Bloggfærslur mánaðarins, júní 2015

Skuldir fylgja tekjum skuldarans

Fjármálaráðherra lagði í dag fram skýrslu um framkvæmd lækkunar höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána, sem framkvæmd var samkvæmt stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.

Skuldaleiðréttingin var hlutfallsleg miðað við húsnæðisskuldir og komu tekjur og eignir skuldarans á engan hátt inn í þá útreikninga.

Þrátt fyrir það virðist úttekt fjármálaráðuneytisins skipta skuldurunum niður í tekjuhópa, enda slá fréttamiðlar því upp eins og einhverju aðalatriði að eignamikið fólk hafi fengið skuldalækkun eins og aðrir skuldarar.  Tekjurnar komu málinu alls ekkert við og þó segja megi að tekjuháa fólkið hefði haft efni á því að sleppa því að taka við þessari c.a. einu og hálfu milljón í skuldalækkun, þá hefur þetta fólk margt hvert einmitt orðið ríkt á því að passa vel upp á að fá allt sem það hefur átt rétt á og sumir jafnvel krækt í eitthvað umfram það.

Burtséð frá því er orðalagið á skýrslunni sem greinilega er samin af grónum og gegnum embættismönnum ráðuneytisins stórfyndin vegna orðskrúðs og málalenginga sem engu bæta við fyrir lesandann öðru en því að vera lengur að kemba í gegn um torfið.  Eftirfarandi málsgrein er gott dæmi um þetta:

 „Tvær meg­in­skýr­ing­ar eru á mis­mun á upp­hæð lækk­un­ar höfuðstóls eft­ir þjóðfé­lags­hóp­um, fjöl­skyldu­stærð, bú­setu, aldri og tekj­um. Ann­ars veg­ar er íbúðaskuld mis­mun­andi eft­ir þess­um þátt­um, hinir tekju­hærri skulda að jafnaði meira en fjöl­skyld­ur með lægri tekj­ur, hinir eldri minna en þeir sem yngri eru, stór­ar fjöl­skyld­ur skulda meira en hinar minni og íbú­ar lands­byggðar­inn­ar skulda lægri upp­hæðir en þeir sem búa á höfuðborg­ar­svæðinu vegna lægra íbúðaverðs. Hins veg­ar er lækk­un höfuðstóls mis­mun­andi eft­ir því hvaða fyrri úrræði íbúðar­eig­end­ur höfðu nýtt sér. Að þessu slepptu er eðli höfuðstóls­lækk­un­ar­inn­ar það að sama upp­hæð skuld­ar fékk sömu lækk­un höfuðstóls.“

Af allri þessari langloku segir síðasta setningin það sem segja þarf og allt hitt málskrúðið algerlega óþarft.


mbl.is Tekjuhæstu fengu 1,5 milljarðs lækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundur sem þolir ekki Útsvar í sjónvarpinu

Síðast liðinn vetur var spurningaþátturinn Útsvar vikulega á dagskrá sjónvarpsins og þar áttust fulltrúar sveitarfélaganna í landinu við og lauk vetrinum með sigri liðs Reykjavíkur.  Þetta er auðvitað alkunnugt, enda höfðu landsmenn gaman af keppninni og áhorf á þættina var mikið, gott ef þetta var ekki eitt vinsælasta sjónvarpsefni vetrarins.

Á heimili þess sem hér bloggar er hundur, blanda af Border Collie og einhverri annarri tegund, og að sjálfsögðu er farið með hann í gönguferðir daglega og hann sinnir þörfum náttúrunnar í þeim ferðum og að sjálfsögðu er það sem hann lætur frá sér í föstu formi alltaf hirt upp eftir hann samviskusamlega.  Border Collie eru taldir skynsamastir allra hunda og er það ekki dregið í efa eftir sambúð með þessum í rúm sjö ár.

Einstaka sinnum krafðist hundurinn þess í vetur að draga bloggarann út að kvöldi til og þegar á leið uppgötvaðist að slíkt gerðist eingöngu á föstudagskvöldum og þá nánast um leið og Útsvarið byrjaði í sjónvarpinu.  Þegar betur var farið að fylgjast með þessu, kom í ljós að það brást aldrei að hundurinn heimtaði að fara út þegar þátturinn byrjaði, en þetta er hundur sem kann að tjá sig á ýmsan hátt og ekki hægt að misskilja neitt þegar hann heimtar að komast út.

Aldrei kom fyrir að hundurinn brygðist eins við þegar annað efni var í sjónvarpinu, hvorki íslenskir né erlendir þættir.  Í tvær vikur gistum við með hundinn norður í landi og þá gátum við sannað þessi viðbrögð hundsins með því að tilkynna húsráðendum fyrirfram hvernig hann myndi bregðast við og auðvitað gekk það allt eftir eins og sagt hafði verið.

Eftir að Útsvari lauk í vor hafði ekkert verið um að hundurinn gæfi til kynna að hann vildi komast út að kvöldi til þangað til í gærkvöldi að aukaþáttur af Útsvari/Gettu betur var sýndur.  Þá brást hundurinn hinn versti við og lét öllum illum látum, bæði með hreyfingum og hljóðum og "heimtaði" umsvifalaust að komast út.  Þar sem nýbúið var að fara með hann í gönguferð og hann þar með nýbúinn að gera stykkin sín, var algerlega útilokað að náttúran væri að kalla á slíkt.

Hvað sem veldur, er alveg öruggt að eitthvað er við Útsvar í RÚV sem fer afar illa í þennan hund:

2015-06-27 20.52.08


Afleikur ríkisins vegna laganna á hjúrkrunarfræðingana?

Alþingi setti nýlega lög sem stöðvuðu verkfall hjúkrunarfræðinga og skyldi gerðardómur ákveða laun þeirra ef ekki heði verið búið að skrifa undir nýjan kjarasamning fyrir 1. júlí 2015.

Samninganefnd hjúkrunarfræðinga rak strax augun í orðalagið að gerðadómur yrði skipaður ef ekki hefði verið búið að SKRIFA undir kjarasamninginn, en ekkert ákvæði var um það í lögunum að skilyrði væri að hjúkrunarfræðingar myndu samþykkja það sem undirritað væri.

Þetta kemur fram hjá Ólafi G. Skúlasyni, formanni Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í viðhangandi frétt, t.d. í eftirfarandi orðum:  "Ólaf­ur tel­ur að skil­yrði fyr­ir skip­un gerðadóms hafi því brostið þegar FÍH og ríkið hafi skrifað und­ir kjara­samn­ing. Í lög­un­um er ekki gerð krafa um að samn­ing­ur­inn sé samþykkt­ur af fé­lags­mönn­um FÍH."

Líklega geta hjúkrunarfræðingar ekki boðað verkfall á ný, en ef samningurinn verður felldur í atkvæðagreiðslu mun allt málið lenda í stórum hnút, þar sem aðilar munu verða að setjast að samningaborði á ný án þess að staðan gefi nokkrar væntingar um að nokkuð meira munu nást út úr nýjum viðræðum aðilanna.

Furðuleg er sú vanhæfni þeirra embættismanna sem lagafrumvarpið sömdu að skila frá sér svo illa orðuðu skjali og ekki síður þingmannanna að lesa plaggið ekki betur eða skilja ekki það sem þeir voru að samþykkja.

Hvernig sem á allt er litið verður ekki annað séð en að hjúkrunarfræðingar geti komið viðsemjanda sínum í töluverðan bobba, verði kjarasamningurinn felldur í atkvæðagreiðslunni sem framundan er.


mbl.is Skilyrði skipunar gerðardóms brostin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er evran að syngja sitt síðasta?

Norman Lamont, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, segist hafa orðið þeirra forréttinda aðnjótandi að semja um undanþágu Bretlands frá evrunni árið 1991.  

Segist hann hafa, ásamt mörgum öðrum, séð það fyrir að upptaka evru væru stórkostleg mistök, enda byggð á pólitík en ekki hagfræði.

Undarlega lítið hefur heyrst í íslenskum ESBsinnum undanfarna mánuði, enda sífellt betur að koma í ljós hvílík mistök væru fyrir landið að innlimast í bandalagið, að ekki sé minnst á skelfinguna sem myndi fylgja upptöku evrunnar.

Efnahagshörmungarnar sem evran hefur valdið mörgum fátækari ríkjum Evrópu eru augljósastar í Grikklandi, en jafnvel þó ekki sé líklega hægt að kenna evrunni alfarið um efnahagnsvanda Grikkja þá eykur hún a.m.k. vandann við að leysa úr efnahagskrísunni.

Þessi umræða um evruna og vandræðin vegna hennar hefur farið fram í mörg ár án þess að pótintátar ESB hafi viljað viðurkenna þau, en á meðan hefur vandinn einungis vaxið og stefnir í hreina upplausn með tilheyrandi vandræðum.

Í apríl árið 2010 urðu fjörugar umræður á þessari bloggsíðu um þetta efni og má sjá þær hérna:  http://axelaxelsson.blog.is/blog/axelaxelsson/entry/1046381/

(sverta þarf netaðgangslínuna, hægri smella á músina og smella síðan á síðuaðganginn)


mbl.is „Evran var dauðadæmd frá upphafi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðið og lýðveldisafmælið fótum troðið

Einhver hópur hefur rottað sig saman á Facebook og sammælst um að fjölmenna á Austurvöll í fyrramálið, 17. júní, og eyðileggja þá virðulegu hefð að leggja blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar, í tilefni af lýðveldisstofnuninni þann dag árið 1944.

Annað markmið hópsins er að öskra og veifa spjöldum með kröfum um að ríkisstjórnin segi af sér, eða verði sett af ella.  Ekki er vitað hverja þessir æsingaseggir ætla að setja í ríkisstjórnarstólana ef áætlanir þeirra ganga eftir.

Einkennilegt er að fólk sem aðhyllist skoðanir sem taldar eru til vinstri í stjórnmálum skilja ekki eðli lýðræðisins, en í öllum siðmenntuðum þjóðfélögum ræður vilji meirihluta þjóðarinnar sem fram kemur í kosningum hverju sinni. Núverandi stjórnarflokkar fengu góðan meirihluta í Alþingiskosningum fyrir rúmum tveim árum og hafa fullt umboð kjósenda til að stjórna í tvö ár til viðbótar.

Það er nánast ótrúlegt að óeirðaseggir skuli ætla að fótum troða bæði lýðræðið sjálft og hefðbundin hátíðahöld í minningu þeirra sem börðust fyrir lýðveldinu á Íslandi, sem endaði síðan með stofnun þess á Þingvöllum árið 1944.

Allir siðaðir Íslendingar hljóta að fordæma svona óhæfu á þessum degi.


mbl.is „Samfélagsmiðlar hafa breytt mótmælum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óboðleg forysta

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, viðurkennir að forystu bandalagsins hafi verið fullljóst að ekki myndu nást kjarasamningar fyrir opinbera starfsmenn fyrr en eftir að samið hefði verið á almennum vinnumarkaði.

Samt stefndi BHM sínum félagsmönnum í verkfall fyrir tíu vikum og lamaði þar með nánast allt samfélagið og verður því ekki annað séð en að tilgangur verkfallsins hafi eingöngu verið sá að reyna að klekkja á ríkisstjórninni en ekki til að ná fram kjarasamningi.

Nú þykist Þórunn vera yfir sig hneyksluð á lagasetningu ríkisstjórnarinnar um Kjaradóm vegna deilunnar við opinberu starfsmennina, sem alls ekki hafa verið til viðræðna um sambærilega saminga og aðrir hafa gert, en í þeim samningum var höfuðáhersla lögð á hækkun lægstu launa en þeir betur launuðu fengu minna.

Einnig fer Þórunn mikinn vegna lagasetningarinnar þó hún hafi sjálf samþykkt svipuð lög þegar hún var þingmaður, en afsakar það með því að þá hafi aðstæður verið þannig að flug myndi leggjast niður og landið þar með lokast.

Nú hefur hún minni áhyggjur af því að sjúkrahús landsins séu nánast lokuð eins og margar aðrar opinberar stofnanir.


mbl.is Studdi lagasetningu fyrir 5 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. þolir ekki gagnrýni á sjálfan sig

Steingrímur J. fór mikinn í ræðustóli Alþingis í dag vegna þess að Jón Gunnarsson, þingmaður, hafði leyft sér að gagnrýna hann fyrir tvískinnung í stóriðjumálum.

Steingrímur J. gerði samninga um skattaafslætti og aðra aðkomu ríkisins að uppbyggingu kísilvers við Húsavík, sem reyndar virðast hafa verið illa undirbúnir þar sem kostnaður sem falla mun á ríkið mun hafa verið vanreiknaður um tæpa tvo milljarða króna.

Hins vegar gera Steingrímur J. og félagar allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir stóriðjuuppbyggingu á Grundartanga og í Helguvík og það var einmitt það sem Jón Gunnarsson dirfðist að gagnrýna Steingrím fyrir.

Eins og áður sagði brást Steingrímur J. ókvæða við gagnrýninni og hótar að hefna sín á Jóni þó síðar verði.  Þessi viðkvæmni er ótrúleg í ljósi þess að Steingrímur J. er einmitt einn stóryrtasti þingmaðurinn sem nú situr á Alþingi og hefur ekki vílað fyrir sér að ausa aðra þingmenn óbótaskömmum og svívirðingum þegar honum hefur svo boðið við að horfa.

Enginn þingmaður hefur gengið eins langt í ofstækinu og einmitt Steingrímur J. og fólki er enn í fersku minni þegar hann sló Geir Haarde, forsætisráðherra, þegar Steingrímur gekk úr ræðustóli og fram hjá ráðherranum eftir eina skapofsadembuna sem hann jós yfir þingheim.

Greinilega þola illyrtir skapofsamenn ekki mikla gagnrýni á sjálfa sig.


mbl.is Steingrímur: „Ekki boðlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir vildu Lilju kveðið hafa

Ríkisstjórnin kynnti í dag stórkostlega áætlun um afnám gjaldeyrishafta, sem leiða munu til 800-900 milljarða króna lækkun skulda ríkissjóðs en þessi fjárhæð mun fást frá slitabúum gömlu bankanna annaðhvort með samþykki búanna eða skattlagningu.

Slík lækkun skulda mun spara ríkissjóði a.m.k. 45 milljarða í vaxtagreiðslur á ári hverju og sjá allir hvílíkur happafengur slík lækkun er, en í samanburði má geta þess að áætlaður byggingakostnaður nýs landspítala verði 50 - 60 milljarðar króna.

Viðbrögð stjórnarandstöðunnar eru athyglisverð, en fulltrúar allra flokka hennar þykjast nú hafa fundið upp og lagt til þessa aðferð við frágang slitabúa bankanna, þó ekkert hafi gerst í þessum málum á fjögurra ára ríkisstjórnartíma Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Lilja Mósesdóttir hefur marg oft skýrt frá því að hún hafi lagt til að slitabúin yrðu skattlögð í þessa veru strax á árinu 2008 en vinstri stjórnin hafi hafnað öllum hennar tillögum um þetta eins og reyndar öllu öðru sem hún lagði til málanna varðandi efnahagsráðstafanir.

Gangi tillögur og áætlanir ríkisstjórnarinnar eftir verður um að ræða mesta snilldarverk íslenskra efnahagsmála frá lýðveldisstofnun.


mbl.is Lækkar skuldir ríkissjóðs um 30%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bringan beruð á Austurvelli í þágu hugarfarsbreytingar

Þann 13. júní n.k. verður framin óvenjuleg bylting á Austurvelli, en þá munu konur frelsa geirvörtur sínar í eitt skipti fyrir öll og munu væntanlega í framhaldi af því ganga um götur og torg berar að ofan þegar þeim sýnist.

Uppákoman kemur þeim nokkuð á óvart, sem undanfarna áratugi hafa stundað sólarlandaferðir og jafnvel bara sundlaugarnar í Reykjavík að sumarlagi, en á þeim stöðum hefur kvenfólk verið ófeimið við að liggja í sólbaði bert að ofan og sumstaðar jafnvel allsnaktar.

Brjóstabyltingin á Austurvelli hefur þó þann æðri tilgang að útrýma hefndarklámi, sem oft hefur falist í því að birta myndir af fyrrverandi kærustum eða vinkonum mismunandi mikið nöktum á Internetinu í einhverjum hefndartilgangi og til að lítillækka stúlkurnar.

Auðvitað á það að vera sjálfsagt mál að konur geti í góðu veðri gengið um eins klæðalitlar og karlmenn gera án þess að mál sé úr því gert og ef þessar aðgerðir verða til þess að ungar stúlkur hætti að vera feimnar vegna líkama síns og ekki síður ef tilgangi hefndarklámsins verði útrýmt, þá er svona bylting eingöngu af hinu góða.

Vonandi hefur karlpeningurinn vit til að styðja kvenfólkið í þessari byltingu og þeir eldri reyni að kenna þeim yngri almenna mannasiði í umgengni við konur.


mbl.is Geirvörturnar frelsaðar á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ef þetta hefði verið voðaskot?

Sérsveit lögreglunnar var með mikinn viðbúnað við fjölbýlishús í Hlíðarhjalla í Kópavogi í gær eftir að þrjár tilkynningar bárust um að heyrst hefði skothvellur frá íbúð í húsinu.

Stutt er síðan sérsveitin átti í höggi við sjúkan byssumann sem endaði með þeim skelfilegu afleiðingum að hann varð fyrir skoti sérsveitarmanns og lést. 

Í því ljósi er skiljanlegt að sérsveitin hafi farið að öllu með gát í gær, en umsátur var um húsið í sex klukkustundir án þess að nokkurs umgangs hafi orðið í íbúðinni og hvað þá að byssa hafi sést og enginn svaraði í síma eða hringingum á dyrabjöllu allan þann tíma.

Að þessu langa umsátri loknu komst lögreglan að því að íbúinn var alls ekki heima og hafði ekki verið talsverðan tíma og alls ekki þegar meintur skothvellur átti að hafa hrellt íbúa hússins.  Enginn veit ennþá hvaða hvellur olli þessu uppnámi og gæti líklega eins hafa verið hurðarskellur vegna trekks í einhverri íbúð hússins, eða jafnvel nálærga húsa.

Ef þarna hefði verið um raunverulegan skothvell að ræða og engrar hreyfingar hefði orðið vart í íbúðinni á eftir hvort engum hefði dottið í hug að þarna hefði getað verið um voðaskot að ræða og einhver lægi stórslasaður og bjargarlaus inni í íbúðinni og gæti alls ekki svarað síma og hvað þá opnað útidyrnar.

Í slíku tilfelli hefði það getað skilið milli lífs og dauða að bíða með þungvopnað lið í sex klukkustundir fyrir utan húsið.


mbl.is Var þetta skothvellur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband