Fastir vextir bíta engu síður en verðtrygging

Allt frá því að verðtrygging lána var tekin upp árið 1979 hefur staðið um hana mikill styrr og allan tímann hafa verið uppi háværar raddir um að hún skyldi bönnuð og að öll lán skyldu vera óverðtryggð.

Til skamms tíma voru bankar og lífeyrissjóðir ófúsir að lána óverðtryggð lán, en nú eru gjörbreyttir tímar og undanfarin ár hefur æ stærri húsnæðislána verið óverðtryggð og mikið verið um að verðtryggðum lánum hafi verið skuldbreytt yfir í óverðtryggð lán meið breytilegum vöxtum.  Lágir vextir síðustu misseri hafa ýtt mjög undir þessa þróun á lánamarkaðinum.

Bankahrunið árið 2008 átti ekki síst upphaf í gífurlegum lánaaustri Bandarískra lánastofnana til húsnæðiskaupa á lágum vöxtum og án könnunar á greiðslugetu lántakanna.  Þegar vextir hækkuðu svo snögglega olli það miklum hækkunum á afborgunum lánanna og stór hluti þeirra lenti í vanskilum og á endanum í hruni bankanna.  Margir bankar, vítt og breitt um heiminn, fóru á hausinn en öðrum var bjargað með skattgreiðslum almennings.

Eftir lága vexti hér á landi undanfarið hefur þróunin snúist við, vextir eru byrjaðir að hækka og útlit fyrir enn meiri hækkanir á næsta ári.  Ekki kæmi á óvart að ýmsir eigi eftir að lenda í erfiðleikum með afborganir lána sinna eftir því sem þær hækka við vaxtbreytingarnar, eða eins og haft er eftir Drífu Snædal, forseta ASÍ, í viðhangandi frétt:

„Það sem þetta þýðir fyr­ir fólk með hús­næðislán, sem er kannski búið að spenna sig hátt á hús­næðismarkaðnum að unda­förnu, er um 7.500 króna hækk­un á greiðslu­byrði miðað við þessa 0,25% hækk­un stýri­vaxta,“ seg­ir Drífa og bæt­ir við: „Þannig þess­ar vaxta­hækk­an­ir sem hafa verið und­an­farið, ef við miðum bara við 50 millj­óna króna lán, þá er þetta farið að taka all­hressi­lega í og éta upp þær launa­hækk­an­ir sem við höf­um samið um.“

Ekki er ótrúlegt að nú snúist dæmið við og óverðtryggðum lánum verði skuldbreytt yfir í verðtryggð, enda koma þau sér yfirleitt betur fyrir fólk á lágum og meðallaunum, því greiðslubyrðin verður jafnari yfir lánstímann þó eignamyndunin verði hægari.


mbl.is Heimilin í landinu verði verr stödd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er snargalin hugmynd að breyta óverðtryggðum lánum á neikvæðum raunvöxtum í verðtryggð lán þegar verðbólgan er 4,5% og fer hækkandi.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.11.2021 kl. 00:14

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ætli það sé nokkur hætta á öðru en að lánastofnanir tryggi sig gegn verðbólgunni með því að halda vöxtum nógu háum til að innifela verðbólguna og að raunvextir verði ekki neikvæðir lengi.  Lánastofnanir eru ekki góðgerðarsamtök.

Axel Jóhann Axelsson, 18.11.2021 kl. 09:47

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Raunvextir óverðtryggðra húsnæðislána hafa verið lægri en raunvextir verðtryggðra húsnæðislána nánast samfellt frá ársbyrjun 2018.

Meirihluti húsnæðislána bankanna eru nú óverðtryggð og samt skila þeir blússandi hagnaði. Nei þeir eru vissulega engar góðgerðastofnanir.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.11.2021 kl. 12:03

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ég leyfi mér að stela pistli frá Ragnari Önundarsyni, sem hann birti á FB og er frábært innlegg í umræðuna um vexti og verðtryggingu:

Ragnar Önundarson

6klst.  · 

 

Árin 1975-85 var óðaverðbólga á Íslandi. Fólk í forréttindaaðstöðu fékk lán sem “bráðnuðu” og “gufuðu upp”. Þetta var sparifé almennings, sem það hafði fengið að láni. Seðlabankinn, undir beinni handleiðslu rikisstjórna tímabilsins, ákvað að vextir skyldu ekki halda í við verðbólgu. Fólk sem ekki gat borið hönd fyrir höfuð sér, aldraðir, börn og fólk á öllum aldri sem ekki skildi hvað var að gerast, bar tapið. Þetta hefði verið “níðingsverk”, ef stjórnmálamenn, sem heyrðu bara kvartanir skuldara yfir háum vöxtum, hefðu ekki verið skilningsvana sjálfir. Þeir eru nú flestir í Paradís, með þeim sem fengu lánin. Hinir fengu margir að kynnast því Helvíti sem fátækt er. Þá voru lífeyrissjóðirnir í raun á byrjunarreit og það var sama sagan, þeir sem fengu lán þar græddu, en lífeyrisþegar, aldraðir, töpuðu. Vextir munu ALDREI aftur verða neikvæðir, þ.e. lægri en verðbólgan. Yrði það svo væri um að ræða níðingsverk, ekki væri unnt að afsaka slíkt aftur með fáfræði.

Axel Jóhann Axelsson, 18.11.2021 kl. 15:16

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Þetta var sparifé almennings, sem það hafði fengið að láni." - Þetta er ranghugmynd, byggð á falskenningu, sem er búið að afsanna. Bankar lána ekki út sparifé fólks.

Það er ekkert náttúrulögmál að vextir þurfi alltaf að vera hærri en verðbólga. Bankar eru vel að merkja ónæmir fyrir áhrifum verðbólgu. Verðbólga í Bandaríkjunum er núna 5,4% og hefur ekki verið hærri í tuttugu ár. Afhverju dettur engum þar í hug að hækka vexti húsnæðislána yfir 5,4%? Jú vegna þess að þá yrðu milljónir heimilislausar og blóðugar óeirðir myndu brjótast út. Verðbólga í Þýskalandi er núna 4,5% og hefur ekki verið hærri í 28 ár. Af sömu ástæðu og í Bandaríkjunum hvarflar ekki að neinum þar að hækka vexti húsnæðislána yfir 4,5%.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.11.2021 kl. 20:01

6 Smámynd: Jóhann Elíasson

"Óverðtryggð" lán eru með BREYTILEGUM VÖXTUM og eru mun verri kostur fyrir almenning heldur en VERÐTRYGGÐU LÁNIN, vegna þess að vextirnir á "óverðtryggðu" lánunum eru yfirleitt 2-3% HÆRRI en á verðtryggðu lánunum.  Bankarnir eru með hagdeildir fullar af hagfræðingum sem eru ekkert að reikna út eitthvað fyrir bankana til að TAPA á......

Jóhann Elíasson, 19.11.2021 kl. 13:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband