Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Skattlaus ESBáróður?

Steingrímur J. hefur lagt fram frumvarp um að IPA-styrkir ESB skuli undanþegnir öllum sköttum og öðrum opinberum gjöldum hér á landi enda krafa ESB að ekki megi ein króna af slíkum styrkjum renna í sameiginlega sjóði viðtkökulandsins.

Í fréttinni segir um þetta mál m.a:  "Einnig kemur fram að í samningnum frá júlí sl. sé gerð krafa um að IPA-aðstoð renni óskipt til þeirra verkefna sem henni er ætlað að styðja en ekki til greiðslu skatta, tolla eða annarra gjalda af sambærilegum toga."

Ekki kemur skýrt fram í fréttinni hvort starfsfólk, sem vinna mun að ESB-áróðri hér á landi og fá laun sín greidd af þessu styrktarfé, verði undanþegið tekjuskatti og tryggingagjaldi sem standa verður skil á til ríkissjóðs af allri annarri vinnu í landinu.

Þó þetta skattleysi IPA-styrkþega komi ekki skýrt fram í þessari frétt, herma aðrar fréttir að þetta starfsfólk eigi að vera undanþegið öllum tekjusköttum og verði því eins og hver annar aðall á miðöldum, sem leit á sig sem æðri stétt og algerlega yfir almenning hafinn.  Á þann almenning leit þessi yfirstétt sem vinnudýr sem fullgóð væru til að greiða skatta og gjöld til þess að halda uppi þessum "æðri" stéttum.

Sé eitthvað til í því að hálaunaðir ESB-áróðursmeistarar eigi að vera undanþegnir opinberum gjöldum vegna vinnu í þágu erlendrar yfirstéttar hlýtur almennur skattgreiðandi á Íslandi að senda "norrænu velferðarstjórninni" skýr skilaboð um að slík mismunun verði aldrei þoluð. 


mbl.is Frumvarp um IPA-skattleysi lagt fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miklar rannsóknir, en engar ákærur

Nú eru liðin rúm þrjú ár frá bankahruni og um það bil tvö og hálft síðan embætti Sérstaks saksóknara komst í fullan gang við rannsókn þeirra saknæmu athafna banka- og útrásargengjanna sem taldar eru aðalorsakavaldur kollsteypunnar.

Margir hafa verið settir í gæsluvarðhald á rannsóknartímanum, þar á meðal helstu stjórnendur Kaupþings, en engar ákærur hafa þó komið fram ennþá í neinu máli sem einhverju skiptir varðandi það sem kallað hefur verið "bankarán innanfrá".

Í dag hafa nokkrir verið handteknir og yfirheyrðir varðandi rekstur Glitnis og Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri bankans, verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald. Mun þessi rannsókn m.a. snúa að alls kyns vöndlum, vafningum og snúningum með hlutabréf í bankanum á síðustu mánuðum hans.

Í Glitni eins og Kaupþingi og Landsbankanum var ýmsum brögðum beitt til að halda uppi verðum á hlutabréfamarkaði og þá í þeim tilgangi að fela raunverulega stöðu bankanna og blekkja þar með almenna kaupendur hlutabréfa á þeim tíma og ekki síður erlendar fjármálastofnanir og matsfyrirtæki.

Mikillar óþreyju er farið að gæta vegna þess hve seint gengur að koma málum banka- og útrásargengjanna til dómstóla, en vonandi fara málin að komast af stað fljótlega.


mbl.is Lárus Welding í gæsluvarðhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Evrópa er í tilvistarkreppu"

Nánast hver einasti maður, sem ekki tengist Samfylkingunni á Íslandi, veit og skilur að gríðarleg vandamál steðja að fjárhagslegum stöðugleika ESBríkja og skulda- og bankakreppan í Evrópu er svo mikið vandamál að óvíst er hvort sambandið muni lifa þær hormungar af og þá ekki síður evrusamstarfið.

Þýskaland og Frakkland hafa alla tíð verið burðarásar ESB og jafnvel Samfylkingarfólk ætti að leggja við hlustir þegar ráðamenn þeirra landa tjá sig um vandamálið.  Sérstaklega ætti að lesa vandlega eftirfarandi úr meðfylgjandi frétt:

"Utanríkisráðherra Frakklands, Alain Juppe, segir að fjármálakreppan í Evrópu veki upp spurningar um hvort Evrópusambandið lifi af. „Evrópa er í tilvistarkreppu," segir Juppe í viðtali við vikuritið L'Express í dag. Hann segir ástandið vekja upp spurningar um stöðu Evrópusambandsins, ekki bara þróun þess síðustu tuttugu ár frá gerð Maastricht samkomulagsins heldur allt frá stofnun þess."

Það verður að teljast mikil þráhyggja af hálfu Samfylkingarinnar að neita að viðurkenna þau vandamál sem að ESB steðja og vilja með öllum ráðum reka eina ráherrann úr ríkisstjórninni, sem virðist hafa skilning á stöðunni.  Ekki er síður merkilegt að fylgjast með því að forystumenn VG skuli tilbúnir til að samþykkja þann brottrekstur.

Þó ekki væri nema vegna vandamálanna í ESB, ætti að sjálfsögðu að fresta öllum viðræðum um innlimun Íslands í stórríkið væntanlega, a.m.k. um nokkur ár. 


mbl.is Óttast framtíð ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öryrkjar sakna Sjálfstæðisflokksins, eins og flestir aðrir

Öryrkjabandalagið hefur enn og aftur vakið athygli á árásum "Norrænu velferðarstjórnarinnar" á kjör þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu og þurfa alfarið að reiða sig á örorku- og ellilaun, eða aðrar greiðslur frá hinu opinbera.

Í fréttinni af bréfinu til allra þingmanna segir m.a:  "Öryrkjabandalagið segir í bréfinu að áratuga löng réttindabarátta öryrkja hafi verið færð aftur um fjölda ára."  Tilefni þessara bréfaskrifta núna eru fyrirhuguð svik ríkisstjórnarinnar á skriflegu loforði sínu við gerð kjarasamninga um að bætur almannatrygginga skyldu hækka eins og lægstu laun á almennum vinnumarkaði.  Ríkisstjórnin hikar ekki nú, frekar en áður, að svíkja loforð sín hraðar en blekið þornar á undirskriftum ráðherranna.

Ekki skal því haldið fram að kjör öryrkja, eða annarra bótaþega, hafi verið svo góð að allir hafi verið himinsælir með þau á undanförnum áratugum, en ástæða er til að minna á að þau kjör sem öryrkjar reyna nú að verja, náðust á valdatíma Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, en eins og allir muna væntanlega sat hann í stjórn í tæpa tvo áratugi áður en núverandi hörmungarstjórn komst til valda.

Eins og ástatt er um þessar mundir á stjórnarheimilinu taka flestir undir söknuð Öryrkjabandalagsins vegna fjarveru Sjálfstæðisflokksins úr stjórnarráðinu. 


mbl.is Öryrkjar senda þingmönnum bréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þungvopnuð mótorhjólagengi

Lögreglan hefur lagt á ótrúlegt magn vopna, svo sem byssur, skotfæri, hnífa og hnúajárn, í tengslum við skotárásina sem gerð var í Bryggjuhverfinu í síðustu viku.

Eftir því sem fréttir herma voru þar á ferð meðlimir ákveðinnar mótorhjólaklíku í borginni, sem töldu sig eiga óuppgerðar sakir við mann vegna fíkniefnaskuldar. Þessi gjörningur sýnir betur en margt annað hvílík harka og miskunnarleysi ríkir í glæpaheimi borgarinnar núorðið og er ekki annað að sjá en að ástandið fari versnandi með hverju árinu.

Lögreglan gerði það sem í hennar valdi stóð til að sporna við því að íslenskt mótorhjólagengi fengi formlega viðurkenningu sem fullgildur aðili að alþjóðasamtökum Hell's Angels, en hafði þó ekki erindi sem erfiði. Reynt hefur verið að sporna við starfsemi þeirrar klíku eftir mætti og þó Hell's Angels hafi ekki átt hlut að þessari skotárás, þá sýnir málið eftir sem áður þá hættu sem uppgangi þessara vélhjólagengja fylgir.

Draga verður niðurskurð á fjárframlögum til lögreglunnar til baka og frekar bæta verulega við þau, ef nokkur möguleiki á að vera til að sporna við frekari uppgangi stórhættulegra glæpahópa, innlendra sem erlendra.


mbl.is Mesta magn vopna sem fundist hefur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnin getur hvorki lifað né dáið

Ljóst er orðið að ríkisstjórnin er varla með lífsmarki lengur en virðist alls ekki geta dáið því ráðherrarnir berjast ennþá um á hæl og hnakka í tilraun til að halda stólunum örlítið lengur.

Hvert vandræðamálið rekur annað þessa dagana, eins og reyndar hefur verið frá myndun stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, og er nú svo komið að illskan og jafnvel hatur milli stjórnarflokkanna er komið á svo alvarlegt stig að nánast útilokað er að takist að treina líf stjórnarinnar mikið lengur, enda væri þjóðinni mestur greiði gerður með því að hún hrökklaðist frá völdum undir eins.

Í Kastljósi kvöldsins kom skýrt fram hjá Birni Vali Gíslasyni, gjallarhorni Steingríms J., að allur barningur stjórnarflokkanna nú um stundir snerist um að finna leiðir til að framlengja líftóru stjórnarinnar um nokkra daga, a.m.k. nógu marga til að koma fjárlögum næsta árs í gegn um þingið.

Björn Valur sagði vandræðaganginn ekki snúast eingöngu um framtíð Jóns Bjarnasonar í ráðherraembætti, heldur um að finna leiðir til að stjórnin gæti hökt áfram eftir að Jón yrði hrakinn úr stjórninni.

Takist Steingrími J. að sannfæra Ögmund og Guðfríði Lilju um að halda áfram stuðningi sínum við stjórnarhörmungina gegn loforði um stöðvun allrar fjárfestingar í landinu, a.m.k. erlendrar, mun Samfylkingin líklega geta tryggt sér stuðning Guðmundar Steingrímssonar, þannig að stjórnin hangi áfram á eins manns meirihluta á þinginu. Þannig mætti hugsanlega ná því að klára fjárlögin, en ósennilega nokkuð annað.

Undirbúningur útfarar ríkisstjórnarinnar er í fullum gangi.


mbl.is Hefði mátt fara öðruvísi að
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG fórnar Jóni Bjarnasyni

VG ætlar greinilega að fórna Jóni Bjarnasyni með því að setja hann af sem ráðherra, enda hefur Jón þvælst fyrir áformun Samfylkingarinnar og nokkurra forystumanna VG um innlimun Íslands í væntanlegt stórríki ESB.

Þetta sést nokkuð glögglega af yfirlýsingum Björns Vals Gíslasonar, þingmanns VG og sérlegs yfirlýsingablaðrara Steingríms J., um þá ósvífni sjávarútvegsráðherrans að vera yfirleitt að skipta sér af sjávarútvegsmálum.

Björn Valur segir í umboði Steingríms J. m.a: „Í stjórnmálum verður fólk að fylgja samþykktum og starfa samkvæmt umboðinu sem því er falið. Menn geta ekki farið fram úr sjálfum sér eða tekið sér vald umfram umboð þingflokks síns, eins og nú hefur gerst. Því hlýtur ráðherrastóll Jóns Bjarnasonar að vera farinn að rugga,“ segir Björn Valur og bætir við að farið verði heildstætt yfir þetta mál á þingflokksfundi VG á morgun."

Ef VG þarf að fórna einum ráðherra til að hinir geti haldið sínum völdum svolítið lengur, verður farið í slíkar mannfórnir.

Steingrímur J. mun gera hvað sem er og selja hvaða hugsjón sem hann kann einhvern tíma að hafa haft til að halda sínum völdum og geta með því eyðilagt eins mikið og hægt er að eyðileggja með skattaæði sínu. 


mbl.is Ráðherrastóllinn ruggar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Bjarnason rekinn úr ríkisstjórninni?

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, hefur lagt fram nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða, sem illa hefur verið tekið af hagsmunaaðilum, en þær móttökur eru þó barnaleikur hjá viðbrögðum Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, sem hefur brugðist algerlega ókvæða við þessu brölti Jóns.

Eftir Jóhönnu er haft:  "Jón hefur haldið allri ríkisstjórninni og þingflokkunum utan við þessa vinnu þrátt fyrir ítrekaðar óskir okkar um að koma að þessu máli og hunsað aðkomu annarra úr stjórnarliðinu að þessu verki. Þetta eru auðvitað vinnubrögð sjávarútvegsráðherra sem eru algjörlega óásættanleg og ekki boðleg í samskiptum flokkanna."  Harðorðari getur yfirlýsing í garð fagráðherra í eigin ríkisstjórn varla orðið.

Í fréttinni kemur þetta einnig fram:  "Á ríkisstjórnarfundi á föstudag hafi verið ákveðið að skipa ráðherranefnd til að fara með málið."  Ríkisstjórnir eru ekki fjölskipað vald, heldur er hver ráðherra ábyrgur fyrir sínum málaflokki og hefur t.d. Ögmundur Jónasson margítrekað það undanfarna daga í tengslum við afgreiðslu sína á undanþágubeiðni Kínverjans Nubo til kaupa á Grímsstöðum á Fjöllum. Sú afgreiðsla hefur einnig orðið til að gera samráðherra Ögmundar æfa af reiði, ekki síst forsætisráðherrann.  

Að taka mál af fagráðherra, sem undir hans ráðuneyti heyrir samkvæmt lögum og reglum og setja það í hendur annarra ráðherra til afgreiðslu, hlýtur að jafngilda því að viðkomandi fagráðherra sé í raun rekinn úr ríkisstjórninni og vandséð hvernig Vinstri grænir geti sætt sig við þannig meðferð á ráðherra úr sínum röðum.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er orðin eins og lík, sem eingöngu á eftir að veita nábjargirnar. 


mbl.is Þetta er ekki stjórnarfrumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján Möller gagnrýnir Ögmund harkalega

Eftir afgreiðslu Ögmundar Jónassonar á umsókn Kínverjans Nubo um undanþágu til að fá að kaupa Grímsstaði á Fjöllum, gagnrýnir Nubo íslensk stjórnvöld og segir kínverska fjárfesta mæta miklum fordómum á vesturlöndum á sama tíma og vestrænir aðilar sæki stíft í fjárfestingar í Kína.

Hér verður ekki að sinni fjallað frekar um fjárfestingar aðila utan EES á Íslandsi, en í framhaldi af úrskurði Ögmundar eru brestirnir í ríkisstjórnarsamstarfinu sífellt betur að koma í ljós og stórfróðlegt var að heyra í Kristjáni Möller í þættinum "Sprengisandi" um afgreiðslu Nubomálsins og reiði Samfylkingarinnar vegna málsins og reyndar skattabrjálæðis Steingríms J. vegna stóriðjunnar.

Kristján segir að Ögmundur hafi í raun verið bullandi vanhæfur til að fjalla um málið, ekki haft samráð við einn eða neinn og reyndar troðið á og lítillækkað samráðherra sína, þá Árna Pál og Katrínu Júlíusdóttur og ekki síst forsætisráðherrann sjálfan með því að hundsa algerlega beiðni hennar um nána samvinnu stjórnarflokkanna um úrlausn málsins. Kristján krafðist þess í þættinum að málið yrði umsvifalaust tekið úr höndum Ögmundar og það leyst af ráðherrum Samfylkingarinnar.

Ekki síður var Kristján harðorður vegna stóriðjuskattanna sem nýjasta skattaæði Steingríms J. beinist að þessa dagana og hugsi fleiri stjórnarþingmenn á sömu lund og Kristján Möller, er dagljóst að ríkisstjórnin er orðin algerlega hadónýt til allra verka og mun hrökklast frá völdum innan skamms.

Ríkisstjórn með eins manns meirihluta á þingi getur ekki lifað lengi við aðra eins upplausn og vandræðagang við úrlausn alvarlegra málefna, sem skipta í raun sköpum fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu.


mbl.is Huang gagnrýnir Vesturlönd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ASÍ sakar ríkisstjórnina um svik, meiri svik og síendurtekin svik

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, er og hefur lengi verið eindreginn stuðningsmaður Samfylkingarinnar og í Miðstjórn ASÍ sitja með honum fleiri sem stutt hafa stjórnarflokkana dyggilega í áranna rás.

Því verða það að teljast mikil tíðindi að Gylfi og stofnanir ASÍ skuli margendurtekið senda frá sér gagnrýni og ásakanir á hendur ríkisstjórninni fyrir svik við launafólk og eftir því sem tímar hafa liðið, hefur orðalagið á skeytasendingunum orðið harðorðari og í samþykkt ASÍ frá í dag er ekki töluð nein tæpitunga um svikaríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J.

Nægir að vitna í nokkrar setningar úr ályktun ASÍ því til staðfestingar:

"Það þýðir að atvinnuleysisbætur hækka aðeins um 3,5% eða 5.500 kr en ekki 11.000 kr. Ríkisstjórnin sem kennir sig við velferð ætlar þannig ekki aðeins að svíkja eigin loforð heldur einnig snupra þá sem lökust hafa kjörin í okkar þjóðfélagi."

"Þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir og mótmæli verkalýðshreyfingarinnar ætlar ríkisstjórnin að halda til streitu svokölluðu þriggja mánaða sveltitímabili langtímaatvinnulausra."

"Þetta er ómanneskjuleg framkoma sem minnir helst á hreppaflutninga fyrr á öldum. Ríkið firrar sig ábyrgð og vísar atvinnuleitendum á framfærslu annarra."

"Það er verið að lækka framfærslu þúsunda Íslendinga. En að sjálfsögðu bara þeirra sem hafa starfað á almennum markaði. Opinberir starfsmenn halda sínu að fullu, sem fyrr."

"Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hafnar alfarið síendurteknum árásum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur á íslenskt launafólk."

Stuðningsmenn "velferðarstjórnarinnar" hafa ráðist á ýmsa gagnrýnendur hennar og sakað þá um rangfærslur og ósanngirni, þó vægara orðalag væri notað en þarna er gert. 

Ályktun ASÍ lýkur með hótun um harkalegar aðgerðir gegn ríkisstjórninni láti hún ekki af svikum sínum á þeim skriflegu samningum sem hún hefur gert vegna hækkana til þeirra sem enga framfærslu hafa aðra en af bótum frá hinu opinbera.

Ekki er hægt annað en að taka undir með Miðstjórn ASÍ þegar hún segir að hlálegt sé af ríkisstjórninni að kenna sig við velferð. 


mbl.is ASÍ segir stjórnina ráðast á réttindi launafólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband