Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Sjómannaafsláttur er sanngirnismál

Íslenskir sjómenn hafa notið afsláttar frá skattgreiðslum í sextíu ár, en í skattahækkanaæði vinstri stjórnarinnar var sjómannaafslátturinn aflagður og skattgreiðslur sjómanna þar með hækkaðar umfram skattahækkanirnar sem aðrir máttu þola og þótti nóg um.

Afsláttur af skattgreiðslum sjómanna tíðkast víða í nágrannalöndunum og eru þar í flestum tilfellum miklu ríflegri en hér tíðkaðist.  Sjómenn hafa ekki sama aðgang að þjónustu samfélagsins og aðrir þegnar vegna fjarveru sinnar og af þeirri ástæðu einni er skattaafslátturinn meira en réttlætanlegur.

Aðrir launþegar, sem stunda vinnu langt frá heimilum sínum, fá skattaafslátt af dagpeningagreiðslum sem tíðkast í slíkum tilfellum og vitað er að spilað er á slík hlunnindi til að lækka skatta þeirra sem mögulega hafa tækifæri til þess, sem og bifreiðahlunnindi og fæðispeninga.

Sjómenn geta ekki nýtt sér neitt slíkt vegna sinnar vinnu, sem þó er öll unnin langt frá heimilum þeirra, að ekki sé minnst á þá hættu sem fylgir störfum þeirra umfram flesta aðra.

Endurreisn sjómannaafsláttar er sanngirnismál. 


mbl.is Sjómannaafsláttur verði endurreistur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú þarf að berjast gegn verðhækkunum

Þau gleðilegu tíðindi berast að búið sé að undirrita kjarasamnnga sem eiga að gilda út árið 2014. Samkvæmt þeim munu laun hækka um 2,8% og lægstu laun um 10.000 krónur að auki.  Einnig kemur ríkistjórnin að samningunum með breytingum á skattalögum, þeim lægra launuðu til hagsbóta.

Fjárlög hafa einnig verið afgreidd frá Alþingi og þótt ótrúlegt sé tókst að skila þeim með örlitlum tekjuafgangi og verður það að teljast stórafrek af hendi ríkisstjórnarinnar, eftir gríðarlega framúrkeyrslu fjárlaga undanfarin ár og stjarnfræðilega skuldasöfnun með tilheyrandi vaxtagreiðslum.

Á örfáum mánuðum hefur ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokka að vekja almenningi trú um að bjartari tímar séu  framundan með hagvexti, atvinnusköpun og bættum hag heimilanna.  Eftir undirritun kjarasamninganna þarf að leggja alla áherslu á að berjast gegn verðhækkunum og hljóta Samtök atvinnulífsins að sjá til þess að félagar þar innanborðs hleypi  ekki launahækkununum út í verðlagið og sýni þar með þá ábyrgð sem af þeim er krafist núna.

Takist ekki að halda veðbólgunni í skefjum á næsta ári, er til lítils barist og sama staða verður komin upp aftur um næstu áramót og aftur farið að ræða um sömu málin og nú eru í umræðunni vegna samningsgerðarinnar.

Nú er kominn tími til að slá botn í söguna endalausu. 


mbl.is Kjarasamningar undirritaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju var desemberuppbót atvinnulausra ekki á fjárlögum?

Hluti af samkomulagi þingflokkanna um starfslok þingsins fyrir jól er að desemberuppbót til atvinnulausra verður sett inn í  fjáraukalög og er kostnaðurinn áætlaður um 450 milljónir króna.

Allt gott er um þetta að segja, en hins vegar vaknar sú spurning af hverju var ekki gert ráð fyrir þessum greiðslum á fjárlögum ársins, sem voru síðustu fjárlög ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J., sem jafan gumuðu sig af því að velferð lítilmagnans væri þeirra ær og kýr.

Fjárlög ársins voru hrein og klár "kosningafjárlög", sem uppfull voru af glæstum loforðum um hina aðskiljanlegustu hluti sem gera átti og undanfarna mánuði hefur verið hávær söngur fyrrverandi stjórnarflokka með ásökunum um að núverandi ríkisstjórn sé að svíkja alls kyns kosningaloforð fyrri ríkisstjórnar.

Fjáraukalög eru til þess ætluð að "leiðrétta" fjárlög ársins með því að samþykkja ýmis óvænt útgjöld sem komið hafa upp á árinu og ekki voru fyrirséð þegar fjárlög ársins voru samþykkt.

Varla er hægt með góðu móti að segja að desemberuppbót til atvinnulausra geti talist óvænt útgjöld, sem ekki hafi verið hægt að reikna með við fjárlagagerð ársins.

Lýðskrum og fals vinstri flokkanna er ekki minna í þessu máli en flestum öðrum. 


mbl.is Samþykkt að greiða desemberuppbót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betlistafur ráðherra eða gildur stafur jólasveina?

Því verður illa trúað að íslensk stjórnvöld ætli að senda utanríkisráðherrann til Brussel með betlistaf í hendi til að væla það út úr stórríkinu, væntanlega, að það standi við samninga sem það sjálft hefur gert og undirritað við einstaka aðila, félög eða stofnanir hérlendis undir merkjum IPA.  

IPA-styrkir, eða mútufé eins og margir vilja skilgreina fyrirbærið, eru til þess ætlaðir að styrkja ímynd ESB í þvi landi sem reynt er að innlima í stórríkið, væntanlega, og aðlaga lög og stjórnkerfi viðkomandi að ESB áður en formleg innlimun fer fram.

Eftir að Íslendingar tilkynntu ESB að innlimunarferlinu yrði ekki haldið áfram er bæði sjálfsagt og eðlilegt að hætta allri móttöku innlimunarstyrkja, eða mútufjár, þó reikna hefði mátt með að ESB stæði við þegar gerða samninga vegna verkefna sem þegar hefðu hafist á grundvelli þeirra.   Hins vegar sýnir ESB enn einu sinni  að undirritaðir samningar þess eru ekki pappírsins virði, sem þeir eru ritaðir á, ef stórríkinu, væntanlega, sýnist sínum eigin hag betur borgið með svikum þeirra.

Í tilefni árstímans væri nær að senda jólasveinana til Brussel með gildan staf í hendi en að senda þangað  ráðherra með betlistaf.  Hvað jólasveinarnir ættu síðan að gera með stafinn gilda þegar þangað væri komið skal ósagt latið.


mbl.is Skoða réttarstöðu vegna IPA-styrkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þungur en sanngjarn dómur í Al Thani-málinu

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur loksins kveðið upp dóm í fjár- og umboðssvikamálinu, sem kennt er við Al Thani sheik frá Qatar, en það snerist um að blekkja fjármálamarkaðinn, stjórnvöld og almenning um stöðu Kaupþings þegar bankarnir voru í dauðateygjunum á haustdögum árið 2008.

Blekkingarleikurinn heppnaðist vel um skamman tíma, sem varð til þess að fjöldi fólks flutti sparifé sitt yfir í hlutafé í Kaupþingi, enda treysti fólk því að fjárfestir af þessari stærðargráðu færi ekki  að festa fé sitt í íslenskum banka, nema að vel athuguðu máli og í von um góðan arð af fjárfestingunni.

Allt var þetta mál ein stór svikamylla, sem orðin er að þriggja til fimm og hálfs árs fangelsindóms til handa skipuleggjendum og gerendum og reyndar eru enn fleiri mál fyrir dómstólum vegna gerða þessara sömu aðila og einnig gegn eigendum og stjórnendum annarra banka, sem grunaðir eru um svipaða glæpi í aðdraganda hrunsins.

Líklega finnur almenningur fyrir létti við þessa dómsuppkvaðningu þar sem margir töldu að dómar í þessa veru yrðu aldrei að veruleika vegna þess hers lögfræðinga sem gerendurnir höfðu á sínum snærum til að tefja og flækja málin fyrir dómstólnum.

Vonandi verða dómarnir staðfestir í  Hæstarétti þannig að þjóðin geti litið bjartari augum fram á veginn og öðlast nýja trú á framtíðina. 


mbl.is Dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB kastar grímunni

Á sínum tíma, þegar ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar var að réttlæta og troða IPAstyrkjum inná þjóðina, hélt Össur Skarphéðinsson því statt og stöðugt fram að styrkirnir kæmu innlimunarferlinu í raun ekkert við og væru einungis skýrt dæmi um frábært samstarf og einlægan vilja ESB til að styrkja alls kyns verkefni og rannsóknir á Íslandi.

Jón Bjarnason, þáverandi  landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, neitaði að taka við slíku fé til sinna málaflokka og hélt því fram að nánast væri um mútufé ESB að ræða til að "liðka til" við innlimunina og kaupa hinu væntanlega stórríki velvild Íslendinga í sinn garð.  Össur mótmælti þeim málflutningi Jóns harkalega og að lokum var Jóni sparkað úr ráðherrastóli vegna andstöðunnar við ESB og IPAmúturnar.

Nú hefur ESB loksins kastað grímunni og hætt feluleiknum um mútféð, eða eins og segir í fréttinni:  "Í erindi sínu til íslenskra stjórnvalda vísar framkvæmdastjórnin til þess að IPA aðstoð við Ísland hafi verið ætlað að styðja við verkefni sem ráðast þyrfti í vegna áforma um aðild að ESB. Í ljósi breyttrar stefnu stjórnvalda, telji hún ekki vera forsendur fyrir frekari styrkveitingum."

Þar sem íslensk stjórnvöld hafa gefið skýrt til kynna að ekki verði unnið frekar að innlimun landsins í stórríkið væntanlega, þá er í sjálfu sér ekkert við því að segja að mútugreiðslum verði hætt af hálfu ESB, enda óhæfuverk frá upphafi að þiggja slíkar greiðslur.

Eftir stendur ESB grímulaust og Össur og félagar raunar berrassaðir, eins og kóngurinn í ævintýrinu sem lét skraddarana plata sig til að ganga um í "nýju fötunum". 


mbl.is Hættir við einhliða og án fyrirvara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórkostleg hagfræðiuppgötvun RÚV

Tillögur ríkisstjórnarinnar varðandi lækkun húsnæðisskulda, sem hækkuðu mikið vegna verðbólgu áranna eftir bankahrunið, þ.e. á árunum 2007-2010, voru birtar í gær og hafa valdið mikilli ánægju allra sem húsnæðislán skulduðu á þessum tilteknu árum.

Viðbrögð stjórnarandstæðinga hafa verið nokkuð vandræðaleg, enda tillögurnar trúverðugar og í sjálfu sér ótrúlega einfaldar í framkvæmd og því hreint undrunarefni að eina hreina og tæra vinstri stjórnin sem komist hefur til valda á Íslandi skuli ekki hafa gripið til neinna slíkra aðgerða, þrátt fyrir loforðið um að slá skjaldborg um heimilin í landinu.

Ríkisútvarpið telur sig eiga harma að hefna vegna niðurskurðar fjárframlaga til stofnunarinnar og því dró fréttastofa útvarpsins fram hagfræðiprófessor í Háskóla Reykjavíkur og fékk hann til að vitna um það í fréttatímanum að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til hagsbóta fyrir skuldara íbúðalána kæmu þeim alls ekki til góða sem aldrei hefðu keypt sér íbúð og skulduðu því ekkert húsnæðislán. 

Vonandi hefur fréttastofa RÚV náð botninum í leðjupyttinum og leiðin geti því ekki legið annað en upp á bakkann aftur héðan af.  Háskóli Reykjavíkur þyrfti ekki síður að endurskoða þá hagfræði sem þar er kennd. 


mbl.is Greiðslubyrði lána lækkar strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband