Hústaka

Hasar varð þegar fulltrúar sýslumanns ætluðu að bera fólk út úr íbúð í Reykjavík að beiðni húseigandans, en hann hafði ekki fengið greitt fyrir afnot af húsnæðinu síðan árið 2009.

Þegar fólk sest að í annarra manna húsnæði, greiðir enga leigu og dvelur þar í óþökk eigandans, hlýtur slíkt að teljast vera hrein hústaka og getur þar með ekki annað en flokkast undir nytjastuld.

Ef fólk er húsnæðislaust og hefur ekki fjárráð til að greiða húsaleigu á frjálsum markaði er sveitarfélagið skyldugt til að sjá viðkomandi fyrir húsaskjóli og þangað á fólk að í þeirri stöðu að leita, en ekki taka annarra manna húsnæði traustataki.

Í því tilfelli, sem fréttin snýst um, náðist samkomulag um frestun útburðarins og er það vel, en ef uppi er einhver ágreiningur um uppgjörsmál milli aðila, er alveg með ólíkindum að taka þurfi á þriðja ár að leysa úr slíkum málum.


mbl.is „Þú ert helvítis drusla!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hver er löglegur eigandi skuldarinnar? Í þessu tilviki var það ekki Arion banki heldur gamla Kaupþing. Arion banki hafði þess vegna enga heimild til að fullnusta kröfuna.

Þessi kona á sjálfsagt að greiða sína skuld eða semja um eftirstöðvar hennar, en það verður að vera lögum samkvæmt og við réttan aðila.

Við skulum ekki dæma fólk sem reynir að standa á rétti sínum og annara, ef við vitum ekki öll málsatvik.

Þú hittir naglann lóðbeint á höfuðið í síðustu setningunni Axel Jóhann.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.9.2011 kl. 01:52

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðmundur, ég velti því fyrir mér hvort Eignasafn Seðlabanka Íslands hafi ekki átt skuldina á þessum tíma.  Húsnæðislán Kaupþings voru veðsett SÍ, sem tók þau til sín í október 2008 og setti inn í þetta fyrirbrigði sem heitir Eignasafn SÍ.  Í janúar 2010 keypti síðan skilanefnd Kaupþings lánin af Eignasafninu og seldi Arion banka.  Þú kannski manst eftir héraðsdómi sem féll í febrúar í máli Sjómannafélags Íslands gegn Arion banka, þar sem dómurinn komst að þeirri niðurstöðu m.a. vegna málflutnings Arion banka, að bankinn væri ekki aðili að kröfu Sjómannafélagsins vegna þess að lánið komst ekki í eigu bankans fyrr en 13. janúar 2010.  Fram að því hafði það fyrst verið í eigu Kaupþings og síðan Eignasafns SÍ.

Áhugavert er að sjá í þeim dómi, að Arion segist hafa tekið við afborgunum í umboði Kaupþings, en hefur þó líklegast átt að vera í umboði Eignasafns SÍ.  Miðað við þetta, þá hefði gerðarbeiðandi uppboðsins átt að vera Kaupþing, hafi uppboðsbeiðni verið lögð fram þegar hann var ennþá starfandi, Eignasafn SÍ (frá október 2008) eða einhver annar aðili sem húseigandi hafði ekki staðið í skilum við.  Hafi uppboðsbeiðnin verið rangt fram sett, þá er með ólíkindum að uppboð hafi farið fram.  Slíkt hlýtur að flokkast undir mistök sýslumannsins í Reykjavík.  Hafi hún verið rétt sett fram, þ.e. Arion banka hafi ekki verið uppboðsbeiðandi, heldur bara leyst eignina til sín á uppboðinu, þá líklegast í umboði eiganda skuldarinnar sem Arion hafði tekið að sé að innheimta, er ekkert við útburðarbeiðnina að athuga.  Hún byggir jú á því að bankinn leysti eignina til sín á uppboði og þá skiptir ekki máli hver átti þá skuld sem leiddi til uppboðsins.

Þriðji vinkillinn í þessu máli, er hvort skuldabréfið sem leiddi til uppboðsins hafi verið gengistryggt lán.  Þá getur verið að uppboðið hafi verið byggt á ólöglegum forsendum, þ.e. að skuld hafi í reynd ekki verið skuld, þrátt fyrir að lántaki hafi ekki greitt af láninu, þar sem hann hafði ofgreitt á fyrri hluta lánstímans og því hefði hann átt inneign sem hefði þá átt að ganga upp í síðari vangreiðslur.  Ef þannig er ástatt, þá ætti gerðarþoli að krefjast þess að uppboðið verði ógilt á grundvelli dóma Hæstaréttar frá 16/6/2010.

Fyrirgefðu, Axel Jóhann, hvað þetta er langt og kannski ekki alveg í tengslum við það sem þú skrifar um.

Marinó G. Njálsson, 1.9.2011 kl. 02:33

3 Smámynd: Ellert Smári Kristbergsson

Það er áhugavert að sjá hvað það er mismunani sem fólki dettur í hug þegar það les þessa frétt.  Það fyrsta sem mér datt í hug var að það hefði verið mikið erfiðara að taka húsið af íbúum þess árið 2009. Þá hefðu allir haft samúð með fólkinu. En núna þegar þau hafa búið þarna í tvö ár án þess að eiga húsið hafa þau greinilega ekki eins mikla samúð.

Það væri gaman að vita hvers vegna þau eru borin út akkúrat núa. Hvort þeim hafi verið boðið að leigja húsið. O.fl.

Það fyrsta sem ég hugsaði var að bankinn hefði beðið eftir að reiði fólks yfir kreppunni hjaðnaði og "leyft" þeim að lifa þarna frítt á meðan. Enda ekkert hægt að selja og flott ef einhver getur haldið húsinu í íbúðarhæfu ástandi. En hver veit... Ætli það hafi ekki allir sínar kenningar um hvað sé hér á ferðinni. Við lesum bara blöðin og skáldum í eyðurnar...

Ellert Smári Kristbergsson, 1.9.2011 kl. 07:38

4 identicon

"Enda ekkert hægt að selja og flott ef einhver getur haldið húsinu í íbúðarhæfu ástandi."

Fólk sem býr í húsum sem það á ekki leggur ekki út í kostnað við viðhald þeirra, að gera ráð fyrir því er fáránlegt. Húseigandinn hefur nákvæmlega engan hag af því að konan sé þarna ef hún hvorki greiðir leigu né af lánum. Konan á einfaldlega að leita til sveitarfélagsins um aðstoð.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 1.9.2011 kl. 09:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband