Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2017

Stjórnarandstaðan stóð alveg undir væntingum!

Undanfarna daga og ekki síst á fyrsta þingdegi eftir ríkisstjórnarmyndun stóð stjórnarandstaðan algerlega undir þeim væntingum sem til hennar voru gerðar, enda voru þær væntingar ekki um annað en lélega frammistöðu og óvandaðan málflutning.

Við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra notuðu ýmsir stjórnarandstæðingar gífuryrði um stjórnarþingmenn, ásökuðu þá um svik, lygar og jafnvel glæpi og var öll sú umræða eins og reiknað hafði verið með að stjórnarandstæðingar myndu stunda á þinginu.

Stór og mikil fyrirheit höfðu verið gefin af þessum sömu þingmönnum um ný og breytt vinnubrögð á Alþingi með bættum samskiptum milli flokka og bættri og betri orðræðu úr ræðustóli, meiri samvinnu milli stjórnar og stjórnarandstöðu og ekki síst að vinna að aukinni virðingu þingsins og þingmanna sjálfra.

Eins og við var að búast stóð ekki steinn yfir steini varðandi þessi fögru fyrirheit og strax á fyrsta degi þingsins sýndi stjórnarandstaðan hvaða vinnubrögð hún mun halda sig við á næstu mánuðum og árum.


mbl.is Óli Björn formaður efnahagsnefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgát skal höfð..........

Lögreglan hefur lagt gríðarlega vinnu í leitina að Birnu Brjánsdóttur, sem ekkert hefur spurst til í heila viku.  Mennirnir tveir sem grunaðir eru um að hafa átt þátt í hvarfinu þræta hins vegar alfarið fyrir nokkra aðkomu að málinu, þó rannsakendur telji líkur til að svo sé.

Miðað við að leitarsvæðið sem kembt verður í dag, en það nær um suðvesturhorn landsins frá Borgarnesi að Selfossi, er greinilegt að engar haldbærar upplýsingar eru ennþá fyrir hendi um örlög stúlkunnar og hvar hennar væri helst að leita.

Málið hefur snert alla þjóðina djúpt og allir verið reiðubúnir til að gefa þær upplýsingar sem þeir hafa talið að gagni mættu koma, en greinilega eru samt ennþá stór göt í atburðarásinni sem eftir er að fylla í.

Þess ber að gæta að allir teljast saklausir þar til sekt er sönnuð og haldi hinir grunuðu fast við fullyrðingar um sakleysi sitt verða þeir varla dæmdir fyrir manndráp eða morð nema lögreglunni takist að sanna annað með fullkomnum sönnunargögnum. Því miður eru litlar líkur á að stúlkan finnist á lífi héðan af og því verður lögð ofuráhersla á að finna líkið og allt sem bent getur á þann, eða þá, sem ábyrgð bera.

Nokkurð hefur verið um að einstaklingar hafi gengið of langt í fullyrðingum um ýmislegt sem tengist þessu máli og í sumum tilfellum hefur verið um hreinan hugarburð, ágiskanir og hreinar lygasögur að ræða og ber að fordæma allt slíkt, enda engum sæmandi að stunda slíkt.

Í þessu máli, sem öðrum, ber að sýna aðstandendum og öðrum, sem eiga um sárt að binda, hlýhug, virðingu og nærgætni.  Nógu erfitt er að takast á við slíkar hörmungar, þó ekki sé á þær bætt með gróusögum.

 

 


mbl.is Unnið út frá einni tilgátu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er grænlenski togarinn síðasta hálmstráið?

Miðað við það sem skilja má af fréttum af rannsókn hins dularfulla hvarfs Birnu Brjánsdóttur virðast hvorki vegfarendur né bílstjórar sem voru á ferli um það leiti sem hún hvarf hafa gefið sig fram við lögregluna.  Jafnvel upplýsingar sem virst gætu gagslausar gætu hugsanlega fyllt upp í það púsluspil sem reynt er að raða saman um þennan skelfilega atburð.

Eins og starfsmaður eins skemmtistaðar við Laugaveg sagði, þá á fólk ekki að geta horfið sporlaust í miðborg Reykjavíkur jafnvel þó um nótt sé, því alltaf eru einhverjir á ferli sem ættu hugsanlega að búa yfir einhverjum upplýsingum sem að gagni mættu koma.

Miðað við þær fréttir að bíll, eins og sá sem lýst var eftir, hafi verið í notkun hjá áhöfn grænlensks togara sem lét úr Hafnarfjarðarhöfn á laugardaginn og sást á eftilitsmyndavélum á ferli um höfnina á tíma sem virðist passa við aðra atburðarás málsins, er veik von um að stúlkan gæti verið um borð í togaranum.

Vonandi finnst botn í þetta mál sem allra fyrst og sá, eða þeir, sem ábyrgð bera náist og hljóti makleg málagjöld fyrir þátt sinn í þessu óhæfuverki.


mbl.is Rauði bíllinn tengdur grænlensku skipi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vínberin eru súr........

Þau eru súr, sagði refurinn þegar hann náði ekki að stökkva nógu hátt til að ná vínberjunum og eins líður Katrínu Jakobsdóttur núna eftir að hafa klúðrað möguleikum sínum og Vinstri grænna á að komast í ríkisstjórn núna.

Með því að glutra tækifærinu til að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki eru litlar líkur á að Vinstri grænir fái annað tækifæri til að hafa alvöru áhrif á þróun samfélagsins næstu ár og jafnvel áratugi.  Að næst stærsti flokkur þjóðarinnar skuli henda frá sér gullnu tækifæri til ríkisstjórnarþátttöku bendir ekki til annars en ofstækis á aðra hönd og verkkvíða og ákvarðanahræðslu á hina.j

Þjóðinni er óskað til hamingju með að loksins skuli hafa tekist að mynda nýja stjórn eftir þá stjórnmálakreppu sem ríkt hefur undanfarinn tvo og hálfan mánuð og er stjórninni óskað velfarnaðar í störfum sínum og henni muni takast að viðhalda stöðugleikanum í efnahagsmálunum og nái að bæta kjör og hag almennings áfram eins og tekist hefur undanfarin ár.

Vonandi verður stjórnarandstaðan málefnaleg og án þess að stunda málþóf og röfl um aukaatriði á þinginu, eins og því miður einkenndi síðasta kjörtímabil meira og minna að undanskildum forsætisráðherratíma Sigurðar Inga Jóhannssonar.

Því miður er líklegra að stjórnarandstaðan muni stunda óheiðarleg og ómálefnaleg vinnubrögð eins og reyndar er þegar farið að bera á, þrátt fyrir að nýja ríkisstjórnin sé ekki einu sinni tekin til starfa ennþá.


mbl.is Með áhyggjur af fjármögnun markmiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband