Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Atkvæðasmölun

Ögmundur Jónasson ríður nú um héruð og tilkynnir heimamönnum að þeir eigi sjálfir að ráða því hvort heilbrigðisstofnanir verði sameinaðar eða ekki.  Hann gæti alveg sparað sér ferðakostnaðinn, því það vita allir að í hreppapólitíkinni gildir að halda í hvert einasta starf, ekki síst betur launuðu yfirmannastörfin.  Hugmyndin á bak við sameingingu stofnannanna var alls ekki að þær yrðu lagðar niður, heldur að fækka stjórnendum, en tryggja störf heilbrigðisstarfsmannanna sjálfra.

Það liggur fyrir að strax á næsta ári þarf að skera ríkisútgjöld um allt að sjötíu milljarða króna til viðbótar við niðurskurð þessa árs og síðan þarf að skera niður um aðra sjötíu milljarða árið 2011.  Þetta þýðir að mikill niðurskurður verður á öllum sviðum hins opinbera rekstrar og ekki síður í heilbrigðisgeiranum en öðrum.  Ætli Ögmundur hafi kynnt sveitarstjórnarmönnunum fyrirhugaðan niðurskurð, eða var þetta eingöngu ferð til þess að leika "góða gæjann".

Líklegast er að fagurgalinn hljómi fram að kosningum og svo verði niðurskurðarhnífurinn dreginn fram strax að þeim loknum. 

Vonandi festast kjósendur ekki í blekkingarvefnum.


mbl.is Fallið frá sameiningu heilbrigðisstofnana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt vandamál leyst

Vandræðagangur "aðgerðaríkisstjórnarinnar" hefur ekki riðið við einteyming þessar fjórar vikur sem stjórnin hefur setið og eitt dæmið um það var skipun Steingríms, fjármálajarðfræðings, á vini sínum sem stjórnarformanns í Nýja kaupþingi.  Vinurinn var skipaður á mánudegi og afskipaður á miðvikudegi, þegar fjármálajarðfræðingurinn komst að því að nýji stjórnarformaðurinn stóð í tugmilljóna skaðabótamáli gegn Fjármálaráðuneytinu.

Annað vandræðamál er að eftir samþykkt hefndarlaganna gegn Davíð Oddssyni skuli stjórnarskráin brotin með skipun hins nýja seðlabankastjóra.  Einnig er athyglisvert að aðalhagfræðingur seðlabankans skuli hafa verið skipaður aðstoðarbankastjóri og eigi þar með að koma í stað tveggja hagfræðinga, sem áður gengdu bankastjórastöðum í bankanum.  Samkvæmt kenningunni er hrun þjóðarbúsins seðlabananum að kenna og þar með mætti ætla að hagfræðingaliðið í bankanum væri samsekt í þrotinu, en a.m.k. virðist aðalhagfræðingurinn hafa staðið utanvið þetta allt saman, fyrst honum er treyst í aðstoðarbankastjórastólinn.  Varla verður fram hjá honum gengið þegar staðan verður auglýst.

Eftir vandræðaganginn með tveggja daga stjórnarformanninn hefur vel menntuð og reynslumikil kona verið sett í stól stjórnarformanns Nýja kaupþings og vonandi verður hún ekki sett af aftur á næsta aðalfundi bankans, eins og búið var að hóta næstsíðasta stjórnarformanni.

Stjórnmálaskoðanir Huldu Dóru Styrmisdóttur eru ekki ljósar og skipta í sjálfu sér engu máli, en hún á a.m.k. ættir að rekja til valinkunnra og heiðarlegra sjálfstæðismanna.  Það eru mikil meðmæli.


mbl.is Aðeins konur í stjórn Nýja Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefndin fullkomnuð

Líklegt er Ólafi Ragnari Grímssyni hafi verið létt í sinni svörtu sál þegar hann undirritaði hefndarlögin gegn Davíð Oddssyni í gærkvöldi.  Þar með náðist fullkomin hefnd vinstri manna, sem lengi hafa þráð þessa stund.  Þeir þurfa að búa við þessa lítilmennsku um ókomin ár.

Athygli vekur að því hefur verið haldið fram að glapræði væri að ráða fyrrverandi pólitíkusa í starf seðlabankastjóra, en nú bregður svo við það telst í lagi, svo fremi pólitíusinn sé erlendur.  Þá skiptir ekki heldur máli að um stjórnarskrárbrot sé að ræða.  Tilgangurinn helgar meðalið.

 Einnig er merkilegt að Arnþór Sighvatsson sem verið hefur aðalhagfræðingur seðlabankans skuli vera settur aðstoðarbankastjóri.  Samkvæmt kenningunni er allt sem aflaga hefur farið í þjóðfélaginu seðlabankanum að kenna og þá hlýtur hagfræðingaliðið í bankanum að hafa leikið stórt hlutverk í því að koma þjóðfélaginu á hausinn.  Nú er hins vegar sagt að aðalhagfræðingurinn sé svo snjall að hann skuli koma í staðinn fyrir tvo hagfræðinga sem áður gengdu bankastjórastöðum.  Skelfing hefur aðalhagfræðingurinn haft lítið til málanna að leggja fram að þessu.

Í ljósi þess að nú skal öll stjórnsýsla vera opin og allar upplýsingar skulu liggja á lausu, hlýtur ríkisverkstjórinn að senda út tilkynningu um ráðningarkjör hins nýja bankastjóra. 

Hinn nýji bankastjóri er hokinn af reynslu, bæði úr pólitík og fjármálaheiminum, og er honum árnað allra heilla í hinu nýja starfi.


mbl.is Bankastjórinn beið átekta á hóteli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurlæging Alþingis

Höskurldur Þórhallsson sakar forseta Alþingis um valdníðslu vegna ítrekaðra frestana á þingfundi mánudaginn 23. febrúar s.l. á meðan reynt var að pína þingmanninn til þess að bakka með afstöðu sína til frekari skoðunar á frumvarpsbastarðinum um seðlabankann.  "Þetta er einhver grófasta misbeiting á valdi í sögu íslenska lýðveldisins" segir Höskuldur um forseta þingsins og verður þetta að teljast einhverjar hörðustu ásakanir um þingforseta sem um getur, ekki síst þar sem Höskuldur hefur lofað að verja þá ríkisstjórnarflokka gegn vantrausti, sem kusu þennan aðila til forsætis í þinginu í sínu umboði.  Þingforsetinn var einnig kjörinn af Höskuldi sjálfum og situr því í sæti sínu í hans eigin umboði.  Ef hann er svona óánægður með stjórn þingforsetans er honum í lófa lagið að bera fram vantrauststillögu.  Varla getur hann stutt þennan valdníðing lengur.

Afar athyglisvert er að á meðan atvinnulífið og heimilin bíða eftir efnahagslausnum bráðabirgða- ríkisstjórnarinnar hafa þingmenn meirihlutans engan áhuga á að ræða slík smámál, heldur taka þeir sig þrettán saman, undir forystu Atla Gíslasonar, og flytja frumvarp um að gera kaup á vændi refsivert.  Það þykir stórum hluta stuðningsmanna starfsstjórnarinnar vera brýnasti vandi þjóðarinnar um þessar mundir að kaup á vændi sé refsilaust.  Nú eru aðeins um tuttugu starfsdagar eftir af þinginu og þá telja stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar sig ekki hafa brýnni mál að ræða um en þetta.

Það ætti að vera refsivert að eyða dýrmætum tíma þingsins í svona ráðaleysi.


mbl.is Sakar forseta Alþingi um valdníðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefndin er sæt

Nú virðist sem stund langþráðrar hefndar vinstri manna á Davíð Oddssyni sé runnin upp, því líkur eru á að frumvarpsbastarðurinn um seðlabankann verði samþykktur á Alþingi í dag.  Verður þetta þá fyrsta frumvarp sem ríkisverkstjórinn Jóhanna og vinnuflokkur hennar lætur Alþingi samþykkja, ríkisstjórninni og Alþingi til ævarandi skammar.  Enn er spurt:  Hvar eru efnahagstillögur ríkisstjórnarinnar?  Ekki er einu sinni búið að ganga frá heimild til úttektar úr séreignarlífeyrissjóðum, sem á þó að taka gildi frá og með 1. mars 2009, samkvæmt frumvarpinu.

Ótrúlegt hefur verið að fylgjast með þeirri sefasýki sem tekist hefur að smita stóran hluta þjóarinnar með gegn Davíð Oddssyni og beina allri athygli almennings að honum í stað raunverulegra sökudólga á óförum efnahagslífsins, sem auðvitað eru stjórnendur viðskiptabankanna, eigendur þeirra og útrásarvíkingunum.

Það verður rannsóknarefni sagnfræðinga, félagsfræðinga og mannfræðinga næstu áratugi að komast til botns í hvernig sálarástand meirihluta þjóðarinnar gat þróast í þetta ótrúlega brjálæðislega einelti og ofsóknir gegn einum merkasta stjórnmálamanni lýðveldistímans. 

Þetta mál slær út Stóru bombuna á fyrrihluta síðustu aldar og á eftir að liggja eins og mara á þjóðinni í marga áratugi, eins og skömm Þjóðverja vegna nasismans.

 


mbl.is Seðlabankafrumvarp afgreitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karlagrobb

Jón Baldvin Hannibalsson tilkynnir nú að hann gefi kost á sér í forkosningu Smáflokkafylkingarinnar og áður hafði hann gefið út að hann myndi fara í formannsslag við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, ef hún dirfðist að gefa kost á sér áfram.  Fróðlegt verður að sjá hvernig stuðningsmenn Smáflokka- fylkingarinnar taka á þessu vandamáli.

Jón Baldvin hefur verið óþreytandi undanfarna mánuði í allskyns viðtölum að útlista fyrir þjóðinni hvers konar snillingur hann sé og síðan hann hætti á þingi hafi enginn með viti setið á þeirri samkomu.  Öll "góð" mál sem samþykkt voru hér áður fyrr voru hans verk og eftir að hann fór hefur þingið ekkert framkvæmt, nema skemmdarverk á hans snilldarhugverkum.  Hann treystir greinilega á gullfiskaminni almennings og sennilega réttilega.

Það verður ekki frjá Jóni Baldvini tekið, að leiðinlegra karlagrobb heyrist ekki frá nokkrum öðrum öldungi í þessu landi (og sennilega ekki öðrum löndum heldur). 


mbl.is Jón Baldvin tilkynnir framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umboðslaus Gylfi

Samkvæmt yfirlýsingu Viðskiptaráðuneytisins hefur ríkisstjórnin ekki tekið neina ákvörðun um að hætta við að stefna Bretum fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, þrátt fyrir yfirlýsingar Gylfa Magnússonar, starfandi viðskiptaráðherra, um annað í Breskum fjölmiðlum.

Þetta er allt hið einkennilegasta mál, fyrst gefur starfandi viðskiptaráðherra yfirlýsingar í erlendum fjölmiðlum og síðan dregur Viðskiptaráðuneytið allt saman til baka.  Eru embættismenn ráðuneytisins að setja ofaní við starfandi ráðherra með þessu, eða er hann sjálfur að draga ummæli til baka?  Það kemur ekki fram í yfirlýsingunni.

Enn og aftur opinberast klaufa- og vandræðagangur ríkisstjórnarinnar.


mbl.is Engin stefnubreyting varðandi aðra möguleika málshöfðunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignaflutningar

Ármann Þorvaldsson segir að engir "óeðlilegir eignaflutningar" hafi átt sér stað frá Kapþing Singer & Friedlander til Íslands í aðdraganda bankahrunsins.  Ekki er líklegt að bankastjórinn myndi viðurkenna að um óeðlilega eignaflutninga hafi verið að ræða.  Myndi hann ekki kalla alla eignaflutninga milli banka  "eðlilega eignaflutninga", hvort sem upphæðin væri 400 millj. punda, 800 millj. punda, eða hvaða aðra upphæð sem væri?  Í yfirlýsingu hans kemur ekkert fram um að engir eignaflutningar til Íslands hafi verið að ræða, eingöngu að ekki hafi verið að ræða um "óeðlilega eignaflutninga". 

Úr því hann er byrjaður að gefa yfirlýsingar um fjármagnsflutninga, hlýtur hann að gefa nákvæmari skýringar á eignatilfærslum frá Kaupþing Singer & Friedlander í aðdraganda bankahrunsins, bæði til Íslands og ekki síður til annarra landa.  Voru einhverjir "eðlilegir eignaflutningar" t.d. til Tortola, Bahamaeyja, Jersey, Luxemburg eða annarra landa?

Eins og aðrir bankamenn reynir Ármann að læða því inn í yfirlýsinguna að hryðjuverkalöggjöfin hafi í raun ekkert með bankana að gera, heldur hafi þau í raun verið sett á Davíð Oddsson.  Það er aum skýring, en í ljósi hugarástands þjóðarinnar er líklegt að einhverjir trúi því, eins og öðru, sem á Davíð er klínt þessa dagana. 

Ármann hlýtur að birta aðra og nákvæmari yfirlýsingu fljótlega.  Annað væri ekki stórmannlegt.


mbl.is Engir óeðlilegir eignaflutningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorskastríðanna hefnt

Mikil hlýtur ógleði Steingríms J. Sigfússonar að vera þessa dagana, eftir að hann hefur þurft að éta ofaní sig og yfir sig stóryrðin og kjaftháttinn frá undangengnum mánuðum, bæði varðandi Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og deiluna við Breta vegna hryðjuverkalaganna. 

Eftir að vinstri grænir komust í ríkisstjórn eru þeir orðnir eins og umskiptingarnir í þjóðsögunum.  Þetta eru gjörsamlega óþekkjanlegir menn frá því sem áður var.  Nú eru spöruð stóryrðin og þeir koma fram í fjölmiðlum stroknir, sakleysislegir og blíðmálgir.  Reyndar nokkuð veiklulegir vegna ógleðinnar sem hrjáir þá eftir ofaníátið.

Hvernig stendur á því að bráðabirgðaríkisstjórn, sem fyrst og fremst var mynduð til að koma á brýnustu björgunaraðgerðum vegna efnahags atvinnulífs og heimila og undirbúa kosningar, skuli geta afgreitt svona stórmál, án nokkurrar umræðu?  Bretar virðast túlka yfirlýsingu Gylfa, bráðabirgðaráðherra svona:

"Í dálknum Alphaville í Financial Times segir, að með þessari niðurstöðu sé lokið einni hörðustu deilu Íslands og Bretlands frá því þorskastríðunum lauk á áttunda áratug síðustu aldar."

Getur bráðabirgðaráðherra, sem ekkert umboð hefur frá almenningi, afgreitt hörðustu deilu Íslands og Bretlands frá þorskastríðunum upp á sitt eindæmi?

Ef svo er hafa Bretar nú hefnt þorskastríðanna og hljóta að hlægja sig máttlausa yfir aumingjaskap Íslendinga nútímans.


mbl.is Hætt við málssókn gegn Bretum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efnahagsböl

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, ríkisverkstjóra, er að verða að helsta efnahagsböli þjóðarinnar.  Ríkisverkstjórinn og vinnuflokkur hennar getur ekki unnið að neinu máli af viti á meðan allur tíminn fer í að reyna að koma frumvarpsómyndinni um seðlabankann í gegnum þingið.

Það er með ólíkindum að Alþingi sé óstarhæft og stjórnlaust á meðan að þessi skrípaleikur fer fram.  Tvo daga í röð hafa engin mál sem tengjast vandamálum þjóðarinnar verið til umræðu á þinginu og þingmenn ráfa um ganga þinghússins og bíða eftir málum frá vinnuflokki ríkisverkstjórans.  Þau berast bara ekki og ekki hafa þingmenn vanist því að leggja sjálfir fram bitastæð lagafrumvörp, þrátt fyrir að vera komnir með aðstoðarmenn á launum.

Kosningar eiga ekki að verða fyrr en 25. apríl.  Það eina sem gæti hugsanlega bjargað þjóðinni frá þessari ríkisstjórn, er að flýta kosningum ennþá meira.

Hættan er reyndar sú, að vinnuflokkurinn verði ráðinn til áframhaldandi starfa.  Ef svo færi, er a.m.k. hægt að reyða sig á að honum mun ekki endast örendið í meira en eitt ár, eða svo.

 


mbl.is Furðar sig á vinnubrögðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband