Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Ríkisstjórnin riðar til falls

Nú er svo komið, að ekki er hægt að halda áfram þingstörfum vegna þess að óeiningin og samstöðuleysið er orðið slíkt innan stjórnarflokkanna og milli þeirra, að meirihluti næst ekki um neitt mál í þinginu, sem máli skiptir.

Beiðnin um inngögnu í ESB var ekki samþykkt með stuðningi allra stjórnarliða og gekk mikið á innan Samfylkingarinnar vegna þeirra þingmanna Vinstri grænna, sem "sviku" ríkisstjórnina í því máli.  Ekki er illskan minni innan Samfylkingarinnar út í VG núna, vegna ríkisábyrgðarinnar á skuldum Landsbankans, en engin von er til þess að stjórnarandstaðan bjargi ríkisstjórninni úr þeirri snöru.

Jafnvel innan Samfylkingarinnar minnkar stöðugt stuðningurinn við ríkisábyrgðina, því jafvel þingmenn hennar eru margir hverjir farnir að gera sér grein fyrir því, að sá skuldaklafi, sem hún setur á þjóðina, er nánast óbærilegur.  Einnig vex þeirri skoðun fylgi innan stjórnarflokkanna, að greiðsluskylda þjóðarinnar á fjárglæfrum Landsbankans á sér enga lagastoð í tilskipunum Evrópusambandsins, né í íslenskum lögum.

Á blaðamannafundi í morgun sögðu Jóhanna og Steingrímur, að þau ættu sér ennþá von um að úr málum gæti ræst.

Von þjóðarinnar um starfhæfa ríkisstjórn, sem hefur getu til að taka á málunum, minnkar dag frá degi.


mbl.is Þingfundum frestað um viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Ásgeir sigar - skilanefndin geltir

Örfáum klukkustundum eftir að Mogginn var borinn í hús, með frétt um yfirveðsetningu húsnæðis 101 Hótels við Hverfisgötu, sendir formaður skilanefndar Landsbankans frá sér yfirlýsingu, um að enginn ágreiningur sé við Jón Ásgeir og frú, vegna skuldbindinga þeirra við bankann.  Stutt blogg um yfirverðsetninguna má sjá hér

Með ólíkindum verður að teljast, í öllu því fréttaflóði, sem verið hefur um málefni banka- og útrásarmógúla, án þess að skilanefndir hafi séð ástæðu til að senda frá sér álit um málin, þá skuli Jón Ásgeir ekki þurfa nema eitt símtal til skilanefndarinnar og þá sendir hún frá sér hraðsoðna yfirlýsingu, um að ekki sé uppi ágreiningur um skuldamál hjónanna.  Það var hvergi sagt í fréttinni, að um ágreining væri að ræða, um þessar skuldir, aðeins að tekin hefði verið aukatrygging í hótelinu vegna lúxusíbúða í New York.

Í yfirlýsingu skilanefndar segir t.d:  "Aðilar hafa á liðnum mánuðum unnið sameiginlega að því að bæta tryggingarstöðu bankans frá því sem var. Veðtaka í Hverfisgötu 8-10 var gerð í þeim tilgangi að tryggja betur endurgreiðslu á lánum þeim tengdum."  Þarna kemur fram, að tryggingastaða bankans var ekki nógu góð og hana þurfti að tryggja betur.  Um það var fréttin. 

Reyndar hnykkir formaður skilanefndarinnar á því, að tryggingar hafi ekki verið fyrir öllum skuldum, því í lok tilkynningar hans segir:  "Skilanefndin metur nú umræddar skuldbindingar traustari en áður var, sem er jákvætt skref í þá átt að hámarka verðmæti eigna bankans, kröfuhöfum til hagsbóta.“

Ekki verður þetta skilið öðruvísi en svo, að ekki sé reiknað með að allar kröfurnar innheimtist, því reynt verður að hámarka innheimturnar, kröfuhöfunum til hagsbóta.

Hvað var skilanefndin að leiðrétta? 

 


mbl.is Segja engan ágreining vera við Jón Ásgeir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hortugur útrásarvíkingur

Jón Ásgeir Jóhannesson, útrásarmógúll, hefur um margra ára skeið verið í fremstu röð bruðlara og óráðsíumanna í hópi íslenskra (og erlendra) fjármálabraskara og haldið um sig hirð ímyndarsmiða og fjölmiðlamanna, til að fegra gerðir sínar gagnvart þjóðinni.  Undanfarna daga hefur hann haldið því fram, að blaðamenn Moggans leggi sig í einelti, enda sídrukknir við ófræingarskrif sín um hann.

Nú birtist frétt um að hann gefi skilanefndum langt nef, þegar þær reyna að komast til botns í þeim fjármálakóngulóarvef sem hann hefur spunnið um heiminn, með þræði til allra skattaparadísa veraldarinnar.  Í fréttinni kemur fram að nú hafi hann verið neyddur til að yfirveðsetja húsnæði 101 Hótels, til baktryggingar á láni frá Landsbankanum vegna lúxusíbúða sinna í New York, en þær hafði hann áður veðsett og með því farið á bak við Landsbankann, eða eins og segir í fréttinni:  "Tilurð tryggingabréfsins má rekja til þess að Jón Ásgeir veðsetti lúxusíbúðir sínar í New York í óþökk skilanefndarinnar, en Landsbankinn fjármagnaði kaupin á þeim árið 2007."

Reyndar er með ólíkindum, að hægt sé að spila sig sem alþjóðlegan auðkýfing, með einkaþotu, lúxussnekkju, skíðahöllum, lúxusíbúðum í London, New York og víðar, Rolls Royce og öðrum lúxusbifreiðum o.s.frv. og allt á lánum frá íslenskum bönkum.

Allt er þetta með ólíkindum og ekki síst að sagt er að Jón Ásgeir sé á launum hjá skilanefndunum, að aðstoða þær við að botna yfirleitt nokkurn skapaðan hlut í öllum vefnum, sem hann er sjálfur búinn að spinna.


mbl.is Alþýðuhúsið yfirveðsett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AGS stundar ekki efnahagsaðstoð

Nú er endanlega komið í ljós að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ekki með fulltrúa hér á landi til þess að aðstoða við efnahagsuppbyggingu landsins, heldur hefur hann nú afhjúpað sig sem pólitískan handrukkara fyrir Breta og Hollendinga.

Fulltrúar sjóðsins hafa marg lýst því yfir, að Icesave deilan sé AGS óviðkomandi og að afgreiðsla þess máls væri algerlega ótengt endurskoðun efnahagsáætunarinnar, sem taka átti fyrir á mánudaginn 03/08 n.k.  Nú, á síðustu stundu er tilkynnt, að búið sé að taka Ísland út af dagskrá sjóðsins og málið verði í fyrsta lagi skoðað aftur í ágústlok.

Sá armi skúrkur, Davíð Oddsson, barðist eins og hann hafði afl til, á móti því að leitað yrði aðstoðar AGS, en var ofurliði borinn af ráðherrum Samfylkingarinnar, sem ærðust í hvert sinn sem þeir heyrðu nafn hans nefnt og vildu alltaf framkvæma þveröfugt við það, sem hann lagði til.  Nú er komið í ljós, að betra hefði verið að komast aldrei í félagsskap þessara spariklæddu handrukkara.

Grípi Bretland, Holland og Norðulöndin til nýrra efnahagsþvingana gegn Íslendingum, verður að taka á móti þeim af fullri hörku og engri undanlátssemi.  Til eru önnur ríki, sem hægt væri að leita til, bæði með viðskipti og aðra fyrirgreiðslu.

Ætli að það færi ekki um ESB, ef Ísland tæki upp nánið samstarf og efnahagssamvinnu við Kína.  Kínverjar hafa sjálfsagt ekki minni áhuga á aðgangi að norðurslóðum en Evrópumenn.


mbl.is Afgreiðslu AGS frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrópandi atkvæðamisvægi

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hefur skilað skýrslu um alþingiskosningarnar í maí og setur fram ýmsar ábendingar, ekki síst um misvægi atkvæða, en samkvæmt tilmælum Evrópuráðsins ætti ekki að vera meira en 10% misvægi atkvæða og alls ekki meira en 15% í undantekningatilfellum.

Í skýrslunni segir hinsvegar:  "Í kosningunum í maí hafi hins vegar verið samanlagt um 50% fleiri skráðir kjósendur á bak við hvert þingsæti í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og í Suðvesturkjördæmi en í hinum kjördæmunum þremur. Munurinn á milli Suðvestur- og Norðvesturkjördæmis hafi verið hvað mestur, eða um 100%."  Þetta misvægi atkvæða hefur lengi valdið deilum, sérstaklega milli höfuðborgar- og landsbyggðarbúa, en hefur verið afsakað með því að þetta kerfi stuðli að jöfnuði milli stjórnmálaflokka, en auðvitað ætti markmiðið að vera, að stuðla að jöfnuði milli kjósenda. 

Nú er mest áhersla lögð á að kjósendur fái sjálfir að raða frambjóðendum á kjörseðlum, en miklu brýnna væri að leiðrétta atkvæðamisvægið og næst það sjálfsagt ekki, nema með því að gera allt landið að einu kjördæmi.  Sú nefndaglaða ríkisstjórn, sem nú situr, ætti að skipa nefnd í málið eigi síðar en strax.

Einnig víkur eftirlitsstofnunin að eignarhaldi fjölmiðla og telur það ekki vera nógu dreift.  Af því tilefni gefur stofnunin út svohljóðandi álit á því máli:  "Því gæti lagasetning sem takmarki eignarhald komið til greina á ný."

Skyldi Eftirlitsstofnun Evrópu ekki hafa hugmynd um hver gegnir forsetaembættinu á Íslandi?

 

 


mbl.is Atkvæðavægi átalið af eftirlitsnefnd ÖSE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnin lofaði styrkingu krónunnar - oft

Þegar Davíð Oddson var rekinn úr Seðlabankanum, var það sagt vera til að auka tiltrú heimsbyggðarinnar á Seðlabankanum og íslensku hagkerfi og brottreksturinn væri alger forsenda þess að vextir myndu lækka hratt og gengi krónunnar styrkjast hratt og mikið.

Þann 27. febrúar s.l. stóð gengisvísitalan í 186,95 stigum og þótti alltof há, enda sagði ríkisstjórnin þá og ítrekað síðan, að eitt helsta markmið ríkisstjórnarinnar væri að styrkja krónuna verulega.  Nú er gegnisvísitalan 236,22 stig og þar með hefur krónan veikst um 26,35% síðan stjórnin fór að vinna af öllu sínu afli að því að auka traustið á Seðlabankanum og hagkerfinu í heild.  Á sama tíma hefur lánshæfismat ríkissjóðs fallið niður í næsta flokk fyrir ofan ruslflokkinn og þar með er úti um þá von, að nokkur erlend lánastofnun muni treysta sér til að lána nokkrum íslenskum aðila á næstu árum.

Kjósendur, sem treystu þessari ríkisstjórn til þess að vinna að styrkingu krónunnar og þar með lækkun erlendra húsnæðislána, sitja nú uppi með það að hafa t.d. skuldað 30.000.000 krónur í endaðan febrúar, en skulda nú tæpar 38.000.000 króna.  Höfðu þó þessi erlendu lán hækkað mikið frá því að þau voru tekin og til loka febrúar s.l.

Síðast lofaði ríkisstjórnin því að gengi krónunnar myndi fara að styrkjast daginn sem umsóknin um aðild að ESB yrði samþykkt.  Síðan hefur gengið lækkað um 1,70%.

Vonandi verða loforð ríkisstjórnarinnar ekki mikið fleiri.


mbl.is Evran aldrei dýrari á árinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spánverjar þekkja ESB

Í leiðara hins virta spænska dagblaðs El País, koma fram margar athyglisverðar skoðanir vegna umsóknar Íslands um aðild að ESB.  Spánverjum líður ekki vel í ESB um þessar mundir, enda segir blaðið:  "að beiðni Íslands um inngöngu í ESB staðfesti að það sé eftirspurn eftir ESB og að það líti betur út utan frá en innan frá."  Ekki koma þessi orð frá Íslendingum, sem andvígir eru aðild að ESB, heldur beint úr herbúðum aðildarlands að sambandinu.

Blaðið segir það sama og Evrópuráðherra Frakka sagði í gær, að ef Írar fella Lissabon sáttmálann, verði engin ríki tekin inn í ESB á næstu árum, eða áratugum.  Enn geta Íslendingar leyft sér að treysta á Íra í þessu efni, en vonin er þó veik, vegna gífurlegs áróðurs af hálfu ESB í Írlandi.

El País telur að umsókn Íslands sé drifin áfram af óðagoti og ótta vegna bankahrunsins og kreppunnar, en það sé ekki það versta við umsóknina, heldur „...að meirihluti þingsins sem styður umsóknina er allur úr einum flokki sem kallar hugsanlega á efasemdarmenn um ESB frá þessu landi í framtíðinni. ESB er ekki sjálfstæð björgunarsveit eða trúfélag."  Þetta síðasta þyrftu sérstaklega Samfylkingarmenn að taka til sín.

Þetta er raunsannur boðskapur frá marktækum aðila, sem þekkir innviði ESB.


mbl.is Vilja meiri samhug Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villandi skoðanakönnun

Fréttablaðið, sem styður aðild að ESB með ráð og dáð, gerði skoðanakönnun þann 28. júlí s.l., með spurningunni:   "Ert þú fylgjandi aðildarviðræðum við Evrópusambandið?"  Spurningin, með þessu villandi orðalagi, er borin fram viku eftir að Alþingi samþykkti að sækja um aðild að ESB.

Ef spurningin hefði verið heiðarlega orðuð, t.d:  "Ert þú fylgjandi að Ísland gangi inn í ESB?" er nánast víst, að niðurstöður könnunarinnar hefðu orðið aðrar.  59% landsmanna svara spurningu Fréttablaðsins játandi, enda er vitað, að mjög margir halda að þessar viðræður snúist um það, hvað sé í boði fyrir Íslendinga, en séu ekki í raun alvöruviðræður um inngöngu Íslands í ESB.

Mogginn, eins og aðrir ESB miðlar, grípur þessa niðurstöðu á lofti og birtir hana, eins og stóran sannleik um áhuga Íslendinga á að ganga inn í stórríki framtíðarinnar í Evrópu. 

Þetta er villandi fréttaflutningur af villandi skoðanakönnun og engum fréttamiðli sæmandi.

Bíða verður eftir óháðri könnun um raunverulegan vilja þjóðarinnar til inngöngu í ESB.


mbl.is Meirihluti styður viðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarga Írar Íslendingum frá ESB?

Það hefur komið fram frá Össuri, grínara, að hann vonist til að öllum undirbúningi aðildarviðræðna við ESB verði lokið í nóvemberlok, Ráðherraráð ESB afgreiði beiðninga í desember og formlegar viðræður geti hafist í febrúar á næsta ári.  Þetta myndi kallast hraðbraut inn í ESB og Össuri dettur ekki í hug að taka tillit til annarra vergfarenda á þessari braut, þ.e. Króatíu, Bosníu, Makedóníu, Albaníu og Tyrklands.  Í bílaumferð yrði þetta kallað að svína á þeim bílum, sem eru í rétti á gatnamótum.

Evrópumálaráðherra Frakklands tekur reyndar ekki undir þessa bjartsýni Össurar, því eftir honum er haft í fréttinni:  "Það á ekki að leyfa neinu ríki að fara eftir einhverri hraðbraut eða leyfa því að fara fram fyrir önnur umsóknarríki, ég er einkum að hugsa um Balkanlöndin í því sambandi. Fleiri ríki vilja fá aðild og þau fara inn á eigin skilyrðum, það verða allir að gera."  Þó Össur kunni ekki umferðarreglurnar, virðast Frakkar hafa þær á hreinu og svo gæti farið að Össur lenti í mörgum árekstrum á sinni hraðferð.

Ný ríki verða ekki tekin inn í ESB, nema þau samþykki fyrstu stjórnarskrá stórríkis Evrópu, þ.e. Lissabonsáttmálann, en samþykki hans er alger forsenda þess að hægt sé að þróa áfram hugmyndina um sameinað stórveldi Evrópu.  Einn hængur er þó á því máli ennþá, en það er andstaða Íra, sem felldu Lissabonsáttmálann í þjóðaratkvæðagreiðslu.  ESB sættir sig auðvitað ekki við lýðræðislegar kosningar og því verða Írar knúðir til að greiða atkvæði aftur um sáttmálann, með örlitlum undanþágum fyrir Íra, svo sem að þeir megi áfram banna fóstureyðingar.

Pierre Lellouce, Evrópumálaráðherra Frakka segir í fréttinni:  "Verði Lissabon-sáttmálinn ekki samþykktur verðum við í vanda. Þá munum við þurfa að hverfa aftur til Nice-sáttmálans og hann gerir einfaldlega ekki mögulegt að stækka sambandið, kerfið myndi þá ekki virka."

Ef til vill bjarga Írar Íslendingum frá ESB bákninu, með því að fella Lissabonsáttmálann í annað sinn.


mbl.is Brýnt að leysa Icesave-deilu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afganistan og Ísland

Gordon Brown, flokksfélagi Össurar grínara, á nú í miklum vandræðum heimafyrir, því stuðningur við hann og ríkisstjórn hans fer síminnkandi og er nú aðeins 24%.  Össur, ævifélagi í breska verkamannaflokknum, getur þó ennþá státað af 43% stuðningi við þá stjórn, sem hann situr í, þótt sá stuðningur fari einnig stöðugt minnkandi.

Óvinsældir Browns eru, fyrir utan efnahagsástandið í Bretlandi, helst raktar til slæms gengis breska hersins í Afganistan og mikils mannfalls hermanna þar.  Bretar eiga einnig í stríði við Ísland, þó af öðrum toga sé, þ.e. efnahagsstríði, með það að markmiði, að gera út af við Íslendinga í eitt skipti fyrir öll, fjárhagslega, og fullhefna þannig fyrir þorskastríðin.

Brown hefur beitt öllum brögðum í þessu efnahagsstríði, þar með talin beiting hryðjuverkalaga, en þrátt fyrir vonir hans, hefur þessi níðingsskapur gegn smáþjóð ekki náð að vega upp á móti Afganistanstríðinu, en Brown hélt að Íslandsstríðið myndi hífa hann upp í vinsældum á ný.

Svona geta stríð farið með þjóðarleiðtoga, hvort sem hernaðurinn gengur vel, eða illa.


mbl.is Vinsældir Browns minnka enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband