Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Gleðilegt ár

Ég óska öllum bloggurum, lesendum mbl.is og öðrum landsmönnum gleðilegs nýs árs með þakklæti fyrir árið sem nú er að verða liðið.

Nú rennur upp ellefta ár aldarinnar hjá þeim sem héldu upp á aldamótin um áramótin 1999/2000, en tíunda árið hjá okkur hinum.

Vonandi færir nýja árið okkur öllum gæfu, gott gengi og batnandi þjóðarhag.

Kætist í kvöld, en gangið samt hægt um gleðinnar dyr.


Stórkostlegt

Aldrei hafa fleiri Íslendingar skrifað undir nokkra aðra áskorun, um nokkurt málefni, í sögu lýðveldisins, ef rétt er munað, en þessa áskorun á forseta Íslands, að hafna samþykkis á lögunum um niðurfellingu fyrirvaranna á ríkisábyrgðinni á skuldum Landsbankans.

Þetta er stórkostleg samstaða með þeim málstað sem Indifence hópurinn og auðvitað margir aðrir, hfaf barist fyrir alveg frá því að umræðan um þrælasamninginn hófst.  Því miður staðfesti forsetinn lögin um ríkisábyrgð, sem samþykkt voru þann 28. ágúst s.l., þannig að stór skaði er skeður nú þegar, en þau lög sem nú bíða staðfestingar, draga tennurnar algerlega úr fyrirvörunum, sem þá voru lögleiddir.

Þrátt fyrir þennan ótrúlega fjölda undirskrifta undir áskorunina, eru litlar eða engar líkur á því, að Ólafur Ragnar neiti sataðfestingar á þessum lögum, vegna persónulegra tengsla sinna við VG, eigin stjórnmálaskoðanir og þeirrar staðreyndar að hann er guðfaðir ríkisstjórnarnefnunnar.

Um þetta var nánar fjallað í síðasta bloggi og er því vísað til þess hérna .


mbl.is Undirskriftir yfir 49.000
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar kemur aldrei á óvart

Steingrímur J. segir að sér komi ekki á óvart að Ólafur Ragnar hafi tekið sér frest til að undirrita lögin um að fella niður fyrirvarana á ríkisábyrð á skuldum Landsbankans, enda ekki ólíklegt að hann hafi vitað um þann skrípaleik fyrirfram.

Ólafur Ragnar er löngu búinn að semja ræðuna, sem hann mun flytja, þegar hann verður búinn að staðfesta lögin, enda haft til þess góðan tíma.  Enginn þarf að efast um, að hann mun aldrei fella nokkur einustu lög, sem vinum hans og félögum í ríkisstjórnarnefnunni dettur í hug að senda honum, því hann er hvorki meira né minna en guðfaðir stjórnarinnar.  Hann reri öllum árum að því, bak við tjöldin, að VG kæmist í ríkisstjórn.

Undirrituninni er einungis frestað yfir áramótin, til þess að Ólafur Ragnar fái frið til að snæða áramótasteikina í ró og næði, án mótmælenda á hlaðinu á Bessastöðum.  Í áramótaávarpi sínu mun hann undirbúa fólk fyrir samþykkið, með orðavaðli um þjóðréttarlega samninga, samstöðu þjóðarinnar á erfiðum stundum og nú þurfi fólk að snúa bökum saman og horfa björtum augum til framtíðarinnar.´

Ólafur Ragnar kemur aldrei á óvart.

Hann er alltaf fyrirséður.


mbl.is Kom ekki á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstöðu um að hafna ESB

Stjórnmálaleiðtogarnir hvetja til samstöðu þjóðarinnar og þá hljóta foringjar ríkisstjórnarnefnunnar að vera að boða stefnubreytingu af sinni hálfu, því á árinu, sem nú er senn liðið, gerðu þeir allt sem þeir gátu, til að eyðileggja baráttu þjóðarinnar gegn því að verða hneppt í þrældóm til Breta og Hollendinga til næstu áratuga. 

Þrátt fyrir hatramma baráttu stjórnarflokkanna gegn þessari samstöðu, þá stóð 70% þjóðarinnar saman í andstöðunni gegn þessari ánauð, en þrátt fyrir mikið minnihlutafylgi almennings, samþykktu stjórnarliðar þrælasamninginn og munu þar með setja nöfn á minnigartöflu óþjóðholls fólks í Íslandssögunni.

Vonandi mun Samfylkingin fylkja sér á næsta ári með þeim mikla meirihluta Íslendinga, sem vilja áfram vera fullvalda í frjálsu landi og hafna þar með inngöngu í ESB.  Ef Samfylkingin vill rétta sáttarhönd til þjóðarinnar, mun hún beita sér fyrir því, að umsóknin um inngönguna í stórríki Evrópu verði dregin til baka umsvifalaust.

Í áramótaávarpi sínu í Morgunblaðinu, minntist Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherralíki, ekki einu orði á ESB, sem bendir til þess, að hún sé farin að gera sér grein fyrir því, að mikill meirihluti þjóðarinnnar er algerlega andvígur ESB brölti Samfylkingarinnar og því sé tilgangslaust að halda inngöngubeiðninni til streytu.

Ef Samfylkingin sér að sér í ESB málinu, verður samstöðu hennar með hinum hluta þjóðarinnar, vafalítið tekið með velvilja.


mbl.is Stjórnmálamenn hvetja til samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verða nöfnin 34?

Eins og öllum er nú orðið ljóst, fundust nógu margir þingmenn á Alþingi, sem tilbúnir voru til að afhenda Bretum og Hollendingum íslenska skattgreiðendur, til þrælkunar til næstu áratuga.

Nöfn þessara þingmanna eru: 

Anna Pála Sverrisdóttir (S), Álfheiður Ingadóttir (Vg), Arndís Soffía Sigurðardóttir (Vg), Árni Páll Árnason (S), Árni Þór Sigurðsson (Vg), Ásmundur Einar Daðason (Vg), Ásta R. Jóhannesdóttir (S), Björgvin G. Sigurðsson (S), Björn Valur Gíslason (Vg), Guðbjartur Hannesson (S), Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg), Helgi Hjörvar (S), Jóhanna Sigurðardóttir (S), Jón Bjarnason (Vg), Jónína Rós Guðmundsdóttir (S), Katrín Jakobsdóttir (Vg), Katrín Júlíusdóttir (S), Kristján L. Möller (S), Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg), Magnús Orri Schram (S), Oddný G. Harðardóttir (S), Ólína Þorvarðardóttir (S), Róbert Marshall (S), Sigmundur Ernir Rúnarsson (S), Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (S), Steingrímur J. Sigfússon (Vg), Steinunn Valdís Óskarsdóttir (S), Svandís Svavarsdóttir (Vg), Valgerður Bjarnadóttir (S), Þórunn Sveinbjarnardóttir (S), Þráinn Bertelsson (utan flokka), Þuríður Backman (Vg), Össur Skarphéðinsson (S).

Nöfn þessara þingmanna munu verða grafin á minnisvarða um þennan ömurlega atburð, enda munu nöfn þeirra lifa í Íslandssögunni, meðal dapurlegustu atburða hennar og gjörða þeirra verður minnst meðal athafna annarra ógæfumanna, á meðan nokkur sála byggir landið.

Í dag kemur í ljós hvort nafn Ólafs Ragnars Grímssonar bætist á þennan lista.


mbl.is Óska eftir fundi með forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagði eitt, gerði annað

Furðulegt var að fylgjast með Ásmundi Einari Daðasyni við atkvæðagreiðsluna á Alþingi um þrælasamninginn við Breta og Hollendinga.

Þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu við breytingartillöguna um að vísa málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu, sagði hann að ef málið yrði samþykkt á þinginu, myndi hann ganga rakleiðis inn í hliðarherbergi í þinghúsinu og skrá sig á lista Indifence, þar sem skorað er á forsetnann að neita lögunum staðfestingar.

Við atkvæðagreiðsluna um frumvarpið sjálft, sagði þessi sami maður JÁ.

Þarna hlýtur að vera á ferðinni einhver mesti geðklofi sem á þing hefur komið og hefur þó áður sést margt einkennilegt til þingmann VG.

Þetta slær jafnvel út atkvæðagreiðsluna um inngöngubeiðnina í ESB, þegar Álfheiður Ingadóttir sagðist vera algerlega á móti ESB aðild og þess vegna segði hún JÁ við því, að sækja um aðild.

Það er margt skrýtið í fleiri hausum, en kýrhausnum.

 


mbl.is Ásmundur Einar samþykkti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar seldir í ánauð Breta og Hollendinga

Þau hörmulegu tíðindi gerðust nú fyrir stundu, að meirihluti Alþingis samþykkti að selja þjóð sína í þrældóm fyrir Breta og Hollendinga til næstu áratuga, en í því felst að drjúgur hluti skattgreiðslna íslensks launafólks mun renna beint í ríkissjóði þessara erlendu þrælapískara.

Áður hafði sami meirihluti þingmanna hafnað því að leyfa verðandi þrælum að ráða sjálfum örlögum sínum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

30. Desember 2009 er sorgardagur í sögu lands og þjóðar og mun þeirrar dagsetningar verða minnst í framtíðinni, sem þess dags sem niðurlæging þings og þjóðar hefur orðið einna mest.

Nöfn þeirra 33 þingmanna, sem samþykktu þessi svik við þjóð sína, mun verða minnst í Íslandssögunni og verða höfð að háði og spotti um aldir.

Þjóðin mun um síðir brjótast undan oki þeirra og þeirra erlendu húsbænda.


mbl.is Alþingi samþykkti Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur verður að standa fyrir máli sínu

Össur Skarphéðinsson, grínari og utanríkisráðherralíki, hélt því blákalt fram á Alþingi í gær, að hann hefði ekki setið neinn fund með lögmönnum frá Mishcon de Reya, þann 31 mars s.l. og þar af leiðandi ekki fengið nein gögn frá stofunni, hvað þá kynningu á þeim.

Nú er komin ný yfirlýsing frá Mishcon de Reya, þar sem birtur er nafnalisti þeirra, sem sátu þennan fund að morgni þess 31. mars til að undirbúa Össur undir fund með Milliband utanríkisráðherra Breta.  Steingrímur J. sagði á sama þingfundi í gær, að hann tryði Össuri betur en hinni virtu bresku lögmannsstofu, sem annara er um heiður sinn, en íslenskum grínurum og ráðherranefnum.

Lögmannsstofan býðst til að leggja fram eiðsvarna vitnisburði um hvað fram fór á fundum með sendimönnum Steingríms J. á þessum tíma, því þeir sem vilja láta taka sig alvarlega, eru tilbúnir til a leggja heiður sinn að veði.

Össur verður að útskýra og afsaka lygasögu sína, ef hann ætlar að sitja áfram í embætti.

Götusagan heldur því fram að Össur muni taka við af Jóhönnu á næsta ári.

Kærir þjóðin sig um mann, sem staðinn hefur verið að lygi á Alþingi, í það embætti?


mbl.is Bjóða eiðsvarinn vitnisburð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihluta þjóðarinnar er misboðið

Fólki hefur oft ofboðið framganga Guðbjarts Hannessonar, formanns Fjárlaganefndar Alþingis, þegar hann hefur oftar en einu sinni tekið mál nánast órædd út úr nefndinni í algerri andstöðu við minnihlutann, sem viljað hefur skoða og ræða mál betur og afla frekari gagna.

Almenningi er algerlega ofboðið, vegna þess pukurs, ósanninda og þjösnagangs, sem ríkisstjórnarnefnan hefur beitt, við að reyna að keyra mál í gegnum þingið, fyrst átti að láta samþykkja ríkisábyrgðina á skuldum landsbankans án kynningar og umræðu, loks var málið samþykkt með fyrirvörum, sem áttu að verja þjóðina gegn verstu agnúum "samningsins" og nú á að keyra breytingarfrumvarp, sem afturkallar fyrirvarana, í gegn um þingið með fólsku og þjösnaskap.

Skattgreiðendum er nóg boðið, þegar bæta á hundraða milljarða þrælaskatti til Breta og Hollendinga ofan á allt skattahækkanabrjálæðið sem búið er að skella á, til að rétta af halla ríkissjóðs.  Ekkert af þeim skattahækkunum, sem taka eiga gildi um áramótin eru vegna Icesave þrælaklafans, þó sumir virðist halda að svo sé.

Stjórnarmeirihlutinn á þingi ætti að skammast sín, fyrir að láta draga sig á asnaeyrunum til að samþykkja, að selja þjóðina í þrældóm til áratuga.  Íslandssagan mun geyma nöfn þeirra, svo lengi sem land byggist, vegna þeirra skítverka, sem þeir eru nú að vinna.

Meirihluta þjóðarinnar er misboðið, ofboðið og nóg boðið.


mbl.is Guðbjarti misboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra að fresta fram yfir áramót

Þingstörf eru öll í uppnámi vegna ótrúlegra vinnubragða ríkisstjórnarnefnunnar á lokaspretti umræðunnar um breytingu á lögum um ríkisábyrgð á skuldum Landsbankans.

Samningurinn sjálfur er sá allra lélegasti, sem sjálfstætt ríki hefur gert við önnur ríki, án þess að um uppgjafarskilmála hafi verið að ræða eftir styrjaldir.  Samninganefndin var enda samansett af embættismönnum, sem vafi leikur á að hafi kunnað almennilega ensku og alls ekki flókið enskt lagamál, enda textinn allur einhliða í hag hinna erlendu "samningsaðila".

Formaður samninganefndarinnar sagðist ekki hafa nennt að hafa þetta mál hangandi yfir sér lengur og því bara skrifað undir og svo þegar hann er boðaður á fund Fjárlaganefndar Alþingis, til að útskýra ýmsa þætti í aðdraganda undirskriftarinnar, þá nennir hann ekki að mæta og nennir ekki heldur að útskýra málið skriflega.

Enn er beðið eftir nýjum gögnum frá Mishcon de Reya, ensku lögmannsstofunni, sem reyndi að ráðleggja Svavari og félögum heilt í aðdraganda samningsins, þó Svavar hafi hunsað þær ráðleggingar, enda hefur hann varla nennt að hlusta á þær.

Úr því sem komið er, er viturlegast að fresta málinu fram yfir áramót, því ef þingið ætlar að fara að fjalla um málið í dag og greiða síðan atkvæði um það í nótt, er mikil hætta á óeirðum í miðbænum, sem ekki er gott að spá um, hvert kunna að leiða.

Það er ekki fyrst og fremst vegna þess að andstæðingar ríkisábyrgðarinnar muni fjölmenna í miðbæinn, heldur er mikil hætta á að talsverð ölvun verði í bænum í kvöld og nótt og fólk sem ekki verði alveg með sjálfu sér, leiðist út í skrílslæti og jafnvel óeirðir við slíkar aðstæður.

Þingmönnum veitir ekki af nokkrum dögum í viðbót til að safna saman þeim gögnum, sem enn er reynt að leyna fyir þeim.


mbl.is Þingfundi nú frestað til 15
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband