Bloggfærslur mánaðarins, september 2016

Mun stjórnarandstaðan fórna hagsmunum stúdenta?

Árum saman hefur verið þvargað um heppilega leið til að finna góða leið til framfærslu stúdenta á námstíma þeirra og að hlutur framfærslunnar yrði í formi námsstyrkja til hliðar við námslánin.

Loksins er komið fram frumvarp sem uppfyllir a.m.k. að hluta til kröfur stúdenta sjálfra um fyrirkomulag námslána og -styrkja, en þá vill ekki betur til en svo að stjórnarandstaðan án þingi virðist ætla að bregða fæti fyrir breytingarnar í pólitískum tilgangi og að því er séð verður eingöngu til þess að stjórnarflokkarnir geti ekki eignað sér þessar langþráðu breytingar.

Helstu stúdentahreyfingar landsins hafa sent frá sér áskorum um að málið verði afgreitt á þeim fáu dögum sem eftir lifa þessa þings og í viðhangandi frétt segir m.a:  "Í áskor­un­inni skora hreyf­ing­arn­ar sér­stak­lega á stjórn­ar­and­stöðuflokk­ana á Alþingi og biðla til þeirra að leggja kosn­inga­slag­inn til hliðar og „hlusta á stúd­enta, sem eru langþreytt­ir á því að vera notaðir í póli­tísk­um leikj­um á milli stjórn­mála­flokka.“ „Ekki er hægt að horfa fram hjá því að þetta frum­varp er risa­stórt skref í átt að því námsaðstoðar­kerfi sem við vilj­um sjá á Íslandi í framtíðinni, en það hef­ur í för með sér þau atriði sem stúd­ent­ar hafa lengi bar­ist fyr­ir, til að mynda fyr­ir­fram­greiðslur, beina náms­styrki og 100% fram­færslu."

Því verður ekki trúað að stjórnarandstaðan á þingi sé svo illa innrætt að hún geti ekki unað stúdentum þess að kjör þeirra verði stórbætt, jafnvel þó stutt sé í kosningar. Reyndar er ómögulegt að skilja hvernig stjórnarandstaðan heldur að hún geti grætt á því að eyðileggja þetta mál.


mbl.is „Gífurleg kjarabót fyrir stúdenta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hótanirnar verði birtar almenningi og frá hverjum þær komu

"Þing­menn inn­an stjórn­ar­meiri­hluta fjár­laga­nefnd­ar hafa fengið bein­ar hót­an­ir um æru- og eignam­issi frá hátt­sett­um emb­ætt­is­manni eft­ir að skýrsl­an hafði verið kynnt."

Framangreint kemur fram í yfirlýsingu frá meirihluta Fjárlaganefndar Alþingis og hlýtur slík hótun að flokkast með alvarlegustu glæpum og kalla á tafarlausa sakamálarannsókn.

Þingmenn eru eingöngu bundnir eigin samvisku og ber að vinna að málum á heiðarlegan og ábyrgan hátt og standa kjósendum skil á gerðum sínum og ákvörðunum.

Ákvarðanir þingmanna og athafnir verða oftar en ekki að deilumálum þeirra á milli og úti í þjóðfélaginu, en ekkert réttlætir eftir sem áður að þeim sé hótað eigna- og ærumissi, eða jafnvel líkamsmeiðingum eða lífláti vegna starfa sinna.

Þegar slíkt gerist ber að kæra slíkt umsvifalaust til réttra yfirvalda til rannsóknar og kærumeðferðar ef sakir sannast og tilefni er þar með til að refsa þeim sem í hlut á.

Svona hótanir geta ekki og mega ekki vera meðhöndluð sem einhverskonar trúnaðarmál. Almenningur á fullan rétt á að fá að vita allar staðreyndir slíkra mála, ekki síst þegar háttsettur embættismaður er sakaður um alvarlegar hótanir í garð Alþingis.


mbl.is Fengið hótanir um æru- og eignamissi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósa konur karla frekar en konur?

Konur koma ekki nógu vel út úr prófkjörum flokkanna almennt, þó nokkuð sé það misjafnt eftir kjördæmum.

Sumir flokkar hafa tekið upp reglu um svokallaða fléttulista og víxla þá jafnvel niðurstöðum kosninganna til að jafna hlut kynjanna á framboðslistum sínum.

Konur eru helmingur kjósenda og því hljóta þær að kjósa karla frekar en konur og getur varla nokkuð annað ráðið þar um annað en að þær treysti körlunum betur til þingstarfa en kynsystrum sínum.

Karlarnir, sem flest atkvæði fá í prófkjörunum, eru þar með fulltrúar bærði karla og kvenna og verða að vera um það meðvitaðir í öllum sínum störfum.

Áberandi er að ýmsir reyna að blása út að flokkarnir séu karlaveldi og jafnvel að "flokkseigendafélögin" séu karlasamfélög og því sé allt gert til að halda konum utan hópsins.  Auðvitað standast þessar ruglkenningar enga skoðun, þar sem konur eru helmingur kjósenda og taka fullan þátt í vali þeirra sem ábyrgðastöðum er ætlað að gegna.

Í þeim tilfellum þar sem kosning er ekki bindandi, ætti að kanna í fullri alvöru að rétta hlut kvenna og fjölga þeim í "öruggum" sætum á framboðslistum.  Það verður þó varla gert nema í góðu samkomulagi við karlana sem þau sæti skipa samkvæmt niðurstöðum prófkjaranna.

Ekki skal því heldur gleymt að lýðræði felst einmitt í því að reyna að finna út vilja hins almenna borgara og verða við honum.  Til þess eru prófkjörin ætluð og ekki ástæða til að gera lítið úr þeim vilja þátttakendanna sem fram koma í niðurstöðunum.


mbl.is Harma niðurstöðuna í Kraganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESBarmurinn genginn úr Sjálfstæðisflokknum í heilu lagi

Þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þorsteinn Pálsson gengu saman inn í salinn á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins sögðu gárungarnir að þar væri mættur allur ESBarmur flokksins eins og hann legði sig.

Nú berast fréttir af því að þessi ESBarmur hafi sagt sig úr flokknum í heilu lagi og gengið til liðs við Viðreisn, sem aðallega virðist ætla að reyna að aðskilja sína stefnu frá móðurflokknum með áhuganum á að gera Ísland að útnárahreppi í væntanlegu stórríki Evrópu.

Þorgerði og Þorsteini er óskað alls góðs á nýjum vettvangi, þó því verði illa trúað að þeim muni vel ganga að sannfæra Íslendinga um að framtíðarsælan felist í ESBstjórninni í Brussel.

Trú íbúa ESBríkjanna virðst meira að segja dofna að þessu leyti og trúlausastir þeirra allra eru Bretar eins og sýnt hefur sig undanfarið.


mbl.is Getur ekki annað en verið glaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað getur svona grín gengið lengi?

Stjórn Pírata hefur gefið út að átján af þeim tuttugu sem "smalað" var til þátttöku í prófkjöri Pírata í norðvesturkjördæmi hafi einungis merkt við einn frambjóðanda, þ.e. "smalann" og því hafi borið að ómerkja prófkjörið og endurtaka það með þátttöku allra landsins Pírata.

Nú loksins hafa verið birtar tölur úr prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu og samkvæmt ótrúlega fullkomnu, en að sagt er flóknu, talningakerfi þeirra fékk Birgitta, sjóræningjakafteinn, aðeins 15,5% atkvæða (160 alls) í fyrsta sæti.  Það þætti léleg útkoma í öllum öðrum kosningum.

Það furðulega kemur einnig fram að 81 kjósandi, eða 7,8%, merktu aðeins við einn frambjóðanda og miðað við skýringarnar á ógildingu prófkjörsins í norðvesturkjördæmi hlýtur kosningin á höfuðborgarsvæðinu að verða ógilt líka og kosið upp á nýtt og þá á landsvísu auðvitað.

Þetta stjórnmálagrín hófst allt saman með "Besta flokknum" í borgarstjórnarkosningunum árið 2010 og nú hefur Pírataflokkurinn haldið fíflaganginum á lofti á Alþingi undanfarin ár og verður að telja að nú fari kjósendur að fá leið á uppistandinu, enda ekkert fyndið lengur.

 


mbl.is Oddviti Pírata fékk 15,5% í fyrsta sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætli þetta sé Pírötunum að þakka?

Matsfyrirtækið Moody´s hefur hækkað lánshæfismat ríkissjóðs Íslands um tvo flokka og er það nú í A-flokki og þar með sett á stall með öðrum ríkjum sem vel er stjórnað fjárhagslega og horfur taldar góðar í þeim efnum í næstu framtíð.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, er ein þeirra sem tjáð hafa sig um þennan einstæða árangur ríkisstjórnarinnar og segir þetta stórhækkaða lánshæfismat ekki koma á óvart, miðað við stöðu ríkissjóðs og góða efnahagsstjórn undanfarinna ára.

Ásdís segir m.a:  "Batn­andi láns­hæfi end­ur­spegl­ar hversu sterk staðan er orðin í ís­lensku hag­kerfi, þá eru efna­hags­horf­ur góðar, rík­is­sjóður áform­ar að skila af­gangi á rekstri sín­um á kom­andi árum, skuld­ir rík­is­ins hafa lækkað og gert er ráð fyr­ir þær muni lækka enn frek­ar á næstu árum."

Stutt er nú til kosninga og vonandi gera kjósendur sér grein fyrir því hverjir hafa komið ríkissjóði í þessa góðu stöðu og láti t.d. flokk fjármálaráðherrans njóta þess þegar í kjörklefann kemur.  Aðrir flokkar reyna að gera lítið úr þessum árangri og þykjast hæfir til að taka við stjórnartaumunum og þá muni smjör fara að drjúpa af hverju strái og allt verði gert fyrir alla án nokkurrar fyrirhafnar eða skattpíninga.

Þó furðulegt sé, eru Píratar ennþá í öðru sæti, á eftir Sjálfstæðisflokki, í niðurstöðum skoðanakannana fyrir komandi kosninga, þó þar fari flokkur sem ólíklegastur er allra að verða til stórræðna við stjórn landsins og þarf þá ekki annað en að líta til frammistöðu fulltrúa þess flokks á líðandi kjörtímabili.

Staða ríkisstjóðs og batnandi kjör landsmanna hafa komist í núverandi hæðir án aðkomu Píratanna og vonandi muna kjósendur eftir að þakka þeim er þakka ber þegar tækifæri gefst til þess í komandi kosningum.


mbl.is Kom skemmtilega á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband