Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Miðaldaréttarfar í Saudi Arabíu

Það sem af er þessu ári hafa þrjátíuogsjö manns verið hálshöggnir í Saudi Arabíu fyrir ýmsa glæpi, sem dauðarefsing ligur við í landinu.  Dauðarefsing er við lýði allvíða í heiminum ennþá, en óvíða er beitt eins ómannúðlegum aðferðum við framkvæmd hennar eins og í Saudi Arabíu og fleiri löndum múslima. Þar og víðar þekkist einnig að grýta konur til bana, t.d. fyrir framhjáhald og of náin samskipti við karlmenn fyrir hjónaband.

Samkvæmt viðhangandi frétt liggur höfuðmissir við eftirtöldu: "Dauðarefsing liggur við nauðgunum, morðum, trúskiptum, vopnuðum ránum og fíkniefnasmygli samkvæmt sjaríalögum sem gilda í landinu."  Eins og sést af þessari upptalningu er það einn versti glæpur, sem undir sjaríalög falla, að skipta úr múslimatrú yfir í önnur trúarbrögð, t.d. kristni.

Múslimar, víða á vesturlöndum, hafa krafist þess að sjaríalög verði látin gilda í þeirra hverfum og samfélögum, t.d. í stórborgum Evrópu og sumir "víðsýnir" vesturlandabúar taka jafnvel undir það, að sjálfsagt sé að innflytjendur fái að halda í allar sínar hefðir og viðhalda sinni "menningararfleifð".

Kannski má búast við því að sjá "trúvillinga" og aðra glæpamenn hálshöggna á torgum evrópskra borga í framtíðinni.   


mbl.is Þrír hálshöggnir í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á flótta undan Jóhönnu og Steingrími J.

Sigurjón Benediktsson, tannlæknir, lýsir því yfir í Mogganum í dag að hann sé flúinn land vegna skattabrjálæðisins á Íslandi og hefur numið land í Noregi, þar sem hann segir skattaumhverfið mun manneskjulegra en það sé orðið hér á landi eftir rúmlega tveggja ára setu Jóhönnu og Steingríms J. í ríkisstjórn.

Steingrímur J. hefur lýst því yfir að skattar muni enn verða hækkaðir á næsta ári og jafnvel verði einhverjir skattar hækkaðir strax á þessu ári, t.d. eldsneytisskattarnir þó að ríkisálögurnar á bensín og olíur séu nú þegar að sliga bifreiðaeigendur og þeir hafi orðið að draga verulega úr notkun bíla sinna.

Læknar og aðrir, sem hafa menntun sem auðveldar þeim að ráða sig til vinnu erlendis, hafa flúið land í stórum hópum undanfarin tvö ár, bæði vegna atvinnu- og launastefnu Jóhönnu og Steingríms J. og ekki síður vegna þeirra gengdarlausu skattahækkana sem á hafa dunið og hér er allt að drepa í dróma og ekki bæta úr skák endalausar hótanir ráðherra um áframhaldandi skattahækkanabrjálæði.

Þetta getur ekki endað með öðru en að ríkisstjórnin fari frá völdum eða þjóðin yfirgefi landið.


mbl.is Flúði til Noregs undan skattinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Svört" ríkisstjórn

Svört atvinnustarfsemi hefur aukist mikið undanfarin tvö ár og sömuleiðis fara sögur af því að smygl á áfengi og tóbaki sé sívaxandi.

Allt á þetta rætur í skattahækkanabrjálæði ríkisstjórnarinna á öllum sviðum, bæði hækkun á beinum og óbeinum sköttum. Sala á áfengi í vínbúðum ríkisins fer minnkandi, en viðskiptin færast inn í neðanjarðarhagkerfið. Bensínskattar eru orðnir svo íþyngjandi að umferð dregst sífellt saman, en við því hefur svarti markaðurinn lítil svör, enda óhægt um vik að smygla bensíni og olíum.

Ofan á skattabrjálæðið bætist svo barátta ríkisstórnarinnar gegn hvers kyns atvinnuuppbyggingu, þannig að atvinnuleysið minnkar lítið, en tekjuskerðingin sem atvinnuleysinu fylgir ýtir enn fleirum út í að stunda ólöglega atvinnu og önnur viðskipi á svarta markaðinum.

Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. er "svört" ríkisstjórn.


mbl.is Svört starfsemi í blóma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sextíuþúsund vínflöskur?

Slitastjórn Kaupþings stendur í stórræðum um þessar mundir vegna tilrauna sinna til að hnekkja niðurfellingu persónulegra ábyrgða stjórnenda og ýmissa starfsmanna bankans á lánum sem þeir tóku hjá bankanum til þess að kaupa hlutabréf í bankanum sjálfum.   Í þessum málarekstri hefur slitastjórnin fengið samþykktar kyrrsetningar á einbýlishúsum og öðrum fasteignum í eigu þessara manna.

Sérstaka athygli vekur kyrrsetning á iðnaðarhúsnæði á Smiðshöfða vegna þess sem álitið að sé geymt þar innandyra, en í fréttinni segir m.a um þessa kyrrsetningu á húsnæðinu, sem er í eigu Ingólfs Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi, og Steingríms P. Kárasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra áhættustýringar bankans:   "Alls hljóðar kyrrsetningarbeiðnin upp á 154,8 milljónir. Heimildir Fréttatímans herma að í húsnæðinu sé að finna áfengi sem er metið á 200-300 milljónir króna."

Sé þetta rétt, sem verður nú eiginlega að teljast með ólíkindum, þá er þetta vínlager, sem hver risastór vínbúð gæti verið stolt af.  Jafnvel þó rándýr eðalvín leyndust þarna inni á milli hlýtur þarna að vera um ótrúlegan fjölda af flöskum að ræða.  Ef reiknað er með að meðalverð á hverri flösku sé fimmþúsund krónur, þá samanstendur þessi lager af 50-60 þúsund flöskum og er vandséð hvað einstaklingar hafa ætlað sér að gera með slíkan vínflöskufjölda.

Það hefði verið hægt að bjóða allri þjóðinni í góða veislu og samt hefði líklega orðið afgangur af veisluföngunum. 


mbl.is Fréttatíminn: Vínbirgðir kyrrsettar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóðaskapur í eldhúsum landsmanna

Kökubasarar hafa í áratugi verið vinsæl leið til fjáröflunar fyrir ýmis líknar-, menningar- og íþróttafélög og ekki vitað til þess að einum einasta manni hafi orðið meint af kræsingunum.  Einnig hefur verið vinsælt af krökkum í skáta- og íþróttafélögum að ganga í hús og selja t.d. heimabakaðar kleinur og kökur til að fjármagna ferðir á skáta- eða íþróttamót erlendis.

Nú hefur hins vegar verið tekið fyrir þetta, líklega vegna tilskipana frá ESB, þar sem eldhús landsmanna eru talin of sóðaleg til að slíkt geti liðist lengur.  Í viðhangandi frétt segir m.a: "Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segja heilbrigðisyfirvöld að hreinlætissjónarmið ráði því að ekki megi selja mat sem framleiddur er í heimahúsum."

Það næsta sem búast má við í reglugerðafargani hins tilskipunarglaða væntanlega stórríkis ESB er væntanlega að hvert einasta heimiliseldhús verði tekið til skoðunar af eftirlitsmönnum frá Evrópusovétinu og þau vottuð sem hæf til matargerðar til manneldis og íbúar þeirra heimila, sem ekki standast ýtrustu kröfur um "hreinlætissjónarmið" verði skikkaðir til að matast í sérstökum "heilbrigðisvænum" matstofum ríkisins.

Það verður að teljast alveg stórmerkilegt að Íslendingar skuli hafa lifað af í landinu fram að þessu án þess að eldhús heimilanna hafi staðist hreinlætissjónarmið ESB.  

Sérstaklega á meðan þjóðin bjó í torfkofunum. 


mbl.is Múffurnar lutu í lægra haldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjónvarpsskjár og heilaskaði

Kona nokkur í Bandaríkjunum hefur stefnt Icelander fyrir dómstóla og krafist skaðabóta vegna höfuðáverka og heilaskaða, sem hún segist hafa orðið fyrir við það að reka höfuðið í sjónvarpsskjá fyrir ofan sæti sitt í flugvél félagsins á leið frá Bandaríkjunum til Íslands árið 2006.

Alþekkt er að fólki í Bandaríkjunum getur dottið í hug að stefna fólki og fyrirtækjum, alveg sérstaklega fyrirtækjum, og krefjast skaðabóta vegna ólíklegustu hluta, t.d. vegna beins í fiski, hamborgarar Mcdonald's séu fitandi, að ekki sé tekið fram í leiðbeiningum örbylgjuofna að þá megi ekki nota til að þurrka blauta ketti, o.s.frv., o.s.frv.

Í þessu umrædda tilfelli hefur blessuð konan þurft að skella höfðinu ótrúlega kröftuglega í sjóvarpsskjáinn til þess að hljóta af því varanlegan heilaskaða og alveg sérstaklega væri málið allt mikil og góð auglýsing fyrir framleiðanda skjásins, ef hann hefur sloppið óskemmdur frá þessum hildarleik.

Eitt, sem bendir til þess að konan sé ekki alvarlega heilasköddur, er að hún skuli yfirleitt hafa hugmyndaflug og hugsun til að stefna félaginu fyrir dómstóla vegna þessa atviks.


mbl.is Rakst í sjónvarpsskjá og stefnir Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækka vexti í niðursveiflu?

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir meiri líkur en minni á því að stýrivextir bankans verði hækkaðir í ágúst vegna þess að stjórnvöld ráða ekkert við verðbólguþróunina í landinu.

Verðbólgan núna er af flestum rakin til þess að gengi krónunnar hefur verið að veikjast í gjaldeyrishöftunum þó seðlabankinn ætti að geta ráðið genginu, einmitt vegna haftanna, og því hafa innfluttar vörur hækkað mikið upp á síðkastið. Aðrir vilja kenna of miklum launahækkunum um að eiga sinn þátt í verðbólgunni og enn aðrir hafa bara ekki hugmynd um orsakirnar, þar á meðal er ríkisstjórnin sem heldur að skattahækkanir dragi úr verðbólgu í stað þess að auka hana.

Samkvæmt upplýsingum úr skattskrám eru Íslendingar hættir að taka ný lán og eru heldur farnir að greiða niður þau eldri, enda er enginn að fjárfesta eitt eða neitt, hvorki einstaklingar né atvinnulífið.

Að ætla að hækka vexti á lánum þegar engin eftirspurn er eftir þeim er álíka gáfulegt og að stórhækka verð á vörum sem seljast alls ekki.


mbl.is Líklegt að vextir hækki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sleppur út "á besta aldri"

Samkvæmt norskum lögum er ekki hægt að dæma ómennið Breivik nema í tuttuguogeins árs fangelsi verði hann ákærður fyrir hryðjuverk, en a.m.k. 76 manns létu lífið í sprengjuárás hans í Osló og skotárásinni á unglingana á Utöya.

Ræddur er sá möguleiki að ákæra á þeim grundvelli að um glæp gegn mannkyninu hafi verið að ræða og þá gæti hámarksrefsing orðið þrjátíu ára fangelsisdómur.

Hvernig sem ákært verður mun þessi viðbjóður ganga laus aftur meðal manna þegar hann verður um sextugt, eða ennþá á "besta aldri". Það er lítið tilhlökkunarefni fyrir samfélagið að vita af slíkum fjöldamorðingja lausum á nýjan leik.

Svona verknað hefði maður haldið að enginn myndi fremja, nema sá sem væri svo alvarlega andlega bilaður, að hann teldist eiga að vistast á öryggisgeðdeild til æviloka og án nokkurs möguleika á að fá að leika lausum hala á meðal manna á ný.


mbl.is Hámark 30 ára fangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skepnuskapurinn fyrir luktum dyrum

Dómþing í Osló vegna gæsluvarðhaldskröfu yfir mannskepnunni Anders Behring Breivik verður haldið fyrir luktum dyrum, bæði af öryggisástæðum og til þess að koma í veg fyrir að ómennið gæti hugsanlega komið duldum skilaboðum til samverkamanna, hafi þeir einhverjir verið.

Ætla verður að öll réttarhöldin yfir þessum sprengjuvargi og fjöldamorðingja verði lokuð, enda ærin ástæða til þess að koma í veg fyrir að réttarhöldin verði til þess að haturs- og geðveikisáróður þessa manns, ef mann skyldi kalla, verði í aðalhlutverki í fjölmiðlum við umfjöllun þeirra um réttarhöldin.

Alls ekki má gera svokölluðum "pólitískum boðskap" þessa viðundurs hátt undir höfði, því einhversstaðar í veöldinni leynist brjálæðingur af hans tegund og mun sennilega sækja fyrirmynd í voðaverk hans. Breivik virðist hafa sótt sér fyrirmyndir í sprengivargnum frá Oklahoma og Unabomber og líklega mun enn einn vitleysingurinn svo sækja sér innblástur frá Breivik til réttlætingar á einhverju hryllingsverkinu í framtíðinni.

Þessi hörmungaratburður sýnir svart á hvítu, að hvergi í heiminum getur fólk verið óhult fyrir svona ótrúlega andlega brengluðum brjálæðingum.


mbl.is Réttað fyrir luktum dyrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýnum samhug með mínútuþögn

Einnar mínútu þögn verður á slaginu tólf á hádegi, að staðartíma, á morgun í Noregi og Svíþjóð til að sýna samhug og sorg þjóðanna vegna hinna hræðilegu fjöldamorða í Osló og á Utöya, en líklegt er að á annað hundrað manns hafi þar týnt lífi sínu.

Íslendingar ættu að taka þátt í þessari athöfn með einnar míútu þögn á sama tíma, en það er þá klukkan tíu í fyrramálið að íslenskum tíma.

Norska þjóðin á alla okkar samúð vegna þessa ómennska atburðar og einfalt væri að sýna það í verki með því að allir leggi frá sér það sem þeir eru að aðhafast klukkan tíu í fyrramálið og hugsi til fórnarlambanna, aðstandenda þeirra og allrar norsku þjóðarinnar í eina mínútu.

Áhrifaríkast væri líklega að íslenska ríkisstjórnin gæfi út tilmæli í þessa veru. Það gæfi aðgerðinni aukið vægi að hún beitti sér fyrir málinu.


mbl.is Mínútuþögn í Noregi og Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband