Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Landvinningar Kínverja hafnir - kínversku í grunnskólana

"Innrás" Kínverja er hafin. Einn ríkasti maður Kína, Huang Nobu, hefur keypt Grímsstaði á Fjöllum og ætlar að breyta öræfunum í golfvöll með lúxushóteli við 18. holuna.

Þar næst ætlar Huang Nobu að reisa útibú frá Grímstaðahótelinu í Reykjavík og bæta svo væntanlega við sig smám saman, þangað til hann verður orðinn ráðandi í ferðaþjónustu landsins. Ekki mun skorta fjármagn til þessara hluta, enda allt atvinnu- og efnahagslíf Íslands varla á við meðalfyrirtæki í Kína, því þar í landi munu fyrirtæki með þrjúhundruðþúsund starfsmenn ekki vera óalgeng.

Allri erlendri fjárfestingu í atvinnulífi landsins ber að fagna og ekki síður kínverskri fjárfestingu en annarri, enda mun Kína verða næsta heimsveldi sem ráða mun gangi mála í veröldinni og hvort það verður á þessari öld eða þeirri næstu mun ekki ræna Kínverja svefni, enda skipuleggja þeir í hálfum og heilum öldum, á meðan stjórnendur á vesturlöndum sjá alls ekki lengra en fjögur ár fram í tímann.

Hér hefur áður verið bent á að tímabært sé orðið að hefja kennslu í kínversku, sem skyldufag, í grunnskólum landsins. Ástæða er til að ítreka það af þessu tilefni.


mbl.is Tugmilljarða fjárfesting á Fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aga- og virðingarleysi

Aðsúgur unglinga að lögreglumönnum við verslun 10-11 við Langarima í Grafarvogi í gærkvöldi er enn eitt dæmið um það aga- og virðingarleysi, sem sífellt virðist aukast í þjóðfélaginu.

Virðing fyrir verðmætum, sérstaklega verðmætum annarra, fer minnkandi og virðast sumir telja bæði sjálfsagt og eðlilegt að útkrota og skemma á annan hátt, það sem á vegi þeirra verður hverju sinni. Einnig finnst sumum lítið tiltökumál að leggja hald á ýmsa hluti sem öðrum tilheyra og þykir ekki nema sjálfsagt að brjótast inn á heimili fólks í þeim tilgangi að taka eigur þess traustataki.

Þá virðist það þykja sjálfsagt, hjá ákveðnum hópum, að óhlýðnast og jafnvel veitast að lögreglumönnum sem eru að sinna skyldustörfum sínum við að halda uppi röð og reglu í þjóðfélaginu. Eins þykir mörgum tilhlíðilegt að níða og rægja dómstóla landsins og gera alla mögulega og ómögulega úrskurði þeirra tortryggilega og væna dómara um þjónkun við hagsmunasamtöð, ríkið og jafnvel glæpagengi.

Þessari þróun verður að snúa við áður en virkilega illa fer.


mbl.is Gerðu aðsúg að lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markmiðið getur ekki verið að rýra lífskjör í landinu

Lífskjör Íslendinga versnuðu til mikilla muna í bankahruninu árið 2008 og afar hægt og illa hefur gengið að koma efnahags- og atvinnulífinu af stað aftur, þannig að hagur almennings hefur verið á stöðugri niðurleið síðustu misseri.

Brátt kemur Alþingi saman á ný og mun þá væntanlega taka til umfjöllunar "stóra kvótafrumvarpið" sem frestað var afgreiðslu á í vor, en þegar frumvarpið var til umfjöllunar í þingnefnd mun ekki hafa komið ein einasta jákvæð umsögn um það frá umsagnaraðilum, sem skiluðu áliti til nefndarinnar.

Nú hefur Landsbankinn sent frá sér tilkynningu vegna frumvarpsins, þar sem segir að tap bankans og þar með eigandans, ríkissjóðs, verði allt að 25 milljarðar króna, verði frumvarpið að lögum óbreytt. Samtök atvinnulífsins, LÍÚ og Samtök fiskvinnslustöðva hafa einnig sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins og telja samþykkt frumvarpsins leiða til fjöldagjaldþrota í sjávarútvegi, gífurlegrar aukningar atvinnuleysis og stórtaps ríkisins í formi skatttekna.

Það hlýtur að vera kappsmál allra aðila, bæði innan sjávarútvegsins og stjórnvalda, að hagkvæmni aðalatvinnuvegar þjóðarinnar sé sem mestur og skili öllum aðilum, ekki síst ríkissjóði, sem mestum arði og starfsfólki til sjós og lands hæstu mögulegu tekjum.

Af því leiðir að frumvarpið hlýtur að verða endurskoðan með hagkvæmnina og hámarksarðsemi allra aðila að leiðarljósi. Allt annað væri hrein fásinna.


mbl.is Segja frumvarp leiða til fjöldagjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Evran er að hrynja" segir Greenspan.

Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, var nánast í guðatölu efnahagsveraldarinnar í sinni bankastjóratíð, þó einhverjar gagnrýnisraddir færu að heyrast vegna þeirra starfa hans, eftir að hann lét af störfum.

Í ræðu í dag hélt Greenspan því fram að evran væri að hrynja og að skuldavandi ESB stæði bandaríska hagkerfinu fyrir þrifum, enda færi um 20% útflutningsvara Bandaríkjanna til Evrópu.

Í fréttinni segir m.a: "Hann sagði helsta vandamálið það að evrópskir bankar væru að lenda í vandræðum vegna þess að þeir ættu mikið af skuldum ríkja sem væru við það að lenda í greiðsluþroti. Þá sagðist Greenspan ekki eiga von á því að Bandaríkin myndu aftur lenda í kreppu þó líkurnar á því hefðu aukist."

Talsmenn ESB vilja alls ekki viðurkenna að vandræði þeirra ríkja innan sambandsins, sem eru við það að lenda í greiðsluþroti, verði til þess að kollvarpa evrusamstarfinu, en reyndar hafa þeir verið að hörfa úr einu víginu í annað á síðustu mánuðum og æ fleiri evruríki verið að lenda í vandræðum, eða reiknað með að svo fari á næstunni.

Hvað ætli það sé helst, varðandi efnahagsvanda ESBríkja og sérstaklega evrukrísuna, sem íslenskir ESBsinnar hafa ekki heyrt um ennþá?


mbl.is „Evran er að hrynja“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimilislaus þingmaður

Guðmundur Steingrímsson virðist nýbúinn að uppgötva að hann eigi enga samleið með Framsóknarflokknum, en áður var hann félagi í Samfylkingunni og uppgötvaði rétt fyrir síðustu þingkosningar að þar ætti hann ekki heima heldur.

Guðmundur hefur ekki fundið neitt nýtt pólitískt heimili, en segist ætla að reyna að finna nýtt heimili fyrir sig og aðra heimilislausa stjórnmálamenn og vonast reyndar til þess að eitthvert góðhjartað fólk sé tilbúið til þess að skjóta yfir þá skjólshúsi.

Flestir aðrir en Guðmundur sjálfur hafa fyrir löngu uppgötvað að hann hafi verið eins og hver önnur boðflenna á Framsóknarheimilinu og ekki átt neina samleið með heimilisfólki þar, nema ef vera skyldi Sif Friðleifsdóttur, sem einnig hefur verið hálfutangátta þar á bæ.

Helsta áhugamál Guðmundar er að innlima Ísland sem útnárahrepp í væntanlegt stórríki ESB og ekki munu vera margir samhuga honum í því efni utan Samfylkingarinnar.

Hugsi Guðmundur sér og jafnvel einhverjir fleiri með honum, að stofna nýjan stjórnmálaflokk og bjóða fram til Alþingis, hlýtur þeirra aðalbarátta að snúast um að reyta fylgið af Samfylkingunni.

Aðrir munu varla laðast að þessum hugsanlega væntanlega flokki.


mbl.is „Á ekki lengur heima í Framsókn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsing eða ljósaflóð?

Glerlistaverk Ólafs Elíassonar utan á tónlistarhúsinu Hörpu var sýnt í sinni endanlegu og fullsköpuðu mynd í gærkvöldi.

Margir virðast hafa reiknað með einhverri stórkostlegri ljósasýningu og urðu því fyrir vonbrigðum vegna þess að þegar til kom, var lýsingin hófleg en gaf þó húsinu fallegan svip í kvöldrökkrinu.

Það vill oft brenna við að ýmsir hafi annað álit en listamaðurinn sjálfur á því hvernig listaverk eigi að líta út og því skapast oft hatrammar deilur um einstök verk og má t.d. benda á Vatnsberann því til sönnunar, en um þá styttu urðu harðar deilur á sínum tíma og lenti hún í hálfgerðri útlegð áratugum saman vegna deilnanna um hana í upphafi.

Glerhjúpurinn á Hörpu er sköpunarverk Ólafs Elíassonar og alfarið hans að ákveða útlit þess. Um það má svo deila næstu áratugina hvort það hefði átt að vera eins og það er, eða einhvern veginn allt öðruvísi.


mbl.is Glerhjúpur Hörpu tendraður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ömurlegur málflutningur HH

Það er hreint ömurlegt að fylgjast með málflutningi Hagsmunasamtaka Heimilanna í baráttunni gegn verðbótum húsnæðislána. Ekkert er við því að segja að fólk sé á móti verðtryggingu lána og vilji heldur óverðtryggð lán með háum breytilegum vöxtum.

Ekkert er heldur við því að segja að fólk sé á móti jafngreiðslulánum, sem eru með jafnri greiðslubyrði út lánstímann og vilji heldur lán með jöfnum afborgunum, sem eru með mjög þungri greiðslubyrði til að byrja með, en smálækkandi eftir því sem líður á lánstímann.

Hins vegar er ömurlegt að fylgjast með þeirri baráttuaðferð HH að falsa útreikninga á húsnæðislánum og hreinlega ljúga til um aðferðir við verðbætingu lánanna. HH heldur því fram að verðbætur séu lagðar við höfuðstól lánanna mánaðarlega og síðan séu þær verðbættar með höfuðstólnum við næstu mánaðarmót og svo koll af kolli út lánstímann.

Þrátt fyrir að verkfræðingar, stærðfræðingar, tryggingastæðrfræðingar og aðrir sem bæði skilja lánsformið og kunna að reikna, bendi á lygarnar og falsanirnar, halda hagsmunasamtökin áfram að veifa sínum fölsuðu rökum og neita staðfastlega að um lygar og blekkingar sé að ræða af sinni hálfu.

Svona málflutningur fólks, sem vill láta taka sig alvarlega, er ekki mönnum bjóðandi.


mbl.is Hagsmunasamtökin standa við útreikninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æsifréttamennska Stöðvar 2

Sá sjaldgæfi atburður gerðist í gær að foreldrar gleymdu barni sínu í bílstól á gangstétt við íbúðarhús sitt þegar þau voru að búast til blaðburðar og höfðu lagt stólinn frá sér á meðan dagblöðunum var hlaðið í bílinn.

Barnið var vel haldið, vel klætt og svaf vært í stólnum sínum, þannig að í sjálfu sér var barnið ekki í neinni lífshættu, enda alsiða hér á landi að láta smábörn sofa úti. Þarna var því eingöngu um mannleg mistök að ræða, sem alla getur hent þegar röð tilviljana eða óhappa henda hvern sem er við ólíklegustu aðstæður.

Í Mogganum er eftirfarandi haft eftir Sigrúnu Hv. Magnúsdóttur, yfirfélagsráðgjafa Setljarnarness: "Ekkert bendi til vanrækslu heldur hafi aðeins verið um stakt atvik að ræða vegna sérstakra aðstæðna. „Það er bara hræðilegt að þetta skyldi hafa komið fyrir og ef einhverjir eru í áfalli þá eru það foreldrarnir,“ segir Sigrún. Ekki þykir tilefni til frekari eftirmála."

Ömurlegt var að fylgjst með fréttaflutningi Stöðvar 2 af þessu máli, en þar var atvikið sett upp í miklum æsifréttastíl og reynt að gera mikinn harmleik úr því og því meira að segja logið að barnið hafi grátið mikið og verið nánast óhuggandi, þegar staðreyndin var sú að ekki heyrðist í því og það svaf rólega og vært.

Þessi fréttaflutningur er enn ein staðfesting á því að engum fréttum er treystandi frá þessum miðli. 

 


mbl.is Áfallið er mest fyrir foreldrana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dalalíf, Löggulíf, Nýtt líf og Ríkisstjórnarlíf

Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, sveiflar ennþá böðulsexinni yfir ríkisstjórninni og hótar að láta höggið ríða, verði ekki látið að kröfum hans um nýtt lif fyrir Kvikmyndaskóla Íslands. Skólinn virðist ekki eiga sér von um neitt framhaldslíf, vegna ofsókna og eineltir Menntamálaráðuneytisins, eftir því sem Þráinn segir.

Ráðuneytið telur að skólinn sé ekki rekstrarhæfur, væntanlega vegna lélegs rekstrar á undanförnum árum og Ríkisendurskoðun tekur undir þá skoðun. Það segir Þráinn að sé "„einstaklega ruddaleg aðgerð“ að siga Ríkisendurskoðun á skólann við þær aðstæður sem uppi séu," eins og haft er eftir honum í fréttinni.

Ráðuneytið og ráðherra í barneignaleyfi fá sinn skammt frá þessum líflega þingmanni:  "„Mér finnst þetta bara vera ótrúlega sorglegt mál. Og sorglegast af öllu þessu finnst mér vera að það sé fólk úr mínum flokki sem á að stjórna þessu ráðuneyti. Ég hélt að það væri áhugi á menningu í þessum flokki,“ segir Þráinn og kennir um skrifræði í menntamálaráðuneytinu og aðgerðaleysi menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur."

Næsta kvikmynd Þráins hlýtur að fá nafnið "Ríkisstjórnarlíf", þ.e.a.s. ef hann tekur hana ekki sjálfur af lífi. 


mbl.is Stendur við fyrri yfirlýsingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru ESBsinnar með lokuð skilningarvit?

Jacques Delors, fyrrverandi framkvæmdastjóri ESB, heldur því fram að ESB og evran séu á brún hengiflugs og eina leiðin til að koma í veg fyrir að hvorutveggja detti ofan í hyldýpið sé að ríkin framselji ennþá meira af fullveldi sínu til Brussel.

Ástæða er til að benda íslenskum ESBsinnum sérstaklega á þessa málsgrein fréttarinnar: ""Opnið augun ykkar, evran og ESB standa á brún hengiflugs," segir Delors í viðtalinu. Hann gefur ekkert fyrir nýlegar yfirlýsingar Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseta, um samræmingu á stjórn efnahagsmála innan evrusvæðisins og segir að þær muni ekki róa markaðinn."

Delors er enn einn af núverandi og fyrrverandi framámönnum ESB sem viðurkenna þessa erfiðleika sambandsins og gjaldmiðilsins og eru sammála um að a.m.k. evran standist ekki til frambúðar, nema með einni fjárhagslegri yfirstjórn, sem að sjálfsögðu er í Brussel.  Á mannamáli þýðir þetta auðvitað að hvert ESBríki verði svipt fjárræði og fjárhaldsmenn þeirra verði kanslari Þýskalands og forseti Frakklands, hverjir svo sem gegni þeim embættum hverju sinni.

Hvað af röksemdum þessara forystumanna ESB skyldu það helst vera sem íslenskir ESBsinnar skilja ekki?

Getur það verið að þeir séu með augu, eyru og önnur skilningarvit algerlega lokuð? 


mbl.is Delors: ESB á barmi hengiflugs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband