Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Af hverju fá Píratar ekki stjórnarmyndunarumboðið?

Ýmsir virðast á þeirri skoðun að formaður Framsóknarflokksins ætti að verða fyrstur til þess fá stjórnarmyndunarumboðið vegna þess að flokkurinn hafi rúmlega tvöfaldað þingmannafjölda sinn í kosningunum á laugardaginn.

Tveir þingmenn, sem sögðu sig úr Samfylkingunni, stofnuðu nýjan stjórnmálaflokk sem bauð fram í fyrsta sinn í þessum kosningum og fékk sex þingmenn kjörna.  Flokkurinn sem sagt þrefaldaði þingmannafjölda sinn og sló þar með Framsóknarflokknum við í margfölduninni.

Ekki síður ætti að líta til Pírata, sem annaðhvort voru ekki með neinn þingmann fyrir kosningar, eða kannski einn, og fékk þrjá menn inn á þing í kosningunum.  Hvernig sem það er reiknað, þá a.m.k. þrefölduðu Píratar sinn þingmannafjölda og ef tekið er mið af margföldunartöflunni slógu þeir Framsóknarflokkinn út, ekki síður en Framtíðin Bjarta.

Auðvitað eru svona bollaleggingar algerlega út í hött og núna, eins og yfirleitt alltaf áður, á að sjálfsögðu að fela formanni stærsta stjórnmálaflokksins, þ.e. þess flokks sem flest atkvæði hlaut í kosningunum, fyrstum að reyna stjórnarmyndun.  Það er bæði rökréttast og eðlilegast.

Ef formanni stærsta flokksins tekst svo ekki að mynda stjórn á að fela næst stærsta flokknum að reyna og svo koll af kolli.  Allt annað er órökrétt og óeðlilegt. 


mbl.is Sigmundur eða Bjarni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tapsár Ólína

Ólína Þorvarðardóttir náði ekki endurkjöri til Alþingis, enda tapaði Samfylkingin ellefu af tuttugu þingmönnum sínum, sem engan þyrfti að undra eftir frammistöðu flokksins í ríkisstjórn síðustu fjögur ár.

Ólína kennir öllum öðrum en sjálfri sér um tapið og segir m.a. að samstarf stjórnarmeirihlutans hafi einkennst af ráðaleysi, baktjaldamakki og hljóðskrafi og ekki verður annað ályktað en að hún hafi sjálf verið þátttakandi í því öllu sem einn af þingmönnum ríkisstjórnarinnar.

Kannski ætti Ólína að láta af hnjóðinu í annarra garð og líta í eigin barm og leggja niður fyrir sér hvort það hafi ekki einmitt verið hún sjálf sem átti jafn mikinn, eða jafnvel meiri, þátt í ósigrinum og aðrir samflokksmenn hennar.

Ekki verður nýr formaður Samfylkingarinnar öfundsverður ef Ólína og hennar líkar halda áfram að níða hann niður og halda uppi sundrungu í flokknum, eins og hingað til. 


mbl.is Ráðaleysi, baktjaldamakk og hljóðskraf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórir sigrar og hrikaleg töp

Kosningar eru afstaðnar og eftir þær stendur tvennt uppúr, en það er stórsigur Framsóknarflokksins vegna loforðsins um skuldaniðurfellingu húsnæðislána og gríðarlegt og nánast heimssögulegt tap stjórnarflokkanna.

Framsóknarflokkurinn hlýtur að verða aðili að næstu ríkisstjórn og þá mun málið væntanlega vandast fyrir hann, þar sem enginn getur sagt fyrir um hvort og þá hvenær "hrægammarnir" muni gefa flokknum peningana sem til þarf svo hægt verði að standa við stóru orðin.

Jóhanna Sigurðardóttir skilur við Samfylkinguna í algjörri rúst, en sá flokkur keyrði kosningabaráttuna nánast á einu máli, þ.e. ESBinnlimuninni, og þjóðin hefur nú sýnt hug sinn í því máli svo ekki verður misskilið.

Lýðræðisvaktin var sérstaklega stofnuð og bauð fram ýmsa þjóðþekkta einstaklinga í þeim eina tilgangi að berjast fyrir nýrri stjórnarskrá, sem samin var nær eingöngu af frambjóðendum flokksins.  Þeirra boðskap var algerlega vísað út í hafsauga, enda fékk flokkurinn ekki nema 2,5% atkvæða á landsvísu.

Sjálfstæðisflokkurinn má vel við sína niðurstöðu una, því fyrir fáeinum vikum var honum spáð 17% fylgi í skoðanakönnunum, en fékk um27% og er orðinn stærsti flokkur þjóðarinnar á ný, eins og hann hefur oftast verið og þjóðinni hefur alltaf gengið best þegar flokkurinn hefur verið sterkastur.

"Norrænu velferðarstjórninni" var hafnað á eftirminnilegan hátt í þessum kosningum ásamt innlimuninni í ESB og "nýju stjórnarskránni".  Það eru skilaboðin sem lesast út úr kosningunum við fyrstu skoðun. 


mbl.is Úrslitin liggja fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin þarf að finna fyrir "góðum anda"

Forystumenn allra flokka, ekki síst þeirra sem sáralítið fylgi hafa fengið í skoðanakönnunum, keppast við að lýsa þeim "góða anda" sem þeir skynja í kringum sig og segjast sannfærðir um að deginum í dag muni fylgja "óvænt tíðindi".

Vonandi mun þessi dagur skilja eftir sig mikil og stór tíðindi um stórkostlegt tap ríkisstjórnarflokkanna og góðan sigur Sjálfstæðisflokksins.  Eina von þjóðarinnar til betri lífskjara og bjartari framtíðar er að Sjálfstæðisflokkurinn standi sterkur eftir þessar kosningar og fái þannig sterkt umboð til að vinna að þeim lífskjarabata sem bráðnauðsynlegt er að koma af stað eftir stöðnun síðasta kjörtímabils, ekki síst í atvinnumálum.

Með sterkum og stórum Sjálfstæðisflokki mun þjóðin finna fyrir "góðum anda" til langrar framtíðar. 


mbl.is „Þetta verður dagur breytinga“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þú kýst ekki eftirá

Allir þekkja auglýsinguna "Þú tryggir ekki eftirá" og sama ætti að hafa í huga í kosningunum á morgun, þ.e. "þú kýst ekki eftirá".

Þeir sem raunverulega vilja breytingar á stjórnarfarinu í landinu, uppbyggingu atvinnulífsins með tilheyrandi minnkun atvinnuleysisins, aukinn hagvöxt, meiri kaupmátt og lægri skatta hafa aðeins einn valkost og það er Sjálfstæðisflokkurinn.

Margir sem venjulega hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn hafa látið ótrúlega ósanngjarna umfjöllun um flokkinn og ekki síður svívirðilegan lygaáróður og ærumeiðingar um formann hans hafa áhrif á sig og segjast nú ætla að kjósa Framsóknarflokkinn vegna þess að hann muni hvort sem er örugglega fara í stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn að kosningum loknum.

Engin trygging er fyrir því að Framsóknarflokkurinn halli sér ekki til vinstri við stjórnarmyndun, enda hefur komið fram frá einstökum þingmönnum hans að slíkt ætti að verða fyrsti valkostur flokksins.

Eina örugga ráðið til að Sjálfstæðisflokkurinn verði í næstu ríkisstjórn er að kjósa hann og ekki annað. Annað gæti valdið miklum vonbrigðum og sárindum fyrir þá sem misreikna sig í þessu efni. 


mbl.is Sjálfstæðisflokkur með mest fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sósíalismi andskotans

Eftir nokkra daga taka gildi nýjar reglur "Norrænu velferðarstjórnarinnar" um lyfjakostnað sjúklinga, sem mun stórhækka útgjöld langveikra með alvarlega sjúkdóma og lífeyrisþega, eða eins og fram kemur í fréttinni:  "Það eru einkum tveir hópar sem munu þurfa að greiða meira en áður eftir að nýju lögin hafa tekið gildi. Annars vegar þeir sem eru með mjög lágan heildarlyfjakostnað, undir 24.075 kr á ári eða minna en 16.050 kr ef um er að ræða lífeyrisþega eða börn. Þessir hópar munu þurfa að greiða öll lyf sín að fullu í nýja kerfinu. Hinn hópurinn er sá sem hefur verið að fá *-merkt lyf, sem hafa verið greidd að fullu af SÍ. Í þessum hópi lyfja eru sykursýkislyf, en einnig lyf við gláku, krabbameinslyf, lyf við parkinsonssjúkdómnum, flogaveiki og Sjögren sjúkdómnum. Rúmlega 30.000 manns hafa verið að taka þessi *-merktu lyf."

Enginn í síðari hópnum hefur nokkurt val um það hvort hann tekur lyfin sín inn eða ekki, þar sem a.m.k. í sumum tilfellum eru lyfin algerlega nauðsynleg til þess að halda sjúklingnum á lífi, eða gera lífið bærilegra.

Þó yfirlýst markmið breytinganna sé að "jafna lyfjakostnað" fólks burtséð frá þeim sjúkdómum sem hrjá það, er það einkennilegur jöfnuður að stórhækka lyfjakostnað þeirra langveiku en lækka á öðrum á móti.  Ef jafna hefði átt kostnað milli einstakra sjúklingahópa hefði verið nær að stefna að lækkun þeirra sem nú greiða meira fyrir sín lyf en þeir sem lífsnauðsynlega neyðast til að nota lyf til að halda lífi.

Jöfnuður með þessum formerkjum hefði einhverntíma verið kallaður "sósíalismi andskotans".  Betri lýsing á fyrirbærinu er líklega vandfundin. 


mbl.is „Greiða fyrir að halda lífi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oft var þörf en nú er nauðsyn að grípa til nýrra ráða

Atvinnuleysi hefur verið mikið á landinu undanfarin ár og í reynd verið meira en atvinnuleysisskráningin segir til um vegna allra þeirra þúsunda landsmanna sem flutt hafa og vinna nú og búa erlendis.  Ríkisstjórnin hefur í reynd staðið gegn hvers kyns atvinnuuppbyggingu í landinu, ekki síst með stórhækkuðum sköttum á atvinnulífið og almenning, sem bæði verður til þess að draga úr fjárfestingum og mannaráðningum fyrirtækjanna og veldur mun minni kaupmætti almennings.

Nú eru að birtast niðurstöður ýmissa efnahagskannana fyrir marsmánuð og kemur þá í ljós að neysla í þjóðfélaginu er að dragast saman og atvinnuleysi hefur stóraukist, eða um heil 2%, frá febrúarmánuði og er nú 6,8%.  Slík aukning milli mánaða er bæði gríðarmikil og skelfileg.

Sjálfstæðisflokkurinn er einn flokka um að boða raunhæfar ráðstafanir til að koma atvinnulífinu á skrið og bæta kaupmátt almennings og til þess eru skattalækkanir vænlegasta og árangursríkasta leiðin. Esko Aho, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands segir að eftir kreppuna þar í landi hafi skattalækkanir bjargað velferðarkerfinu, eða eins og segir um þetta í Viðskiptablaðinu m.a:  "Hann segir að fyrir kreppuna hafi skattar á finnsk fyrirtæki verið háir, en undantekningar og frádráttarmöguleikar margir. Stjórn hans hafi hins vegar lækkað skatta eins mikið og mögulegt var og þurrkað út allar undantekningar og frádrætti. Aho sagði að það hafi verið mjög erfitt að koma þessum lagabreytingum í gegnum þingið, því þingmenn hafi haft af því áhyggjur að skatttekjur ríkisins myndu minnka í kjölfarið. Reynslan hafi hins vegar verið allt önnur og innan tíðar hafi skatttekjur ríkisins af fyrirtækjum tæplega þrefaldast. „Þessi breyting bjargaði finnska velferðarkerfinu,“ fullyrti Aho."

Stundum væri gott að læra af reynslu annarra.   


mbl.is Bakslag í eftirspurn eftir vinnuafli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru minni máttar þvingaðir af þeim sterkari innan ESB?

Tiltölulega fáir Íslendingar trúa því statt og stöðugt að komi þeir Íslandi í ESB verði það nánast eins og að landið, miðin og þjóðin sjálf væru komin inn í sjálft himnaríki og þar með hólpin á sál, líkama og ekki síst efnahagslega.

Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson reyndu að telja þjóðinni trú um að öll efnahagsvandræði þjóðarinnar myndu leysast af sjálfu sér við það eitt að sækja um aðild að ESB, enda var það gert í miklum flýti fyrir fjórum árum og þar að auki tvisvar til öryggis.  Batinn hefur hins vegar látið bíða eftir sér, þannig að umsóknin virðist ekki hafa gert neitt kraftaverk og ekki liggja neinir inngönguskilmálar á borðinu ennþá, þó þeim hafi verið heitið með miklum forgangi þarna um árið.

Á þessum fjórum árum hafa ýmsir efnahagserfiðleikar verið að koma í dagsljósið innan ESB og þá ekki síst í evrulöndunum, en samkvæmt trúboðinu á hún að vera það við innlimunina sem öllu á að bjarga.  Innan ESB eru haldnir neyðarfundir nánast mánaðarlega til að finna "björgunarpakka" fyrir hin ýmsu evruríki og eru slíkir pakkar sérframleiddir fyrir hvert ríki fyrir sig og valda vægast sagt litla ánægju hjá þiggjendum pakkanna.

Kýpur er nýjasta evruríkið til að fá slíkan pakka afhentan og um hann segir forseti Kýpur m.a:  "Við erum einfaldlega að fara fram á það sem við eigum rétt á: samstöðu. Því miður hafa þessi grundvallargildi Evrópusambandsins ekki verið virt. Þvert á móti hafa ákvarðanir, sem teknar hafa verið fyrirfram af hagsmunaaðilum, verið framkvæmdar með þvingunum."

Aldrei hafa íslenskir ESBtrúboðar vikið að þvíeinu orði að þeir smærri innan stórríkisins væntanlega séu kúguð af hinum aflmeiri.  Þvert á móti hefur því verið haldið fram að smáríkin hafi mikil áhrif með því  einu að "sitja við borðið þar sem ákvarðanirnar eru teknar".

Þau hafa greinilega ekki mikil áhrif á þær ákvarðanir sem snerta þau sjálf.  Varla er þá að búast við að áhrifin séu meiri á aðrar ákvarðanir. 


mbl.is Segir Kýpur hafa verið beitt þvingunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei aftur óeiningu vinstriflokkanna

Eftir margra ára tilraunir til að sameina alla vinstri menn á Íslandi í einn flokk, sem átti að verða mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn, tókst að berja saman meginhluta Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins, Kvennalistans og Þjóðvaka og stofna Samfylkinguna úr þeim bræðingi.  Þeir sem lengst voru  til vinstri í Alþýðubandalaginu sigldu áfram sinn sjó undir merkjum Vinstri grænna, enda útséð frá fyrstu tíð að "sameining" vinstri manna jafngilti ekki samstöðu og samvinnu, heldur hefur hver höndin verið á móti annarri frá upphafi innan þessara flokka.

Liðin eru þrettán ár frá "sameiningu" vinstri manna og nú eru þeir sundraðri en nokkru  sinni og t.d. hefur Samfylkingin klofnað í a.m.k. þrjár fylkingar og Vinstri grænir í aðrar þrjár.  Þar fyrir utan verða sex til sjö vinstrisinnaðir listar til viðbótar í framboði í kosningunum, sumir í öllum kjördæmum og aðrir jafnvel aðeins í einu.

Engan þarf að undra að þessi sundraða fylking skuli ekki öðlast nokkra einustu tiltrú kjósenda, að ekki sé minnst á frammistöðu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna síðast liðin fjögur, ekki síst hörmuleg örlög "Skjaldborgarinnar um heimilin" og svik VG við stefnu  sína varðandi ESB og reyndar í fleiri málum.

Eina rökrétta niðurstaða kjósenda í komandi kosningum er að hafna algerlega sundrungu og innbyrðis hatri vinstri manna hvers í annars garð og kjósa flokk sem treystandi er til að skapa landinu og íbúum þess bjarta framtíð.

Tekið skal fram að þá er ekki átt við Framsóknarflokkinn. 


mbl.is Sjálfstæðisflokkur bætir við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voru bankastjórnendur með óráði?

Stjórnendur Glitnis hafa í undirrétti fengið úrskuð um að Tryggingamiðstöðin skuli bera fjárhagslega ábyrgð á gjörðum þeirra í aðdraganda bankahrunsins með örlitlum fyrirvara, eða eins og fram kemur í viðhangandi frétt þar um:  " Þetta þýðir að TM þarf að greiða málskostnað stjórnenda og bætur sem þeir kunna að vera dæmdir til að greiða, nema að sannað verði að þeir hafi vísvitandi staðið að svikum eða brotið af sér í starfi."

Verði þessi dómur staðfestur af Hæstarétti þurfa Glitnisstjórnendur og væntanlega aðrir bankamógúlar einungis að sýna fram á að þeir hafi verið með óráði árin fyrir hrun og ekki haft hugmynd um hvað þeir voru að gera og allra síst þegar fjallað var um fjáraustur til eigenda bankanna og annarra fjármálamógúla þeim tengdum.

Þar sem öll sú saga er bæði ævintýraleg, veruleikafyrrt og nánast lygileg, ætti þeim ekki að verða skotaskuld úr því að sannfæra dómarana um að þeir hafi hreint ekki staðið vísvitandi að svikum eða brotum í starfi.  Allt hafi þetta verið gert í óráði og af hreinni vanþekkingu á bankastarfsemi.

Eftir það geta allir verið kátir og ánægðir, enda verður ruglið þá bætt af erlendum tryggingafélögum og bankamógúlarnir halda sínum feng óskertum. 


mbl.is Lárus ætlar að sækja bætur til TM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband