Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2017

Nýta skal öll bifreiðagjöld og -skatta til þess sem upphaflega var ætlað

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur tekið upp afturgengnar hugmyndir um vegatolla á þá bifreiðaeigendur sem álpast munu út fyrir borgarmörk Reykjavíkur í framtíðinni.

Þessi hugmynd virðist vera draugur sem gengur um í Samgönguráðuneytinu, því hann komst á kreik í tíð hinnar einu sönnu vinstri stjórnar þegar draugurinn tók sér bólfestu í þáverandi ráðherra málaflokksins, Kristjáni Möller, en var þá kveðinn niður með áköfum og eindregnum mótmælum þjóðarinnar.

Það verður að teljast furðulegt að ráðherra Sjálfstæðisflokksins skuli ekki berjast með kjafti og klóm við svona skattadrauga úr ráðuneytinu, þar sem flokkurinn hefur frekar kennt sig við hóflegar skattaálögur en skattahækkanir og hvað þá stuðning við afturgönguskatta, sem alltaf hafa tilhneygingu til að blása út og verða ógnvænlegri séu þeir ekki kveðnir niður strax í upphafi.

Nær væri fyrir ráðherrann að berjast fyrir því á þingi og í ríkisstjórn að núverandi bifreiðaskattar og önnur gjöld sem lögð eru á bíleigendur skili sér til vegagerðar, en séu ekki notuð til annarra þarfa samneyslunnar.

Tækist ráðherranum að vinna að því máli til réttrar niðurstöðu myndi hann bæði slá sjálfan sig til riddara og ekki síður yrði hans minnst fyrir að koma vegakerfi landsins í glæsilegt horf.

Til þess þarf ekki nýja skatta, aðeins að nýta þá sem fyrir eru til þess sem þeir voru á lagðir upphaflega.


mbl.is Rætt um vegtolla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattfrelsið ekki eins auðvelt og sýnist

Lausn kjaradeilu sjómanna og útgerða virðist stranda algerlega á kröfu sjómanna um að það fría fæði sem samist hefur um að þeir fái verði ekki skattlagt sem hlunnindi, þ.e. að lög um frádrátt vegna dagpeninga veði látin gilda um þetta eins og dagpeninga annarra stétta.

Við nánari skoðun er málið ekki svo einfalt, þar sem dagpeningar eru alls ekki skattfrjálsir enda hugsaðir til að greiða kostnað launþega í tilfallandi ferðalögum á vegum atvinnunnar, þ.e. matar- og gistikosnað.  Hugsunin á bak við þetta fyrirkomulag er að tækist launþeganum að komast af með að greiða lægri kostnað en dagpeningunum næmi, skyldi greiddur skattur af eftirstöðvum dagpeninganna.

Í lögum um tekjuskatt segir um þetta:   

"Frádráttur manna frá tekjum utan atvinnurekstrar.

30. gr. Frá tekjum manna skv. II. kafla laga þessara, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, má draga: A. 1. Útgjöld að hámarki móttekin fjárhæð ökutækjastyrkja, dagpeninga eða hliðstæðra endurgreiðslna á kostnaði sem sannað er að séu ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda og eru í samræmi við matsreglur [ráðherra]. 1) [Útgjöld að hámarki móttekinni fjárhæð ættleiðingarstyrks samkvæmt lögum um ættleiðingarstyrki og má frádráttur þessi aldrei vera hærri en fjárhæð styrksins.] 2)"

Þar sem fæði sjómanna virðist eiga vera þeim að kostnaðarlausu fellur samningur þeirra þar um illa að þessari grein laganna og því virðist ráðherra hafa rétt fyrir sér þegar hann heldur því fram að krafa sjómanna kalli á sértækar aðgerðir í skattamálum og þar með er ótti ráðherrans um sambærilegar kröfur annarra stétta í komandi kjarasamningum skiljanlegur.

Að teknu tilliti til alls þessa er greinilegt að úrlausn ágreiningsins er ekki auðveldur.


mbl.is „Láti minni hagsmuni víkja fyrir meiri“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband