Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014

Geta skuldarar borið heimsku fyrir sig til að losna undan lánaskilmálum?

Árið 1979 voru sett lög, svokölluð Ólafslög, um verðtryggingu fjárskuldbindinga og síðan hefur mestur hluti lána sem veitt hafa verið í landinu verið bundinn við breytingu vísitölu.  Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á því við hvaða vísitölu skuli miðað en undanfarin mörg ár hefur verið miðað við breytingu neysluverðsvísitölunnar.

Vegna mikils falls krónunnar á árunum 2008 og 2009 og þar með mikillar hækkunar neysluverðsvísitölunnar hafa ýmsir skuldarar verðtryggðra lána rekið mál fyrir dómstólum í tilraun til þess að fá þau dæmd ólögleg og í andstöðu við ESB-tilskipanir, en með úrskurði EFTA-dómstólsins í dag virðist sú tilraun farin út um þúfur.

Stefnendur hanga þó á síðasta hálmstráinu, sem er að skuldarar skilji ekki upp eða niður í verðtryggingunni, þrátt fyrir þrjátíuogfimm ára gildistíma, og viti því ekki undir hvað þeir eru að gangast með undirritun lánasamninganna.

Í úrskurði EFTA-dómstólsins segir m.a:  "Hvað varðar þá spurn­ingu hvort aðferðinni við út­reikn­ing verðbreyt­inga hefði verið ræki­lega lýst taldi dóm­stóll­inn það ákaf­lega mik­il­vægt að neyt­andi fengi nægi­leg­ar upp­lýs­ing­ar um skil­mála samn­ings og af­leiðing­ar hans áður en hann samþykkti hann. Slík lýs­ing yrði að gefa neyt­and­an­um færi á að taka upp­lýsta ákvörðun áður en hann und­ir­ritaði samn­ing. Þetta ætti sér­stak­lega við í til­vik­um þar sem aðilar kæmu sér sam­an um verðtrygg­ingu sem leiddi sjálf­krafa til breyt­inga á höfuðstól skuld­ar­inn­ar líkt og verðtrygg­ing­in í þessu til­viki. Það væri á grund­velli þeirra upp­lýs­inga sem neyt­andi ákvæði hvort hann vildi skuld­binda sig eða ekki sam­kvæmt skil­mál­um sem selj­and­inn eða veit­and­inn hefði samið fyr­ir­fram."

Niðurstaða málsins virðist því velta á því hvort skuldarar geti borið fyrir sig heimsku til þess að sleppa undan lánasamningum sínum, t.d. húsnæðislánum. 


mbl.is Verðtrygging ekki bönnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar henda mat frekar en að gefa hann

Alkunna er að magir kaupa alls ekki matvöru þegar fer að nálgast dagsetninguna sem merk er á umbúðirnar sem "best fyrir" og jafnvel henda allri vöru á heimilinu sem komin er að þessari dagsetningu.

Flest allar vörur endast langt fram yfir þessa "best fyrir" dagsetningu, að ekki sé minnst á dagsetninguna sem segir til um "síðasta söludag" og þrátt fyrir það eru ótrúlega margir sem forðast slíkar dagsetningar eins og heitan eld.

Frakkar íhuga að setja lög sem skyldar verslanir til að gefa allar matvörur sem seljast ekki fyrir þessar umræddu og skelfilegu dagsetningar til góðgerðarstofnana og feta þannig í fótspor Belga, sem settu slík lög í vor.  Er þetta auðvitað gert til að minnka það gríðarlega magn fullkomlega neysluhæfrar matvöru sem lendir á sorphaugum heimsins, engum til gagns nema þá helst rottum og öðrum álíka geðslegum kvikindum.

Fyrir nokkrum árum útdeildu Heimilishjálp Íslands, Mæðrastyrksnefnd og slík samtök matvöru sem komin var að "síðasta söludegi" til sinna skjólstæðinga og ekki vitað til þess að nokkrum manni  hafi orðið meint af, enda endast flestar vörur nokkuð langt fram yfir slíka dagsetningu eins og lagasetning Belga og Frakka ber glöggan vott um.

Ekki þarf að orðlengja það, að hér á landi varð allt vitlaust út af þessum matarúthlutunum sem þóttu engum bjóðandi og var slíkt að lokum bannað til að friða hina íslensku þjóð, sem virtist almennt verða óglatt við tilhugsunina eina um þessar "útrunnu" matvörur.

Fróðlegt verður að sjá viðbrögðin hérlendis þegar og ef tilskipun kemur frá ESB um lagasetningu í takt við þá belgísku. 

 


mbl.is Verslanir mega ekki henda mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Birna kveður mannorðsníðingana í kútinn

Undanfarna mánuði hafa allir helstu mannorðsníðingar landsins keppst við að níða æruna af Hönnu Birnu, Innanríkisráðherra, og reynt að bola henni úr embætti með ótrúlega ógeðslegum árásum á hana af upphaflega ómerkilegu tilefni en með sífelldum viðbótum við ásakanirnar og nýjum dylgjum.

Herferðin hefur verið undir forystu ritstjóra DV, sem virðist illa haldinn af ofsóknaræði og Ríkisútvarpið hefur gert sitt til að kynda undir óhróðrinum og ekki hafa rógtungur vinstri aflanna látið sitt eftir liggja í þessari ófrægingarherferð í samræmi við þá gömlu kenningu að ef ósannindin eru endutekin nógu oft fari þau að virka eins og sannleikur.

Hanna Birna hefur kosið að halda sig til hlés og verja sig ekki með tilvísun til þess að slíkt væri ekki við hæfi á meðan á rannsókn málsins stæði, en líklega hafa það verið mistök af hennar hálfu því þögn hennar hefur einungis virkað eins og olía á eld þegar litið er til framgöngu DV og annarra mannorðsníðinga í herferðini gegn henni.

Loksins hefur mælirinn verið orðinn fullur að hennar mati því hún kom fram í löngu og ítarlegu viðtali í þættinum "Sprengisandi" á Bylgjunni í morgun og eins og vænta mátti sýndi hún fram á hversu glórulausar þessar árásir hafa verið og tilefnislausar.

Eftir þetta viðtal hljóta þeir sem fremstir hafa farið í flokki í þessum ógeðslegu og ósanngjörnu árásum á mannorð Hönnu Birnu að skammast sín og biðjast afsökunar á framferði sínu.  Líklega er það þó til of mikils mælst miðað við fyrri framkomu þessara aðila. 


mbl.is „Vantraust á ráðuneytið moldviðri“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er stéttarfélögum stjórnað af eintómum liðleskjum?

Fulltrúar stéttarfélagsins Einingar játa að þeim berist fjöldi erinda í hverjum mánuði vegna þess að eigendur veitingahúsa stela í stórum stíl af launum starfsmanna sinna.  Áður hafa fulltrúar VR játað opinberlega að vita um og fá stöðugar kvartanir vegna slíkra þjófnaða.  Hvorugt félagið, né nokkur önnur, gera nokkurn skapaðan hlut til að berjast gegn þessum ræningjabælum og útrýma þessum ósóma.

Að greiða launþegum skipulega lægri laun en kjarasamningar segja til um, er skýrt samningsbrot og því skylda lanþegafélaganna að skerast í leikinn og berjast af krafti fyrir hönd skjólstæðinga sinna, enda er þeim það gjörsamlega ómögulegt hverjum fyrir sig enda reknir umsvifalaust óski þeir leiðréttingar sinna mála.

Stéttarfélögin eiga að sjálfsögðu að boða verkföll á hverjum þeim vinnustað sem upplýsist að rekinn sé af slíkum vesalingum að þeir hafi samvisku til að stela af launum þeirra starfsmanna sinna sem á lægstu laununum vinna, væntanlega til þess að geta veitt sjálfum sér meira í þeirri von og vissu að stéttarfélögunum sé stjórnað af slíkum liðleskjum að aldrei verði gripið til raunhæfra aðgerða til þess að fletta ofan af þjófunum.

 


mbl.is Krafðist réttra launa og var rekin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband