosa, án undrunarsvips.


mbl.is Lýsa furðu á skattahækkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtrygging og vextir

Þingmenn Framsóknarflokksins leggja til að verðtryggð lán geti aðeins hækkað um 4% á ári vegna verðtryggingar.  Þetta er göfugt markmið, svo langt sem það nær.  Vandamálið við verðtryggðu lánin er ekki verðtryggingin sem slík, heldur verðbólgan.  Alþingi gæti allt eins vel bannað allar verðhækkanir, umfram 4% á ári og ekki síður að banna ríkisstjórnum að stjórna efnahagsmálunum illa.

Með banni við verðtryggingu, eða með þaki á henni, myndu vextir einfaldlega hækka, því lánveitandi myndi aldrei lána út peninga, sem hann sæi fram á að tapa á.  Vextir af óverðtryggðum lánum núna eru miklu hærri en sem nemur verðbólgunni, allt að 22%, og á mörgum verðtryggðum lánum eru einnig okurvextir, t.d. bílalánum.

Verðbólgan er vandamálið.  Gegn henni þarf að berjast, enda er það eina varanlega lausnin.


mbl.is Verðtrygging verði 4% að hámarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AGS gefur álit á umsókn um ESB

Smáflokkafylkingin hefur haldið því fram að aðild og reyndar aðildarumsókn ein og sér, væri töfralausn fyrir efnahagsvandann á Íslandi.

Á fréttamannafundi fulltrúa AGS, þeim Mark Flanagan, landfógeta, og Franeks Roswadowski, efnahagsráðherra Íslands, án ráðuneytis, gefa þeir aðildarumsókn Íslands að ESB þessa einkunn:

Aðild að ESB er engin töfralausn fyrir Ísland, að sögn Franeks Roswadowsky, fastafulltrúa IMF á Íslandi. „Það er engin töfralausn fyrir land, sem hefur gengið í gegnum þær hremmingar sem Ísland hefur gengið. Ísland þarf að ganga í gegnum harkalega aðlögun.”

Þegar Ísland hefur gengið í gegnum þessa harkalegu aðlögun, verður efnahagsástandið þannig að innganga í ESB hefur ekkert að gefa landinu, sem við höfum ekki nú þegar í gegnum EES samninginn.

Evruna þurfum við ekki nema ætlunin sé að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð.

Bankamenn og aðrir hljóta að hafa vaknað upp af þeim draumi á haustmánuðum árið 2008.


mbl.is Fara þarf varlega í vaxtalækkanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnin stendur undir væntingum

Enginn hefði átt að velkjast í vafa um það fyrir kosningar, hverjar væntingar mætti gera til vinstri stjórnar í landinu.  Skattahækkanir á skattahækkanir ofan, var og er alltaf fyrsta úrræði vinstri stjórna.  Aðeins, þegar ekki er nokkur leið að hækka skatta meira, er farið í aðrar aðgerðir í efnahagsmálum.

Ríkisvinnuflokkurinn segist ætla að halda heildarskatttekjum svipuðum og þær voru í tíð fyrri ríkisstjórnar.  Nú hafa virðisaukaskatts-, tolla- og vörugjaldatekjur hrunið, þannig að til að halda heildarskatttekjum ríkissjóðs svipuðum og þær voru, þarf að færa skattbyrðina meira yfir í beina skatta, þannig að almenningur á eftir að finna meira fyrir skattpíningunni brenna á eigin skinni.

Skattahækkanir ríkisvinnuflokksins eru rétt að hefjast.

Hann stendur fyllilega undir öllum væntingum.


mbl.is Áfengi og eldsneyti hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Faldar ESB fréttir

Í dag fer fram fyrsta umræða um tvær þingályktunartillögur um hugsanlega aðild Íslands að ESB og verða þær sjálfsagt til meðferðar í þinginu fram á haust a.m.k.

Á sama tíma birtist hálf falin frétt hér á mbl.is um efnahagsþróun í ESB landinu Litháen, sem gekk í sambandið árið 2004 og hefur gjaldmiðil sinn bundinn við Evruna og er þar með bundið ákvörðunum Evrópska seðlabankans um peningamál.

Líklega á þessi setning í fréttinni að fegra eitthvað það sem í fréttinni sagði áður um niðursveifluna, en setningin er þessi:  "Mikill uppgangur hefur verið í Litháen á undanförnum árum eins og í hinum Eystrasaltslöndunum þremur. Þau gengu öll í Evrópusambandið árið 2004."

ESB sinnar halda því stöðugt fram, að aðild að sambandinu, jafnvel eingöngu aðildarumsókn, muni bjarga efnahagsmálum á Íslandi, eins og hendi væri veifað.

Ekki er Litháen, eða öðrum Evrulöndum, mikil hjálp í ESB aðildinni, því lokasetningin í fréttinni hjlóðar svona:  "Nú spáir seðlabanki landsins því að samdráttur á árinu öllu verði 15,6%."

Á Íslandi, þar sem heimskreppan á að vera dýpst og landið með sinn eigin gjaldmiðil, er samdráttur ársins 2009 áætlaður að verði 10%.

Samdráttur Evrulandsins verður sem sagt yfir 50% meiri en í Evrulausa landinu.

Hvað segja ESB prédikarar við því?


mbl.is Hagkerfi Litháen dróst saman um 13,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða um að bjarga andliti

Össur, grínari, fagnar því að útlit sé fyrir að samstaða náist í þinginu, um vinnubrögð varðandi umsóknarferli að ESB.  Þessi fögnuður hans lýsir sér í því að stjórnarandstaðan skuli bera fram skárri þingsályktunartillögu en hann var að mæla fyrir sjálfur, en tillögu Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna má sjá má  hér

Umfjöllun um tillögu grínarans má t.d. sjá hér og ef tillögurnar eru bornar saman, sést að himin og haf er á milli þeirra, þar sem stjórnarandstöðutillagan gerir ráð fyrir því að málið sé hugsað áður en framkvæmt er, en gríntillagan gerir ráð fyrir því að framkvæmt sé fyrst og síðan farið að hugsa.

Tillaga stjórnarandstöðunnar gæti bjargað andliti ríkisvinnuflokksins í þessu máli, en skjóta ætti því til þjóðarinnar, hvort yfirleitt ætti að sækja um eða ekki.

Það væri gífurleg framför, ef ríkisvinnuflokkurinn og þá sérstaklega Össur, grínari, færi að hugsa áður en hann talar.


mbl.is Hægt að ná samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vit sett í umsóknarferlið

Með tillögu Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna um að fela Utanríkismálanefnd að skilgreina helstu hagsmuna- og álitamál varðandi mögulega umsókn Íslands að ESB, virðist vera reynt að koma einhverju viti í málið áður en sótt væri um aðild að sambandinu.

Tillaga Össurar, grínara, um að sækja fyrst um aðild og skilgreina svo samningsmarkmiðin jafnóðum og viðræðum vindi fram, er algerlega út úr kortinu og í raun alger öfugmæli.

Best væri að leita beint til almennings, með þjóðaratkvæðagreiðslu, um hvort yfirleitt sé áhugi meðal þjóðarinnar á því að sækja um aðild að þessu fyrirhugaða stórríki.  Ástæðulaust er að eyða nokkrum árum í aðildarviðræður til þess eins að láta þjóðina fella samningsdrögin, þegar þau lægju fyrir.  Afar ólíklegt er að Íslendingar samþykki nokkurn tíma að ganga til liðs við þetta skrímsli, sem ESB er.

Fróðlegt verður að fylgjast með hvort hið nýkjörna þing velur að nota skynsemi við afgreiðslu þessa máls. Það myndi heyra til tíðinda. 

 


mbl.is Utanríkismálanefnd í lykilhlutverki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Læknar flýja til kreppulanda

Fyrirsögnin á fréttinni, "Læknar flýja kreppuland", er bæði ruddaleg og villandi í ljósi þess að nú er heimskreppa og ef læknar flytja úr einu landi í annað, eru þeir í raun að flytja milli kreppulanda.

Fréttin er að öðru leyti sú sama og árlega birtist, þegar undirbúningur fjárlaga fyrir næsta ár er að hefjast.  Um þetta leyti á hverju ári birtast fréttir af því að sjúkrahúsin séu í mannahallæri, ekki séu til nægir peningar fyrir lyfjum, tækjum, launum, skúringarfötum eða nokkru öðru, sem nauðsynlegt er til reksturs heilbrigðiskerfis.  Nákvæmlega eins fréttir berast frá nánast öllum geirum hins opinbera á þessum árstíma og allir hljóta að vera búnir að sjá í gegnum þetta væl, enda sami söngurinn kyrjaður á hverju vori.

Afar auðvelt er að fá fjölmiðlana til að spila þessa plötu fyrir landslýð og hún er spiluð öll ár, hvernig sem árferðið er í fjármálum hins opinbera.  Á þessu ári má gera ráð fyrir að plötuspilarinn verði stilltur "í botn", enda niðurskurður  nauðsynlegur á öllum sviðum og það "sársaukafullur niðurskurður", eins og það heitir á máli stjórnmálamanna.

Nú er kominn tími til að snúa þessari hljómplötu við og spila lagið sem er á B hliðinni.

 


mbl.is Læknar flýja kreppuland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuleysistryggingasjóður blankur

Samkvæmt því, sem Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður, segir, fara tæplega 100 fyrirtæki á hausinn í hverri viku og væntanlega verða starfsmenn þeirra atvinnulausir þar með.  Í fréttum í dag kom einnig fram að reiknað væri með að aðeins myndu um 4000 starfsmenn verða eftir í byggingariðnaði í haust, en voru 16.000 þegar mest var.

Þetta eru skuggalegar tölur og ekki er reiknað með að atvinnuleysi fari að minnka að ráði fyrr en á árinu 2011 og þá mun draga afar rólega úr því.  Útgjöld Alvinnuleysistryggingasjóðs vegna atvinnuleysisbóta eru um 24 milljarðar á ári, eins og atvinnuleysið er núna og mun sú upphæð væntanlega verða hærri á næsta ári og jafnvel á árinu 2011.

Atvinnuleysissjóður mun tæmast í nóvember n.k., þannig að ríkið mun þurfa að taka á sig atvinnuleysisbæturnar að mestu leyti eftir það.  Fyrir liggur að nauðsynlegur sparnaður í ríkisfjármálum þarf að vera 60 milljarðar króna á árinu 2010, aftur 60 milljarðar árið 2011 og enn aftur 60 milljarðar árið 2012.  Upp í þetta verða skattar hækkaðir, en enginn fær að vita hve mikið, enda hefur ríkisstjórnin enga hugmynd um það sjálf, né hvernig á að skera niður kostnað.

Tuttugu milljarða árleg fjárvöntun Atvinnuleysistryggingasjóðs bætist við þennan niðurskurð og Árni ESB Árnason, félagsmálaráðherra, boðar lántökur fyrir fjárvöntun sjóðsins. 

Ætli ríkissjóður hafi einhversstaðar lánstraust?

 


mbl.is Vanskil hafa sextánfaldast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband