Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2017

Náttúran verður ekki barin niður með lurk, en...............

Ótrúlegur fjöldi kvenna hefur stigið fram að undanförnu og skýrt frá kynferðislegu áreiti og í mörgum tilfellum ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir af hendi karlmanna og virðist nánast engin kona hafa sloppið algerlega við slíkt í störfum og leik.

Ótrúlegur fjöldi karlmanna, á öllum aldri og öllum störfum, virðist halda að í lagi sé að káfa á, strjúka óeðlilega og klípa konur hvenær sem færi gefst og miðað við frásagnirnar er eins og þeim þyki þetta vera eðlileg framkoma og samskipti milli kynjanna.

Flestar sögurnar sem birst hafa lýsa algerlega óþolandi hugsunarhætti og framkomu og þrátt fyrir að með slæðist frásagnir af misskildum gullhömrum um klæðaburð eða líkamsvöxt og ýmislegt sem flokka mætti sem kynjalausa stríðni, dregur það ekkert úr alvarleika þessa máls í heild og nauðsyn algerrar uppstokkunar í hugmyndaheimi margra karlmanna um almenna kurteisi og siðsemi í mannlegum samskiptum.

Það er hreinlega ótrúlegt að nokkrum karlmanni geti fundist þessi grófa framkoma eðlileg og því er óskiljanlegt að samt sem áður sé þetta eins algeng framkoma og frásagnir kvennanna sýna.  Að káfa á brjóstum og rössum á ekkert skylt við saklaust daður eða lýsingu á hrifningu og þó margir karlmenn séu óöryggir og feimnir við konur, afsakar það ekkert svona framkomu.  Ofbeldi og nauðgun er toppurinn á þessu kynbundna ofbeldi og ætti alltaf að kæra til lögreglu og algerlega verður að vera tryggt að þolendur fái aðstoð og vernd yfirmanna, eigi slíkt ofbeldi sér stað á vinnustað viðkomandi.

Í gamla daga var sagt að mannleg náttúra yrði ekki lamin niður með lurk, en það sama ætti alls ekki að eiga við um þá sem ekki geta hamið hana og beita aðra ofbeldi til að uppfylla fýsnir sýnar eða drottnunargirni.


mbl.is Sagt að þær verði bara að þola þetta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Vinstri grænum að takast að gera sig ómerka

Engum getur dulist að eftir þriggja daga stíf "óformleg" fundahöld Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks hefur legið á borðinu nánast frágenginn stjórnarsáttmáli, þó sjálfsagt hafi átt eftir að fínpússa einhver atriði í "formlegum" viðræðum.

Með þá niðurstöðu fór Katrín Jakobsdóttir inn á þingflokksfund VG til kynningar, en á meðan hún sat á hinum "óformlegu" fundum í umboði þingflokksins hafði varaformaður flokksins með stuðningi "villikattanna" í flokknum unnið hörðum höndum að því að grafa undan formanninum og eyðileggja sem mest fyrir Katrínu og hennar fylgismönnum innan flokksins.

Fjöggurra klukkustunda fundur þingflokksins í gær skilaði ekki niðurstöðu og hefur framhaldsfundur verið boðaður í dag klukkan eitt eftir hádegi.  Þá munu úrslit um framtíð Katrínar sem formanns VG ráðast eða hvort hún hrökklast úr þeim stóli og varaformaðurinn taki við stjórnartaumunum.

Fari svo mun varaformaðurinn ganga beint inn í ríkisstjórn sem formenn Samfylkingar og Viðreisnar eru búnir að stofna fyrir hann ásamt Pírötum og Flokki fólksins.  Framsóknarflokkurinn hlýtur að hafa meiri sjálfsvirðingu en svo að hann léti véla sig inn í slíkan bræðing.

Ríkisstjórn Loga og Katrínar, með eins manns meirihluta á Alþingi, mun að sjálfsögðu verða skammlíf og því stutt þar til kosið verði enn á ný.

Örlög Katrínar, bæði sem formanns VG og sem trúverðugs stjórnmálamanns, munu ráðast fljótlega eftir hádegið í dag, 13. nóvember 2017.  Þetta verður sögulegur dagur í íslenskri stjórnmálasögu, hvernig sem fer.

 

 


mbl.is Fundi slitið hjá VG – „Þetta stendur í þeim“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varaformaður VG reynir að spilla viðræðum með ruddaskap

Ekki eru allir Sjálfstæðismenn ánægðir með yfirstandandi viðræður um stjórnarmyndun með VG og enn minna kátir yfir þeim afarkostum að formaður VG verði forsætisráðherra, takist samningar um stjórnarmyndun á annað borð.

Jafn skiptar skoðanir eru meðal stuðningsmanna VG um ágæti þess að mynda ríkisstjórn með Sjálfastæðis- og Framsóknarflokki, en flestir virðast sætta sig við að svo gæti orðið með því í raun frekjulega skilyrði að Katrín Jakobsdóttir verði forsætisráðherra.

Í örvæntingarfullri tilraun til að reka fleig í viðræðurnar og ekki síður sem innlegg í valdabaráttu innan Vinstri grænna, ryðst varaformaður flokksins fram á völlinn með þá kröfu að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli ekki fá sæti í þeirri ríkisstjórn, sem hann sjálfur er að semja um að koma á fót í umboði kjósenda flokksins.

Þó flokkurinn kenni sig við grænt getur ekki verið að varaformaður VG sé svo grænn að hann viti ekki að venjan er, þegar ríkisstjórnir eru myndaðar, að fyrst sé komist að samkomulagi um málefni og að lokum skipti flokkarnir með sér verkum og hver fyrir sig velji sín ráðherraefni án afskipta annarra flokka, hvorki þeirra sem að ríkisstjórninni ætla að standa og auðvitað enn síður þeirra flokka sem í minnihluta munu verða.

Engin skynsamleg skýring önnur en tilraun til að hleypa upp stjórnarmyndunarviðræðunum og koma formanni VG frá því embætti, getur verið á því að varaformaðurinn rýkur í fjölmiðla með sína vægast sagt ruddalegu yfirlýsingu.

Nema að maðurinn kunni einfaldlega ekki á einföldustu kurteisisreglur og eðlileg mannleg samskipti.


mbl.is „Þetta hefur bara gengið vel“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sex milljóna grínsekt vegna "skattasniðgöngu"

Stórútgerðarmaður að norðan hefur ekki skilað skattframtölum frá því árið 2004 og látið áætla á sig opinber gjöld öll árin eftir það og oftast verið í hópi skattakónga landsins.

Ekki þarf að efast um að þrátt fyrir þessar háu skattaáætlanir hafi útgerðarmaðurinn talið sig vera að fá á sig minni álögur en gerst hefði við heiðarlegt framtal tekna og eigna.  Auðmenn þessa lands hafa fæstir komist eins vel í álnir og raun ber vitni án þess að kunna að reikna og hvort sem þeir eiga í erfiðleikum með það eða ekki, hafa þeir fólk í sinni þjónustu sem hefur góða kunnáttu á því sviði og ekki síður skattalögum.

Það er því einungis vegna mjög staðfasts brotavilja sem skattframtölum er ekki skilað árum saman og einkennilegt að skattayfirvöld skuli ekki hafa gripið í taumana miklu fyrr en að krefjast einungis sektar fyrir árin 2012 og 2013.  Ólíklegt verður að teljast að minni spámenn hafi fengið slíka silkihanskameðhöndlun af hálfu skattayfirvalda.

"Ég hef svo sem ekk­ert um það að segja nema það að við borg­um þá sekt," segir útgerðarmaðurinn, enda munar hann greinilega ekkert um slíka upphæð, sem virkar eins og hverjir aðrir smáaurar í samhengi við þær upphæðir sem hann þénar í hverri viku.

Aðra eins lítilsvirðingu við lög landsins og þá launþega sem enga möguleika hafa á, jafnvel engan áhuga, að sleppa við eðlilegar skattgreiðslur á að taka föstum tökum og beita sektum sem undan svíður.  

Líklegast er að ýmsir þeir sem "skattasniðgöngu" stunda hlæji hátt og innilega að þessum úrskurði.


mbl.is Útgerðarmaður sektaður fyrir skattalagabrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurður Ingi með drauma um forsætisráðherrastólinn

Ýmsir furðuðu sig á því að Sigurður Ingi, formaður Framsóknarflokksins, skyldi taka í mál að fara í viðræður um fjögurra flokka ríkisstjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG.  Slík stjórn hefði aðeins haft eins manns meirihluta og þar innanborðs hefðu verið ólíkindatólin sem kalla sig pírata.

Líklega hefur þetta einungis verið pólitísk leikflétta hjá Sigurði Inga til þess að búið yrði þá að útiloka píratana frá frekari viðræðum og í framhaldinu yrði farið í að kanna aðra möguleika á ríkisstjórnarsamstarfi.

Sigurður Ingi hefur lagt áherslu á að nú þurfi öfluga ríkisstjórn með sterkan meirihluta til að takast á við þau stóru verkefni sem bíða úrlausnar og þá ekki síst erfiða kjarasamninga, heilbrigðismál, menntamál og velferðarmál.  Miðað við þá afstöðu furða sig margir á þessum hálfgerðu sýndarviðræðum við píratana, en þegar betur er skoðað er þetta einföld leikflétta.

Framsóknarmenn vonast eftir að hægt verði að mynda ríkisstjórn undir forsæti Sigurðar Inga með Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum, en hvorugur þeirra flokka myndi una hinum að skipa forsætisráðherrastólinn í slíkri ríkisstjórn.

Vegna gamalla og hatrammra væringja milli Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna verður erfitt að koma á samstarfi þeirra og mun ekki ganga eftir fyrr en allt annað verður fullreynt.  Þar sem Framsóknarflokkurinn er í kjöraðstæðum í þessum ríkisstjórnarkapli verður skemmtilegt að fylgjast með því hvernig Sigurður Ingi leggur út spilin á næstunni og hvort þessi kapall hans muni ganga upp.

Hann gæti líka misst spilastokkinn út úr höndunum á sér og algerlega tapað af ríkisstjórnarsætis ef öðrum tekst að stokka spilin á annan hátt og sér í hag.  Slíkt er þó frekar ólíklegt.


mbl.is Guðni ræðir við aðra formenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins gott að vera ekki með lausa skrúfu

Katrín Jakobsdóttir ætlar að reyna að "skrúfa saman" stjórnarsáttmála fjögurra flokka sem ekki eiga annað sameiginlegt en að hafa verið í stjórnarandstöðu síðast liðið ár og sumir reyndar lengur.

Hún segir að nú sé ekki tími til að leysa öll heimsins vandamál, en einbeita eigi sér að fáum og stórum málum og sjá svo til með smærri mál og treysta einfaldlega á guð og góðar vættir um að þau leysist í sátt og samlyndi.

Ríkisstjórn, sem samansett er úr fjórum flokkum, sem hefur aðeins eins manns meirihluta á þingi er nánast dæmd til að verða skammlíf og ekki síst ef ekki er nánast hvert einasta smáatriði sem hugsanlega gæti komið upp á heilu kjörtímabili algerlega samanskrúfað og vel hert alveg frá upphafi.

Alltaf koma upp óvænt mál á hverju ári og eins og sýndi sig í síðustu ríkisstjórn þurfti ekki annað en taugaveiklun nokkurs hóps fólks sem sat í hring heima hjá Óttari Proppé, þar sem hver hafði eina mínútu til að leggja sitt til málsins, til að ákveðið hefði verið að hlaupast undan ábyrgð og efna til nýrra kosninga.  Björt framtíð uppskar í samræmi við sáningu sína og er nú aðeins örstutt málsgrein í stjórnmálasögu landsins.

Stjórn sem ætlar að leggja upp í heilt kjörtímabil eingöngu með vonir um gott samstarf sín á milli og samvinnu stjórnarandstöðunnar í einstökum málum verður afar líklega skammlíf.


mbl.is Reyna að „skrúfa saman“ í sáttmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband