A.m.k pólsku, spænsku, frönsku, dönsku og víetnömsku á skiltin með enskunni

Vegna þess að einn og einn ferðamaður hefur álpast inn á svæði þar sem afleit veðurspá hefur verið í gildi, hefur Vegagerð ríkisins tekið upp á því furðulega athæfi að hætta að birta viðvaranir á vegaskiltum sínum á íslensku, en tekið upp ensku í staðinn.

Ekki er vitað hvort ferðamennirnir sem lentu í hrakningum nú síðast, eða áður, hafi skilið ensku, því oft er um að ræða ítali, frakka, kínverja, japani, filippseyinga og í raun fólk hvaðanæva úr heiminum, sem lent hefur í alls kyns ógöngum í ferðum sínum hingað til lands og margir þeirra hafa ekki kunnað stakt orð í ensku.

Því er óskiljanlegt að Vegagerðin skuli taka enskuna upp sem sitt tungumál, reyndar í algeru trássi við landslög, því ef á að fara að birta allar viðvaranir um veður, vegi, eða annað, á öðrum tungumáli en því ylhýra, þá hljóta ítalska, pólska, franska, víetnamska, danska o.s.frv. að vera jafnrétthá enskunni í þessu efni.

Auðvitað væri miklu auðveldara að brýna fyrir erlendum ferðamönnum að kynna sér veðurspá nokkra daga fram í tímann og haga ferðum sínum í samræmi við það.  Flestir ef ekki allir ferðamenn sem velja Ísland til að ferðast um vita að við ýmsu er hægt að búast í sambandi  við veður og náttúruna yfirleitt.

Að minnsta kosti verður að ætlast til þess að opinberar stofnanir og ríkisfyrirtæki fari að lögum landsins. 


mbl.is Bannað að birta „CLOSED“ á ljósaskilti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er jafn vitlaus málflutningur eins og fyrir nokkrum árum þegar deilt var um hvort talsetja ætti erlent barnaefni. Ekki væri hægt að talsetja einungis suma þætti því þá væru hinir skildir útundan og það væri enginn sem gæti ákveðið hvað ætti að talsetja og hvað ekki.

Meirihluti ferðamanna sem koma til Íslands skilja það mikið í ensku að þeir skilja einföldustu setningar. Hingað koma um 700.000 ferðamenn á þessu ári og það er lágmarks þjónusta og kurteisi við þennan hóp sem er að skaffa íslenska ríkinu verulega fjármuni að sjá til að upplýsingar séu sem flestum aðgengilegar. Fyrsta skrefið er að enskuvæða vegmerkinar meðfram íslenskunni og svo má fjölga tungumálunum eftir því sem á líður.

"Vegna þess að einn og einn ferðamaður hefur álpast inn á svæði þar sem afleit veðurspá hefur verið í gildi, hefur Vegagerð ríkisins tekið upp á því furðulega athæfi að hætta að birta viðvaranir á vegaskiltum sínum á íslensku, en tekið upp ensku í staðinn." Þessi setning segir meira en þúsund orð um hversu "vel" upplýstir sumir eru sem eru að tjá sig umþessi mál.

Maron Bergmann Jónasson (IP-tala skráð) 20.9.2013 kl. 17:30

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Maron, þar sem þú býrð greinilega yfir upplýsingum um þá tugþúsundir ferðamanna, ef ekki hundruð þúsunda, sem hafa lent í vandræðum vegna skorts á enskum "bannskiltum" við vegi, vil ég endilega biðja þig að miðla okkur, þessum illa upplýstu, af visku þinni.

Axel Jóhann Axelsson, 20.9.2013 kl. 19:04

3 Smámynd: Már Elíson

Axel....Lestu nú það sem þú skrifaðir : "Auðvitað væri miklu auðveldara að brýna fyrir erlendum ferðamönnum að kynna sér veðurspá nokkra daga fram í tímann og haga ferðum sínum í samræmi við það." - Segðu mér eitt :

Á hvaða tungumáli viltu að þetta verði "brýnt fyrir þeim"...? ...og á hvaða tímapunkti, um hávetur þegar allra veðra er von ?

Hvað er annars mállaust fólk að þvælast í snarvitlausu veðri um ófærur (eða almennt í ferðalög um hinn framandi heim)..?....og hvenær kemur sú hugsun upp hjá "málleysingjunum" að þessi skilti séu að segja þeim eitthvað ?

Fólk sem hagar sér svona á skilyrðislaust að borga allan útlagðan kostnað plús sektir fyrir heimskuna.

Þetta er mín skoðun.

Már Elíson, 20.9.2013 kl. 19:22

4 identicon

Það er ekkert mál, við erum ekki að tala um einn eins og þú eða tugi eða hundruði þúsunda. Við erum hinsvegar að ræða um býsna marga (þúsundir) erlenda ferðamenn sem að halda að hér sé tryggt sumarveður í nokkra mánuði á ári og ekki þurfi að hafa áhyggjur af veðrinu nema yfir háveturinn. Einnig er talsverður fjöldi sem ætlar að hjóla um Ísland á götuhjólinum sínum, þeir komast flestir að því að hálendisvegir (slóðir) eru talsvert meira en hjólin þola og þorfa far til byggða.

Eftir að hafa unnið við ferðaþjónustu síðustu 20 árin þá hef ég persónulega séð fleiri dæmi en ég get talið í fljótu bragði þar sem upplýsingaskortur eða skortur á upplýsingum á öðrum tungumálim en íslensku hefur komið fólki í veruleg vandræði.

Við erum ekkert endilega að tala um bannskilti heldur skort á upplýsingaskiltum á ensku og jafnvel fleiri tungumálum sem vara fólk við aðstæðum sem við teljum algerlega eðlilegar s.s. óbrúaðar ár, lausamöl, aurbleitu, lausagöngu búfjár, og svo veðrabreytingar þegar komið er upp á hálendið. En því miður er smáborgarahátturinn svo ráðandi hjá mörgum að þeir hreinlega skilja ekki að hingað skuli koma fólk sem ekki áttar sig á aðstæðum eða kann íslensku.

Maron Bergmann Jónasson (IP-tala skráð) 20.9.2013 kl. 19:25

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Maron, það á einmitt að vera í verkahring ferðaþjónustuaðila að útskýra fyrir viðskiptavinum sínum í hverju þeir geta lent hér á landi, en langflestir sem til Íslands koma vita vel á hverju er von því enginn er skyni skroppinn að halda að hann sé að fara í sólarlandaferð þegar Íslandsferð er skipulögð.

Það á ekki að heyra undir Vegagerðina að hafa vit fyrir þeim tiltölulega fáu sem ekki kunna fótum sínum forráð á ferðalögum. Fyrst og fremst er það á ábyrgð ferðamannanna sjálfra að skipuleggja ferðir sínar og kynna sér hvað framundan er í veðri og öðru því er varðar öryggi þeirra í ferðinni.

Væntalega er enginn að hafa afskipti af þér, eða að reyna að hafa vit fyrir þér, þegar þú skipuleggur þín eigin ferðalög, hvort heldur er innanlands eða utan.

Axel Jóhann Axelsson, 20.9.2013 kl. 20:38

6 identicon

Fólk sem fer út fyrir sitt heimaland getur ekki ætlast til að þar séu upplýsingar á þeirra tungumáli, en það á að geta búist við upplýsingum á ensku. Enska er heimsmálið og hana kann mikill meirihluti þeirra sem álpast hingað til lands, allavega skilja einföld orð eins og "closed".

Alfreð (IP-tala skráð) 20.9.2013 kl. 22:36

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er einfalt mál: Á skiltunum á að standa: Ófært - Closed.

Ef þarf að breyta skiltunum svo að hvort tveggja rúmist þar, íslenska og enska, þá ber að gera það.

Verðmætin, sem eru í húfi, bæði mannslíf, farartæki og farangur, eru of mikil til þess að megi slá slöku við að aðvara vegfarendur.

Þetta hættulega ástand á íslenskum vegum er algerlega sérstakt fyrir okkar vindasama land og því verður að aðvara fólk.    

Ómar Ragnarsson, 20.9.2013 kl. 22:46

8 identicon

Það kunna blessunarlega allir Íslendingar, nema kannski sumir þeir sem búa á elliheimilum og sambýlum, ensku. Enskukunnátta okkar, þó verri sé en við höldum sjálf, er ein sú skásta meðal óenskumælandi þjóða. Erlent mannslíf er ekki minna virði en íslenskt. Sá sem heldur það kallast rasisti. Svo er það þessi gullna regla um að gera það fyrir aðra sem þú villt að þeir geri fyrir þig. Ef þig dreymir ekki dagdrauma um að sonur þinn deyi í fjallaferð um Indland afþví skiltin voru öll á Hindi, þá ættir þú barra að halda kjafti. Ef þér finnst rétt að yfirvöld Úkraínu vari við hættum svo konan þín drepist ekki næst á ferð sinni þar, þá skalltu ekki skammast út í að íslensk yfirvöld skuli sýna sómasamlegan manndóm til tilbreytingar með því að stofna ekki beinlínis mannslífum í hættu með leti og ómennsku og framtaksleysi sem birtist í því að þýða ekki einu sinni lífsnauðsynlegar upplýsingar yfir á ensku. Nóg hefur ómennskan verið í þessu landi hingað til.

Róbert (IP-tala skráð) 21.9.2013 kl. 01:07

9 identicon

Enska er Lingua Franca heimsins, væni, og verður næstu áratugi, kannski aldir. Sættu þig við það og hættu þessu enskuhatri sem eru bara leyfar gamla rasismans þegar engin stúlka mátti snerta Amerískan mann án þess að vera stimpluð "mella" alla æfi. Enskuhatur eru gamlar leyfar af rasismanum sem grasseraði hér um allt.

Róbert (IP-tala skráð) 21.9.2013 kl. 01:09

10 identicon

http://adf.ly/IugqI

Jónas Steinn (IP-tala skráð) 21.9.2013 kl. 10:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband