Hrópandi atkvæðamisvægi

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hefur skilað skýrslu um alþingiskosningarnar í maí og setur fram ýmsar ábendingar, ekki síst um misvægi atkvæða, en samkvæmt tilmælum Evrópuráðsins ætti ekki að vera meira en 10% misvægi atkvæða og alls ekki meira en 15% í undantekningatilfellum.

Í skýrslunni segir hinsvegar:  "Í kosningunum í maí hafi hins vegar verið samanlagt um 50% fleiri skráðir kjósendur á bak við hvert þingsæti í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og í Suðvesturkjördæmi en í hinum kjördæmunum þremur. Munurinn á milli Suðvestur- og Norðvesturkjördæmis hafi verið hvað mestur, eða um 100%."  Þetta misvægi atkvæða hefur lengi valdið deilum, sérstaklega milli höfuðborgar- og landsbyggðarbúa, en hefur verið afsakað með því að þetta kerfi stuðli að jöfnuði milli stjórnmálaflokka, en auðvitað ætti markmiðið að vera, að stuðla að jöfnuði milli kjósenda. 

Nú er mest áhersla lögð á að kjósendur fái sjálfir að raða frambjóðendum á kjörseðlum, en miklu brýnna væri að leiðrétta atkvæðamisvægið og næst það sjálfsagt ekki, nema með því að gera allt landið að einu kjördæmi.  Sú nefndaglaða ríkisstjórn, sem nú situr, ætti að skipa nefnd í málið eigi síðar en strax.

Einnig víkur eftirlitsstofnunin að eignarhaldi fjölmiðla og telur það ekki vera nógu dreift.  Af því tilefni gefur stofnunin út svohljóðandi álit á því máli:  "Því gæti lagasetning sem takmarki eignarhald komið til greina á ný."

Skyldi Eftirlitsstofnun Evrópu ekki hafa hugmynd um hver gegnir forsetaembættinu á Íslandi?

 

 


mbl.is Atkvæðavægi átalið af eftirlitsnefnd ÖSE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að þetta kerfi stuðli ekki að jöfnuði milli stjórnmálaflokka.  Hins vegar er gríðarlegur aðstöðumunur á aðgengi að stjórnkerfinu milli höfðuborgarbúa og landsbyggðarinnar og embættismenn ríkisins á höfuðborgarsvæðinu mismuna þegnunum til hagsbóta fyrir höfuðborgina.  Með öðrum orðum stunda hreppapólitík - sem hefur leitt það af sér að nánast allir Íslendingar eru fluttir á höfðuborgarsvæðið.  Misvægi atkvæða er eitthvert haldreipi landsbyggðarfólks - það eina sem það hefur til að sporna við óheillaþróun. 

Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 30.7.2009 kl. 16:14

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Aðalatriðið hlýtur að vera, að Alþingismenn eiga fyrst og fremst að setja landinu lög, en eiga ekki að vera að vasast í hreppapólitík og skiptingu fjár og bitlinga út og suður.  Það er ekkert vit í því, að Alþingismenn skuli sitja yfir því að skipta niður vegafé á einstaka vegarspotta vítt og breitt um landið.  Þeir eiga að úthluta vegafé með fjárlögum og síðan á Vegagerðin að skipta því niður á þau landssvæði, þar sem þörfin er mest hverju sinni.

Þingmenn standa ennþá í alls kyns svona snatti, sem kemur lagasetningunni ekkert við.  Það er arfur frá gömlum tíma, þegar almenningur út um land hafði lítil sem engin tengsl við höfuðstaðinn og því tóku þingmenn að sér hálfgerð sendisveinastörf fyrir kjósendur sína.

Þetta á að vera fortíðin.  Framtíðin er að allt landið verði eitt kjördæmi og þingmenn einbeiti sér að lagasetningu.

Axel Jóhann Axelsson, 30.7.2009 kl. 16:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband