Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Banna fuglaveiðar til að semja svo um þær við ESB?

Enn einn ótrúlegur angi af samningum ríisstjórnarinnar um innlimun landsins í ESB er að komast í dagsljósið, en það er hugmynd Svandísar Svavarsdóttur um fuglaveiðibann í þeim tilgangi að setja inn í innlimunarsamninginn að Íslendingum verði frjálst að leyfa fuglaveiðar í trássi við reglur stórríkisins.

Svandís ber því reyndar við að hún vilji friða blessaða fuglana frá veiðimönnum vegna þess að ýmsir fuglastofnar séu að svelta í hel vegna ætisskorts og verður það að teljast furðuleg umhyggja fyrir skepnunum að vilja forða þeim veiðimönnum til þess eins að drepast svo úr hor.

Innlimunarruglið tekur sífellt á sig furðulegri myndir.


mbl.is Stjórni áfram svartfuglsveiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin í stríði við þjóðina

Enn ein skoðanakönnunin staðfestir að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar eru algerlega andvígir innlimun Íslands í væntanlegt stórríki ESB og aðeins þriðjungur gæti hugsað sér að afsala fullveldi landsins í hendur erlends valds.

Þessi síðasta könnun sýnir einnig að þeir sem eru andvígir innlimunninni eru mun ákveðnari í afstöðu sinni og ólíklegri til að skipta um skoðun en hinir, sem minna er annt um fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar.

Stuðningsmenn allra flokka, annarra en Samfylkingarinnar, vilja standa vörð um hag lands og þjóðar til framtíðar og þar á meðal eru kjósendur Vinstri grænna, sem láta þó Samfylkinguna teyma sig á asnaeyrunum í innlimunarferlinu.

Hvenær skyldi Samfylkingin láta af þessu stríði gegn Íslenskri þjóð og hagsmunum hennar?


mbl.is Mikill meirihluti vill ekki í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk réttarhöld - ópólitískur dómur

Ákærurnar gegn Geir H. Haarde voru pólitískur skollaleikur sem byggðist á hatri og hefndarhug andstæðinga hans og Sjálfstæðisflokksins á Alþingi og til þess hugsaðar að reyna að niðurlægja formamann flokksins og skaða flokkinn sjálfan til framtíðar.

Allur undirbúningur málsins og meðferð fyrir Alþingi byggðist ekki á neinu öðru en illvilja þeirra þingmanna sem að því stóðu og hatri þeirra og ofstæki á pólitískum andstæðingum.

Þrátt fyrir þennan pólitíska grunn málsins voru það mistök Geirs H. Haarde að segja að sektardómurinn fyrir að halda ekki sérstakan ráðherrafund um efnahagsþrengingarnar á árinu 2008 hafi litast af pólitískum áhrifum, enda dæma dómstólar landsins eingöngu eftir laganna bókstaf og það var auðvitað gert í þessu tilfelli eins og öðrum.

Yfirlýsing Geirs er þó skiljanleg í ljósi þeirra vonbrigða sem yfir hann helltust við uppkvaðningu dómsins og bættust þar með við það andlega álag sem hann hefur verið þjakaður af vegna þessara persónulegu og pólitísku árása sem hann varð að þola af hendi þrjátíuogþriggja fyrrum starfsfélaga sinna á Alþingi.

Lærdómurinn sem hlýtur að verða dreginn af þessu máli hlýtur að verða sá, að ákæruvald verði tekið af Alþingi, enda hefur það sýnt og sannað að það kann ekki með það vald að fara.


mbl.is Landsdómi ekki beitt í hefndarskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar eru prófarkalesararnir?

Íslensk málnotkun líður fyrir sífellt minni tilfinningu á tilbrigðum tungumálsins og fjölbreytileika. Þetta leiðir til notkunar færri orða og hugtaka og kennsla í málfræði virðist vera síminnkandi í íslenska skólakerfinu.

Ein afleiðing þessa er afkáraleg beyging orða og nægir þar að nefna orðin diskur og fiskur því til staðfestingar. Nú er orðið landlægt að segja "disknum" í staðinn fyrir "diskinum" og eins virðist vera að fara fyrir "fiskinum", eins og sjá má í meðfylgjandi frétt, en þar er sagt að "fisknum" hafi verið mokað um borð í báta í netarallinu.

Ef ekki eru gerðar kröfur til blaðamanna lengur um góða kunnáttu í sínu eigin tungumáli, verður a.m.k. að gera kröfur til þess að prófarkalesarar hafi hana og "ritskoði" fréttir illa talandi fréttamanna.

Líklega er orðið of seint að bjarga þessum orðum frá misþyrmingu og að fast sé að verða í málinu að fisknum sé einfaldlega leyft að rotna á disknum.


mbl.is Fisknum mokað um borð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessir þingmenn eiga að skammast sín og segja af sér

Björn Valur Gíslason, Steingrímur J. Sigfússon, Þór Saari og fleiri þingmenn hafa sýnt mikinn hroka í dag, eftir áfellisdóm Landsdóms yfir pólitískri haturs- og hefndaraðgerð 33 þingmanna á hendur Geir H. Haarde með því að ákæra hann fyrir falskar sakargiftir.  Þann hroka hafa þeir sýnt með svörum sínum við niðurstöðu Landsdóms og með því að viðurkenna ekki skömm sína vegna aðildar sinnar að málinu.

Eftirtaldir 33 þingmenn urðu sjálfum sér og Alþingi til ævarandi skammar með því að samþykkja þessa einstæðu pólitísku sakargiftir, sem vitnað mun verða til svo lengi sem land byggist sem mestu niðurlægingar löggjafarþings Íslands:

Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason, Birgitta Jónsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Björn Valur Gíslason, Eygló Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Huld Aðalbjarnardóttir, Jón Bjarnason, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Margrét Pétursdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir, Skúli Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.

Ef þessir þingmenn hafa nokkurn snefil af manndómi, þá munu þeir allir segja af sér þingmennsku strax á morgun. Það er eina leiðin til að endurvekja virðingu Alþingis eftir þennan ömurlega og skammarlega gjörning.


mbl.is Full ástæða fyrir málarekstrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað segja margir þingmenn af sér í kjölfar Landsdóms?

Ákæurnar á hendur Geir H. Haarde fyrir Landsdómi hafa frá upphafi verið þeim þingmönnum til skammar, sem svo lágt lögðust að reyna að nota dómstólinn til að ná sér niðri á pólitískum andstæðingi an hreinum hefndar- og haturshug í garð andstæðins síns í stjórnmálum.

Nú, þegar dómur hefur fallið, sannast endanlega að hér var um algerlega tilefnislausar ofsóknir að ræða, enda sýknað í öllum efnisatriðum, en sakfellt án refsingar fyrir formsatriði varðandi fyrirkomulag ríkisstjórnarfunda.  Í raun á sú sakfelling við um allar ríkisstjórnir frá því Ísland fékk fullveldi og því alls ekki áfellisdómur yfir ríkisstjórn Geirs H. Haarde, eða honum sjálfum, heldur því fyrirkomulagi sem tíðkast hefur frá upphafi í þeim efnum.

Sigurður Líndal, einn virtasti lögspekingur landsins, er á þessari skoðun en hann segir m.a. í viðtali við mbl.is:  „Dómurinn hefur sakfellt en refsar ekki, þetta fer þannig nokkuð nærri því sem ég bjóst við. Mín fyrstu viðbrögð eru þau að þetta sé að sumu leyti áfellisdómur yfir stjórnsýslunni almennt, ég held að þetta sé það sem hefur viðgengist, kemur fram í rannsóknarskýrslunni og þingmannaskýrslunni og öllu því sem hefur verið farið í saumana á."

Sakfellingin er því fyrir smávægilegt aukaatriði í ákærunum, en  sýknað var í öllum ákæruliðum, sem ekki hafði verið vísað frá dómi áður og sýnir það svart á hvítu hversu fáránlega var staðið að þessum pólitíska hráskinnaleik og þar með er dómurinn í raun gríðarlegur áfellisdómur yfir öllum þeim þingmönnum sem misnotuðu vald sitt og dómstólinn í hefndar- og ofsóknaræði sínu.

Hvað skyldu  margir þeirra axla ábyrgð sína á þessu máli með afsögn þingmennsku? 


mbl.is Áfellisdómur yfir stjórnsýslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danska ríkisstjórnin svíkur í makríldeilunni, eins og sú íslenska

Þau ótrúlegu tíðindi berast nú frá Danmörku, að fulltrúi Dana ætli að sitja hjá við afgreiðslu tillögu á vettvangi ESB um harkalegar efnahagskúganir gagnvart færeyingum og íslendingum, láti þeir ekki að vilja ESBkúgaranna með því að nánast hætta makrílveiðum í eigin landhelgi. Það verður að teljast með ólíkindum að Danir skuli sýna slíkan ræfildóm í þessu máli og reyna ekki einu sinni að lyfta litla fingri til varnar sínum eigin þegnum og lágmark hefði verið að fulltrúi þeirra greiddi atkvæði gegn fyrirhuguðum efnahagspyntingum.

Hér á landi er ríkisstjórnin við sama heygarðshornið og Danir og liggja marflatir fyrir ESB og virðast ekki þora að æmta eða skræmta, þrátt fyrir síharðnandi hótanir stórríkisins væntanlega um að gera allt sem í þess valdi stendur til að setja efnahag landsins algerlega í rúst með viðskipta- og hafnbanni.

Í meðfylgjandi frétt kemur fram stórmerkileg yfirlýsing frá Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, um afstöðu íslenskra stjórnarþingmanna gagnvart þessari stríðsyfirlýsingu ESB þar sem segir: "Katrín Jakobsdóttur sagði á Alþingi í gær (20/4): „Það er mín eindregna afstaða, og ég held ég deili henni með öllum... eða flestum háttvirtum þingmönnum, að við eigum að sjálfsögðu að vera föst fyrir þegar kemur að okkar hagsmunum og sjávarútvegsmálin eru auðvitað eitt stærsta hagsmunamál okkar..."

Katrín veit vafalaust um afstöðu einstakra ráherra og stjórnarþingmanna og á heiður skilinn fyrir að upplýsa alþjóð um ræfildóm þeirra.


mbl.is Danir sitja hjá á makrílfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar Össur að gefast upp í makrílstríðinu?

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG, lýsti þeirri furðulegu skoðun sinni og ráðherra í ríkisstjórninni að deilan um makrílveiðarnar komi innlimunarferlinu að væntanlegu stórríki ESB ekkert við, þrátt fyrir að allar ákvarðanir um fiskveiðar einstakra hreppa stórríkisins, væntanlega, séu og verði ákarðaðar af kommisörunum í Brussel.

Fulltrúar í sjávarútvegsnefnd ESB eru hins vegar á allt öðru máli en íslensku ráðherrarnir, enda hafa þeir farið þess á leit við framkvæmdastjórnina að lýst verði yfir efnahagsstríði gegn Íslandi og Færeyjum vegna makrílsins og að umræðum um innlimunarskilmála Íslands verði hætt þangað til Íslendingar gefist upp fyrir og samþykki skilmála ESB skilyrðislaust.

Struan Stevenson,  ESBþingmaður, hefur lýst þeim kröfum sjávarútvegsnefndarinnar að algert viðskiptabann verði sett á Ísland og Færeyjar og skip landanna útilokuð frá öllum höfnum í Evrópu, eða eins og eftir honum var haft í fréttum:  "Þá sagði Stevenson að sjávarútvegsnefndin væri að fara yfir tillögur að refsiaðgerðum gegn Íslandi og Færeyjum sem fælu í sér að allur útflutningur frá þeim á fiski til ríkja Everópusambandsins yrði bannaður og að skip ríkjanna tveggja yrðu bönnuð í höfnum sambandsins."

Össur Skarphéðinsson er þegar farinn að linast í makríldeilunni og m.a. rekið formann íslensku samninganefndarinnar, enda hefur sá staðið fullfast á málstað Íslendinga að mati Össurar og húsbænda hans í ESB.

Hvenær skyldi Össur, aðrir ráðherrar og hinn fámenni flokkur ESBgrúppía á Íslandi, sjá ljósið í þessu máli. 


mbl.is Gæti haft áhrif á aðildarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt sem segja þarf um atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar

Frá því að núverandi ríkisstjórn komst til valda hefur hún þóst vilja laða gagnaver til landsins, ásamt öðrum orkufrekum en "vistvænum" fyrirtækjum.  Hins vegar hefur lítið orðið úr slíku, enda lagaumhverfi hérlendis afar óvinveitt hvers kyns atvinnurekstri og þar að auki virðist Landsvirkjun stefna hraðbyri að því að verðleggja sig út af orkumarkaði, þannig að stórfyrirtækjum bjóðast orðið mun betri og öruggari viðskiptakjör erlendis.

Fyrirhugað var að reisa eitt slíkt gagnaver á Blönduósi, en nú hefur verið fallið frá þeim áformun vegna þess að vinsamlegra andrúmsloft ríkir í öðrum löndum gagnvart atvinnulífinu en ríkir hér á landi um þessar mundir.

Í viðhangandi frétt kemur í raun fram í einni setningu allt sem segja þarf um atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar:  "Sveinn Óskar Sigurðsson, fv. talsmaður Greenstone á Íslandi, staðfesti þessa ákvörðun í samtali við Morgunblaðið. Margt hefði komið þar til, einna helst óviljug ríkisstjórn við að vinna með félaginu að þessum áformum."

Í sjálfu sér er engu við þessa lýsingu á ríkisstjórninni að bæta. 

 


mbl.is Greenstone hættir við gagnaver
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómerkingurinn Össur Skarphéðinsson

Össur Skarphéðinsson, Utanríkisráðherra, er frægur að endemum fyrir ýmsar yfirlýsingar sínar, fullyrðingar, ýkjur og hrein ósannindi um ýmis mál sem heyra undir hans ráðuneyti og þá alveg sérstaklega varðandi innlimunarferli Íslands að ESB.

Nýlega óskaði ESB eftir því við EFTAdómstólinn að sambandið fengi að gerast stefnandi með ESA í málaferlum gegn Íslandi og til að minnka vægi þeirrar gjörðar kallar ráðuneytið slíkt "meðalgöngu" í stað þess að kalla athæfið sínu rétta nafni sem er einfaldlega "ákærandi".

Össur fagnaði þátttöku ESB í ákærunni með þeim rökum að hún kæmi Íslandi alveg sérstaklega vel, enda sýndi hún fram á veikleika málshöfðunarinnar og auðveldaði vörn Íslands til mikilla muna og vitnaði í því sambandi til verjendateymisins, eða eins og m.a. kom fram í tilkynningu frá ráðuneytinu fyrir fáeinum dögum: "Aðalmálflytjandinn og málflutningsteymið hafa fjallað ítarlega um málið. Mörg sjónarmið komu þar til skoðunar en þegar til þess var litið að málflutningi framkvæmdastjórnarinnar yrði ekki á annan hátt svarað skriflega var það einróma niðurstaða þeirra að það þjónaði best hagsmunum Íslands að leggjast ekki gegn meðalgöngu hennar í málinu."

 Í gær gerðist það svo að ráðuneytið sendi ESA mótmæli sín vegna þessarar fyrirhuguðu aðild ESB að ákærunni og málarekstrinum gegn Íslandi og því vaknar sú spurning hvort þar með sé verið að lýsa yfir vantrausti á verjendateyminu eða, hafi eitthvað verið að marka fyrri málflutning Össurar, að viljandi sé verið að veikja stöðu Íslands í þessum málaferlum.  Utanríkisráðuneytið skuldar þjóðinni skýringar á þessum viðsnúningi málsmeðferðarinnar á þessum fáu dögum sem liðið hafa frá fyrri yfirlýsingum.

Líklegast er þó að þetta sé enn eitt dæmið um að Össur Skarphéðinsson sé ekkert annað en ómerkingur, sem ætti að víkja úr embætti tafarlaust. 


mbl.is Hafa mótmælt afskiptum ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband