Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Vinstra liðið í vanda vegna Landspítalaforstjóra

Vinstra liðið í landinu hefur lent í mikilli klemmu vegna tímabundinnar ráðningar Páls Matthíssonar í forstjórastöðu Landspítalans, en margir úr því liðinu hafa í dag verið að reyna að gera ráðninguna tortryggilega, sumir með ættartengslum Páls og Bjarna Ben. og aðrir með því að básúna að ekki hafi verið auglýst eftir forstjóra þó ráðherra hafi margtekið fram að um tímabundna ráðningu væri að ráða og staðan yrði auglýst innan skamms tíma.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, eykur á ringulreiðina hjá vinstra liðinu með því að dásama ráðningu Páls og halda því fram að ráðherra hefði varla getað fundið heppilegri kandidat í starfið.  

Það er sannarlega erfitt að lifa fyrir fólk á vinstri kanti stjórnmálanna á þessum síðustu tímum, enda það ekki búið að jafna sig eftir afhroðið í kosningunum í vor.   


mbl.is „Erfitt að finna betri mann“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ja, hver röndóttur

Afar dularfullir atburðir hafa verið að eiga sér stað í Laugardalnum að undanförnu, en þar fara fram um helgina stórkostlegar samkomur sitt af hvoru taginu.

Í tjaldi fer fram hátíð vona hinna samkynhneygðu, tileinkuð hátíð vona þeirra sem elska samkynhneygða og þeirra sem ekki eru alveg eins hrifnir af þeim.

Á milli þessarra vonarhátíða lögðu Gnarr og Dagur litríka gangbraut, sem minna átti samkomugesti báðum megin við hana á litbrigði lífsins og fegurð regnbogans.  Ekki vildi betur til en svo að lögreglan gerði litina í gangbrautinni upptæka örstuttu eftir að félagarnir höfðu látið skreyta brautina svo fallega.

Gnarr og Dagur gáfust ekki upp við svo búið, heldur límdu nú skrautlitina niður aftur með sérstöku malbikslími og áttu auðvitað ekki von á öðru en að samkomugestir beggja vegna litadýrðarinnar nytu skreytinganna alla hátíðarhelgina í sátt og samlyndi.

Þau undur og stórmerki hafa svo gerst að hinir skrautlegu límrenningar hafa orðið uppnumdir og sjást engin merki um að hinir listelsku Dagur og Gnarr hafi nokkurn tíma átt leið um Laugardalinn með malbiksskreytingar sínar.

Hvort hér sé um að ræða skemmdarverk eða kraftaverk er ekkert vitað á þessari stundu. 


mbl.is Hafa þurft að leggja mikið á sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æði frá upphafi vega

Samkvæmt viðhangandi frétt er píkan "nýjasta æðið", en a.m.k. vita þeir sem komnir eru til vits og ára, jafnt karlar og konur, að píkan hefur þótt algert æði frá upphafi vega og afar eftirsótt.

Til skamms tíma mátti hins vegar ekki nefna hana á nafn án þess að fá á sig stimpil dóna, í vægasta tilfelli, og jafnvel klámhunds og perra.   Síðan breyttist þetta viðhorf skyndilega og farið var að semja sögur, ljóð og leikrit um píkuna, en í flestum tilfellum var þar um kvenhöfunda að ræða, en karlar sem leyfa sér að semja eða skrifa eitthvað um píkur eru ennþá teknir með miklum fyrirvörum um tilgang og eðli skrifanna.

Nú eru konur farnar að gagna með píkuskartgripi, sitja í píkusófum og hengja píkuskraut upp um alla veggi heima hjá sér og annarsstaðar og þykir rosalega flott.

Hvernig heldur fólk að viðtökurnar verði þegar einhver karlinn fer að semja ljóð og leikrit um tittlinginn á sér, smíða tittlingssófa og hengja tittlingaskraut upp um alla veggi.

Líklega mun þessi síðasta setning, eins saklaus og hún er, vekja mikla hneykslun og þykja allt of klúr til birtingar á þessum vettvangi. 


mbl.is Píkan nýjasta æðið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt ákvörðun Gísla Marteins

Gísli Marteinn Baldursson hefur ákveðið að hætta í borgarstjórn Reykjavíkur og taka atvinnutilboði frá Ríkisútvarpinu um að annast umræðuþátt í sjónvarpinu í anda Silfurs Egils.

Gísli Marteinn segir sjálfur að hann treysti sér ekki til að gefa áfram kost á sér í prófkjöri fyrir uppröðun á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar sem fram munu frara á vori komanda.

Sá sem hér skrifar hefur alltaf kosið Gísla Martein í eitthvert efstu sætanna í prófkjörum fram til þessa, en hefði ekki treyst sér til þess núna vegna afstöðu Gísla Marteins í flugvallarmálinu, en hans afstaða er algerlega andstæð samþykktum landsfundar flokksins, sem ályktað hefur um áframhaldandi veru vallarins í Vatnsmýrinni.

Einnig er Gísli Marteinn orðinn alltof samdauna stefnu vinstra liðsins í borgarstjórn í umferðarmálum, en bílstjórahatur borgarfulltrúanna er gengið fram úr öllu hófi og reiðhjóladekrið tekið öll völd.  Dæmi um það eru hjólabrautarframkvæmdir við Elliðaárósa upp á 240 milljónir króna, sem ætlaðar eru til að stytta okkur Grafarvogsbúum hjólavegalengd um SJÖHUNDRUÐ metra.

Gísli Marteinn er afbragðsmaður og hefur margt gott gert á borgarstjórnarferli sínum sem þakka ber heilshugar, en eins og hann segir sjálfur er nú orðið tímabært að snúa sér að öðrum verkefnum.   


mbl.is Gísli Marteinn hættir í borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um lýðræðislegar leikreglur?

Stjórnskipan landsins gerir ráð fyrir kosningum til þings og sveitarstjórna og að til þess kjörnir fulltrúar fari með löggjafarvald í tilfelli Alþingis og framkvæmdavald í tilfelli sveitarstjórna.

Sveitastjórnir annast skipulagsmál, vinna skipulagsbreytingar, aulýsa þær, taka tillit til athugasemda eftir því sem tilefni er til hverju sinni og sjá síðan um að framkvæmdir séu í samræmi við endanlega auglýst skipulag.

Um vegalagningu í Gálgahrauni í Garðabæ hefur verið fjallað af Bæjarstjórn Garðabæjar og stofnunum bæjarins og málið gengið í gegnum öll stig skipulagsmála, eftir því sem landslög standa til og samkvæmt öllum lögum og reglum ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir og ljúka þeim á sem skemmstum tíma í þágu  íbúanna og umhverfisins.

Um þrjátíu sjálfskipaðir umhverfissinnar hafa raðað sér framan við vegagerðarvélarnar og með því komið í veg fyrir framkvæmdirnar.  Sumt af þessu fólkki hefur verið í framboði til Alþingis og sveitarstjórna án þess að finna náð fyrir kjósendum og haf því ekki haft beina aðkomu að skipulagsmálum svæðisins.

Enginn hefur kosið þetta fólk til að fara með skipulagsmál Garðabæjar eða annarra sveitarfélaga.  Eiga landslög ekki að gilda í Gálgahrauni eins og annarsstaðar á landinu? 


mbl.is Pattstaða í hrauninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gulagið lifir undir stjórn Putins

Margt hefur verið rætt og ritað um ómannúðlega meðferð í fangabúðum Norður-Kóreu og þær oft nefndar til vitnis um ómennska stjórnarhætti í því landi og það kvalræði sem fólk má þola, lendi það upp á kant við stjórnvöld jafnvel fyrir minniháttar sakir.  Margir reyndar fyrir engar sakir, að því er sögur herma.

Í Sovétríkjunum sálugu var stjórnarfarið lítið skárra en það er ennþá í Norður-Kóreu og þar voru fangabúðirnar kallaðar Gúlag og bárust af þeim ljótar lýsingar sem yfirvöld harðneituðu jafnan og vildu ekkert kannast við Gúlagið, sem dreift var um ríkin og yfirleitt staðsett á harð- og strjálbýlum svæðum.  

Fangar kommúniskra valdhafa í Sovétríkjunum þurftu að þola ótrúlegt harðræði, eins og enn tíðkast í Norður Kóreu og allir hneykslast á, og sammerkt með þessum hryllingsbúðum er að fjöldi fanga tærist upp og deyr vegna aðbúnaðarins og hörkulegra refsinga sem þar tíðkast fyrir minnstu sakir.

Nú er að koma í ljós að í Rússlandi Pútíns eru reknar fangabúðir í anda Sovétríkjanna og Norður-Kóreu og kemur greinargóð lýsing einnar liðskonu Pussy Riot fram í meðfylgjandi frétt, en hún var dæmd til tveggja ára vistar á slíkum kvalastað fyrir litlar yfirsjónir.

Eftirfarandi texti úr féttinni segir það sem segja þarf:  "Tolokonníkova segir að þær þurfi að vinna frá 7:30 að morgni til 0:30 að nóttu alla daga vikunnar. Þeim sé refsað reglulega og beittar miklu harðræði. Ef fangar brjóta reglur sem gilda í búðunum eru þeir barðir og þeim neitað um mat. Er það refsingin fyrir smávægileg brot. Eins séu þær barðar, sviptar rétti til að fara á klósett og fá vatn að drekka."

Fangarnir eru látnir vinna frá 7:30 til 0:30 alla daga vikunnar við mikið harðræði og er refsað grimmilega ef fangavörðunum finnst þær ekki fara að "reglum" í hvívetna.

Hér er verið að tala um aðbúnað í svokölluðu lýðræðisríki á tuttugustuogfyrstu öldinni.  Greinilegt er að stjórnarhættir Pútíns taka mikið mið af reynslu hans sjálfs af störfunum fyrir Sovétríkin og leyniþjónustuna KGB, en þar var hann æðstistrumpur um árabil fyrir fall kommúnismans. 


mbl.is „Erum manneskjur ekki þrælar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Töluvert xxxxxxxxxxxxxx en búast mætti við

Alltaf þegar svokallaður borgarstjóri í Reykjavík tjáir sig opinberlega fer skjálfti um borgarbúa vegna þeirrar niðurlægingar og skammar sem þeir finna til vegna þess gráa gamans sem kjósendur létu hafa sig út í að taka þátt í fyrir rúmum þrem árum.

Sem betur fer kemur svokallaður borgarstjóri sjaldan fram fyrir hönd borgarinnar nema þegar einhver fíflagangur á sér stað, eða einhverjir þeir atburðir eru sem ekki þarf að segja mikið um, a.m.k. ekki mikið sem krefst einhverrar hugsunar að ráði.

Við móttöku stærstu og fjölmennustu undirskriftarsöfnunar Íslandssögunnar lét þessi maður það út úr sér að hann hefði nú búist við fleiri undirskriftum en sextíuogníuþúsundum, enda myndi hann ekki láta þær hafa nokkur áhrif á sína skoðun eða afgreiðslu málsins.

Engu líkara er en að svokallaður borgarstjóri sé töluvert xxxxxxxxxxxxxxx en búast mætti við. 


mbl.is „Töluvert færri en ég bjóst við“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

A.m.k pólsku, spænsku, frönsku, dönsku og víetnömsku á skiltin með enskunni

Vegna þess að einn og einn ferðamaður hefur álpast inn á svæði þar sem afleit veðurspá hefur verið í gildi, hefur Vegagerð ríkisins tekið upp á því furðulega athæfi að hætta að birta viðvaranir á vegaskiltum sínum á íslensku, en tekið upp ensku í staðinn.

Ekki er vitað hvort ferðamennirnir sem lentu í hrakningum nú síðast, eða áður, hafi skilið ensku, því oft er um að ræða ítali, frakka, kínverja, japani, filippseyinga og í raun fólk hvaðanæva úr heiminum, sem lent hefur í alls kyns ógöngum í ferðum sínum hingað til lands og margir þeirra hafa ekki kunnað stakt orð í ensku.

Því er óskiljanlegt að Vegagerðin skuli taka enskuna upp sem sitt tungumál, reyndar í algeru trássi við landslög, því ef á að fara að birta allar viðvaranir um veður, vegi, eða annað, á öðrum tungumáli en því ylhýra, þá hljóta ítalska, pólska, franska, víetnamska, danska o.s.frv. að vera jafnrétthá enskunni í þessu efni.

Auðvitað væri miklu auðveldara að brýna fyrir erlendum ferðamönnum að kynna sér veðurspá nokkra daga fram í tímann og haga ferðum sínum í samræmi við það.  Flestir ef ekki allir ferðamenn sem velja Ísland til að ferðast um vita að við ýmsu er hægt að búast í sambandi  við veður og náttúruna yfirleitt.

Að minnsta kosti verður að ætlast til þess að opinberar stofnanir og ríkisfyrirtæki fari að lögum landsins. 


mbl.is Bannað að birta „CLOSED“ á ljósaskilti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skattleggja atvinnuvegina úr landi

Vinstri stjórnin sem ríkti hér í fjögur ár, en þraut örendið sem betur fer í vor, hækkaði alla skatta sem hægt var að hækka og bætti svo mörgum og flóknum sköttum við, að núorðið skilur enginn skattkerfið í landinu nema hálærðir endurskoðendur og aðrir skattasérfræðingar. 

Stórtækasta skattahækkunin sem vinstri stjórnin stóð fyrir, eftir að málið hafði vafist fyrir henni í tæp fjögur ár, var hækkun veiðigjalds sem eftir allan tímann sem fór í undirbúninginn var svo meingallað að ógerningur reyndist að leggja þessa skattahækkun á útgerðina.

Í viðhangandi frétt bendir Þorarður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Deloitte, á að með því að reikna veiðigjaldið m.a. út frá hagnaði landvinnslunnar muni það á endanum leiða til þess að fiskvinnslan muni einfaldlega flytjast úr landinu og á því munu auðvitað allir tapa,  verkafólk, vinnslufyrirtækin og ríkissjóður sjálfur.  

Vinstri menn hafa aldrei skilið hve letjandi ofurskattar eru og ættu að lesa eftirfarandi orð Þorvarðar oft og vandlega:  „Ef við ætlum að draga tennurnar úr íslenskum sjávarútvegi með ofurskattlagningu, þá mun það leiða til minni verðmætasköpunar.“

Þessi vísindi eru ekki flóknari en svo að jafnvel vinstri sinnað fólk ætti að geta skilið þau. 


mbl.is Hætta á að vinnslan færist út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör og ekkert annað

Á morgun mun Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík kjósa um hvort fram skuli fara prófkjör, þar sem aðeins verði kosið um fyrsta sæti listans í næstu borgarstjórnarkosningum, eða venjulegt prófkjör þar sem kosið er um öll sæti listans.

Undanfarna áratugi, nánast eins langt aftur og tiltölulega gamlir menn muna, hafa farið fram prófkjör innan Sjálfstæðisflokksins, þar sem frambjóðendur hafa tekist á um sæti á framboðslistum og hafa þau ávallt heppnast afar vel og ekki orðið nein eftirmál á milli frambjóðenda.  Þvert á móti hafa frambjóðendur snúið bökum saman eftir prófkjörin og unnið heilshugar og sameinaðir að framgangi flokksins í hverjum kosningum fyrir sig.

Að ætla að kjósa eingöngu um leiðtoga listans er undarleg og nánast ómöguleg hugmynd, því hvað hyggst kjörnefndin gera við þá frambjóðendur sem lenda í öðru til tíunda sæti í leiðtogakjörinu?  Ætlar hún að raða þeim á framboðslistann í þeirri röð sem leiðtogakjörið sagði fyrir um, eða á ekki að taka neitt mark á því sem út úr þeirri kosningu  kemur, að frátöldu fyrsta sætinu?  Ef svo, hverja á þá að velja á listann með leiðtoganum?

Leiðtogakjör er stórgölluð aðferð og reyndar nánast handónýt.  Prófkjör um öll sæti listans og sem allt flokksbundið Sjálfstæðisfólk hefur rétt til að taka þátt í er eina raunhæfa leiðin til að velja á framboðslista flokksins.

Ekki verður öðru trúað en að sú verði niðurstaða fulltrúaráðsins. 


mbl.is Kjósa um tvær leiðir við val á lista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband