Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Hústaka

Hasar varð þegar fulltrúar sýslumanns ætluðu að bera fólk út úr íbúð í Reykjavík að beiðni húseigandans, en hann hafði ekki fengið greitt fyrir afnot af húsnæðinu síðan árið 2009.

Þegar fólk sest að í annarra manna húsnæði, greiðir enga leigu og dvelur þar í óþökk eigandans, hlýtur slíkt að teljast vera hrein hústaka og getur þar með ekki annað en flokkast undir nytjastuld.

Ef fólk er húsnæðislaust og hefur ekki fjárráð til að greiða húsaleigu á frjálsum markaði er sveitarfélagið skyldugt til að sjá viðkomandi fyrir húsaskjóli og þangað á fólk að í þeirri stöðu að leita, en ekki taka annarra manna húsnæði traustataki.

Í því tilfelli, sem fréttin snýst um, náðist samkomulag um frestun útburðarins og er það vel, en ef uppi er einhver ágreiningur um uppgjörsmál milli aðila, er alveg með ólíkindum að taka þurfi á þriðja ár að leysa úr slíkum málum.


mbl.is „Þú ert helvítis drusla!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna afhjúpuð?

"Norræna velferðarstjórnin" undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur barðist af hörku gegn hvers konar aðgerðum til aðstoðar heimila í skuldakreppu og gjaldþrotahættu og gaf m.a. í skin að AGS væri algerlega andsnúinn öllum slikum hjálparaðgerðum.

Nú kemur hins vegar Guðmundur Andri Skúlason, formaður Samtaka lánþega, fram með þær upplýsingar að í raun hafi það verið Jóhanna sjáolf, sem andvígust var öllum aðgerðum í þá veru vegna ótta um að alíkt myndi setja Íbúðalánasjóð á hausinn.

Eftir Guðmundi Andra er þetta haft m.a:  "En á fundi sem ég átti, svo dæmi sé tekið, á sínum tíma með Hermanni Björnssyni, framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs Kaupþings, og Regin Mogensen, framkvæmdastjóra lögfræðisviðs bankans, um það bil ári eftir hrun, kom fram að bankarnir vildu þá strax leiðrétta lánasöfn sín. Sú leiðrétting væri í raun grunnforsenda fyrir áreiðanlegu mati á eignasafni bankanna. Aftur á móti vildi Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ekki fara í þá framkvæmd. Ástæðan var að með leiðréttingu færi Íbúðalánasjóður yfir um. Það er því spurning hvort AGS er hér hafður fyrir rangri sök. Ég hef auðvitað ekki hugmynd um það."

Þetta eru að mörgu leyti stórmerkilegar upplýsingar, en jafnframt er óskiljanlegt hvers vegna Guðmundur Andri hefur legið á þessari vitneskju sinni í meira en eitt og hálft ár án þess að skýra frá þeim opinberlega.  Allan þennan tíma hefur verið gríðarlega mikil umræða í þjóðfélaginu um þessi mál og skýringar ráðherranna verið afar misvísandi.

Guðmundur Andri verður að skýra betur þessa upplýsingaleynd í þessi tæpu tvö ár. 

 


mbl.is Jóhanna vildi ekki afskriftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárfestar frá einræðisríkjum

Allri erlendri fjárfestingu hér á landi ber að fagna og skiptir þá að öllu jöfnu engu hvaðan fjárfestarnir koma, a.m.k. ef þeir hafa getið sér gott orð með fjárfestingum í öðrum löndum og séu ekki þekktir fyrir barnaþrælkun í verksmiðjum sínum eða aðra illa meðferð á starfsfólki sínu.

Fyrirhuguð fjárfesting nýríks Kínverja í ferðaþjónustu hér á landi væri í raun sjálfsögð og ætti ekki að vekja mótstöðu fólks, nema ef vera skyldi af þeirri ástæðu að Kína er einræðisríki og þekkt fyrir grimmilega meðferð á þegnum sínum oft á tíðum.

Kínverska einræðisstjórnin er einnig þekkt fyrir frekju og yfirgang gagnvart þeim þjóðum og einstaklingum sem dirfast að framkvæma eitthvað sem þeim er á móti skapi og nægir að nefna sem dæmi yfirgang þeirra og hortugheit gagnvart Noregi vegna þess að kínverskum rithöfundi voru veitt Nóbelsverðlaunin, útskúfun Bjarkar frá frekari heimsóknum til Kína vegna stuðnings hennar við réttindabaráttu Tíbeta og hótanir og refsiaðgerðir Kínverja á hendur hverjum þeim sem einhver samskipti hefur við Tawian.

Vegna þessara stjórnarhátta í Kína má setja fyrirvara um hvort fjárfestingar frá slíku ríki séu velkomnar, hvort sem eru á vegum kínverska ríkisins eða fjárfestingar einstaklinga, hvort sem þeir eru leppar stjórnvalda eða ekki.

Hefðum við Íslendingar fagnað fjárfestingum Gaddafys, sona hans eða annarra libiskra fjárfesta þeim þóknanlegum. Hvað um fjárfestingar af hálfu t.d. feðganna í Norður-Kóreu eða Mugabe í Zimbabwe?


mbl.is „Ísland þarf peningana“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýsandi dæmi um skattahækkanabrjálæðið

Jóna Valgerður Kristinsdóttir, formaður Félags eldri borgara, segir að nú færist mjög í vöxt að eldri borgarar taki peninga sína út af bankareikningum og geymi þá frekar í bankahólfum, vegna skattabrjálæðisins sem tröllríður þjóðfélaginu um þessar mundir.

Fjármagnstekjur eru nú skattlagðar um 20%, þrátt fyrir að ávöxtun sé neikvæð og skatturinn leggst einnig á verðbætur, sem þó eru ekki tekjur, heldur verðleiðrétting á peningalega eign. Þegar ávöxtun sparifjár er neikvæð eins og nú gerist, er ekki nema von að eldri borgarar reyni að forða sér undan ofursköttunum, því til viðbótar skattabrjálæðinu á sparifé, skerða "vaxtatekjurnar" lífeyri þeirra frá Tryggingastofnun, þannig að skatturinn fer í raun yfir 100%.

 

Í fréttinni er haft eftir Jónu Valgerði m.a:  "Ég hefði ætlað að ríkisstjórnin legði metnað sinn í að stuðla að auknum sparnaði. Sú hækkun á fjármagnstekjuskatti sem þarna er rætt um myndi draga úr áhuga fólks á sparnaði. Það myndi jafnframt færast í vöxt að fólk tæki út fé og setti inn á bankahólf. Margir eldri borgarar horfa þegar fram á rýrnun sparifjár síns vegna verðbólgunnar."

Hér á landi er orðið "fjármagnseigandi" nánast orðið að skammaryrði og lagt að jöfnu við orðið "glæpamaður", þó sparnaður sé undirstaða útlána bankakerfisins og þar með afl þeirra hluta sem gera þarf í hverju þjóðfélagi.

Annarsstaðar en á Íslandi er hvatt til sparnaðar og almenningur í öðrum löndum telur það sjálfum sér til mikils ágætis að vera flokkaður sem "fjármagnseigandi" og eiga með því von um betri daga á efri árum.

"Norræna velferðarstjórnin" á Íslandi er á góðri leið með að jafna örbirgð jafnt á alla landsmenn. 


mbl.is Eldri borgarar taka út peninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litháar styðja fullveldisafsal Íslendinga

Forseti Litháen er í opinberri heimsókn hér á landi í tilefni af því að Ísland var fyrst landa til að viðurkenna sjálfstæði Litháen fyrir 20 árum.

Frúin er þó ekki smekklegri en það í heimsókn sinni að hún leyfir sér að nota tækifærið til að óska eftir innlimun Íslands, sem útnárahrepps, í ESB og að frá því verði gengið formlega árið 2013, þegar Litháar sitja í forsæti í hinu væntanlega stórríki Evrópu.

Þessi lítt kurteisi gestur mun reyndar hafa rætt málin á þeim nótum að frágangur innlimunarinnar væri nánast formsatriði, því ESB væri þegar búið að fá loforð Össurar og félaga fyrir afsali fullveldisins, sem þjóðin barðist fyrir áratugum saman langt fram eftir síðustu öld.

Einhver gestgjafa frúarinnar hefði átt að sýna meiri kurteysi en hún sjálf, með því að útskýra fyrir henni að meirihluti íslensku þjóðarinnar sé algerlega andvígur ESBinnlimun og að hún muni aldrei verða samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Einnig hefði verið ástæða til að fara þess á leit við hana, að hún beitti sér fyrir stöðvun innlimunarferilsins og gert Íslendinga þar með sáttari við hana sjálfa og heimsókn hennar.


mbl.is Ísland gangi í ESB árið 2013
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Elsku Breivik"

Fjöldamorðingjanum Anders Breivik berst fjöldinn allur af ástarbréfum í fangelsið frá konum víðs vegar úr heiminum og munu sumar vilja sýna honum móðurlega ástúð og aðrar að tjá honum kristilegan kærleika með ást sinni.

Breivik fær þó ekki að njóta þessarar ástleitni, þar sem hann situr í einangrun og fær hvorki ástarbréfin, né hatursbréf sem honum berast líka, og hvað þá að þessar ástsjúku konur fái að heimsækja hann.

Fangelsispresturinn Kjell Arnold Nyhus segist ekkert hneykslaður á þessum ástarbréfasendingum, enda sé svo margt skrýtið fólk í heiminum.

Ekki verður nú annað sagt, en að presturinn sé afar umburðarlyndur maður, því að svona bréfaskriftir eru örugglega bæði stórfurðulegar og hneykslanlegar í hugum flestra annarra.

Kristilegu kærleiksblómin spretta þó greinilega víða, þó þau geri það ekki á þessari bloggsíðu vegna svona perraskapar nokkurra kvenna.


mbl.is Breivik berast ástarbréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað tekur "vandleg íhugun" langan tíma?

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir að kauptilboð Huangs Nubo í jörðina Grímstaði á Fjöllum þarfnist "vandlegrar íhugunar" af sinni hálfu, enda þyrfti að gefa undanþágu frá Íslenskum lögum til að maður frá svo framandi landi, sem Kína er, fái að kaupa íslenska landareign.

Erlend fjárfesting er það sem einna mest skortir nú um stundir í íslenskt atvinnulíf og því ætti allur áhugi erlendra fjárfesta á eflingu ferðaþjónustunnar að vera fagnaðarefni, sem og á flestum öðrum sviðum, nema ef vera skyldi í sjávarútvegi.

Ögmundur varpar fram eftirfarandi spurningu: "Þetta þurfum við að ræða og ekki kyngja ómelt, væri okkur sama ef landið væri allt selt með þessum hætti?"  Fram að þessu hefur ríkisstjórnin verið með miklar meltingartruflanir í sambandi við allt sem snýr að atvinnuuppbyggingu í landinu og minnkun atvinnuleysisins, þannig að ekki er við öðru að búast en að langan tíma geti tekið að koma þessum bita alla leið í gegn um meltingarveg Iðnaðarráðuneytisins.

Miðað við að Kínverjar skipuleggja mál yfirleitt í áratugum er sjálfsagt hægt að reikna með að Huang Nubo hafi þolinmæði til að bíða venjubundnar meltingartruflanir stjórnsýslunnar íslensku í talsverðan tíma. 


mbl.is Þarf að fara vandlega yfir kauptilboð Huangs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálamenn verða að vinna vinnuna sína

Lagarde, forstjóri AGS, segir vaxandi hættu steðja að hagkerfi heimsins og að minnkandi möguleikar séu á að alþjóðastofnanir og ríki geti stutt við þær ríkisstjórnir sem keyri lönd sín á kaf í skuldafen.

Hún telur samt sem áður að mögulegt verði að snúa þróuninni við með samstilltu átaki ríkisstjórna og fastari tökum þeirra á ríkisfjármálunum og viðsnúningi á þeirri endalausu lánahugsun, sem tröllriðið hefur a.m.k. hinum vestræna heimi undanfarin ár, jafnt hjá ríkisstjórnum, fyrirtækjum og einstaklingum.

Augu manna beindust ekki síst að því sem Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, myndi boða á þessum fundi seðlabankastjóra í Wyoming, en fátt kemur fram í fréttinni af ræðu hans, en þó segir þetta um hans málflutning:  "Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hélt ræðu á fundinum í gær og sagði, að seðlabankinn gæti lítið gert til að örva efnahagsvöxt. Bandarískir stjórnmálaleiðtogar yrðu að grípa til aðgerða til að fjölga störfum og örva fasteignamarkað."

Vonandi taka íslenskir stjórnmálamenn þetta til sín, ekki síður en bandarískir, því ríkisstjórnin hérlenda hefur í raun barist með öllum tiltækum ráðum gegn uppbyggingu í atvinnulífinu og fjölgun starfa og nákvæmlega ekkert hefur heldur verið gert til að endurlífga fasteignamarkaðinn, sem hefur verið steindauður í þrjú ár. 

Líklega væri það allt of mikil bjartsýni að halda að íslenska ríkisstjórnin taki sönsum héðan af. Sennilega verður engin breyting á málunum fyrr en ný ríkisstjórn tekur við af þeirri sem nú situr. 


mbl.is Vaxandi hætta steðjar að hagkerfi heimsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pétur Blöndal alltaf góður

Pétur Blöndal er einn albesti þingmaður þjóðarinnar og um leið einn sá vanmetnasti, a.m.k. af pólitískum andstæðingum Sjálfstæðisflokksins. Pétur er bæði hörkuduglegur, vinnusamur, heiðarlegur og hugmyndaríkur í störfum sínum og oft langt á undan sinni samtíð í hugmyndasmðíð sinni.

Án þess að leggja endanlegt mat á nýjustu tillögur hans um að auðvelda ungu fólki að eignast sína fyrstu íbúð, eru þær allrar athygli verðar og eiga skilið alvöru umræðu, en ekki að verða afgreiddar strax út af borðinu, einungis vegna þess að þær komi ekki frá "réttum" stjórnmálamanni eða flokki.

Til lengri tíma litið er eign á íbúðarhúsi heppilegri en leiga, því með tíð og tíma myndast eigið fé í fasteigninni, sem síðan gengur áfram til næstu kynslóðar. Eignamyndun í fasteign er vænlegasta sparnaðarformið, þó stundum myndist tímabil, eins og þessi árin eftir hrun, sem verða til þess að minnka tiltrú fólks á þessari sparnaðarleið.

Íslendingum er ekki tamt að hugsa til langrar framtíðar og vilja að hlutirnir gerist yfirleitt ekki seinna en strax og því veldur þetta óþolinmóða hugarfar því að nú er komið í tísku að halda því fram að betra sé að leigja sér húsnæði, en kaupa það, vegna þess að fólk eignast það ekki nema á löngum tíma, reyndar nokkrum áratugum.

Kínverjar hugsa hins vegar í áratugum og öldum og sem dæmi um það má nefna að kínverski fjárfestirinn sem ætlar að reisa lúxushótel og -aðstöðu á Grímstöðum sagðist ekki reikna með að sú fjárfesting færi að skila arði fyrr en eftir nokkra áratugi.

Mikið má læra af árþúsunda reynslu Kínverja og sama má segja um ýmsar góðar hugmyndir Péturs Blöndals.


mbl.is Hjálpi ungu fólki að kaupa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margur verður af aurum api

Alltaf er hægt að kætast þegar fréttir berast af fólki, sem auðgast hefur af dugnaði sínum, útsjónarsemi og viðskiptaviti.

Jafn dapurlegt er að lesa fréttir af fólki, sem berst mikið á og notar aðallega til þess annarra manna fé og lánsfé sem jafnvel er aldrei endurgreitt.

Ekki skal lagður dómur á í hvorn flokkinn Björgólfur Thor fellur, en a.m.k. er vitað að hann þurfti að gera nauðasamninga, eða ígildi þeirra, við alla sína lánadrottna eftir bankahrun og sagðist þá ætla að borga "allar sínar skuldir", en ekki er víst að það eigi við um öll þau fyrirtæki sem hann "átti" fyrir hrun, a.m.k. ekki Landsbankann gamla.

Þegar vafi leikur á "ríkidæminu" ættu menn að hafa vit á að slá ekki of mikið um sig og spila sig stærri og meiri en tilefni er til.


mbl.is Björgólfur Thor enn umsvifamikill
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband