Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014

Ruddabrandar felldu Guðna frá endurkomu í stjórnmál

Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, var búinn að samþykkja að skipa fyrsta sætið á lista Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík og ætlaði að tilkynna þá ákvörðun sina með pompi og prakt á blaðamannafundi í dag, Sumardaginn fyrsta.

Forysta Framsóknarflokksins í Reykjavík var búin að ganga frá framboðslistanum með Guðna í efsta sæti og skipulagði kosningaherferðina út frá fréttamannafundinum og ætlaði að láta mikið fyrir sér fara á næstunni, enda tiltölulega stutt til kosninganna.

Eftir að Guðni hætti við framboðið lýsti flokksforystan yfir miklum vonbrigðum með þessa breyttu afstöðu hans, frestaði kjördæmisþingi og leggur nú dag við nótt í leit að heppilegum frambjóðands í efsta sætið og mun, eftir því sem frést hefur, stefna á að finna frambærilega konu til þess að skipa sætið.  Þeirri konu sem áður skipaði annað sæti listans verður hins vegar kastað út í ystu myrkur þrátt fyrir hetjulega baráttu fyrir því að fá að færast upp í efsta sætið eftir að sá sem skipaði það upphaflega hrökk frá borði.

Það sem einna helst varð til þess að Guðna snerist hugur var upprifjun á ruddalegum "bröndurum" hans á karlakvöldum um kynfæri og bólfarir kvenna í stjórnmálum, sem aðhyllast þó ekki Framsóknarflokkinn eða hafa verið Guðna mikið tengdar í gegn um tíðina.

Frá því að vitnað var til þessara einkennilega ruddafengnu  "gamansagna" á netinu um páskana hafa netheimar logað af hneykslun á þessum einkennilega húmor og þeirri lítillækkun sem Guðni þykir hafa sýnt kvenfólki með uppátæki sínu.

Logarnir sem þetta hefur kveikt hafa brennt allar áætlanir Guðna um að snúa aftur í stjórnmálin og munu reyndar verða til þess að hann verður almennt litinn öðrum augum sem "skemmtikraftur" en hingað til hefur verið gert. 

 


mbl.is Guðni gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður grundvöllur til kjarabóta

Samkvæmt frétt mbl.is, sem byggð er á upplýsingum úr Tíund, tímariti Ríkisskattstjóra, er hagnaður íslenkra fyrirtækja að aukast á ný eftir tapárin 2008 og 2009.

Hið ofboðslega tap sem varð við hrunið orsakaðist fyrst og fremst af fjárglæfrum banka- og útrásargegnja, eða eins og segir í fréttinni:  "Þarna er vitaskuld að miklu leyti um að ræða tap vegna kaupa á verðbréfum fyrir erlent lánsfé sem féll í verði þegar alþjóðlega peningauppsprettan þvarr, segir í samantektinni. Síðan bankarnir féllu hefur tap fyrirtækja farið mikið minnkandi og var árið 2012 svipað og árið 2006."

Á línuritinu, sem fylgir fréttinni, má sjá að hagnaður íslenskra fyrirtækja í heild hefur lengst af verið viðunandi og virðist vera að komast í mjög gott horf á ný eftir hrunið, þó vitað sé að afkoma er eitthvað mismunandi eftir atvinnugreinum.

Þessar fréttir eru afar jákvætt innlegg inn í þær kjaraviðræður sem nú eru að hefjast milli aðila vinnumarkarðarins og miðast við að ganga frá samningum til næstu ára.  Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að hækka laun talsvert á næstu árum og koma kaupmætti landsmanna í svipað horf og hann er í nágrannalöndunum.

Takmarkið hlýtur að vera að hægt verði að lifa mannsæmandi lífi í landinu af launatekjunum einum saman án þess að vinnandi  fólk þurfi að reiða sig á hina ýmsu opinberu styrki til að draga fram lífið.

Til þess þarf að vísu breyttan hugsunarhátt þeirra sem eru í efri þrepum launastigans, en hingað til hafa þeir aldrei þolað að lægstu laun væru hækkuð án þess að samsvarandi hækkun gengi upp allan launaskalann og þar með tekst auðvitað aldrei að bæta kjör hinna lægst launuðu án þess að kynda verðbólgubálið.

Það er hins vegar ekki sök þeirra lægstlaunuðu, heldur hinna sem betri launin hafa. 


mbl.is Hagnaður fyrirtækja aldrei meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var aldrei ætlunin að borga erlendu skuldirnar?

Samkvæmt fréttum mun íslenska þjóðarbúið ekki eiga gjaldeyri fyrir erlendum skuldum á næstu árum og tæplega nokkur nema seðlabankinn og ríkissjóður sem hafa lánstraust til að geta framlengt erlendar skuldir sínar til lengri tíma.

Þetta leiðir hugann að því að erlendir lánadrottnar þurftu að afskrifa óheyrilegar upphæðir af erlendum skuldum einkaaðila eftir bankahrunið og þrátt fyrir allar þær afskriftir verður ekki hægt, eða a.m.k. erfitt, að standa skil á þeim erlendu skuldum sem eftir afskriftirnar stóðu.

Ætli bankamenn og þeir sem tóku öll þessi erlendu lán á árunum fyrir hrun hafi aldrei hugsað út í þá staðreynd að gjaldeyristekjur þjóðarinnar hefðu aldrei dugað til að endurgreiða öll þau lán sem fjármálastofnanir jusu út til almennings og fyrirtækja á "lánæristímanum"?

Ekki bætti Steingrímur J. úr skák með hinu óskiljanlega skuldabréfi sem hann lét nýja Landsbankann gefa út til þess gamla, þ.e. hátt í þrjúhundruðmilljarða króna í erlendum gjaldeyri.  Þetta skuldabréf er nú að skapa mestu erfiðleikana sem efnahagur þjóðarbúsins stendur frammi fyrir næstu árin.

Það væri fróðlegt að fá einhverjar skýringar frá þeim sem tóku öll þessi erlendu lán á því hvernig þeir hafi séð fyrir sér að þau yrðu endurgreidd. 


mbl.is Eigum ekki fyrir afborgunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frændur eru frændum verstir

Norðmenn, sem telja verður nánustu frændþjóð Íslendinga, hafa löngum verið meðal hörðustu andstæðinga íslensku þjóðarinnar þegar deilur hafa sprottið vegna einhverra málefna í samskiptum nágrannaþjóða.

Öllum er í fersku minni hvernig Norðmenn komu fram við Íslendinga í Icesavemálinu og þar voru þeir manna harðastir í að reyna að knésetja þjóðina og koma henni í efnahagslegan þrældóm Breta og Hollendinga næstu áratugina a.m.k.

Í makríldeilunni hafa Norðmenn barist með öllum ráðum við hlið ESB gegn réttmætum veiðum Íslendinga í sinni eigin landhelgi og nánast hvatt til efnahagsþvingana gegn Íslendingum til að kvésetja þá í réttmætri baráttu fyrir nýtingu eigin auðlinda.

Í sextíuogþrjú ár hefur Óslóarborg sent Reykvíkingum jólatré til að lífga upp á Austurvöll í svartasta skammdeginu, en segja nú að slík gjöf sé allt of dýr fyrir fjárhag borgarinnar og nú geti Íslendingar bara sjálfir séð um sín jólatré, eins og annað.  Slíkt eigi ekkert að hafa áhrif á vináttu þjóðanna, enda geti Norðmenn svo sem stjórnað dansi í kringum jólatréð eða skemmt Reykvíkingum á annan hátt við tendrun hins íslenska jólatrés.

Borgarstjóri Óslóar segir að áfram muni borgin gefa London jólatré, enda Bretar miklir vinir Norðmanna og þeir vilji allt gera til að viðhalda og efla þann vinskap.  

Vináttan er greinilega misjafnlega mikils metin í Ósló. 


mbl.is Íslendingar fá ekki fleiri jólatré
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímamót í málefnum framhaldsskólanna

Samkvæmt fréttum dagsins hefur náðst góð niðurstaða í kjaradeilu framhaldsskólakennara sem með breytingum á skólastarfi og væntanlega styttingu náms til stúdentsprófs mun skila kennurum allt að 29% launahækkunum í  lok samningstímans.

Samninganefnd framhaldsskólakennara lítur greinilega á svo á að ríkisstjórnin og ekki síst menntamálaráðherra hafi haft góðan skilning á málefninu og að góð sátt sé um breytingar á skólastarfinu í framtíðinni, eða eins og segir í fréttinni:  "Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, sagði að um væri að ræða merkan áfanga í umbótum á öllu skólastarfi innan framhaldsskólanna. „Þegar upp er staðið höfum við náð mjög merkum áfanga, að okkar mati, í umbótum á kjörum kennarastarfsins, sem er afar þýðingamikið fyrir allt samfélagið. Baráttan hefur snúist um almannahagsmuni, að auka virðingu fyrir kennarastarfinu - sem það á svo sannarlega skilið - og styrkja skólakerfið í landinu,“ sagði hún."

Það er alveg sérstakt fagnaðarefni að við völd eru stjórnvöld sem hægt er að semja við á vitrænum grundvelli, en það hefur greinilega ekki verið álit kennarasambandanna að síðasta ríkisstjórn væri í raun viðræðuhæf, enda voru mörg félög opinberra starfsmanna með lausa samninga í allt að heilt ár áður en sú ríkisstjórn hrökklaðist frá völdum.

Væntanlega munu nú öll önnur stéttarfélög koma í kjölfar þessa samnings og krefjast sambærilegra "leiðréttinga" á launum sinna félagsmanna. 


mbl.is „Þetta er tímamótasamningur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband