Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2015

Það þykir engin skömm að stela undan skatti

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, bendir á að tímabært sé að taka upp svipaða baráttu vegna skattsvika og konurnar hafa háð undanfarin misseri um að skila skömminni af kynferðislegu ofbeldi til gerendanna.

Kjartan bendir á þá óþolandi staðreynd að margir berist mikið á, en séu í aðstöðu til að reikna sér lág laun, eða vinni svart, til þess að sleppa við skattgreiðslur og þá ekki síst útsvarsgreiðslur til sveitarfélaganna.  Eftir sem áður þykir þessu fólki sjálfsagt og eðlilegt að þiggja alla þá þjóunstu sem sveitarfélögin hafa uppá að bjóða og kvarta jafnvel sumir hverjir yfir því að þjónustan sé hvorki nógu mikil né nógu góð.

Undandráttur tekna frá sköttum hefur verið þjóðaríþrótt Íslendinga svo lengi sem elstu menn muna og margir hæla sér af snilld sinni við skattaundandráttinn og sjaldgæft er að nokkur maður amist við slíku.  Háar skattprósentur í tekjuskatti og ekki síður í virðisaukaskattskerfinu efla vilja almennings til að taka þátt í undanskotunum og líklega myndi rífleg lækkun skattprósenta hafa lítil áhrif á tekjur ríkissjóðs því greiðsluvilji skattgreiðenda myndi vafalaust aukast í réttu hlutfalli við lækkun skattprósentanna.

Á sínum tíma var Þorvaldur í Síld og fiski, eins og hann var alltaf kallaður, með allan sinn rekstur á sinni eigin kennitölu og var árum saman sá einstaklingur í landinu sem hæstar skattgreiðslur innti af hendi til ríkis og sveitarfélags.  Aðspurður í útvarpsviðtali hvers vegna hann gerði engar ráðstafanir til að komast hjá öllum þessum sköttum sagðist Þorvaldur vera stoltur af sköttum sínum og því sem frá honum rynni til uppbyggingar samfélagsins.

Fjárhagur Reykjanesbæjar og annarra sveitarfélaga væri sjálfsagt miklu betri ef skattgreiðendur nútímans tækju hugsunarhátt Þorvaldar í Síld og fisk sér til fyrirmyndar.

 


mbl.is Bæjarstjóri vill skila skömminni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er krafa um læknisvottorð eintómt grín?

Hælisleitandi, sem virðst hafa talið sjálfan sig stálheilbrigðan þrátt fyrir að vera HIV smitaður, segist hafa á rúmu ári sængað með einhverjum tugum kvenna og vegna þess hvernig í pottinn er búið hugsanlega smitað a.m.k. einhvern hluta þeirra af veirunni.

Það einkennilega við málið er að allir sem sækja um dvalarleyfi, þar á meðal hælisleitendur, eiga að skila læknisvottorði, en eins og fram kemur í fréttinni virðist vera farið frjálslega með þá skyldu og enginn sem virðist eiga að taka við vottorðunum eða fylgjast með að þeim sé skilað.

Í frétt mbl.is er rætt við Harald Briem, sóttvarnarlækni, sem segir m.a:  ""All­ir sem sækja um dval­ar­leyfi, hæl­is­leit­end­ur þar á meðal, þurfa að skila vott­orði," seg­ir Har­ald­ur og bæt­ir við að það geti tekið sinn tíma að hafa vott­orðið frá­gengið. „Það eru ekki nein­ar ná­kvæm­ar dag­setn­ing­ar á því hvenær menn eiga að vera komn­ir í skoðun og þess hátt­ar,“ seg­ir Har­ald­ur enda hafa heil­brigðis­yf­ir­völd ekki tök á því að taka fólk í lækn­is­skoðun þegar í stað."

Það verður að teljast furðulegt, svo vægt sé til orða tekið, að enginn opinber embættismaður telji það vera í sínum verkahring að framfylgja reglum um heilsufarsskoðun þeirra sem sækja um dvalarleyfi, fyrst reglurnar eru fyrir hendi á annað borð.


mbl.is Hafði ekki skilað læknisvottorði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hortugheit og græðgi eða fjárkúgun

Stjórnendur íslenskra banka halda áfram að ganga fram af fólki með hroka sínum og græðgi, sem m.a. birtist í kröfum um svimandi háa bónusa og nú síðast í kröfu yfirmanna Íslandsbanka um að fá í sinn hlut allt að tveggja milljarða hlut í bankanum fyrir að vinna þá vinnu sem þeir eru ráðnir til að sinna.

Þessi krafa virðist byggja á hóunum um að vinna ekki af samviskusemi að því sem að bankanum snýr varðandi niðurfellingu gjaldeyrishaftanna, þ.e. að slóra við frágang málsins þannig að bankinn lendi í útgönguskattinum á næsta ári með þeim aukakostnaði sem því fylgir umfram það að ganga frá málinu fyrir áramót, eins og samningar við ríkisvaldið kveða á um.

Eftir því sem fregnir herma benda þessir gráðugu, hortugu og heimtufreku stjórnendur Íslandsbanka á fordæmið sem Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, gaf þegar hann gaf starfsmönnum Landsbankans 1% hlut í bankanum þegar hann var gerður að hlutafélagi.

Steingrímur J. lék af sér hvern afleikinn af öðrum í störfum sínum sem fjármálaráðherra, en slík afglöp eiga ekki og mega ekki verða fordæmi fyrir því að framkvæma annan eins óskunda og þarna er farið fram á af gjörsamlega veruleikafyrrtum stjórnendum Íslandsbanka.

Krafa, sem byggist á því að hóta því að valda fyrirtækinu sem fólk vinnur hjá stórskaða, verði ekki orðið við því að afhenda svimandi háa fjármuni, minnir á meira á fjárkúgun af grófasta tagi en nokkuð annað.


mbl.is Vilja hlut í Íslandsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólík aftstaða til undirverktaka

Forkólfar álvers Ríó Tinto í Hafnarfirði harðneita að ræða við verkalýðsfélög starfsmanna sinna um nokkrar breytingar á kjarasamningum og allra síst launaliðum, nema félögin samþykki að fyrirtækinu verði heimilt að ráða fleiri undirverktaka til starfa í verksmiðjunni.

Slíka undirverktöku ætlar fyrirtækið að nýta sér til að spara launakostnað og segist með því geta sparað starfsmenn vegna starfa sem eru tilfallandi og krefjist ekki fastra launamanna allt árið.  Þetta fallast verkalýðsfélögin ekki á, en halda því fram að þvert á móti ætli álverið að nýta sér undirverktöku, svokallaða gerfiverktöku, til að ráða starfsfólk á lægri launum en kjarasamningar fyrirtækisins og félaganna gera ráð fyrir.

Á Landspítalanum er þveröfugt uppi á tengingnum, því þar vilja hjúkrunarfræðingar stofna starfsmannaleigu til að selja spítalanum vinnu á taxta sem gæfi hjúkrunarfræðingunum mun hærri laun en kjarasamningar gera ráð fyrir.  Framkvæmdastjóra hjúkrunar hrýs hugur við þessum fyrirætlunum, enda sé slíkt fyrirkomulag miklu dýrara fyrir spítalann og allt vinnuskipulag mun erfiðara og flóknara en ella og auki þar til viðbótar álag og erfiði kjarasamningsráðinna starfsmanna.

Það er greinilega mikill höfuðverkur sem fylgir því að ákveða hvort nýta skuli verktöku.


mbl.is Dýrt að kaupa verktaka í hjúkrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vertíðarhasar í ferðamannaþjóustunni

Ferðamönnum á Íslandi fjölgar stöðugt og verða að minnsta kosti 1,2 milljónir á þessu ári og hefur fjölgunin undanfarin ár verið 15-20% árlega.

Öll áhersla hefur verið á að auglýsa landið sem ákjósanlegan áfangastað fyrir þá sem eiga nóga peninga og eru orðnir leiðir á "venjulegum" ferðamannastöðum.  Þrátt fyrir þessa áherslu virðast margur túristinn ekki tíma að eyða tvöhundruðkalli til að komast á salerni til að sinna óhjákvæmilegum þörfum líkamans til losunar úrgangsefna og leggur allt slíkt frá sér hvar sem hann er staddur þá og þá stundina með tilheyrandi áhrifum á umhverfið.

Raunar er tvöhundruðkallasalernin á landinu allt of fá og endalaust er rifist um það hvernig eigi að plokka nógu mikið af ferðalöngunum til að fjármagna öll þau klósett sem nauðsynleg eru fyrir allan þann saur og þvag sem til fellur frá þessum hópi, sem allar spár telja að tvöfaldist innan tíu ára.

Miðað við öngþveitið sem nú er á helstu ferðamannastöðum er auðvelt að gera sér í hugarlund hvernig það verður þegar ferðamannafjöldinn nær tveim og hálfri milljón.  Verði ekki gripið í taumana strax og þessi þjónusta skipulögð almennilega og ekki síður settar ákveðnar reglur um umgengni við náttúruperlur landsins mun innan fárra ára verða algert öngþveiti vegna ferðamannanna og úrgangsins frá þeim.

Þegar ekki verður lengur hægt að auglýsa Ísland sem land viðernis og fagurrar náttúru og hvað þá hreinleika, mun ferðamannafjöldinn hrynja með tilheyrandi gjaldþrotum í greininni og kreppu í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar a.m.k. ef fyrirhyggjan verður ekki meiri í framtíðinni en hún hefur verið hingað til.

Fram til þessa hefur fiskaflinn verið helsta tekjulind þjóðarinnar og á árum áður komu gríðarleg fiskveiðiár og svo önnur það sem alger ördeyða ríkti.  Stjórn á tekjuöflun sjávarútvegsins fékkst með fiskveiðistjórnarkerfinu og svipað kerfi þarf sjálfsagt að setja upp vegna vertíðarhegðunarinnar sem ríkir í ferðaþjónustunni.


mbl.is Massatúrismi af verstu gerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er vagga lýðræðisins orðin að sjúkrarúmi á líknardeild?

Grikkland er skokkið í skuldafen vegna óstjórnar ríkisfjármála í áratugi ásamt því að ríkissjóðurinn hefur verið knúinn af fjármálaöflum Evrópu til að ábyrgjast gríðarlegar bankaskuldir og því er nú svo komið að landið er gjaldþrota og á sér ekki viðreisnar von fjárhagslega næstu áratugina.

Að sjálfsögðu ber þeim sem taka lán skylda til að borga þau til baka og eru ekki í stöðu til að krefjast þess að aðrir borgi þau fyrir þá.  Fyrirtæki og einstaklingar sem ekki geta staðið við skuldbindingar sínar eru oftast úrskurðaðir formlega gjaldþrota og þá neyðast lánadrottnar í flestum tilfellum til að afskrifa kröfur sínar og skuldarinn á þá möguleika á að komast á fæturna á ný og verða aftur fjárhagslega sjálbjarga.

Þetta á ekki við um ríkissjóði, því meðan einhverjum þegnum er til að dreifa í viðkomandi þjóðfélagi eru þeir ábyrgir fyrir skuldum ríkisins og geta nánast ekki með nokkru móti komist undan því að greiða þær skuldir sem stjórnmálamenn þeirra hafa steypt landinu í.

Þrátt fyrir að gríska ríkið sé í raun gjaldþrota ganga Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, evrópski seðlabankinn, ESB (ríkissjóðir ESBlandanna) o.fl. lánadrottnar fram af fullri hörku við innheimtu lána sinna.  Grikkland er svo illa statt fjárhagslega að ekki er hægt að greiða ríkisstarfsmönnum sín lækkuðu laun, lífeyrisþegar fá ekki greidd sín skertu ellilaun, atvinnulausir fá ekki greiddar sínar bætur sem bæði eru mun lægri en áður og greiddar í miklu skemmri tíma en áður var.  

Í raun er nánast alger peningaskortur orðinn í landinu og algjöru efnahagshruni verður ekki forðað nema með háum viðbótarlánum.  Allir sem vilja sjá, sjá að algerum hörmungum í Grikklandi verður varla forðað nema í tiltölulega skamman tíma og ástandið mun örugglega verða ennþá verra en það þó er núna þegar þar að kemur.

Grikkjum hafa nú verið settir skilmálar, sem í reynd eru einfaldlega uppgjafarskilmálar, fyrir nýjum lánum sem raunverulega afnema lýðræðið í Grikklandi enda þurfa þeir að undirgangast þá kvöð að bera fyrirframallar fyrirhugaðar lagasetningar sem varða fjármál undir lánadrottna sína til samþykktar áður en slík frumvörp eru kynnt og lögð fyrir gríska þingið og til viðbótar þurfa þeir að veðsetja ríkiseignir fyrir gríðarlega háar upphæðir til lánadrottna sinna.

Með þessu er sjálfstæði Grikklands og fullveldi ekki lengur annað en nafnið tómt og landinu í raun stjórnað af ESB í nafni lánadrottna landsins.  Hingað til hefur verið sagt að vagga lýðræðisins hafi verið í Grikklandi.  Sú vagga er nú orðin að sjúkrarúmi og óvíst um afdrif sjúklingsins sem þar liggur.


mbl.is Uppgjöf eða nauðsyn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef ekki Landsbanka á lóðina, þá hvað?

Heilmikið fjaðrafok hefur orðið á samfélagsmiðlunum vegna fyrirhugaðrar byggingar Landsbankans á húsi undir starfsemi sína á lóð við höfnina í nágrenni Hörpu.  

Sumir bera því við að það sé bruðl af hálfu bankans að byggja nýjar höfuðstöðvar á einni af dýrustu lóðum landsins og réttara væri að hagnaði bankans væri varið til annarra þarfa, t.d. til að byggja nýjan Landspítala.

Aðrir, t.d. hínn ágæti þingmaður Guðlaugur Þór Þórðarson,segja að lóðina ætti að nota undir einhverja starfsemi sem veitti meira lífi í miðbæinn, sérstaklega á kvöldin enda loki bankinn klukkan sextán á daginn. 

Ef hugsað er um hvaða starfsemi það gæti verið sem héldi uppi lífi og fjöri fyrir utan Hörpu á kvöldin, þá koma aðallega upp í hugann barir, danshús, bíó og aðrir slíkir staðir sem aðallega hafa opið á kvöldin og fram á nóttina.  Lúxushótel á að byggja á næstu lóð við hliðina á bankalóðinni og verslunar- og íbúðahús eru einnig fyrirhuguð á reitnum.

Þarna mun sem sagt verða um að ræða dýrasta íbúðar- og verslunarsvæði landsins og megi ekki reisa höfuðstöðvar eina ríkisbankans á þessum slóðum verða menn að svara því hvaða starfsemi væri æskilegri á þennan stað, því algerlega útilokað er að nokkurt bíó, bjórstofa, ballhús og hvað þá kaffihús muni opna á öllum þrem eða fjórum hæðum fyrirhugað húss á þessum stað.

Bankinn er nú með starfsemi á a.m.k. tuttugu stöðum í miðbænum og hlýtur að geta selt margt af því húsnæði fyrir milljarða og annarsstaðar sparast húsaleiga, enda áætlar bankinn að spara sjöhundruð milljónir króna árlega með sameiningu starfseminnar á einn stað.  Slíkur sparnaður ætti að þykja eftirsóknarverður í hvaða rekstri sem er.

Sá sem þetta skrifar er ekki móðgunargjarn og tekur þessar ágætu hugmyndir Landsbankamanna ekkert illa upp sem viðskiptavinur hans til áratuga, þó sumt viðkvæmara fólk virðist taka hugmyndinni sem persónulega móðgun.

 


mbl.is Móðgun við viðskiptavini bankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein rök ESBsinna jörðuð

Eitt helsta áróðursbragð innlimunarsinna Íslands í væntanlegt stórríki ESB hefur verið að með því yrði landið skyldugt til að fella niður tolla á innfluttum vörum frá öðrum sýslum stórríkisins væntanlega.

Þrátt fyrir að stöðugt hafi verið bent á að Íslendingar gætu fellt niður tolla hvenær sem þeim sjálfum sýndist, hafa ESBsinnarnir ávallt gert lítið úr slíkum rökum og haldið sig við áróðurinn um að slíkt væri ógerningur nema með fyrirskipunum frá kommisörum ESB.

Nú hefur Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, boðað að tollar skuli felldir niður af fatnaði og skóm um næstu áramót og árið eftir verði allir aðrir tollar aflagðir, aðrir en tollar af matvælum.  Tollar á matvæli eru háðir gagnkvæmum samningum við önnur ríki heimsins og ekki klókt af Íslendingum að fella þá tolla niður einhliða.

Undanfarið hefur lítið farið fyrir innlimunarsinnum í ESB, enda allt í óvissu þar innan dyra vegna ástandsins í Grikklandi, Spáni, Portúgal, Ítalíu og Írlandi svo nokkur lönd séu nefnd, en alvarlegast er auðvitað hörmungarástandið í Grikklandi og óvissan um framtíð evrunnar, bæði hvort Grikkir geti haldið áfram að nota hana sem gjaldmiðil og ef ekki hvaða áhrif þetta ástand mun hafa á framtíð evrunnar sem slíkrar.

Það er líklega engin tilviljun að fylgi Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar skuli vera í frjálsu falli, enda nánast eina stefnumál þeirra, þ.e. ESBruglið, brunnið til ösku sem fokin er út í veður og vind.


mbl.is Boðar afnám allra tolla 2017
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forystumenn ESB taka eigin hag umfram hörmungar Grikkja

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og harðsvíraður baráttumaður fyrir innlimun Íslands í ESB, skrifar á Fésbók um hrossakaupin innan ESB, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og evrópska seðlabankans vegna hörmunganna í Grikklandi.

Ekki síður fjallar Össur um valdabaráttu pólitíkusa ESBlandanna, ekki síst Angelu Merkel kanslara Þýskalands og Wolfgangs Schäu­ble, fjár­málaráðherra í stjórn hennar.  Össur, sem ætti manna best að þekkja hrossakaupin og spillinguna innan ESB, viðurkennir að allir innan sem utan ESB hafi vitað að Grikkland uppfyllti ekki skilyrðin fyrir upptöku evru, en forysta ESB hafi tekið þátt í blekkingaleiknum til að troða evrunni uppá Grikki.

Össur segir að ESB hafi aldrei, allt frá árinu 2009, tekið á raunverulegum vanda Grikkja, heldur ávallt verið með smáskammtalækningar sem í raun hafa verið til að friða almenning í ESBlöndunum, ekki síst Þýskalandi, og ekki síður verið hluti af pólitískum skilmingum milli pólitíkusa á svæðinu.

Í pistli Össurar segir m.a:  „Þessi staða skýr­ir vax­andi stríðleika síðustu sól­ar­hringa í yf­ir­lýs­ing­um Merkels. Hún þarf að finna ein­stigi á milli eig­in póli­tískra þarfa sem fel­ast í að halda Grikkj­um inn­an evr­unn­ar og her­skárra skoðana síns eig­in fjár­málaráðherra sem vill þá út. Milli þeirra eru vax­andi fá­leik­ar og í þýsk­um stjórn­mál­um velta menn því fyr­ir sér hvort Wolfgang Schauble hygg­ist láta til skar­ar skríða gegn Merkel í mál­inu – og jafn­vel fella hana af stalli.“

Að þýskir stjórnmálamenn hafi meiri áhyggjur af eigin hag en af hörmungum grísks almennings er skýring eins helsta ESBsinna landsins.  Varla fer hann með fleipur um þann skollaleik.


mbl.is Pólitíkusar sekir en ekki almenningur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn eitt umhverfisslysið í uppsiglingu í Reykjavík

Kynnt hefur verið vinningstillaga um hönnun enn eins hótelsins í miðborg Reykjavíkur og í þetta sinn er um að ræða 120-135 herbergja steinkumbalda við Lækjargötu 12.

Vinningstillagan tekur ekkert tillit til húsanna í nágrenninu, en báðum megin við götuna standa gömul, falleg, virðuleg og í sumum tilfellum sögufræg hús og verði byggður steinkassi í stíl við þessa tillögu verður um enn eitt umhverfisslysið að ræða í Reykjavík.

Það verður að teljast stórundarlegt ef íslenskir arkitektar eru raunverulega algerlega ófærir um að teikna hús sem falla að þeirri götumynd og því umhverfi sem þeim er ætlað standa við til langrar framtíðar.  Reyndar er ánægjuleg undantekning til frá þessari að því er virðist föstu reglu, en það er bygging hins nýja Hótels Sigló á Siglufirði, en það hús er bæði fallegt og byggt í sátt við umhverfi sitt og fellur vel að öðrum húsum á svæðinu.

Vonandi samþykkja skipulagsyfirvöld í Reykjvavík ekki fleiri umhverfisslys í tengslum við hótelbyggingaæðið í Reykjavík.  Reyndar ekki heldur í tengslum við aðrar framkvæmdir í boginni.


mbl.is Nýtt hótel í Lækjargötu árið 2018
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband