Bloggfærslur mánaðarins, september 2015

Glæpir matvælaframleiðenda verði ekki liðnir og viðurlögum beitt af hörku

Óhugnanlegar fréttir og myndir hafa að undanförnu birst í fjölmiðlum af glæpastarfsemi sem stunduð er á flestum, eða öllum, svínabúum landsins sem slátra 200 grísum eða fleiri árlega.  Í einhverjum tilfellum virðist álíka glæpastarfsemi stunduð í einhverjum kjúklingabúum.  Glæpaverkin felast í ógeðlegri meðferð á skepnunum, sem flokkast ekki undir neitt annað en illmennsku og níðingsskap af verstu tegund.

Matvælastofnun á að hafa eftirlit með svína- og kjúklingabúunum en virðist taka af hreinni léttúð á glæpunum og gefa brotamönnunum endalausa fresti til að minnka níðingsskapinn í stað þess að kæra þá umsvifalaust fyrir lögbrotin, sem framin eru af greinilegum og staðföstum brotavilja.

Furðuleg afstaða stofnunarinnar speglast vel í eftirfarandi setningu í viðhangandi frétt: "Litið er á dýra­vel­ferðar­mál sem viðkvæm per­sónu­leg mál rækt­enda og því hef­ur stofn­un­in ekki greint frá því á hvaða búum ástandið sé slæmt."  Líklega eru þetta einu glæpirnir sem flokkast undir að vera viðkvæm persónuleg mál glæpamannanna sjálfra.

Vanti eitthvað upp á að lög landsins nái fullkomlega yfir þessa glæpi, verður að bæta úr því nú þegar og ef ekki er hægt að reka þessa tegund matvælaframleiðslu á heiðarlegan hátt og án dýraníðs verður einfaldlega að loka þeim og flytja svína- og kjúklingakjöt inn erlendis frá.

Strangar kröfur verður einnig að gera til þeirra búa erlendis sem afurðir yrðu fluttar frá til landsins og ekki leyfður innflutningur frá neinu búi sem ekki væri fyrirfram búið að fá vottun frá Íslenskum eftirlitsaðilum um að dýraníð og aðrir álíka glæpir væru ekki stundaðir á viðkomandi búum.


mbl.is Orðspor greinarinnar í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlega illa undirbúin tillaga þrátt fyrir langan aðdraganda

Dagur B., borgarstjóri, segir að klúður meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur hafi skaðað meirihlutann og vonandi náist að vinna traustið aftur með leiðbeiningum og hjálp frá borgarstjóranum í Kaupmannahöfn.

Rétt er það hjá Degi B. að meirihlutinn í borgarstjórn hefur orðið fyrir miklum álitshnekki vegna óvandaðra vinnubragða og almennt lélegrar stjórnunar borgarinnar, en það eru þó smámunir miðað við þann skaða sem ruglið með viðskiptabann á Ísrael hefur haft á land og þjóð.  

Bæði hefur kjánagangurinn orðið til að stórskaða viðskiptahagsmuni landsins um allan heim og orðið ýmsum grínistanum góður efniviður til að hæðast að þjóðinni og er þá ekki gerður greinarmunur á lánlausum borgarstjórnarmeirihluta og almenningi sem algerlega hefur þó misboðið þessi dæmalausa framganga Dags B. og félaga.

Nú er reynt að láta líta svo út að tillagan að viðskiptabanninu hefði þurft lengri umræðu og skoðun áður en hún var samþykkt, en hins vegar sagði flutningsmaðurinn, Björk Vilhelmsdóttir, í fréttum RÚV þann 11/09 að hún hefði verið lengi til umfjöllunar í meirihlutanum og um hana væri mikil og góð samstaða með öllum meirihlutaflokkunum.  Sjá má þá frétt hérna:  http://www.ruv.is/node/941679

Borgarstjórnarmeirihlutinn er með allt niður um sig í þessu máli og væri nær að girða sig í brók og reyna að sinna þeim málum sem hann var kosin til.


mbl.is Hefur skaðað meirihlutann í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarstjóri hugsi áður en hann gerir nokkuð annað

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, hefur smátt og smátt verið að draga í land með stóryrðin sem hann notaði til að byrja með vegna þeirrar fáránlegu samþykkt sína og meirihlutans um viðskiptabann á Ísrael.  

Til að byrja með var Dagur hinn drýldnasti með yfirlýsingar sínar um að allt væri þetta lögum samkvæmt og eingöngu gert vegna mannréttindabrota á hernumdum svæðum í Ísrael. Samþykktin var þó algerlega skýrt og vel orðuð að því leyti að um allar vörur frá Ísraelsríki væri að ræða svo lengi sem gyðingar stjórnuðu herteknum svæðum í Palestínu.

Eftir því sem dagarnir hafa liðið frá þessari ótrúlega vanhugsuðu samþykkt hefur tónninn smám saman verið að breytast og er nú svo komið að Dagur segist ætla að ógilda samþykktina fljótlega og taka sér tíma til að hugsa hana betur og láta þýða álíka heimskulega samþykkt frá Kaupmannahöfn og hafa til hliðsjónar um framhaldið.

Borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík eru nógu mislagðar hendur við stjórn borgarinnar þó hann fari ekki að flytja inn ruglsamþykktir frá Danmörku og ljúga því upp að þær séu einungis hugsaðar í mannúðarskyni.  

Ef manngæska og umhyggja fyrir mannréttindum réðu för í þessu efni hlytu samþykktir þar um að snúa að fleiri ríkjum en Ísrael, t.d. Rússlandi, Kína, fjölda einræðisríkja í Arabalöndum, í Asíu, Afríku og margra landa í Suður-Ameríku.  Hvert sem litið er í heiminum er verið að brjóta mannréttindi á þegnunum og virðist Ísrael ekkert skera sig úr að því leyti.

Dagur og félagar, sem eru með allt niður um sig í borgarmálunum, ættu að snúa sér að því að reyna að fást við þau málefni sem þeir voru kosnir til að sinna og láta aðra um stóru málin í veröldinni. 


mbl.is Ætlar að draga tillöguna til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björk og borgarstjórnin eru ekki haturseldfjall, heldur bara leirhver sem bullar í

Eins lygilega og það hljómar samþykkti meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur tillögu frá Björku Vilhelmsdóttur, sem var að láta af störfum sem borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, en það mun vera venja að samþykkja "kveðjutillögur" sem fulltrúarnir flytja þegar þeir hætta í borgarstjórn.

Kurteisi kostar ekkert og er sjálfsögð í mannlegum samskiptum, en takmörk eru fyrir öllu og algerlega forkastanlegt að samþykkja aðra eins tillögu og þessa, enda engin greining á bak við tillöguna um hvaða vörur þetta séu sem borgin á að hætta að kaupa, né hvort ekki megi vera snefill af ísraelskum uppruna í þeim vörum, eða þjónustu, sem borgin ætlar að sniðganga.

Ótrúlega margar vörur eiga ættir að rekja til Ísrael og t.d. er mjög líklegt að íhlutir tölvunnar sem Björk samdi tillöguna sína á séu einmitt framleiddir þar í landi ásamt hinum og þessum vörum sem fólk notar og neytir daglega án þess að hafa nokkra hugmynd um upprunann, né leiðir hugann nokkurn tíma að honum.  Ekki datt borgarstjórn, eða Björku, í hug að leggja til viðskiptabann á þjóðir þar sem barnaþrælkun tíðkast, eða einræði og kúgun af alls kyns togaer við lýði og almenningur á sér ekkert eða lítið frelsi.

Lýðræði og lög eru svosem ekkert uppáhald hjá Björk Vilhelmsdóttur, eins og lesa mátti í viðtali við hana í Fréttablaðinu um síðustu helgi.  Eftirfarandi er eitt af brotunum sem sýna óvirðingu hennar við lög, jafnrétti og lýðræðið:  „Svo finnst mér embættismenn ráða mjög miklu í kerfinu, það er alltaf lögfræðin sem ræður. Okkur langar oft að gera eitt og annað en lögfræðin segir: nei, það má ekki. Þið verðið að gæta meðalhófs, jafnræðisreglu, sveitarstjórnarlaga,“ útskýrir Björk. „Það er margt sem mann langar að gera en þá kemur borgarlögmaður, og ég hef ekkert á móti henni persónulega, og segir: heyrðu, jafnræðisregla stjórnsýslulaganna kemur í veg fyrir að þú getir veitt fjármagn til þessa verkefnis.“ 

Þegar allt málið er skoðað í heild sinni er ekki hægt að láta sér detta í hug að nokkuð annað en hreint hatur á Ísraelsríki stjórni þessum tillöguflutningi og Björk hafi verið að vinna sig í meira álit stjórnenda Hamas, enda er hún á leiðinni þangað og þar munu lög og reglugerðir ekkert flækjast fyrir henni.

 


mbl.is Eldfjall sem spúir hatri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Eins og innviðir landsins þola"

Ráðherrafundur Evrópuþjóða komst ekki að neinni niðurstöðu í dag um hve mörgum flóttamönnum yrði veitt hæli í Evrópu, né hvernig þeim yrði deilt niður á löndin.

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, sat fundinn og gerði grein fyrir afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar og er m.a. þetta eftir henni haft í meðfylgjandi frétt: "Enn­frem­ur að hún hafi greint frá því að Ísland hafi vilja til þess að taka við eins mörg­um flótta­mönn­um og innviðir lands­ins þoli og að mik­ill skiln­ing­ur hafi verið fyr­ir þeirri af­stöðu."

Það er einmitt mikilvægt að taka vel á móti þeim fjölda flóttamanna sem mögulegt verður að taka við og leggja frekar áherslu á að gera vel við þá sem koma en að keppast við að taka við sem mestum fjölda og geta svo ekki sinnt þörfum hans almennilega.

Framlag Íslendinga til þessa vandamáls mun ekki skipta neinum sköpum til lausnar þess, en getur hins vegar skipt höfuðmáli fyrir þær fjölskyldur sem hingað koma ef vel er að móttöku þeirra staðið og þeim sköpuð góð og friðsöm framtíð.

 


mbl.is Ekki náðist samstaða á neyðarfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðateygjur Shengen eða jafnvel ESB?

Undanfarin ár hafa milljónir manna lent á vergangi vegna borgarastyrjalarinnar í Sýrlandi og ótrúlegrar ómennsku ISIS-hyskisins og lengst af lá flóttamannastraumurinn til nágrannalandanna og einnig er gríðarlegur mannfjöldi á flótta innan landsmæra Sýrlands sjálfs.

Öllum að óvörum tók mikill fjöldi flóttafólks, aðallega Sýrlendinga, að streyma yfir Miðjarðarhafið til Evrópu á hverri lekabyttunni á eftir annarri og er nú svo komið að nokkur hundruð þúsund manns eru á faraldsfæti um Evrópu, en þúsundir drukknuðu á leiðinni yfir hafið þar sem "frelsissölumennirnir" seldu þeim falskar vonir á okurverði.

Mikil samúðarbylgja hefur gripið Evrópubúa, eins og skiljanlegt er, vegna þessara flóttamanna sem komnir eru á dyraþrepið heima hjá þeim og flestir eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til hjálpar með gjöfum á nauðsynjavörum og öðru sem til þarf að gera fólkinu lífið bærilegra.

Ýmsar efasemdarraddir eru þó farnar að heyrast vegna þess að þessi hópur flóttamanna virðir engin landamæri og sættir sig ekki við neinar reglur sem Evrópulöndin reyna að setja um komu fólksins og reyni lögregla eða landamæraverðir að hafa hemil á fólksstraumnum rís hann oft upp og berst við löggæslufólkið og segist ekki láta neinn segja sér hvert skuli haldið.  Sem dæmi um þá neikvæðu umræðu sem farið er að bera á vegna þessa má t.d. sjá hérna:  http://www.infowars.com/muslim-refugees-chant-allahu-akbar-fk-you-attack-citizens-throw-feces/

Stór hluti þessa hóps eru ungir og hraustir karlmenn og þeir virðast flestir vel menntaðir og koma úr góðum störfum og verið í a.m.k. sæmilegum efnum heima fyrir og eiga ættingja í Evrópu sem þeir eru í góðu sambandi við í gegnum internetið. Þessi óvænta "innrás" í Evrópu hefur valdið því að Shengen-landamærasambandið mun líklega líða undir lok og reyndar er farið að hrikta í innviðum ESB sjálfs og ekki líklegt að það eigi sér óbreytt framhaldslíf.

Það þarf ekki frekari vitnanna við um hvernig ástandið er orðið innan ESB þegar Jean-Claude Junker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, ræðir þessar áhyggjur opinberlega og lætur m.a. hafa þetta eftir sér: "„Evr­ópu­sam­bandið okk­ar er ekki í góðri stöðu. Það er skort­ur á Evr­ópu inn­an sam­bands­ins og það er skort­ur á sam­stöðu inn­an þess.“ Evr­ópu­sam­bandið glímdi þannig við tvö­falda krísu, flótta­manna­vand­ann og fjár­mála­erfiðleika evru­svæðis­ins. Óbreytt fyr­ir­komu­lag inn­an sam­bands­ins væri fyr­ir vikið ekki val­kost­ur."


mbl.is Danir stöðva lestarsamgöngur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rammíslensk velferðarstjórn

Undanfarin misseri hefur áróður andstæðinga ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks gengið út á að innprenta þjóðinni að frá stjórnarskiptum hafi ríkisstjónin skipulega rústað heilbrigðis- og velferðarkerfi landsins.

Fjármálaráðherra hefur kynnt fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016 og af því tilefni er áhugavert að bera saman framlög til velferðarmála eins og þau hafa verið undanfarin ár. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem kallaði sig "Norrænu velferðarstjórnina" sameinaði Heilbrigðis- Félagsmála- og Tryggingaráðuneytið í eitt ráðuneyti, sem síðan kallast Velferðarráðuneyti.

Fyrsta árið sem hið sameinaða ráðuneyti var sem sérstakur liður á fjárlögum var 2011 og þá var varið í málaflokkinn kr. 209.389,9 millj. króna, árið 2012 227.800,1, árið 2013 235.882.,30.

Kosningar fóru fram á árinu 2013, þannig að fyrstu fjárlög núverandi stjórnar voru fyrir árið 2014. Það ár nam framlagið til velferðarmálanna kr. 258.305,20, árið 2015 271.955,0 og nú eru ætlaðar kr. 296.060,0 millj. í málaflokkinn á árinu 2016.

Útgjöld til velferðarmálanna hafa því hækkað um 25,58% á kjörtímabili ríkisstjórnarinnar en á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 9,01%. Á þessum samanburði sést að núverandi ríkisstjórn hefur bætt hraustlega við málaflokkinn á hverju ári á starfstíma sínum og hafa þau hækkað nánast þrisvar sinnum meira en sem nemur hækkun neysluverðsvísitölunnar.

Þessi samanburður sýnir að núverandi ríkisstjórn hefur stórhækkað framlögin til velferðarmálanna og hver sem skoðar tölurnar heiðarlega sér að áróðurinn um skemmdarverk á málaflokknum eru hrein ósannindi og í raun alger öfugmæli.

Samantektin sýnir og sannar að ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks gæti vel kallað sig "Rammíslenska velferðarstjórn".


Er ISIS ofjarl USA, ESB og NATO?

Ástandið í Sýrlandi er orðið hörmulegra en orð fá lýst eftir margra ára borgarastyrjöld og ekki síst vegna ótrúlegrar villimennsku morðóðra liðsmanna ISIS, sem drepa alla sem ekki sverja þeim hollustu og reyndar dugar það ekki þeim sem ekki eru Sunnimúslimar, því þeir eru umsvifalaust drepnir á hrottalegan hátt.

Vegna þessa hryllings eru nú þegar fjórar milljónir Sýrlendinga á flótta og takist ISIS það ætlunarverk sitt að ná á sitt vald einna mikilvægustu samgönguleið landsins er hætta talin á að flóttamönnum fjölgi á skömmum tíma upp í átta milljónir.  Flestir þeirra fjögurra milljóna manna sem nú eru á flótta í og frá Sýrlandi hafast við illan kost í flóttamannabúðum í nágrannaríkjum landsins eða eru á vergangi við jafnvel verri kost innanlands.

Bandaríkjamenn hafa lýst yfir stríði við hryðjuverkamenn og undir þeim formerkjum gert innrásir í Afganistan og Írak og ESB og Nato tóku þátt í loftárásum á Lýbíu til að hrekja Gaddafi frá völdum, sem ekki varð þó til annars en að algert stjórnleysi og morðalda ríkir nú í Lýbíu.  Í ljósi þessara afskipta er stórundarlegt að USA, ESB og NATO skuli ekki fyrir löngu vera búin að koma skikki á ástandið í Sýrlandi og stöðva illvirkin og morðæðið sem þar geysar.

Því verður hreinlega ekki trúað að mestu herveldi heimsins geti ekki komið ISIS fyrir kattarnef ef vilji væri fyrir hendi.  Einhver sér illþýðinu fyrir vopnum og einhver kaupir af þeim olíuna sem morðingjarnir nota til að fjármagna illvirki sín.  Olíunni er varla smyglað í litlum brúsum út úr Sýrlandi, til þess hlýtur að þurfa stóra olíubíla og jafnvel skip og einhversstaðar er unnin úr henni markaðsvara til endanlegra nota.

Það er greinilega ekki allt uppi á yfirborðinu hvað afstöðu vesturveldanna og annarra stórþjóða varðar í þessu efni.  Því verður ekki trúað að ISIS sé meira herveldi en allur annar hluti veraldarinnar samanlagt.


mbl.is Mun flóttamannafjöldinn tvöfaldast?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftir hverju er beðið ef ekkert er að vanbúnaði?

Velferðar- Allherjar- og Menntamálanefnd Alþingis héldu sameiginlegan fund um hvernig Ísland væri í stakk búið til að taka á móti innflytjendum vegna flóttamannavandans sem ástandið í Sýrlandi og víðar hefur skapað.

Sameiginleg niðurstaða nefndanna var að Ísland væri vel í stakk búið til að taka við flóttafólki og nokkur sveitarfélög hefðu lýst yfir vilja til að taka þátt í lausn málsins.  Áður hefur komið fram í fréttum að sveitarfélög vilji að ríkissjóður greiði kostnað vegna flóttamannanna mun lengur en gert hefur verið fram að þessu, en síðast þegar flóttafólk kom í skipulögðum hópi til landsins greiddi ríkið viðkomandi sveitarfélagi kostnaðinn í eitt og hálft ár.  

Svolítið finnst manni hjálparhöndin vera máttleysislega fram rétt ef skilyrði fylgir um að tryggt verði að lítill sem enginn kostnaður falli á viðkomandi sveitarfélög fyrir hjálpsemina. Flóttamannavandamálið er komið á það stig að ekki gefst mikill tími til fundarhalda í nefndum Alþingis, ráðherravinnuhópum eða sveitarstjórnum um skiptingu kostnaðarins ef taka á þátt í að leysa málin fyrir tiltölulega fáar flóttamenn af öllum þeim aragrúa sem aðstoð þarf að fá strax.

ESB stendur sig alveg hörmulega í þessu máli öllu og á meðan Evrópulöndin þrasa sín á milli um hver eigi að gera hvað, versnar ástandið stöðugt og flóttamannastraumurinn heldur áfram inn í Evrópu og svo virðist sem ríkisstjórnir ESB-landanna vilji helst hrekja flóttafólkið til baka eða a.m.k. ekki taka við nema ákaflega takmörkuðum fjölda þess inn í sín lönd.

Svo er sinnu- og mannúðarleysi þeirra Arabalanda sem ekki vita aura sinna tal ótrúlegt, en ekki er vitað til þess að þau hafi rétt svo mikið sem litlafingur til aðstoðar nágrönnum sínum í þessu hörmungarástandi. Má þar t.d. benda á Saudi-Arabíu, Katar, Bahrein o.fl.

 


mbl.is Vel í stakk búin fyrir flóttafólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband