Það þykir engin skömm að stela undan skatti

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, bendir á að tímabært sé að taka upp svipaða baráttu vegna skattsvika og konurnar hafa háð undanfarin misseri um að skila skömminni af kynferðislegu ofbeldi til gerendanna.

Kjartan bendir á þá óþolandi staðreynd að margir berist mikið á, en séu í aðstöðu til að reikna sér lág laun, eða vinni svart, til þess að sleppa við skattgreiðslur og þá ekki síst útsvarsgreiðslur til sveitarfélaganna.  Eftir sem áður þykir þessu fólki sjálfsagt og eðlilegt að þiggja alla þá þjóunstu sem sveitarfélögin hafa uppá að bjóða og kvarta jafnvel sumir hverjir yfir því að þjónustan sé hvorki nógu mikil né nógu góð.

Undandráttur tekna frá sköttum hefur verið þjóðaríþrótt Íslendinga svo lengi sem elstu menn muna og margir hæla sér af snilld sinni við skattaundandráttinn og sjaldgæft er að nokkur maður amist við slíku.  Háar skattprósentur í tekjuskatti og ekki síður í virðisaukaskattskerfinu efla vilja almennings til að taka þátt í undanskotunum og líklega myndi rífleg lækkun skattprósenta hafa lítil áhrif á tekjur ríkissjóðs því greiðsluvilji skattgreiðenda myndi vafalaust aukast í réttu hlutfalli við lækkun skattprósentanna.

Á sínum tíma var Þorvaldur í Síld og fiski, eins og hann var alltaf kallaður, með allan sinn rekstur á sinni eigin kennitölu og var árum saman sá einstaklingur í landinu sem hæstar skattgreiðslur innti af hendi til ríkis og sveitarfélags.  Aðspurður í útvarpsviðtali hvers vegna hann gerði engar ráðstafanir til að komast hjá öllum þessum sköttum sagðist Þorvaldur vera stoltur af sköttum sínum og því sem frá honum rynni til uppbyggingar samfélagsins.

Fjárhagur Reykjanesbæjar og annarra sveitarfélaga væri sjálfsagt miklu betri ef skattgreiðendur nútímans tækju hugsunarhátt Þorvaldar í Síld og fisk sér til fyrirmyndar.

 


mbl.is Bæjarstjóri vill skila skömminni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vandamálið með rekstur hins opinbera er að hann vex alltaf, auknar tekjur ríkis eða sveitarfélaga eru líklegri til að búa til nýja útgjaldaliði en að skila sér í betri þjónustu eða lækkuðum sköttum. Verst er þó að hægriflokkar eru ekkert skárri með slíkt en vinstriflokkar.

Gulli (IP-tala skráð) 28.7.2015 kl. 16:17

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Hvernig skilgreinir þú það að stela undan skatti?  Það hefur skort mikið á að fólk skilgreini hvað það telur vera skattsvik.  Ég hef unnið við það í nokkur ár að gera skattskýrslur fyrir einstaklinga og fyrirtæki.  Ég tel það ekki vera skattsvik að nýta ALLA þá liði sem hægt er til frádráttar frá tekjum.   En aftur á móti eru það, að mínu mati skattsvik að telja ekki ALLAR tekjur fram til skatts.  Á þessu tvennu er grundvallarmunur að mínu áliti.........

Jóhann Elíasson, 28.7.2015 kl. 16:25

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jóhann, við erum algerlega sammála um hvað skattsvik eru og hvað að stela undan skatti.  Svört vinna er ein tegund skattsvika, undanbrögð vegna virðisaukaskatts önnur.  Að nýta allar löglegar smugur í skattalögum eru ekki skattsvik.

Það er hins vegar ekki alveg eðlilegt að hafa heimild til að reikna sér svo lág laun að nánast verði ekki um neinar tekjuskattsgreiðslur og/eða útsvar að ræða, en geta svo tekið út mjög háan arð sem sveitarfélagið fær engar tekjur af, þar sem ríkið hirðir allan skatt af arðgreiðslum.

Sanngjarnt væri að fjármagnstekjuskattur skiptist milli ríkis og sveitarfélaga.

Axel Jóhann Axelsson, 28.7.2015 kl. 16:59

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það eru ákveðnar reglur um það hvert reiknað endurgjald (reiknuð eigin laun) skuli vera fyrir hverja atvinnugrein.  Því miður eru mikil vanhöld á því að þeim reglum sé fylgt.  En það má líka kenna eftirlitskerfinu þar um það þarf að ganga eftir því að þessum reglum sé fylgt.  Til þess að setja undir þennan leka, tel ég eðlilegt að skattur af arðgreiðslum sé sá sami og af launatekjum.  Væri fyrsta skattþrep lækkað og arður skattlagður eins og launatekjur er ég viss um að skatttekjur ríkisins myndu hækka og undanskot myndu minnka til muna.  Það þarf að einfalda skattkerfið.

Jóhann Elíasson, 28.7.2015 kl. 18:11

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þessu er algerlega hægt að vera sammála, Jóhann.

Axel Jóhann Axelsson, 28.7.2015 kl. 18:33

6 identicon

Hann er nú svolítið að kasta steinum úr glerhúsi þessi maður.  Hið opinbera mætti ganga á undan með góðu fordæmi og opna sitt bókhald.  Eftir höfðinu dansa limirnir.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 29.7.2015 kl. 00:23

7 Smámynd: Már Elíson

Afhverju þessi rætnisskrif, Elín ? - Er það bara manngerðin, eða...?

Már Elíson, 29.7.2015 kl. 11:16

8 identicon

Ef fólkið vill aga þá er fyrsta skrefið að opna ríkisbókhald.  Ríkisendurskoðun gerir stjórnsýsluendurskoðun og fjárhagsendurskoðun á stofnunum ríkisins. Skýrslur um stjórnsýsluendurskoðun eru birtar á vef ríkisendurskoðunar en skýrslur fjárhagsendurskoðunar - sem nema tugum á hverju ári - eru ekki birtar en teknar saman "helstu niðurstöður" og settar í ríkisreikning. Í þessum skýrslum sést best hvernig farið er með skattpeninga landsmanna. Eins og staðan er nú fær viðkomandi stofnun skýrsluna um sjálfa sig, það ráðuneyti sem hún heyrir undir og að lokum yfirskoðunarmenn ríkisreiknings. Þessar skýrslur þarf að birta allar.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 29.7.2015 kl. 12:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband