Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2015

Velferð sjúklinga og dýravelferð

Allir geta verið sammála um að laun þurfi að hækka og ekki síst þeir sem lægst hafa launin, því framlegð atvinnulífs landsins er næg til að allir eigi að geta haft mannsæmandi framfærslu.

Einn er þó sá hópur sem algerlega ætti að vera undanþegin áhrifum verkfalla og það eru sjúklingar og þá ekki síst langveikir og aðrir sem haldnir eru alvarlegum sjúkdómum. Heilbrigðisstéttir ættu að fá sínar kjarabætur dæmdar af Kjaradómi, eða öðrum þar til bærum aðilum, sem þá tæku að sjálfsögðu mið af öðrum launahækkunum í þjóðfélaginu.

Þrátt fyrir að vera mikill dýravinur og vilja að dýravernd sé í hávegum höfð eru áhyggjur af velferð sjúklinga þó meiri og sárari vegna þeirra frétta sem berast af frestun ýmissa læknisaðgerða og annars sem frestað er í meðferð krabbameinssjúklinga og annarra sem við hina ýmsu sjúkdóma eru að glíma.

Það getur ekki liðist að sjúklingar séu teknir í gíslingu vegna deilna um kaup og kjör á vinnumarkaði.


mbl.is Verkföllin bíta marga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðleysi að taka sjúklinga í gíslingu

Stór hluti allra kjarasamninga landsins eru í uppnámi og allt stefnir í langvarandi og hörð verkfallsátök vegna sjálfsagðrar kröfu launafólks um sanngjarnan hlut þess efnahagsbata sem orðinn er og verða mun á næstu misserum.

Allir hljóta að viðurkenna að atvinnulífið gengur vel um þessar mundir og mikið og gott borð ætti að vera fyrir báru til launahækkana.  Hins vegar virðast forkólfar og fyrirsvarsmenn fyrirtækjanna vera svo gjörsamlega úr tengslum við starfsfólk sitt að þeir virðast hvorki sjá né skilja þá óánægju sem kraumar í þjóðfélaginu vegna launamálanna.

Þessir, að því er virðist algerlega siðspilltu og ofurgráðugu, stjórnendur og eigendur fyrirtækjanna virðast ekki skilja að gengdarlausar arðgreiðslur og ofurlaun þeirra sjálfra eru farin að ganga svo gjörsamlega fram af fólki að nú verður ekki undan því skotist að bæta lífskjör launafólksins verulega.

Gegn siðleysinu og græðginni verður að berjast, slá á mikilmennskubrjálæðið sem virðist vera farið að hrjá ýmsa forkólfa atvinnulífsins og skipta þjóðarkökunni á sanngjarnan hátt.  

Verkalýðshreyfingin virðist hins vegar vera algerlega andlaus og föst í fornu fari og hvergi bryddar á nýjum hugmyndum til jafnari skiptingar uppskerunnar, t.d. með því að krefjast hlutdeildar í arðgreiðslum fyrirtækjanna, sem þá yrði skipt milli fjármagnsins í rekstrinum og vinnuframlags starfsmannanna.

Hvað sem um siðblindu atvinnurekenda má segja verður að lýsa yfir fyrirlitningu á þeirri aðferð stéttarfélaga að nota alvarlega veika sjúklinga sem gísla í kjaradeilu. Slíkt lýsir engu öðru en mannvonsku og skilningsleysi á stöðu langveikra, bæði andlegri og líkamlegri heilsu.

 


mbl.is „Sjúklingar ekki í verkfalli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengdarlaus græðgi

Öll fyrirtæki þurfa og eiga að skila hæfilegum hagnaði, bæði til að nýta til innri uppbyggingar og til greiðslu arðs.  Útborgaður arður ætti að ganga jafnt til þeirra sem leggja fram fjármagn til rekstrarins og þeirra sem leggja fram vinnuframlagið.

Ekkert fyrirtæki getur gengið né skilað hagnaði nema vegna vinnu starfsmannanna og á öllum hátíðarstundum fyrirtækjanna mæra stjórnendur starfsfólkið í hástert og þakka því góðan árangur og mikinn hagnað.  Í fæstum tilfellum dettur þeim þó í hug að láta starfsfólkið njóta arðsins og hvað þá að þessir þakklátu stjórnendur láti hvarfla að sér að greiða "starfsmönnum á plani" mannsæmandi og lífvænleg laun.

Nú orðið er svo komið málum að eigendur og stjórnendur fyrirtækjanna virðast í flestum tilfellum vera haldnir þvílíku mikilmennskubrjálæði og gengdarlausri græðgi að þeim finnst sjálsagt að raka að sjálfum sér þvílíkum launum og arðgreiðslum að taka mun marga mannsaldra að koma öllum þeim peningum í lóg og siðblindan orðin slík að jafnvel finnst þeim að öll laun hinna óbreyttu væru betur komin í hærri arðgreiðslum og launum til sjálfra sin.

Siðblindunni og gengdarlausri græðginni verður að segja stríð á hendur og snúa ofan af þeirri öfugþróun sem átt hefur sér stað í fyrirtækjarekstri um allan heim undanfarna áratugi og skipta framleiðsluverðmætunum á réttlátari hátt en gert er nú orðið.

Þó þetta ástand sé alls ekki bundið við Ísland, heldur allan heiminn meira og minna, er vel hægt að taka fyrstu skref til breytinga á ástandinu hér og nú með þeim kjarasamningum sem í gangi eru.


mbl.is Virðir ákvörðun Rannveigar Rist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannvonska og skeytingarleysi um náungann

Ótrúlegt er að lesa um nauðgun sem átti sér stað á almenningsströnd í Florida um hábjartan dag og var látin viðgangast af mörg hundruð vitnum, sem virðist ekki hafa dottið í hug að hreifa legg eða lið til hjálpar fórnarlambinu.

Í fréttinni segir m.a:  "Að sögn yf­ir­valda stóðu mörg hundruð manns og horfðu á er menn­irn­ir nauðguðu kon­unni. Var ekk­ert gert til þess að stöðva menn­ina."  Ekki getur það verið vitnunum til afsökunar að hafa haldið að um einhvern leik eða fíflagang hafi verið að ræða, því einnig kemur fram í frásögninni af málinu:  "Lög­reglu­stjór­inn í Bay County, Frank McKeit­hen sagði að mynd­bandið væri „lík­lega það ógeðsleg­asta, and­styggi­leg­asta og sjúk­asta“ sem hann hef­ur séð á þessu ári á þess­ari ákveðnu strönd. „Og ég hef séð margt þar,“ bætti hann við."

Oft berast fregnir af skytingarleysi vegfarenda um samborgara sem í einhverjum erfiðleikum eiga, lenda í slysum eða árásum, en það hlýtur að teljast nánast hámark ómerkilegrar framkomu að hundruð manna skuli fylgjast með nauðgun tveggja illmenna úr þriggja metra fjarlægð án þess að lyfta hendi til björgunar fórnarlambsins. 

Svona mál vekja alltaf jafn mikla furðu og hneykslun á þeim sem undan líta þegar annað eins og þetta gerist.  

Myndi maður sjálfur haga sér svona í samskonar aðstæðum?


mbl.is Fjölmargir fylgdust með nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins hálf fréttin sögð

Í viðhangandi frétt er fjallað um hluta af ræðu formanns Framsóknarflokksins sem hann hélt á landsfundi flokksins í dag.  Framarlega í fréttinni segir m.a:  "Sig­mund­ur fór ít­ar­lega yfir áform um los­un fjár­magns­hafta og mynd­un þess efna­hags­lega svig­rúms sem þarf að skap­ast sam­fara því. Sagði hann stærstu hindr­un­ina við los­un haft­anna vera hin óupp­gerðu slita­bú föllnu bank­anna."

Spenntur lesandi reiknar sjálfsagt með því að í framhaldi fréttarinnar verði nánar fjallað um þessa ítarlegu umfjöllun forsætisráðherrans um losun fjármagnshaftanna og hvað til þarf svo það mál gangi vel og snuðrulaust fyrir sig.

Því miður sér fréttamaðurinn ekkert bitastætt við þennan mikilvæga vinkil í ræðunni, heldur eyðir öllu framhaldinu í að fjalla um það sem Sigmundur Davíð segir um kröfuhafa gömlu bankanna og aðferðir þeirra til að gæta sinna hagsmuna varðandi kröfur sínar, enda um stjarnfræðilegar upphæðir að ræða.

Allir vita að "hrægammarnir" beita öllum tiltækum ráðum til að verja hagsmuni sína og því ekkert nýtt eða sérstaklega fréttnæmt við þá hlið málsins.

Almenningur hefur miklu meiri áhuga á að vita hvort, hvernig og hvenær hægt verður að aflétta fjármagnshöftunum, þó fólk finni ekkert fyrir þeim í sínum daglegu athöfnum.


mbl.is Kröfuhafarnir njósna og sálgreina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hætta að tala og byrja að framkvæma

Fyrir svo mörgum árum að elstu menn muna ekki lengur hvað mörg þau eru fóru fram ýmsar úttektir og rannsóknir á heppilegasta stað fyrir nýbyggingu þjóðarsjúkrahúss og leiddu þær allar til þeirrar niðurstöðu að nágrenni núverandi Landspítala væri heppilegasti staðurinn til fyrir nýtt og fullkomið sjúkrahús.

Öll hönnun nauðsynlegra bygginga hefur verið miðuð við þetta staðarval og milljörðum króna hefur þegar verið varið í undirbúning framkvæmdanna. Þrátt fyrir að skiptar skoðanir hafi verið um staðarvalið alla tíð, þótti þessi staðsetning heppilegust og hafa deilur um staðarvalið að mestu þagnað og samstaða ríkt um að ráðist yrði í framkvæmdirnar um leið og ríkissjóður hefði efni á að leggja fram nægt fjármagn.

Alltaf eru þó einhverjir sem þráast við og reyna að tefja byggingaframkvæmdirnar með því að efna til ófriðar um staðarval hins nýja sjúkrahúss og t.d. dúkkaði einn sjúkrahúslæknirinn upp í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum og fann málinu allt til foráttu og vildi að hætt yrði við núverandi áform og að frekar yrði byggt upp nýtt þjóðarsjúkrahús í Garðabænum og þannig kastað á glæ öllum þeim milljörðum sem þegar hefur verið varið til undirbúnings og hönnunar.

Nú bætir forsætisráðherra um betur og stingur upp á því að útvarpshúsinu við Efstaleyti verði rutt úr vegi og nýja sjúkrahúsið reist á rústum þess, ásamt því að nýta lóð hússins með neðanjarðartengingu við gamla Fossvogsspítalann.  Þessi hugmynd er svo frumleg og nýstárleg að enginn hafði haft hugmyndaflug til þess að láta sér detta þetta í hug áður.

Ósjálfrátt tekur fólk mark á því sem frá forsætisráðherra kemur, en varla verður því trúað að maðurinn hafi verið að meina það í alvöru að tímbært væri að hringla með staðarvalið efir allt sem á undan er gengið í þeim málum, enda hugmyndin sett fram 1. apríl og því ótrúlegt annað en að um grín hafi verið að ræða.

Nú er komið að tíma framkvæmda við sjúkrahúsið í Vatnsmýrinni og tími staðarvalshugleiðinga löngu liðinn.


mbl.is Ástand Landspítalans er öryggisógn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband