Fastir vextir bíta engu síður en verðtrygging

Allt frá því að verðtrygging lána var tekin upp árið 1979 hefur staðið um hana mikill styrr og allan tímann hafa verið uppi háværar raddir um að hún skyldi bönnuð og að öll lán skyldu vera óverðtryggð.

Til skamms tíma voru bankar og lífeyrissjóðir ófúsir að lána óverðtryggð lán, en nú eru gjörbreyttir tímar og undanfarin ár hefur æ stærri húsnæðislána verið óverðtryggð og mikið verið um að verðtryggðum lánum hafi verið skuldbreytt yfir í óverðtryggð lán meið breytilegum vöxtum.  Lágir vextir síðustu misseri hafa ýtt mjög undir þessa þróun á lánamarkaðinum.

Bankahrunið árið 2008 átti ekki síst upphaf í gífurlegum lánaaustri Bandarískra lánastofnana til húsnæðiskaupa á lágum vöxtum og án könnunar á greiðslugetu lántakanna.  Þegar vextir hækkuðu svo snögglega olli það miklum hækkunum á afborgunum lánanna og stór hluti þeirra lenti í vanskilum og á endanum í hruni bankanna.  Margir bankar, vítt og breitt um heiminn, fóru á hausinn en öðrum var bjargað með skattgreiðslum almennings.

Eftir lága vexti hér á landi undanfarið hefur þróunin snúist við, vextir eru byrjaðir að hækka og útlit fyrir enn meiri hækkanir á næsta ári.  Ekki kæmi á óvart að ýmsir eigi eftir að lenda í erfiðleikum með afborganir lána sinna eftir því sem þær hækka við vaxtbreytingarnar, eða eins og haft er eftir Drífu Snædal, forseta ASÍ, í viðhangandi frétt:

„Það sem þetta þýðir fyr­ir fólk með hús­næðislán, sem er kannski búið að spenna sig hátt á hús­næðismarkaðnum að unda­förnu, er um 7.500 króna hækk­un á greiðslu­byrði miðað við þessa 0,25% hækk­un stýri­vaxta,“ seg­ir Drífa og bæt­ir við: „Þannig þess­ar vaxta­hækk­an­ir sem hafa verið und­an­farið, ef við miðum bara við 50 millj­óna króna lán, þá er þetta farið að taka all­hressi­lega í og éta upp þær launa­hækk­an­ir sem við höf­um samið um.“

Ekki er ótrúlegt að nú snúist dæmið við og óverðtryggðum lánum verði skuldbreytt yfir í verðtryggð, enda koma þau sér yfirleitt betur fyrir fólk á lágum og meðallaunum, því greiðslubyrðin verður jafnari yfir lánstímann þó eignamyndunin verði hægari.


mbl.is Heimilin í landinu verði verr stödd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geldingadalir - Fráfæra

Eldgosið í Geldingadölum á Reykjanesi gæti hugsanlega staðið árum eða áratugum saman, samkvæmt sumum jarðvísindamönnum, þó aðrir séu á þeirri skoðun að því gæti lokið fljótlega.

Hvort sem gosið stendur lengur eða skemur verða miklar landfræðilegar breytingar á svæðinu og stærð gígsins mun fara eftir því hve lengi gosið mun standa, allt frá því að vera tiltölulega lítill gígur upp í það að verða að stapa, felli eða fjalli.  

Samkvæmt íslenskum hefðum þarf að finna nýtt nafn á fyrirbærið og ekki mun skorta hugmyndaflugið við þær nafnatillögur.  Geldingadalirnir sjálfir hafa fengið nafn sitt að því að þeir hafa verið notaðir sem beitarlönd fyrir fráfærð lömb, ársgamlar gimbrar og hrúta og annað fé, sem ekki var hæft til mjólkurnytja.

Í nágrenninu eru nokkur örnefni kennd við hrúta og því ætti að vera vel við hæfi að halda nafngift á væntanlegu fjalli við búsmalann og finna gott nafn sem vísaði til fyrri nota af dölunum.

Samkvæmt því mætti hugsa sér að vísað yrði til gimbranna og fjallið hreinlega nefnt Gimbur eða afleiður af því, svo sem Gimra- strýta, - fell, -fjall.  Eins mætti hugsa sér að nefna það einfaldlega Fráfæru, eða Fráfæru- fell, -fjall eða annað sem dregið væri af þessu.

Gaman verður að fylgjast með uppástungum um nafn á þessu nýjasta "fjalli" landsins og sjá hvaða uppástunga verður svo fyrir valinu að lokum.


mbl.is Búist við margmenni við gosstöðvarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er ekki búið, fyrr en það er búið

Heilbrigðisráðherra hefur hvað eftir annað gefið villandi upplýsingar um hvenær bóluefni muni berast til landsins.  Hún hefur marg sagt að fyrsta sending frá Pfeiser yrði tíuþúsund skammtar og síðan myndu berast þrjúþúsund skammtar á viku eftir það næstu þrjá mánuði. 

Til viðbótar kæmu bóluefni frá öðrum framleiðendum og í dag kynnti hún viðbótarsamning við Pfeiser um eitthundraðognítíuþúsund skammta, en hins vegar væri ekkert vitað hvenær sú viðbót bærist til landsins.

Þessar upplýsingar ráðherrans hafa vakið vonir um að hjarðónæmi yrði náð í landinu innan nokkurra vikna, en við nánari skoðun á þeim upplýsingum sem berast t.d. frá landlækni og forstjóra Landspítalans, er ekkert sem bendir til þess að hjarðónæminu verði náð fyrr en í fyrsta lagi í vor og jafnvel ekki fyrr en með haustinu.

Í viðhangandi frétt fagnar forstjóri Landspítalans "þessum vonandi lokakafla í farsóttinni", en þó er eftirfarandi haft eftir honum:  „Það fer bara eft­ir því hversu fljótt við fáum bólu­efnið miklu frek­ar en annað. Við get­um auðveld­lega bólu­sett hundruð ein­stak­linga hér á hverj­um degi með ör­ugg­um hætti. Tak­mark­andi þátt­ur er því ekki geta okk­ar held­ur það hversu hratt bólu­efnið berst. Við von­um bara það besta þar, við erum með all­ar klær úti.“ 

Það veitir ekki af að brýna fólk til að halda áfram að viðhafa allar varúðarráðstafanir, því eins og sagt er af ýmsum tilefnum:  "Þetta er ekki búið, fyrr en það er búið"


mbl.is Slaka ekki á sóttvörnum fyrr en hjarðónæmi er náð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallbera Gísladóttir er drengur góður

Hallbera Guðný Gísladóttir kemur vel fram við Jón Þór, landsliðsþjálfara kvenna, þegar hún þakkar honum fyrir gott samstarf undanfarin tvö ár og gefur honum bestu meðmæli sem þjálfara, þó leiðir hans og liðsins hafi skilið á leiðinlegan hátt.

Ekki hefur komið fram að aðrar landsliðskonur hafi þakkað honum samstarfið opinberlega á svipaðan hátt, þó maðurinn sé breyskur og eigi jafnvel við ákveðin vandamál að stríða utan vallar?

Ekki verður frá Jóni Þóri tekið að hann hefur verið farsæll þjálfari undanfarin ár og hefur líklega náð besta árangri allra þjálfara með kvennalandsliðið í fótbolta sem endaði með að koma liðinu beint á stórmót.

Því miður kom, að því er virðist utanfrá séð, að vandamál með stjórn á áfengisdrykkju og röfli af þess völdum, hafi orðið til að trúnaðarbresture hafi orðið milli hans og liðsins sem hafi valdið óhjákvæmilegum samstarfsslitum.

Vonandi verður þetta leiðindamál ekki til þess að knattspyrnan verði án þjálfunarhæfileika Jóns Þóris í framtíðinni.


mbl.is „Ég get ekki setið undir slíkum ásökunum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er bjartsýnin of mikil vegna bóluefna?

Um leið og fréttir tóku að berast af því að prófanir bóluefna gegn coronaveirunni væru jákvæðar og virtust gefa mikla virkni, allt upp í 95%, fór bjartsýnisstraumur um heimsbyggðina og fólk fór að trúa því að nú sæi fyrir endann á faraldrinum.

Hlutabréfavísitölur í kauphöllum heimsins hækkuðu í kjölfarið og almenningur fagnaði fréttunum innilega, enda orðinn langþreyttur á samkomubanni, sóttkví og öðrum þeim takmörkunum sem baráttan við veiruna hefur haft í för með sér.

Eitt lyfjafyrirtækjanna, AstraZeneca, sem miklar vonir voru bundnar við hefur nú gefið út að mikil mistök hafi verið gerð við prófun bóluefnis þess og því sé allt í óvissu um virkni efnisins til langs tíma, eða hvort það muni hljóta samykki eftirlitsaðila, eða eins og segir í fréttinni:  "Uggvæn­leg­asta staðreynd­in er sú að rann­sak­end­ur AstraZeneca og Oxford-há­skóla segj­ast ekki sjálf­ir skilja þetta þversagna­kennda mis­ræmi."

Á sama tíma og bjartsýnin og eftirvæntingin vegna bóluefnanna er mikil er uppgangur veirunnar að sama skapi mikill um allan heim og ekkert lát á faraldrinum.  Hér á landi hefur baráttan gengið vel með ströngum sóttvörnum, en eins og útlitið er núna gæti faraldurinn jafnvel verðið á uppleið aftur og ef svo færi er útlit fyrir að jólagleði landsmanna verði lítil.

Jafnvel þó að bóluefnaframleiðsla kæmist á fullan skrið öðru hvoru megin við áramótin eru litlar líkur á að hægt yrðir að byrja bólusetningar að ráði hér á landi fyrr en í fyrsta lagi í febrúar eða mars og þá yrði byrjað á heilbrigðisstarfsfólki, eldri borgurum og öðrum þeim sem teljast vera í viðkvæmum hópum.

Bólusetja þarf tvisvar gegn veirunni, þannig að þrjár vikur líði frá fyrri sprautunni til þeirrar seinni og síðan þarf að líða vika áður en full virkni næst.  Heill mánuður mun því líða frá því að bólusetning hefst og þar til virkni er náð, en ekkert hefur komið fram ennþá um hvernig staðfest verður hvort sá bólusetti sé orðinn ónæmur fyrir veirunni.

Hvernig sem allt veltist í þessu efni verður komið fram á mitt ár, eða jafnvel haust, áður en hjarðónæmi verður náð í landinu, en sigur verður þó ekki unninn í baráttunni við veiruna fyrr en sama árangri verður náð í öllum löndum veraldar og það mun örugglega ekki nást á nsta ári.


mbl.is Viðurkenna mistök við bóluefnaþróun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stökkbreytt veira ætti að vekja mikinn ugg

Fyrir u.þ.b. ellefu mánuðum barst stökkbreyttur kórónuvírus úr beltisdýri (?) yfir í einn kínverja og út frá honum hafa síðan smitast meira en 49 milljónir manna og rúmlega 1,2 milljónir látist af völdum óværunnar.

Þessi gríðarlega útbreiðsla hefur orðið þrátt fyrir að flestar þjóðir hafi barist af öllum mætti gegn henni og þar með væntanlega tekist að fækka dauðsföllum svo um munar, þó flestum þyki meira en nóg um þann fjölda látinna sem fallið hefur í valinn fyrir þessum skæða óvini.

Stríðið við veirunaa hefur einnig haft alvarlegar afleiðingar fyrir efnahagslíf heimsins og sér ekki ennþá hvernig þau mál fara að lokum, því óvíst er hvaða fyrirtæki muni lifa af og hve margir munu missa atvinnu sína vegna þess til skemmri eða lengri tíma.

Nú berast þær skelfilegu fréttir að veiran hafi tekið annan snúnig í Danmörku, þ.e. smitast frá manni í mink og þar hafi hún stökkbreyst og smitast til baka yfir í fólk. Engin ástæða er til að reikna með að þetta nýja afbrigði veirunnar sé minna smitandi eða hættulegt en eldra afbrigðið og því gæti allt það bóluefni sem unnið hefur verið að undanfarið ár orðið gagnslaust og þar með þurft að byrja alla varnarbaráttu gegn þessum óvini upp á nýtt og þjóðir heimsins standi í sömu sporum í varnarbaráttunni og þær voru í upphafi faraldursins.

Fréttin af þessari nýju stökkbreyttu útgáfu kórónuveirunnar virðist falla í skuggann af kosningaúrslitunum í Bandaríkjunum, sem alls ekki eru merkileg í samanburði enda verða afleiðingar af völdum veirunnar margfaldar á við þau áhrif sem sigurvegari kosninganna kemur til með að hafa.


mbl.is „Það er langt í land“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir saman nú í smitvörnunum

Áttatíuogátta greindust smitaðir af Covid-19 og þar af var aðeins helmingur þeirra í sóttkví við greininguna, þannig að augljóst er að veiran hefur dreift sér víða um samfélagið.  

Eftir daginn í gær er fjöldi smitaðra miðað við eitthundraðþúsund íbúa kominn í 268,9, sem er með því hæsta í Evrópu þó veiran sé í mikilli smitsveiflu í flestum löndum á ný.

Þegar mest var í fyrstu bylgu veirusmitanna hér á landi var smitstuðullinn á hverja hundraðþúsund íbúa 267,2, en það var þann 1. Apríl s.l.  Eftir það fór smitum hægt fækkandi, en voru ekki kominn niður fyrir 1 fyrr en um miðjan Maí. 

Sumarið var tiltölulega veirufrítt, þó eitt og eitt smit hafi greinst, en tók síðan mikinn kipp til hins verra eftir að örfáir einstaklingar, sem komu erlendis frá, virtu ekki reglur um sóttkví og því er nú svo komið að faraldurinn er orðinn verri en í fyrstu bylgju og ekki útlit fyrir að hann fari að ganga niður fyrr en eftir viku til tíu daga, ef vel gengur í baráttunni.

Að einhverju leiti er útbreiðslan meiri og hraðari núna en hún var í vor vegna þreytu fólks á smitvörnunum og þar með meira kæruleysis um persónulegar varnir, en síðustu daga má þó greina breytingu þar á, t.d. með grímunotkun sem ekki sást nema hjá einstaka manni í fyrstu bylgju faraldursins.

Ef ekki á illa að fara verður öll þjóðin að taka sig á og sýna aftur þá gríðarlegu samstöðu sem einkenndi baráttuna í fyrsta fasa faraldursins og þá mun verða hægt að halda gleðileg jól, jafnvel með jólatónleikum og öðru tilheyrandi án mikilla hindrana og grímulaust.

 

 


mbl.is 88 smit innanlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rassskellur sem undan svíður

Kári Stefánsson og fyrirtækið sem hann stjórnar hafa haldið uppi vörnunum gegn Covid-19 ásamt þríeykinu með skimunum fyrir veirunni og væri ástandið án vafa annað og verra en það er, hefði Kára og DeCode ekki notið við.

Þegar hættuástandi vegna veirunnar var aflýst mætti Svandís heilbrigðisráðherra á upplýsingafund þríeykisins og jós úr sér, í umboði þjóðarinnar, þakklæti til allra sem komið höfðu nálægt baráttunni við veiruna skæðu, NEMA DeCode.  

Þögn hennar um hlutverk DeCode í bardaganum við faraldurinn var æpandi og undarleg.  Ekki síður er furðulegt að Svandís skuli tilkynna að þegar flugumferð hefst á ný, að leitað yrði til DeCode um þessar skimanir.  Þetta segir hún án þess að svo mikið sem yrða á Kára, eða spyrja hvort fyrirtæki hans væri tilbúið til að annast verkið.

Það skal engan undra þó Kári segi Svandísi hrokagikk og að engin samvinna verði af hans hálfu, eða fyrirtækisins, við heilbrigðisráðuneytið á meðan hún gegnir stöðu ráðherra þar á bæ.

Það er óhætt að segja að Kári hafi rassskellt Svandísi opinberlega svo harkalega að undan hafi sviðið.

 


mbl.is Kári sagði Svandísi hrokafulla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður stofnað nýtt stéttarfélag til bjargar Icelandair?

Forstjóri Icelandair hefur gefið í skyn að náist ekki breytingar á kjarasamningum flugliða sé óvíst um vilja hluthafa og annarra til að leggja félaginu til þá hlutafjáraukningu sem nauðsynleg er til að félagið lifi af þær hremmingar sem kórónuveiran hefur sett ferðaþjónustu heimsins í og þar með Icelandair sem flggskip þeirrar íslensku.

Flugmenn og flugvirkjar hafa gert nýja samninga við félagið og þar með lagt sitt af mörkum til björgunar flugfélagsins, en nú kemur frétt um að flugfreyjur og -þjónar hafi hafnað öllum samningaumleitum félagsins og þá væntanlega sett vinnuveitanda sinn í þá hættulegu aðstöðu að ekkert verði af þeim lífgunartilraunum sem vonast var eftir að gætu dugar til endurlífgunar sjúklingsins sem kominn er í öndunarvél.

Fróðlegt verður að fylgjst með þeim ráðum sem gripið verður til og má skilja að eitt af þeim örþrifaráðum sem reynt verður að grípa til verði að stofna nýtt flugþjónafélag þrátt fyrir hótanir ASÍ um samúðarverkföll verði það gert.  Samningur við félag flugþjóna er runninn út og þar með ætti Icelandair að vera óbundið af honum og ef enginn vilji er til að endursemja um nýjan milli aðila hlýtur að vera opinn möguleiki til að semja við nýjan aðila sem áhuga hefur á þeim störfum sem um er að ræða.

Verði nýtt stéttarfélag stofnað á lögformlegan hátt er ótrúlegt annað en að samúðarverkföll annarra félaga yrðu dæmd ólögleg, enda ankannalegt að önnur félög gætu farið í slíkar aðgerðir gegn starfólki sem ynni samkvæmt löglegum kjarasamningi sem hið nýja félag myndi væntanlega gera og bera undir samþykki allra félagsmanna.

Þó verkalýðsfélög séu sterk og áhrifamikil er samt sem áður félagafrelsi í landinu og á það myndi reyna í deilu sem upp myndi spretta grípi einhver hluti starfsmanna Icelandair til þess ráðs að stofna nýtt stéttarfélag. 

 


mbl.is Icelandair: Flugfreyjur höfnuðu „lokatilboðinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldi dauðsfalla vegna COVID-19 í nokkrum Evrópuríkjum og USA

Í flestum fréttum af COVID-19 eru alltaf birtar upplýsingar um fjölda greindra smita og dauðsfalla af völdum veirunnar.  Þessar upplýsingar eru villandi vegna þess að þær eru alltaf sagðar af hverju og einu landi fyrir sig og t.d. alltaf tekið fram að hvergi hafi jafn margir sýkst og í Bandaríkjunum og þar hafi einnig mesti fjöldinn látist af völdum veirunnar.

Í Bandaríkjunum búa tæplega 331 milljón manna, en hvert land sem borið er saman við þau eru mun fámennari, þannig að samanburður milli einstakra landa og Bandaríkjanna er erfiður, jafnvel ómögulegur og að minnsta kosti algerlega óraunhæfur.

Ef tekin eru saman lönd í Evrópu, sem liggja hvert að öðru, og eru með svipaðan íbúafjölda samtals og er í Bandaríkjunum kemur sanngjarnari samanburður í ljós.  Í Belgíu, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Póllandi, Spáni, Sviss og Þýskalandi (löndunum raðað í stafrófsröð, en ekki eftir íbúafjölda) höfðu þann 16. maí s.l. alls 1.004.562 greinst með veiruna og þar höfðu 112.447 látist af völdum af hennar völdum.

Sama dag var fjöldi skráðra sem smitast höfðu í Bandaríkjunum 1.507.773 og fjöldi látinna þar af 90.113.  Vitað er að skránig sýktra getur verið misjöfn milli landa og sumir vilja halda því fram að fjöldi látinna af völdum COVID-19 sé mjög vanmetinn og á það bæði við um Evrópuríkin og Bandaríkin.

Eftir sem áður er afar athyglisvert að þrátt fyrir færri skráningar sýktra í Evrópu svo nemur hálfri milljón er fjöldi látinna í þessum löndum u.þ.b. 22 þúsundum fleiri en í Bandaríkjunum.

Bandaríkjamenn hafa verið sakaðir um að hafa verið óviðbúnir innrás veirunnar og brugðist seint og illa við í baráttu gegn henni.  Sama á auðvitað við um Evrópuríkin og miðað við samantektina hér að ofan verður að álykta að Evrópa hafi jafnvel brugðist enn ver við en Bandaríkin, en íbúafjöldi landanna villir um í öllum samanburði þegar Bandaríkin eru borin saman við eitt og eitt land í Evrópu, sem hvert fyrir sig er mun fámennara en þau.

Baráttan við veiruna var tekin föstum tökum frá upphafi á Íslandi og nú virðist orustan um fyrstu bylgu faraldursins vera að vinnast, enda engin smit fundist í nokkra daga.

Vonandi tekst að kveða þessa óværu niður beggja vegna Atlanshafsins sem allra fyrst og að næsta innrás hennar verði ekki jafn skæð, eða að takist betur upp í næsta stríði við hana.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband