Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013

Árás óréttlætanleg án öruggra sannana

Obama, Bandaríkjaforseti, virðist vera búinn að ákveða að gerð verði loftárás á sýrlensk skotmörk í hefndarskyni fyrir eiturefnaárás sem gerð var fyrir um það bil tíu dögum í útjaðri Damaskus, höfuðborgar Sýrlands.

Borgarastríðið í Sýrlandi hefur verið að þróast þannig að stjórnarherinn hefur verið að ná yfirhöndinni  yfir uppreisnarhópunum og þó stjórnvöld í Sýrlandi hafi  sýnt að þeim sé í litlu treystandi, þá verður að segjast að eiturefnaárás af þeirra hálfu á almenna borgara á þessu stigi átakanna hefði verið algerlega vitfyrrt og það sama dag og eftirlitssveit SÞ kom til landsins til að rannsaka ásakanir um fyrri beitingu eiturefna og hvort stjórnarherinn eða uppreisnarhóparnir hafi beitt þeim í þeim tilfellum. 

Ætli Bandaríkjamenn og fylgjendur þeirra að leggja út í hernaðaraðgerðir að þessu sinni er lágmarkskrafa að þeir leggi fram algerlega óvéfengjanlegar sannanir fyrir því hverjir stóðu á bak við eiturefnaárásirnar því heimskulegri stríðsaðgerðir hafa ekki sést eða heyrst en þessi eiturefnanotkun á þessum tíma, hafi stjórnarherinn staðið að baki þeirra.

Ýmislegt bendir til að uppreisnarmenn hafi staðið að þessum aðgerðum, einmitt til að fá Bandaríkin til að blanda sér í átökin og aðstoða þannig við að steypa stjórnvöldum í Sýrlandi.  Enginn veit hvað tæki þá við í landinu  og hvort það yrði landsmönnum þar, eða umheiminum til góða.  

Sporin í nágrannalöndunum hræða. 


mbl.is Búast við árás á hverri stundu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykjavík er og verður bílaborg og Íslendingar bílaþjóð

Páll Hjaltason, formaður umhverfis- og skipulagsráðs í Reykjavík, kvartar undan því að borgin sé "bílaborg" og bráðnauðsynlegt sé að tefja umferð bílanna um borgina með þrengingum gatna, fækkunum bílastæða og öllum öðrum ráðum sem fyrirfinnast í þeim efnum.

Þetta endurspeglar það viðhorf að bílar séu á ferðinni um borgina einir og sér í algerum óþarfa og geri ekki annað en að þvælast fyrir gangandi og hjólandi vegfarendum.  Staðreyndin er auðvitað sú, að fólk er í öllum þeim bílum sem á ferðinni eru í borginni og eigendur þeirra nota þá til að komast fljótt og örugglega milli staða til þess að spara bæði tíma og fyrirhöfn, því þægilegri ferðamáta en bílinn er ekki hægt að hugsa sér.

Allar breytingar í framleiðslu bifreiða í framtíðinni miða að því að bílarnir verði minni, sparneytnari og mengi minna en þeir gera núna.  Þetta mun nást með nýjum vistvænni orkugjöfum, t.d. rafmagni sem hægt verður að framleiða hér innanlands og spara með því dýrmætan gjaldeyri og gera þjóðina allt að því sjálfa sér nóga með orkugjafa fyrir umferðina.

Borgaryfirvöld ættu því að greiða sem mest fyrir fólki sem framvegis, sem hingað til, mun velja sér bílinn sem fararskjóta við að sinna erindum innanbæjar sem utan og þar á meðal að fjölga bílastæðum og bílastæðahúsum sem mest til að anna og greiða fyrir þeirri bifreiðaumferð sem fyrirsjáanlegt er að aukist til mikilla muna í framtíðinni.

Bílahatur einstakra framámanna í borginni beinist fyrst og fremst gegn eigendum þeirra, sem reyndar eru ekki bara bílstjórar, heldur líka kjósendur. 


mbl.is „Reykjavík er bílaborg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað á að opna leikskólann strax aftur.

Í rannsókn hjá til þess bærum yfirvöldum er atvik sem átti sér stað á Leikskólanum 101, sem samkvæmt fréttum snýst um ólithlýðilega framkomu eins eða tveggja starfsmanna gagnvart börnum sem þar voru í dagvist.

Viðhangandi frétt fjallar um málið og m.a. vitnað til ummæla lögmanns eiganda leikskólans og m.a. kemur eftirfarandi fram:  "Þá segir hún að Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, hefði greint frá því á fundinum, að „miðað við það sem þau hafa í höndunum - sem er þá þessi tilkynning, viðtöl við starfsfólk og þessi myndskeið - að þar væri fram komin atvik sem gerðar væru athugasemdir við en það væri ekki litið svo á að einhver glæpur hefði verið framinn,“ segir Þyrí og bætir við að hún vilji fá fram allar athugasemdir og úrræði strax."

Væri hér um "atvik" að ræða sem átt hefði  sér stað á einhverjum opinberum leikskóla, þ.e. leikskóla í eigu sveitarfélags, hefði honum aldrei verið lokað einn einasta dag og viðkomandi starfsmaður hefði fengið áminningu og haldið starfinu áfram, hafi enginn glæpur verið framinn.

Svipaðar reglur hljóta að eiga við leikskóla hver sem rekstraraðilinn er og því hlýtur Leikskóli 101 að opna aftur fljótlega og halda starfi sínu áfram í þágu foreldra þeirra barna sem nauðsynlega þurfa á dagvist að halda. 


mbl.is Bauðst til að opna leikskólann á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menningarnótt er ekki öllum ætluð

Menningarnótt er hið merkasta fyrirbæri þar sem allir geta skemmt sér við eitthvert þeirra hundruða atriða sem boðið er uppá í miðborginni, eða með því einu að sýna sig og sjá aðra.

Einn stór ljóður er þó á skipulagi hátíðarinnar og hann er sá að ellilífeyrisþegum, öryrkjum og öðrum sem erfitt eiga um gang er nánast gert ómögulegt að taka þátt í herlegheitunum, því miðborgin er algerlega lokuð öllum farartækjum og strætisvagnar fara ekki nær Arnarhóli t.d. en að Hlemmi eða Umferðarmiðstöðinni.  

Margir geta ekki skokkað slíkar vegalengdir fram og aftur og það jafnvel oftar en einu sinni á dag, því varla er reiknað með að fólk haldi sig í bænum án hlés frá morgni og til miðnættis. 

Til að kóróna vitleysuna er auglýst að til að njóta flugeldasýningarinnar sem hátíðinni lýkur með klukkan 23, þá verði allir að vera staddir á Arnarhóli því þaðan verði sýningarinnar best notið því rakettunum verði skotið upp af húsunum í kringum hólinn.  Hvers eiga þeir að gjalda sem ekki hafa áhuga á að sækja hljómleika Rásar 2 sem fram fara á Arnarhóli á tímabilinu 20:30-23:00, þ.e. alveg fram að flugeldasýningunni?

Auðvelt hefði verið að skipuleggja strætóferðirnar þannig að vagnarnir gengju niður Sæbraut og hefðu endastöð við Ingólfsgarð í nágrenni Hörpu og hefði það auðveldað fótafúnum að njóta þeirrar menningar sem boðið er uppá á þessari hátíð.

Vonandi læra skipuleggjendur Menningarnætur af þessum mistökum og bæta úr fyrir næsta ár. 


mbl.is Vöfflukaffi og nikkudans á Menningarnótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB lýsir yfir stríði gegn fimmtíuþúsund manna þjóð

Fyrsta formlega styrjöldin sem ESB lýsir og leggur í gegn einstakri þjóð er hafið, þar sem ESB hefur lýst yfir efnahagslegri styrjöld gegn fimmtíuþúsund manna þjóðinni sem Færeyjar byggja og eiga allt sitt undir sjósókn og fiskveiðum.

Færeyjar eru í ríkjasambandi við ESBríkið Danmörku sem nú tekur þátt í því að kúga Færeyinga til hlýðni  við ESB og yfirgang stórríkisins væntanlega gagnvart örríkjum i norðurhöfum.  Ótrúlegt en satt er að Norðmenn styðja þennan níðingsskap og hafa lýst yfir mikilli ánægju með stríðsyfirlýsingu ESB en hafa þó ekki ennþá staðfest að Noregur taki beinan þátt í  stríðinu.

ESB hefur jafnframt lýst yfir, með stuðningi Norðmanna auðvitað, að samsvarandi efnahagsstyrjöld verði hafin á hendur Íslendingum fljótlega, sem telja verður mikla hetjudáð úr þeirri átt enda Íslendingar sexfalt fjölmennari en Færeyingar.

Ótrúlegast af því sem sést hefur á islenskum samsfélagsmiðlum er að einstaka ESBsinnar, íslenskir, taka afstöðu með ESBníðingunum og finnst þessi efnahagsstyrjöld gegn smáþjóðum algerlega sjálfsögð. Smámenni sem ekki styðja eigin þjóð á stríðstímum finnast víst hvarvetna, en geðsleg eru þau ekki.


mbl.is Fordæmir framgöngu ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsingar "teknar" úr fólki

Málvitund og -tilfinning fer hratt hrakandi, sérstaklega hjá yngri kynslóðunum, og kemur þetta æ oftar fram í fjölmiðlunum.  Sumar fréttir virðast vera skrifaðar af unglingum sem ekki hafa notið mikillar skólagöngu eða að skólakerfinu hafi hrakað svo mjög að fólk komist í gegnum það án þess að læra sitt eigið tungumál almennilega.

Í viðhangandi frétt, sem ekki er löng eða efnismikil, má sjá góð dæmi um slaka máltilfinningu í eftirfarandi setningum:  "Hafði hún ekki aðeins ollið umferðarslysi heldur var hún einnig ölvuð undir stýri. Var hún því handtekinn og ekki látin laus aftur fyrr en að lokinni sýna- og upplýsingatöku."

Í fyrri setningunni átti auðvitað að segja "valdið" en ekki "ollið" og í seinni setningunni er rætt um sýna- og upplýsingatöku eins og þetta tvennt eigi eitthvað sameiginlegt.  Sýnin sem rætt er um eru væntanlega blóð- eða þvagsýni sem tekin eru úr viðkomandi á allt annan hátt en upplýsingarnar sem sá grunaði gefur um athæfi sitt.

Sá sem þetta ritar er enginn íslenskufræðingur, en svona ambögur stinga þó í augu og valda heilmiklum andlegum sársauka. 


mbl.is Kona á sjötugsaldri stakk af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Láta boltaaðdáendur bjóða sér hvað sem er?

365 miðlar boða nú tæplega 30% hækkun á áskriftargjaldi að Stöð 2 Sport 2, sem sjónvarpar enska fótboltanum og umfjöllunum um hann.  Mánaðargjaldið verður þá um níuþúsund krónur eða 108.000 á ári.

Skýringin sem gefin er á þessari ofboðslegu hækkun er sú að önnur íslensk sjónvarpsstöð hafi sýnt því áhuga á sýna enska boltann og því hafi orðið að hækka tilboðið í sýningarréttinn upp úr öllu valdi til að halda honum innan 365 miðla.

Spurningin sem vaknar við þetta er hvort íslenskir áhugamenn um enska knattspyrnu láti bjóða sér hvað sem er í þessu efni og að sjónvarpsstöðvunum sé óhætt að bjóða hvað sem er í sýningarréttinn í þeirri vissu að eftir smávægilegt nöldur láti neytendur bjóða sér annað ein okur og þetta og borgi bara eins og ekkert hafi í skorist.

Eina svarið við svona viðskiptaháttum er að segja upp áskriftinni að enska boltanum og sýna forráðamönnum sjónvarpsstöðvanna með því að áhorfendur láti ekki bjóða sér hvað sem er varðandi áskriftarverðið. 


mbl.is Enski boltinn hækkar um 28%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þetta er nú bara helv.... lygi"

Stundum þegar einhver segir ótrúlega sögu, dettur ósjálfrátt upp úr áheyrandanum:  "Þetta er nú bara helvítis lygi", eða "Segðu manni nú eitthvað sennilegra en þetta".

Þannig eru viðbrögðin við viðhangandi frétt um að tíu ára stúlka í Houston í Texas hafi verið kærð fyrir að nauðga þriggja ára gömlum dreng.  Ekki síður er ótrúleg meðferð á tíu ára barni í réttarkerfinu í Houston ef eftirfarandi kafli úr fréttinni er réttur:  "Stúlkan var handtekin í síðustu viku og haldið í unglingafangelsi í fjóra daga án lögmanns þar til Quanell X, leiðtogi New York Black Panther samtakanna í Houston greip inn í. Gegnir hann nú starfi lögmanns hennar."

Ef einhver fótur er fyrir þessari frétt, þá er greinilegt að þeir sem að þessari handtöku og ákæru hafa staðið eru ekki alveg eins og fólk er flest á andlega sviðinu og ekki síður er margt bogið við réttarkerfið í Texas ef yfirleitt er hægt að  fá slíkt mál tekið til meðferðar fyrir dómstólum. 


mbl.is 10 ára ákærð fyrir að nauðga 3 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðidagur

Mannréttindi eru í betra horfi á Íslandi en í mörgum öðrum löndum heimsins og sérstaklega geta Íslendingar verið stoltir af því að búið er að lögleiða jafnrétti á nánast öllum sviðum, eins og t.d. til hjónabands, ættleiðinga og erfða, burtséð frá kynhneygð viðkomandi einstaklinga.

Undanfarnir dagar hafa verið "Hinsegin dagar" með ýmum uppákomum og menningarviðburðum á vegum samtaka samkynhneygðra og hefur þar verið úr ýmsum og ólíkum atburðum að velja og í dag nær hátíðn hámarki sínu  með Gleðigöngunni sem áætlað er að tugþúsundir manna muni taka þátt í, beint og óbeint.

Ástæða er til að óska Íslendingum öllum til hamingju með stöðu þessara mála, en minna um leið á að marga áratugi tók samkynhneygða að ná þessari eðlilegu og sjálfsögðu stöðu í samfélaginu og í raun tiltölulega örfá ár síðan sigur vannst og jafnvel ekki búið að fullslípa þetta jafnrétti ennþá.

Því ber að vara við hroka og mikilmennsku gagnvart þjóðum sem skemmra eru á veg komin í mannréttindamálum en við, eins og borgarstjórinn í Reykjavík hefur t.d. haft í frammi gagnvart Rússum undanfarið, að ekki sé minnst á stærilæti gagnvart kaþólsku kirkjunni og sína eigin túlkun á Biblíunni og krossfestingu Krists.

Dagurinn í dag á að vera sannkallaður gleðidagur og almenn þátttaka í atburðum dagsins að vera friðsamleg fyrirmynd og áskorun til ráðamanna og almennings annarra þjóða, sem skemmra á veg eru komin með jöfnun mannréttinda, til að vinna að úrbótum í sínum heimalöndum.


mbl.is Miðborgin full af fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver eru viðurlögin við upploginni nauðgun?

Nauðgun er alvarlegur glæpur og skelfilegur fyrir þann sem fyrir verður og tekur langan tíma að jafna sig eftir slíka hörmungarreynslu, ef viðkomandi nær sér nokkurn tíma að fullu.

Refsing við slíku broti á að vera hörð og til viðbótar fangelsisvist ætti nauðgarinn að verða dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu háar skaðabætur, þó peningar bæti í sjálfu sér ekkert eftir slíkt óhæfuverk gætu þeir þó hjálpað til við úrvinnslu slíkrar reynslu og kaup á sérfræðiaðstoð í þeim tilgangi.

Að ljúga nauðgun upp á saklaust fólk er ekki  síður alvarlegur glæpur og ættu viðurlög við slíku að vera hörð, enda oft erfitt fyrir þann sem fyrir slíkum upplognum sökum verður að sanna sakleysi sitt og jafnvel þó það takist fyrir dómi eru dæmi um að almenningur trúi ekki á sakleysi viðkomandi fórnarlambs lyganna og því þurfi viðkomandi að berjast við fordóma og fyrirlitningu samfélagsins eftir slíkar ásakanir.

Nauðgun er alvörumál og upplognar ásakanir um slíkt ekki síður. 


mbl.is Maðurinn reyndist vera saklaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband