Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Er Arion banki að taka þátt í peningaþvætti?

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, staðfestir að Bónusgengið verði að greiða með peningum fyrir þær verslanir sem það kaupir nú út úr Högum, eða eins og hann orðar það í samtali við Moggann:  "Ef hann greiðir ekki með peningum þá fær hann ekki hlutabréfin. Þetta eru engin lán frá bankanum. Hann kemur með peningana einhverstaðar annars staðar frá, ég veit ekki hvaðan."

Er Höskuldur að reyna að telja fólki trú um að hann selji eignir frá bankanum á 1.237,5 milljónir króna án þess að vita hvort kaupandinn sé borgunarmaður fyrir upphæðinni, hvað þá að kannað sé hvort og hvernig eigi að fjármagna kaupin.  Nú hefur komið fram í fréttum að Bónusgengisforinginn hafi á síðasta ári talið fram til skatts rúmar þrjúhundruð milljónir króna í hreina eign, þannig að augljóst er, að hann getur ekki átt fyrir kaupverðinu, nema þá í leynisjóðum í bankaleyniríkjum.

Hinn möguleikinn er sá, að aðrir bankar láni honum fyrir kaupverðinu og væri þá fróðlegt að vita hvaða banki treystir Bónusgenginu fyrir svo mikið sem einni krónu, eftir að það hefur skilið eftir rjúkandi rúst fyrirtækja með yfir eittþúsund milljarða króna skuldir, sem gengið ætlast til að lánadrottnar og íslenskir skattgreiðendur borgi fyrir sig.

Arion banki virðist einnig ætla að afskrifa 50 milljarða króna af 1988, eignarhaldsfélagi Haga, sem var að fullu í eigu Bónusgengisins, að því er virðist til þess að gengið geti keypt Haga aftur, þegar bankinn setur félagið í sölu. 

Það gæti skotist upp í hugann að Arion banki sé að taka þátt í einhverskonar peningaþvætti með þessu braski í samvinnu við Bónusgengið.  Að minnsta kosti er þetta einhver mesti sóðaskapur, sem átt hefur sér stað í íslensku viðskiptalífi frá upphafi og er þó af nógu að taka, jafnvel þó ekki væri miðað við fleiri gengi en Bónusgengið eitt og sér.


mbl.is Þarf að greiða með peningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr: Pirraður og hlægilegur

Jón Gnarr, borgarstjórinn hlægilegi, kvartaði sáran undan Sjálfstæðisflokknum nýlega í dagbók sinni, sem hann heldur úti á Facebook, vegna þess að sá flokkur væri erfiður í taumi og samþykkti ekki þegjandi og hljóðalaust hverja þá vitleysu sem þeim hlægilega dytti í hug í það og það skiptið.

Aðspurður um þessi ummæli sín á Sportrásinni í gær reyndi hann á klaufalegan hátt að draga úr þessum ummælum sínum og vildi meina að eigin pirringur vegna nikótínleysis hefði ráðið miklu um þessa fáráðlegu dagbókarfærslu sína, en hann sagði um þetta aðspurður:  "Þetta er ekki Sjálfstæðisflokknum að kenna heldur mér, enn og aftur - að mestu leyti."

Miðað við þetta upphaf á samtalinu, hefði mátt ætla að Jón Gnarr væri farinn að sjá það sjálfur, að hann ráði ekkert við starf sitt og allra síst eftir að hann hætti að tyggja nikótín, en fljótlega fór hann í sama farið aftur og bætti við:  "Auðvitað er þetta líka svoldið Sjálfstæðisflokknum að kenna vegna þess að þetta er þannig flokkur, að þar er fullt af fólki, sem gefur sig út fyrir að vera einhverjir talsmenn Sjálfstæðisflokksins og segir ljótt um mig. Á ég að vera reiður út í þetta fólk eða á ég að vera reiður út í flokkinn eða á ég að líta svo á að öllum þessum flokki fólks sé bara verulega í nöp við mig? Og þegar maður er ekki í tilfinningalegu jafnvægi og það er búið að taka af manni nikótíntyggjóið, þá..."

Hafi Jón Gnarr haldið að hann yrði eini stjórnmálamaður landsins, sem ekki yrði gagnrýndur fyrir gerðir sínar og/eða getuleysi í starfi, þá er það mikill og jafnvel pirrandi misskilningur.  Á meðan ekkert gerist af viti í borgarstjórn Reykjavíkur, verður meirihlutinn og borgarstjórinn að hlíta umræðum og gagnrýni borgarbúa.

Skrifara þessara lína þykir ákaflega vænt um leikarann Jón Gnarr, en þykir hann getulaus og afar ófyndinn  borgarstjóri, en bara hlægilegur sem slíkur.


mbl.is Pirringur vegna nikóktínfíknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næstsíðasti Bónusskandallinn?

Arion banki hefur tilkynnt að samningur hafi verið gerður við Jóhannes í Bónus um viðskilnað hans við Haga, en í samningnum felst að Jóhannes hættir í stjórn félagsins gegn hundrað milljóna króna greiðslu og "kaupir" um leið af bankanum íbúðarhúsið, bílinn og sumarbústaðinn, sem bankinn hefur lagt honum til.  Þar að auki kaupir hann þrjár af verslunum Haga hér á landi og 50% í Bónusverslununum í Færeyjum. 

Sjónvarpið greindi frá því, að Jóhannes myndi greiða rúmar tólfhundruð milljónir króna fyrir eignirnar í reiðufé og verður það að teljast með ólíkindum, þar sem Bónusgengið hefur alltaf haldið því fram, að það væri nánast eignaö og peningalaust, eftir að hafa sett á hausinn nánast hvert einasta félag sem gengið hefur komið nálægt á sínum hroðalega "viðskiptaferli"

Því hefur allta verið haldið fram, að allar sölur bankanna á þeim fyrirtækjum sem þeir hafa tekið yfir, yrðu gerðar fyrir opnum tjöldum og allar upplýsingar lagðar á borðið.  Samkvæmt því verður að gera þá kröfu, að heildarsamningarir við Bónusgengisforingjann verði opinberaðir og skýr grein gerð fyrir því hvaðan fjármunirnir koma, sem nota á til greiðslu fyrir pakkann.  Þar sem Bónusgengið hefur alltaf haldið fram blankheitum sínum, hlýtur Arion eða einhver annar banki að lána fyrir þessum gerningi og enginn þarf að láta segja sér að Bónusgengið hafi selt sig ódýrt í þessum viðskiptum.

Það þarf að komast á hreint hvort þetta sé næst síðasti Bónusskandall Arion banka og hvort salan á Högum til gengisins verði þá sá síðasti.


mbl.is Steinn Logi stýrir Högum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Björk

Björk Guðmundsdóttur hlotnast í dag sá heiður að verða afhent Polar tónlistarverlaunin, sem Stig Anderson, umboðsmaður hljómsveitarinnar ABBA, stofnaði til árið 1989 með stuðningi sænsku tónlistarakademíunnar.  Gamalkunna ítalska tónskáldið Ennio Morricone verður einnig heiðraður með þessum verðlaunum í dag.

Ýmsir merkir tónlistarmenn hafa fengið þessi verðlaun frá stofnun þeirra og á Björk fullkomlega heima í þeim hópi vegna framlags síns til tónlistarsögunnar, en Björk er engri lík í sinni sköpun og er því brautryðjandi en ekki sporgöngumaður, eins og margir tónlistarmenn eru, sem eingöngu "afrita" tónsmíðar annarra, en leggja í raun lítið til sjálfir.

Þrátt fyrir að skrifari sé alls ekki sammála stjörnunni í ýmsum málum, sérstaklega hvað varðar virkjana- og atvinnumál, þá er Björk hér með óskað til hamingju með þennan heiður og þjóðinni til hamingju með Björk.

 


mbl.is Björk fær Polarverðlaunin í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laun hafa hækkað meira en verðtrygging lána

Lögfræðingar voru algerlega sammála um að gengistrygging lána væri fullkomlega lögleg, a.m.k. varð ekkert vart við efasemdir af þeirra hálfu um það, fyrr en eftir að Hæstiréttur kvað upp úrskurð sinn, eftir að þessi lán höfðu viðgengist athugasemdalaust í átta ár.

Nú deila lögfræðingar hins vegar um það hvort samningsvextir, sem grundvallaðir voru á hinni ólöglegu verðtryggignu sem gengistryggingin var, skuli gilda á lánunum, eða hvort vextir Seðlabanka Íslands af óverðtryggðum lánum, eins og þeir voru á hverjum tíma, skuli verða reiknaðir á þessi lán, eins og önnur óverðtryggð lán, en það dæmdust þau í raun vera eftir niðurstöðu Hæstaréttar.

Ekki skal neinn dómur lagður á þetta deiluefni hér, enda í verkahring Hæstaréttar að gera það, en hins vegar verður að gera athugasemd við þá fullyrðingu Sigurðar G. Guðjónssonar, hæstaréttarlögmanns, þegar hann segir:  "Með því að velja gengistryggð lán fjármálafyrirtækja töldu lántakendur sig lausa bæði undan íslenskum okurvöxtum og oki íslensku verðtryggingarinnar; verðtryggingar sem  á umliðnum árum hefur fært fjármagnseigendum ómælt fé á kostnað þeirra sem kosið hafa að koma sér upp húsnæði fyrir sig og sína."

Er lögmaðurinn virkilega að halda því fram, að fólk hafi ekki reiknað með því að gengistryggðu lánin myndu hækka með hækkandi verðbólgu og lækkun íslensku krónunnar?  Allir vissu að krónan væri allt of hátt skráð á þeim tíma, sem þessi gengistryggðu lán voru í hávegum höfð.

Einnig er það hreint ekki rétt fullyrðing hjá lögmanninum, að verðtryggingin hafi fært fjármagnseigendum ómælt fé á kostnað húsnæðislánaskuldara, því launavísitala hefur hækkað miklu meira á síðustu tuttugu árum, en vísitala neysluverðs til verðtryggingar hefur gert.  Þá þróun má sjá á neðangreindri töflu:

 

Mánuður/Vísitala n.v.Hækkun í %Launa-Hækkun í %Hækkun launa í %
Ár til verðtryggingarfrá Jan. 1989vísitalafrá Jan. 1989umfram verðtryggingu
Janúar 1989112,60 100,00  
Ágúst 2008307,10172,74350,40250,4044,96
Janúar 2009327,90191,21355,70255,7033,73
Janúar 2010356,20216,34366,90266,9023,37
Mai 2010362,90222,29370,10270,1021,51
Júlí 2010365,30224,42379,50279,5024,54

Þrátt fyrir kreppu og hrun, hefur launavísitalan vinninginn fram yfir verðtrygginguna, þannig að afborganir verðtryggðs láns, sem tekið var 1989 eru mun léttari núna en þær voru í upphafi, miðað við þróun launa.

Auðvitað er ekki hægt að alhæfa um að þetta eigi við um alla skuldara, þar sem aðstæður hvers og eins geta hafa breyst, t.d. vegna atvinnuleysis eða annarra ófyrirséðra atvika, en almennt er þetta þó niðurstaðan og þau meðaltöl, sem miða verður við.


mbl.is Telja væntanlega 21% vexti sanngjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarskrárumræða óskast

Undanfarið hefur mikið verið rætt um að breyta og jafnvel umbylta stjórnarskránni, en minna hefur farið fyrir umræðu um nákvæmlega hverju þyrfti að breyta.  Sigurður Líndal, prófessor, hefur verið fremstur í flokki þeirra, sem litlar sem engar breytingar telja að þurfi að gera á stjórnarskránni og ef gera eigi breytingar, þá eigi að gera þær sjaldan og litlar, hverju sinni.

HÉRNA má sjá stjórnarskrána í heild sinni og fróðlegt væri að fá fram umræður um það, hvað það er helst, sem fólk vildi að breytt verði í henni, þannig að sátt gæti um hana skapast.

Stjórnlagaþing, sem ætlað er það hlutverk að leggja fram tillögur um nýja stjórnarskrá er framundan og því tímabært að byrja vangaveltur og almennar umræður um þær breytingar sem þörf er talin vera á að gera á henni.

 


mbl.is Engin þörf á heildarendurskoðun stjórnarskrár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutafjárfals hlýtur að teljast til markaðsmisnotkunar

Bjarni S. Ásgeirsson, skiptastjóri BGE, ætlar að fara í prófmál á hendur Jóni Ásgeiri og nokkrum samverkamönnum hans, vegna hlutafjárloforða upp á tugi milljóna króna, sem þeir skráðu sig fyrir í Baugi, en fengu lán fyrir hjá BGE með þeim skilmálum, að þeir sjálfir töldu, að þurfa aldrei að greiða skuldina og þegar Baugur færi á hausinn, stæði ekkert veð fyrir láninu, annað en hlutabréfin sjálf.

Þetta ætlar Bjarni að láta reyna á fyrir dómstólum og telur reyndar óvíst hvort málið vinnist, en ætlar að láta á það reyna og telur að málið muni enda fyrir hæstarétti.  Það var orðin algild regla í bönkunum og fyrirtækjum útrásargengjanna, að ganga þannig frá málum, að eigendur og starfsmenn væru skrifaðir fyrir hlutafé í loftbólufyrirtækjunum og bönkunum sjálfum, svo milljörðum og tugmilljörðum skipti, alltaf gegn lánum sem engin veð voru sett fyrir önnur en hlutabréfin sjálf og t.d. starfsfólkið sannfært um að aldrei myndi lenda á því að greiða þessi lán.

Þetta getur ekki hafa verið gert nema í þeim eina tilgangi að falsa eigið fé viðkomandi fyrirtækja og þar með láta eignastöðuna líta betur út í bókhaldi, sem aftur hefur orðið til að blekkja almenna hlutabréfakaupendur á markaði, sem voru að kaupa hlutabréf, sérstaklega í bönkunum, og svo einnig í blekkingarskyni gagnvart viðskiptamönnum fyrirtækjanna.

Komist þessi banka- og útrásargengi upp með að skrifa sig fyrir tugmilljarða hlutafjárkaupum án þess að þurfa nokkurn tíma að standa við skuldbindingar sínar, hljóta þeir a.m.k. að verða dæmdir fyrir fals og markaðsmisnotkun, sem eru alvarlegir glæpir, ekki síst vegna fyrirtækja sem skráð eru á opinn hlutafjármarkað.

Almenningur er að verða langeygur eftir því að ákærur verði gefnar út í fyrstu málum banka- og útrásargengjanna og ekki bætir úr skák að farið er að birta drottningarviðtöl við höfuðpaurana í Baugsmiðlunum, þar sem þeim er gefinn kostur á að úthrópa rannsakendur glæpa þeirra og ásaka þá um ólöglegt athæfi í rannsóknum sínum.

Nú hlýtur að fara að koma að því að mulningsvél réttvísinnar fari að snúast á fullri ferð.


mbl.is Prófmál gegn fimm hluthöfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bónusgengið og heiðarleiki hafa aldrei átt samleið

Það er alveg sama um hvað er fjallað af viðskiptum Bónusgengisins, alltaf kemur í ljós að óheiðarlega hafi verið staðið að málum.  Í þetta sinn er fjallað um undanskot á skíðahöll í Frakklandi undan þrotabúi Baugs, en áður hafa birst fregnir af ýmsum öðrum undanskotum úr félaginu áður en það var lýst gjaldþrota, t.d. á Högum, sem reka Bónus, Hagkaup og margar fleiri verslanir.

Þrátt fyrir að Jón Ásgeir hafi alltaf sagt að hann ætti "sáralitlar" peningalegar eignir og alls engar á felureikningum í bankaleyniríkjum, þá tókst honum að greiða upp 1,8 milljarðs skuldir vegna skíðasetursins og aðra eins upphæð vegna lúxusíbúðar í New York og gaf reyndar þá skýringu að aurarnir til þess voru notaðir kæmu frá ættarauði frúarinnar.  Það væri góð og gild skýring, ef ekki hefði viljað svo til, að samkvæmt fréttum áttu þau hjón "aðeins" nokkur hundruð milljónir umfram eignir, miðað við skattframtöl.

Það virðist vera algerlega einkennandi fyrir allt, sem Bónusgengið hefur komið nálægt í "viðskiptum" sínum, að ekkert af því stenst skoðun, en virðist hafa haft það að markmiði að raka fjárfúlgum í vasa gengisins, en láta síðan aðra um að borga skuldirnar.

Lokasetning fréttarinnar er lýsandi fyrir viðskipti gengisins, en hún er svona:  "Þrotabú Baugs hyggst raunar krefjast riftunar á sölu BG Danmark frá Baugi til Gaums, en fram hefur komið að þrotabúið telji að um gjafagerning hafi verið að ræða í skilningi gjaldþrotalaga."


mbl.is Hálfur milljarður tapaðist á viðskiptum með skíðaskála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efnahagslegt hryðjuverk

Á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna skýrði Össur Skarphéðinsson út fyrir öðrum viðstöddum ráðherrum, þá efnahagslegu árás sem Bretar gerðu á íslenskt hagkerfi eftir bankahrunið og olli því meðal annars, að mun erfiðara var að glíma við afleiðingar þess, en annars hefði orðið.  Lýsti Össur yfir mikilli og réttlátri hneykslan á framkomu eins Natoríkis við annað, enda væri slík efnahagsstyrjöld milli Natóþjóða einsdæmi.

Þetta er nú samt ekki eina efnahagslega árásin sem Bretar hafa gert á Ísland, því nú síðast reyndu þeir að vinna efnahagslegt hryðjuverk gegn Íslendingum í samvinnu við Hollendinga, en það var tilraun þeirra til að hneppa Íslendinga í skattaþrældóm í sína þágu til næstu áratuga.  Þarna er auðvitað um að ræða fjárkúgunartilraun þeirra vegna skulda einkabanka við viðskiptavini í löndunum tveim.

Það grátlega er, að Bretar og Hollendingar áttu sér vitorðsmenn í þessari efnahagslegu hryðjuverkaárás hér innanlands og fór íslenska ríkisstjórnin fremst í flokki bandamanna kúgaranna og var íslenski samstarfshópurinn undir forystu ráðherranna Steingríms J., Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar.

Til varnar þessum hryðjuverkahópi reis íslenska þjóðin upp, sem einn maður og hrinti þessari ógn af höndum sér með eftirminnilegum hætti þann 6. mars s.l.

Nú leikur grunur á, að ráðherrarnir ætli að láta til skarar skríða á nýjan leik gegn þjóðinni, með efnahagslegu hryðjuverkamönnunum Bresku og Hollensku í næsta mánuði. 

Þjóðin mun snúast til varnar öðru sinni og hrinda þessum kúgurum og samverkamönnum þeirra af höndum sér.


mbl.is Efnahagsleg árás af hálfu Breta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill léttir vegna morðrannsóknar

Héraðsdómur hefur fallist á kröfu lögreglunnar um fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir manni, sem grunaður er um morðið á Hannesi Þór Helgasyni, þann 15. ágúst s.l.  Reikna verður með því að a.m.k. séu verulegar líkur á að maðurinn tengist málinu, fyrst fallist var á svo langan gæsluvarðhaldsúrskurð.

Það hefur verið óhugnanleg tilhugsun að morðingi gengi laus í þjóðfélaginu, því slíkur maður hlýtur að vera mjög andlega sjúkur og aldrei að vita til hvers kyns örþrifaráða slíkur maður gæti gripið.  Því er það mikill léttir að lögreglan virðist vera að komast til botns í þessu máli, því morðið virtist bæði vera þaulskipulagt og villimannslegt.

Vonandi er, að lögreglan sé á réttu spori í málinu og ef svo er, á hún mikið lof skilið fyrir vönduð vinnubrögð og að hafa komist að niðurstöðu í málinu, þrátt fyrir að sá seki hafi greinilega reynt að fela slóð sína vandlega.

 


mbl.is Í 4 vikna gæsluvarðhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband