Bloggfærslur mánaðarins, mars 2016

Það verður að byggja spítalann við Hringbraut

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, segir að nýr landspítali verði byggður við Hringbraut, enda sé undirbúningur kominn langt á veg og framkvæmdir í raun byrjaðar.

Verði hróflað við staðarvalinu og farið að ræða um nýjan stað fyrir spítala þarf enginn að láta sér detta í hug að samstaða náist undir eins um að byggja á Vífilstöðum, enda hafa margar aðrar staðsetningar verið nefndar, svo sem Geirsnef, Ártúnshöfði og Keldnaholt svo nokkrir staðir séu nefndir sem um hefur verið rætt.

Þjóðin virðist vera á einu máli um að efla þurfi heilbrigðiskerfið og eitt það brýnasta til þess að svo megi verða er ný spítalabygging og sú þarf að rísa sem allra fyrst. Þangað til að svo verði er lítið sem ekkert svigrúm til að bæta heilbrigðisþjónustuna, nema með því að bæta við hjúkrunarheimilum fyrir aldraða, en eftir sem áður bráðliggur á nýju og fullkomnu sjúkrahúsi sem stenst allar nútímakröfur um slíka starfsemi.

Vegna þrasáráttu okkar Íslendinga má ekki bakka með uppbyggingu sjúkrahússins við Hringbraut, því einmitt þessi eiginleiki okkar myndi annars verða til að tefja málið um mörg ár, jafnvel tvo áratugi.


mbl.is Spítalinn verður við Hringbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græðgisgróðinn greiddur úr síðar???

Stjórnir VÍS og Sjóvár hafa skammast til að senda út tilkynningar um að arðgreiðslur verði lækkaðar og "einungis" verði allur hagnaður félaganna á síðasta ári borgaður til hluthafa sem arður.  Ekki ein króna til uppbyggingar félaganna sjálfra, allt til hluthafanna.

Til að bíta höfuðið af skömminni þykjast stjórnarmenn VÍS vera nýgræðingar sem einungis hafi verið að vinna eftir margra ára stefnu félagsins, sem margoft hafi verið kynnt fyrir viðskiptavinum félagsins.

Í nýrri tilkynningu frá stjórn VÍS segir m.a:  „Stjórn­in get­ur ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að fylgi hún nú­ver­andi arðgreiðslu­stefnu, þá geti það skaðað orðspor fyr­ir­tæk­is­ins. Í því ljósi hef­ur stjórn ákveðið að leggja til að greiðsla sé miðuð við hagnað síðasta árs. Stjórn VÍS tel­ur mik­il­vægt að fram fari umræða inn­an fé­lags­ins, meðal hlut­hafa og út í sam­fé­lag­inu um lang­tíma­stefnu varðandi ráðstöf­un fjár­muna sem ekki nýt­ast rekstri skráðra fé­laga á markaði.“

Þetta fólk hefur greinilega engan skilning á því að annar eins ofurgróði skapast ekki nema með okri á seldri þjónustu og heiðarleg stjórn myndi að sjálfsögðu leggja til verulega lækkun iðgjalda og láta viðskiptavinina njóta betri kjara.

Til lengri tíma litið yrði það hluthöfunum til góðs, því án tryggra viðskiptavina munu hluthafarnir ekki geta hirt nokkurn einasta arð út úr rekstrinum í framtíðinni.


mbl.is VÍS lækkar arðgreiðsluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósvífni græðgismógúlanna verður sífellt ógeðslegri

Á árunum fyrir hrun virtust banka- og útrásarvíngar njóta mykillar hylli meðal þjóðarinnar og engu líkara en að útþurrkun eigin fjár hinna ýmsu stórfyrirtækja sem þá átti sér stað þætti ekki tiltökumál.

Þetta kom fram í því að ýmsir hópar viðskiptagarka, t.d. bankastjórnenda og Bónussklíkunnar svo örfá dæmi séu nefnd, skiptu upp fyrirtækjum, skuldsettu þau upp í rjáfur og greiddu svo sjálfum sér uppsafnað eigið fé út sem arð og bónusa.  Kannski var þessi meðvirkni almennings vegna þess að fólk skildi hreinlega ekki þær upphæðir sem skiptu um hendur í þessum gjörningum, því þær voru svo stjarnfræðilegar að almenningur hafði hreinlega ekki heyrt slíkar tölur nefndar í sambandi við peninga áður.

Bankarnir og fyrirtækin ofurskuldsettu fóru síðan unnvörpum á hausinn í bankakreppunni og afleiðingum hennar, en ofurlaunin, risabónusarnir og tröllvöxnu arðgreiðslurnar liggja einhversstaðar á leynireikningum í hinum ýmsu skattaskjólum veraldarinnar.

Núna er aftur farið að bera á svipaðri græðgi í atvinnulífinu og átti sér stað fyrir bankahrun og enn eru stjórnendur farnir að borga sjálfum sér ótrúleg ofurlaun, feitu bónusarnir aftur farnir að líta dagsins ljós og arðgreiðslurnar sjaldan eða aldrei verið ríflegri en einmitt núna.

Munurinn er þó sá að í þjóðfélaginu er ekki lengur nokkur einasta þolinmæði gagnvart þessari græðgi tiltölulega lítils hóps manna sem greinilega er gripinn svo brjálæðislegri gróðafíkn í eigin þágu að nánast ótrúlegt er.

Þessir tiltölulega fáu ofurgræðgisbarónar ættu að reyna að sjá og skilja andrúmsloftið í kringum sig áður en það verður of seint fyrir þá.


mbl.is Vilja skoðun á tryggingamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græðgi og gróðavon að ganga frá ferðaþjóunstunni?

Ferðaþjónustusalar auglýsa landið með fallegum góðviðrismyndum, flestar teknar á sólríkum sumardögum og sem sýna allar fegurstu náttúruperlurnar eins og þær eru við bestu skylyrði.

Allt kapp er síðan lagt á að lengja ferðatímabilið og fá sem flesta ferðamenn til að koma að vetrarlagi og hefur það tekist ótrúlega vel og er nú svo komið að landið er að yfirfyllast af ferðamönnum sem leita eftir því sem þeir sjá í auglýsingunum, en enginn virðist bera ábyrgð á því að sumarmyndirnar skuli í raun vera fölsun á raunveruleika vetrarferðanna.

Við þessar aðstæður, sem ferðamönnunum eru algerlega framandi og þeir kunna ekkert að bregðast við, fjölgar slysum og eru þau misalvarleg.  Minniháttar meiðsli og beinbrot komast sjaldan í fréttir en sífjölgandi dauðaslys gera það hinsvegar.

Ferðaþjónustuaðilarnir sem selja þessar ferðir dýrum dómum og hagnast vel á þeim vilja hins vegar ekki leggja fram neina fjármuni til þess að efla slysavarnir á þeim stöðum sem þeir fara á með hópa sína, en gera hins vegar háværar kröfur á opinbera aðila um að sjá um slysavarnirnar.

Ættu það ekki að vera þeir sem selja vöruna sem sæju sjálfir um að hún stæðist öryggiskröfur?


mbl.is Rústum ferðaþjónustu líkt og síldinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband