Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Ríkisstjórnin féll, en náði að rísa upp á hnén

Kristrún Heimisdóttir, núverandi og fljótlega fyrrverandi aðstoðarmaður Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur verið innsti koppur í búri Samfylkingarinnar frá stofnun hennar og hefur því ýmistlegt séð og heyrt þar innanbúðar í gegn um tíðina.

Enginn getur því efast um að lýsing hennar á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar, sem fram fór í gærkvöldi, er sönn og rétt og mat hennar sé óbrigðult, þegar hún lýsir því að ríkisstjórnin hafi í raun fallið á fundinum og formennska Jóhönnu sé nú aðeins til málamynda fram á vorið.  Eftirfarandi lýsing Kristrúnar af fundinum er algerlega sláandi: 

"Klukkan hálf níu var svo komið að forysta og ríkisstjórn væru að falla á fundinum líka og fór um marga föla fyrirliða. Það þurfti ræðu Árna Páls til bjargar og höfðu þó allar hvellandi básúnur Össurar og annarra sjálfskipaðra yfirkonfrensráða glumið yfir salinn og hótunum verið beitt á jafnt á ungliða sem eldri borgara. Tillaga um aukalandsfund í vor til kjörs á nýrri forystu hlaut afgreiðslu. Ný forysta verður væntanlega kosin í vor. Þá kemur flokksstjórn aftur saman í janúar til að krefjast stefnu og stjórnfestu í stað fyrirhugaðs mánaða flöskustúts á Arnarhóli um á hvaða ráðherrum í hlutastörfum og hvernig ýmis helstu þjóðarhagsmunamál lendi s.s. efnahags- atvinnu-, auðlinda- og nýsköpunarmál."

Jóhanna og Steingrímur sögðu bæði að hrossakaup undanfarinna daga hafi ekki bara styrkt flokkana sjálfa, heldur ríkisstjórnina sjálfa og því meiri sem deilurnar væru innan flokkanna og á milli þeirra, því sterkari yrði ríkisstjórnarsamstarfið.

Þessar yfirlýsingar þeirra sýna best hversu gjörsamlega raunveruleikafirrt þetta fólk er orðið og að enn brýnna sé að skipta um fólk í brúnni.  Það á ekki eingöngu við um stjórnarflokkana heldur ríkisstjórnina sjálfa.

Því fyrr sem slíkar breytingar verða, því betra verður hvort tveggja fyrir þjóðina. 


mbl.is Ríkisstjórnin og forystan nær fallin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn og Vaðlaheiðargöng. Annars engin ríkisstjórn

Ríkisstjórnarómynd Jóhönnu Sigurðardóttur hefur ekki nema eins atkvæðis meirihluta á Alþingi, sem þýðir í reynd að hver einasti þingmaður stjórnarflokkanna hefur neitunarvald í öllum málum. Því er svo komið að stjórnin kemur engu máli í gegnum þingið nema með hrossakaupum við einstaka þingmenn, sem nú orðið selja sig dýrt og helst ekki fyrir neitt minna en jarðgöng og helst tvö.

Ráðherrakapall Jóhönnu og Steingríms virðist ekki ætla að ganga upp nema algerlega tryggt verði að Vaðlaheiðargöng komist á framkvæmdaáætlun og helst Norðfjarðargöng líka.

Það hefur aldrei þótt stórmannlegt að svindla til þess að láta kapal ganga upp. Svona hrossakaup við lagningu ráðherrakapals jafngilda grófu spilasvindli.


mbl.is Fundahöld um allt hótelið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur Steingrímur ekki sagt satt? Ekki einu sinni óvart?

Steingrímur J. neitar því alfarið að andstaða Jóns Bjarnasonar gegn innlimun Íslands í væntanlegt stórríki ESB eigi nokkurn þátt í brottrekstri hans úr ríkisstjórn, þrátt fyrir yfirlýsingu Jóns sjálfs um að sú sé einmitt raunin. Annar hvor þeirra hlýtur að segja ósatt. Hvor ælti sé líklegri til slíks?

Í fréttinni fullyrðir Steingrímur einnig að Hreyfingin hafi óskað eftir viðræðum um að fá að styrkja ríkisstjórnina, gegn því að fá einhver af sínum stefnumálum fest í lög innan ákveðins tímaramma. Steingrímur segir sig og Jóhönnu hafa orðið GÓÐFÚSLEGA við því að veita Hreyfingunni áheyrn, þó ekkert hafi þó komið út úr því vinsamlega spjalli.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, hefur sagt, í hverju fjölmiðlaviðtalinu á eftir öðru, að ríkisstjórnin hafi leitað eftir loforði Hreyfingarinnar um að hún styddi ríkisstjórnina í ýmsum málum og myndi að minnsta kosti veita vilyrði fyrir því að verja stjórnina vantrausti. Þór sagði að upp úr viðræðunum hafi slitnað vegna þess að ríkisstjórnin féllst ekki á að veita stefnumálum Hreyfingarinnar brautargengi og sérstaklega ekki stefnu hennar í skuldamálum heimilanna. Annar hvor þeirra hlýtur að segja ósatt. Hvor ælti sé líklegri til slíks?

Margir halda því fram að Steingrímur J. geti ekki sagt satt. Skyldi hann ekki einu sinni geta sagt sannleikann þó ekki væri nema einstaka sinnum og þá jafnvel alveg óvart?


mbl.is Tengist ekki Evrópumálunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreyfingarlaus ríkisstjórn í hrossakaupum

Ríkisstjórninni hefur tekist að halda framförum og efnahagsumbótum nánast algerlega hreyfingarlausum í tæp þrjú ár, enda hefur fylgið hrunið af henni og flokkunum sem hana mynda og sífellt hefur farið fækkandi í stjórnarliðinu á þingi.

Nú er svo komið að hún hefur aðeins eins manns meirihluta í þinginu, þannig að nú eru stunduð hrossakaup um hvert mál sem ríkisstjórnin þarf að fá samþykkt, en þingmenn stjórnarflokkanna stunda grímulaust hagsmuna- og kjördæmapot í skiptum fyrir stuðning við stjórnarfrumvörp.

Ríkisstjórnin þarf og vill losna við Jón Bjarnason úr ríkisstjórn og líklega þarf Samfylkingin að nota Árna Pál Árnason, eða jafnvel Katrínu Júlíusdóttur, sem skiptimynt í þeim viðskiptum.

Með því að reka Jón Bjarnason úr ríkisstjórninni er líklegt að stjórnin missi meirihluta sinn og því hefur staðið yfir mikið baktjaldamakk alla jólahátíðina við Hreyfinguna um að hún styðji ríkisstjórnina, annað hvort með beinni þátttöku í ríkisstjórninni, eða a.m.k. með loforði um að verja hana vantrausti. Að sjálfsöguð verður slíkur stuðningur ekki ókeypis, frekar en annað í lífinu, en verðið fyrir þann stuðning mun ekki verða gefið upp að svo stöddu.

Ríkissjórnin hreyfingarlausa mun á næstu mánuðum slá út hvern einasta hrossaprangara landsins, hvort sem hún mun verða Hreyfingarlaus, eða ekki.


mbl.is Steingrímur vill ekki tjá sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgunarsveitirnar þurfa aðstoð

Þegar snjó kyngir niður á höfuðborgarsvæðinu, jafnvel þó ekki sé í sama mæli og í nótt, eru björgunarsveitirnar alltaf til taks til að aðstoða ökumenn sem sitja fastir á bílum sínum vítt og breitt um bæinn.

Allan ársins hring eru félagar sveitanna í viðbragðsstöðu, hvort sem er til að bjarga ferðamönnum í villum, fólki í lífsháska til sjós og lands og ekki síður innanbæja hringinn í kringum landið, hvenær sem aðstoðar er þörf.

Útgerð björgunarsveitanna kostar mikla fjármuni og við fjáröflun til starfseminnar treysta sveitirnar að stórum hluta á flugeldasöluna í kringum áramótin og því mikið í húfi að almenningur beini viðskiptum sínum til þeirra og sýni þannig þakklæti sitt fyrir óeigingjarnt starf þeirra.

Ástæða er til að minna fólk á að beina flugeldaviðskiptum sínum til hjálparsveitanna um þessi áramót, eins og önnur, en kaupa ekki skoteldana frá einkaaðilum, sem eingöngu reyna að maka krókinn, en leggja ekkert af mörkum á móti í þágu almennings.

Björgunarsveitirnar þarfnast stuðnings til að geta veitt almenningi stuðning.


mbl.is Þungfært vegna fannfergis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Írar kjósa og kjósa svo aftur og aftur, ef með þarf

Írsk stjórnvöld eru byrjuð að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðlu um nýjan "sáttmála" ESB um enn meira fullveldisafsal aðildarríkjanna og framsal fjárræðis ríkjanna til kommisaranna í Brussel, sem aftur lúta beinni stjórn Merkels og Sarkozys.  

Samkvæmt tilskipun Sarkels samþykktu forystumenn allra aðildarríkjanna, nema Bretlands, að fela Brussel meira af fullveldi sínu og fjárræði, með þeim málamyndafyrirvara að þjóðþingin gæfu samþykki sitt. Í tilfelli Írlands er það stjórnarskrárbundið að fullveldi landsins verði ekki skert, nema slíkt fáist samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Reynslan hefur sýnt að engu máli skiptir fyrir Íra, eða aðra, að hafna slíkum breytingum á stofnsáttmála ESB, því atkvæðagreiðslur eru einfaldlega endurteknar þangað til niðurstaða fæst sem Sarkel sættir sig við. Það sem hinsvegar er stórmerkilegt við "sáttmálann" sem Sarkel lét forystumenn aðildarþjóðanna samþykkja er, að ekki er ennþá búið að semja texta "sáttmálans" sem á að samþykkja á þjóðþingunum eða í þjóðaratkvæðagreiðsum.

Þetta sést vel af eftirfarandi setningu í fréttinni: "Ekki hefur enn verið gengið endanlega frá innihaldi hins nýja sáttmála en búist er við að það verði gert og hann kynntur leiðtogum ríkja Evrópusambandsins á næstu dögum."

Hvernig er hægt að samþykkja "sáttmála" sem ekki hefur ennþá verið skrifaður? 


mbl.is Írar undirbúa sig fyrir þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Læknar á heimsmælikvarða

Tölvustýrt staðsetningartæki var í dag tekið í notkun á Heila- og taugaskurðlækningadeild Landsspítalans í Fossvogi og var það gjöf frá Arion banka, en slíkt tæki kostar um tuttuguogfimmmilljónir króna.

Fréttin vekur ýmsar hugrenningar um heilbrigðismálin í landinu, en stór hluti hátækninnar á sjúkrahúsunum hefur verið fjármögnuð með gjöfum frá einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum, en nánast allt sem ríkið hefur sjálft átt að fjármagna hefur yfirleitt setið á hakanum og nægir þar að benda á viðhald þess húsnæðis sem Landsspítalinn rekur starfsemi sína í vítt og breitt um borgina.

Starfsfólk heilbrigðiskerfisins er hins vegar fyrsta flokks og vinnur sína vinnu vel og samviskusamlega, þrátt fyrir sífelldan niðurskurð og "hagræðingu" í mannahaldi. Hér er hægt að fullyrða að starfsfólk Heila- og taugaskursdeildar Landspítalans er algerlega á heimsmælikvarða og þá ekki síst læknarnir, sem margir hverjir eru meðal þeirra allra bestu á sínu sviði í veröldinni.

Í slíka sérfræðinga verður að halda með öllum ráðum og niðurskurður og "sparnaður" í kerfinu má alls ekki verða til þess að flæma þessa þekkingu, getu og færni úr landi og til þeirra landa sem kunna að meta þetta fólk.


mbl.is Bylting í heilaskurðlækningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannleg niðurlæging eins og hún gerist verst

Innbrot og þjófnaðir eru hvimleiðar gerðir og ekki síður skaðlegar og kostnaðarsamar fyrir þá sem fyrir þeim verða.

Slíkir glæpir eru oft framdir af fíklum sem leita verðmæta til að fjármagna neysluna, en upp á síðkastið hafa skipulagðir glæpir verið að skjóta æ fastari rótum í þjóðfélaginu, eins og sjá má af raðinnbrotum í íbúðir, fyrirtæki og verslanir, að ekki sé talað um einstaka þrautskipulögð innbrot í skartgripaverslanir og fleiri staði, þar sem mikil verðmæti er að finna.

Innbrotið í höfuðstöðvar Heimilishjálparinnar í Reykjanesbæ ber allan svip af því að fíkill hafi verið þar á ferð, enda litlu stolið öðru en tölvu sem allta finnast kaupendur að og reyndar virðast einhverjir óprúttnir aðilar hreinlega gera pantanir til fíklanna um ákveðna hluti, sem auðvelt er að koma í verð.

Einnig beinir þetta innbrot athyglinni að því, enn einu sinni, hve kæruleysi um afritun tölvugagna virðist vera algengt í þjóðfélaginu, því oftar en ekki er mesta tjónið við tölvustuld hvarf gagnanna sem í henni eru geymd og engin afrit eru til af.

Eins algengir og tölvuþjófnaðir eru orðnir er kæruleysið með afritatökur þeim mun furðulegra.


mbl.is Vonast eftir tölvugögnunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hátíð gengur í garð

Ég óska öllum bloggurum, bloggvinum, blogglesurum og að sjálfsögðu öllum ættingjum og vinum gleðilegra friðarjóla og vona allir fái notið þess hátíðleika sem þessum dögum fylgir.

Þjóðinni allri óska ég blessunar og farsældar og ekki síst ráðamönnum þjóðarinnar, sem ekki er alltaf fjallað um á hátíðlegan hátt á þessu bloggi, frekar en mörgum öðrum.

GLEÐILEG JÓL.


Ráðherralaun hækka, lífeyrir lækkar

Ráðherrum, þingmönnum og öðrum sem málið varðar er hjartanlega óskað til hamingju með þá ríkulegu jólagjöf sem Kjararáð færir þeim um þessi jól.

Því miður eru ráðherrarnir og þingmennirnir ekki jafn rausnalegir þegar kemur að útdeilingu jólasendinga sinna til elli- og örorkulífeyrisþega og annarra þeirra sem þurfa að treysta á þessa aðila vegna framfærslu sinnar, en þeim er aðeins ætluð 3,5% hækkun síns framfærslueyris, þrátt fyrir undirritaða samninga ráðherranna við verkalýðshreyfinguna um 6,5% hækkun.

Í tilefni af þessum ríflega jólabónus ættu stjórnvöld að sjá sóma sinn í að "draga til baka launalækkanir þeirra" sem undir þau heyra með lífsviðurværi.


mbl.is Launalækkun dregin til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband