Hvað um lýðræðislegar leikreglur?

Stjórnskipan landsins gerir ráð fyrir kosningum til þings og sveitarstjórna og að til þess kjörnir fulltrúar fari með löggjafarvald í tilfelli Alþingis og framkvæmdavald í tilfelli sveitarstjórna.

Sveitastjórnir annast skipulagsmál, vinna skipulagsbreytingar, aulýsa þær, taka tillit til athugasemda eftir því sem tilefni er til hverju sinni og sjá síðan um að framkvæmdir séu í samræmi við endanlega auglýst skipulag.

Um vegalagningu í Gálgahrauni í Garðabæ hefur verið fjallað af Bæjarstjórn Garðabæjar og stofnunum bæjarins og málið gengið í gegnum öll stig skipulagsmála, eftir því sem landslög standa til og samkvæmt öllum lögum og reglum ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir og ljúka þeim á sem skemmstum tíma í þágu  íbúanna og umhverfisins.

Um þrjátíu sjálfskipaðir umhverfissinnar hafa raðað sér framan við vegagerðarvélarnar og með því komið í veg fyrir framkvæmdirnar.  Sumt af þessu fólkki hefur verið í framboði til Alþingis og sveitarstjórna án þess að finna náð fyrir kjósendum og haf því ekki haft beina aðkomu að skipulagsmálum svæðisins.

Enginn hefur kosið þetta fólk til að fara með skipulagsmál Garðabæjar eða annarra sveitarfélaga.  Eiga landslög ekki að gilda í Gálgahrauni eins og annarsstaðar á landinu? 


mbl.is Pattstaða í hrauninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Það stefnir í að umhverfissinnarnir vinni þetta mál.  Sem náttúruvinir gegn stofnanaofbeldi.

Það merkilega er að það virðast engir íbúar finnast sem fagna þessari vegabót.  Að minnsta kosti fer afar lítið fyrir þeim.

Þessi vegaframkvæmd  er því nú þegar dauðadæmd ef enginn nennir að mæla henni bót.  

Kolbrún Hilmars, 23.9.2013 kl. 19:27

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ekkert veit ég hverjir mæla henni bót, en alla vega hefur hún farið í gegn um allt það ferli sem lög og reglugerðir gera ráð fyrir.

Ég var að velta fyrir mér hvort lög landsins giltu ekki um svona mál, alveg eins og önnur, t.d. innbrot, líkamsárásir og þess háttar.

Er það ekki andstætt lýðræðisreglum að ef maður lendir í minnihluta með skoðanir sínar, þá taki hann einfaldlega lögin í sínar eigin hendur?

Axel Jóhann Axelsson, 23.9.2013 kl. 19:46

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Axel, það voru nú eiginlega ekki lögin og framkvæmd þeirra sem ég hafði í huga, heldur hitt sem þú nefndir; lýðræðið.

Mér sýnist á öllu að íbúarnir sjálfir hafi engan áhuga á að blanda sér í málið.  Það er þeirra lýðræðislega val að taka ekki afstöðu.  En þögn er sama og samþykki í þessu tilviki sem mörgum öðrum.

Það er samt lélegt að segja "ég kaus þig til þess að gera þetta - eða hitt" og standa svo ekki með fulltrúa sínum þegar á málin reynir.  Eins og í þessu tilviki.

Kolbrún Hilmars, 23.9.2013 kl. 20:05

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Kolbrún það er bara alls ekki rétt að engir íbúar fagni þessum vegi.  Persónulega þekki ég fólk sem fjárfesti í íbúðum og fasteignum á svæðinu EINMITT vegna þess að til stóð að fara í þessar vegaframkvæmdir.

Jóhann Elíasson, 23.9.2013 kl. 20:18

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Um vegalagningu í Gálgahrauni í Garðabæ hefur verið fjallað af Bæjarstjórn Garðabæjar og stofnunum bæjarins og málið gengið í gegnum öll stig skipulagsmála, eftir því sem landslög standa til

Þetta er bara einfaldlega ekki rétt, því málið á enn eftir að ganga gegnum öll stig dómskerfisins, þar sem það er statt núna.

og samkvæmt öllum lögum og reglum ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir og ljúka þeim á sem skemmstum tíma í þágu íbúanna og umhverfisins.

Jú, einmitt sú staðreynd að lögmæti framkvæmdarinnar eru nú til úrlausnar fyrir dómstólum.

P.S. Í þágu umhverfisins? Er það í þágu umhverfisins að leggja yfir það hraðbrautir þar sem engra slíkra er þörf?

Guðmundur Ásgeirsson, 23.9.2013 kl. 20:18

6 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Jóhann, hvar er þetta fólk sem þú nefnir?  Það fer engum fréttum af því að það hafi sýnt samstöðu með framkvæmdunum með því að mæta á svæðið.  Þó er það einmitt nákvæmlega það sem þarf!

Guðmundur, þessi Álftanesvegur er enn jafn stórhættulegur og hann var fyrir 50 árum þegar ég "sá" hann fyrst.  Nema slitlagið sem slett var ofan á í millitíðinni.

Kolbrún Hilmars, 23.9.2013 kl. 20:43

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Guðmundur, það getur varla talist umhverfinu í hag að hafa vegstæðið opið og óklárað árum saman. Svona framkvæmdir þurfa að taka sem skemmstan tíma, þannig að hægt sé að snyrta og fegra í kringum þær og gera þá útlit þeirra eins snyrtilegt og mögulegt er.

Axel Jóhann Axelsson, 23.9.2013 kl. 20:53

8 Smámynd: Jóhann Elíasson

Kolbrún viltu fá nafn og kennitölu hjá þessu fólki og hver er tilgangurinn með spurningunni??  Málið er það að fjölmiðlar hafa eingöngu fjallað um aðra hlið þessa máls en það er ekki fjallað um það að fólk sem býr þarna alveg ofan í gamla veginum og keypti fasteignirnar vegna þess að það átti að fara að byggja nýjan veg, það þorir ekki að hleypa börnunum sínum út að leika sér , vegna þess að gamli vegurinn fer nánast um útidyrnar hjá þeim.  Og það er ekki nein smáumferð um þennan veg.................

Jóhann Elíasson, 23.9.2013 kl. 22:19

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Umferðin um núverandi veg er 7000 bílar á dag. Umferðin um Skeiðavog í Reykjavík sem er mjög sambærileg gata er 14000 bílar á dag, mun fleiri íbúðahús og langar blokkir við þá götu og tveir skólar.

Tölur um "stórhættuleg" slys á núverandi Álftanesvegi sýna ekki að hann sé neitt hættulegri en gerist og gengur en þar að auki sést af samanburði við Skeiðavog og margar aðrar götur, til dæmis Hafnarfjarðarveg þarna rétt hjá, að auðvelt er að setja vegrið í miðjan veg og tvöfalda akbrautina.

Fólkinu í húsunum við veginn var lofað nýjum og fráránlega umfangsmiklilli vegagerð, sem miðast við sjöföldun umferðar á svæðinu án þess að nokkuð lægi fyrir um að hann yrði gerður eða kæmist á koppinn eða að þau tugþúsunda hverfi risu sem gætu réttlætt slíkt bruðl á sama tíma sem heilbrigðiskerfið er að hruni komið.

Framkvæmdaleyfi fyrir nýja veginum er útrunnið og mat á umhverfisáhrifum úrelt og rangt.

Lögbannsmálið er prófsteinn á það hvort fara eigi að landslögum um lögvarða hagsmuni náttúruverndarfélaga sem eru með þúsundir félaga hvert.

Með það er fyrir dómstólum sem og krafa um lögbann er fullkomlega siðlaust að ætla sér að vaða yfir hraunið og stúta því.

Með því tekur Vegagerðin dómsvaldið í sínar hendur og því snýst málið nú um það hvort hér sé réttarríki eða bananalýðveldi þar sem unnin verða algerlega óafturkræf spjöll með sömu aðferð og þegar fram fer aftaka án dóms og laga.

Ómar Ragnarsson, 23.9.2013 kl. 22:32

10 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ómar, reyndu ekki að bulla svona.  Þú ættir að prófa að búa þarna og að bera götuna saman við Skeiðarvog er alveg út í hött.  Það var EKKERT tímalengdarákvæði í framkvæmdaleyfinu sem segir ekkert annað en það að það eru svokallaðir "umhverfisverndarsinnar" sem eru að taka dómsvaldið í sínar hendur og þar með að traðka á lýðræðinu.

Jóhann Elíasson, 24.9.2013 kl. 07:23

11 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ómar, án þess að taka nokkra afstöðu til vegalagningarinnar finnst mér það vera alveg út í hött að líkja framkvæmdinni við aftöku án dóms og laga, því verkið hefur einmitt farið í gegn um allt það ferli sem landslög segja fyrir um.

Yfirvöld hafa samkvæmt því farið algerlega að lögum og reglum í málinu, en er hægt að segja það sama um alla?

Axel Jóhann Axelsson, 24.9.2013 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband