Enn eitt umhverfisslysið í uppsiglingu í Reykjavík

Kynnt hefur verið vinningstillaga um hönnun enn eins hótelsins í miðborg Reykjavíkur og í þetta sinn er um að ræða 120-135 herbergja steinkumbalda við Lækjargötu 12.

Vinningstillagan tekur ekkert tillit til húsanna í nágrenninu, en báðum megin við götuna standa gömul, falleg, virðuleg og í sumum tilfellum sögufræg hús og verði byggður steinkassi í stíl við þessa tillögu verður um enn eitt umhverfisslysið að ræða í Reykjavík.

Það verður að teljast stórundarlegt ef íslenskir arkitektar eru raunverulega algerlega ófærir um að teikna hús sem falla að þeirri götumynd og því umhverfi sem þeim er ætlað standa við til langrar framtíðar.  Reyndar er ánægjuleg undantekning til frá þessari að því er virðist föstu reglu, en það er bygging hins nýja Hótels Sigló á Siglufirði, en það hús er bæði fallegt og byggt í sátt við umhverfi sitt og fellur vel að öðrum húsum á svæðinu.

Vonandi samþykkja skipulagsyfirvöld í Reykjvavík ekki fleiri umhverfisslys í tengslum við hótelbyggingaæðið í Reykjavík.  Reyndar ekki heldur í tengslum við aðrar framkvæmdir í boginni.


mbl.is Nýtt hótel í Lækjargötu árið 2018
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég er sammála þér um metnaðarleysi íslenskra arkitekta. Eða kannski er um að kenna auraleysi byggingarverktakanna? Það virðist ekkert mega leggja í þessi hús sem nú eru byggð. Steinsteypa bárujárn og gler hvert sem litið er. Nú hefði einmitt verið gott tækifæri til að lagfæra þessa skelfilegu götumynd sem Lækjargata er orðin en nei, þá ætla menn að byggja enn einn ferkantaða kumbaldinn með ljóta þakinu til að koma sem mestu byggingarmagni fyrir á þessari lóð.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 3.7.2015 kl. 20:18

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Reyndar er nú kannski ekki rétt að kalla þetta "umhverfisslys", þar sem framkvæmdin er af mannavöldum og ef af verður mun þetta fara í gegn um allt borgarbáknið og þurfa samþykki þar.

Þess vegna er réttara að kalla svona aðgerðir "UMHVERFISSKEMMDARVERK".

Axel Jóhann Axelsson, 3.7.2015 kl. 22:36

3 identicon

Ég er þér hjartanlega sammála. Ég ætlaði varla að trúa því, sem ég sá í Mogganum í morgun, og að nokkrum detti í hug að ætla að hafa þetta ferlíki á þessum stað. Ég er því meira undrandi á þessu, þegar ég sá, að Minjavernd er einn af þeim aðilum, sem standa að þessarri hótelbyggingu, samtök, sem standa að varðveislu gamalla bygginga, og að allt, sem rís við þeirra hlið, samræmist umhverfinu, sem þessi forljóta bygging gerir alls ekki. Mér þætti gaman að vita, hvaða skoðun Pétur Árnmannsson, sem hefur verið óragur við að krítisera svona lagað, og eins Þorsteinn Gunnarsson, leikari og arkitekt, sem hefur unnið metnaðarfullt starf í uppbyggingu gamalla húsa, hafa á þessu. Ég á ekki von á því, að þeir séu yfir sig hrifnir af þessu, eins og þetta er á skjön við allt í umhverfinu. Ég held ég hafi nú samband við þá í Minjavernd og spyrji, hvort þeim finnist þetta virkilega falla inn í götumyndina, því að það finnst mér alls ekki. Ég er sammála því, að margir nútímaarkitektar eru óskaplega ósmekklegir, þegar þeir byrja að teikna hús, og er ekkert heilagt, þegar kemur að því, að láta hús falla vel inn í umhverfið. sem oftar en ekki tekst miður. Þeir mættu læra meira af fortíðinni, og því skipulagsrugli og vitleysu, sem varð alltof oft til þá, læra af því og gera betur en það. Þetta gengur engan veginn.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 4.7.2015 kl. 11:14

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þegar bruninn varð fyrir nokkrum árum á horni Lækjargötu og Austurstrætis var lagður metnaður í að byggja upp aftur í stíl við þau hús sem brunnið höfðu, nánast eins reyndar nema hvað þau voru hækkuð um eina hæð.  

Við hliðina var byggt nokkuð stórt hús fyrir nokkuð löngu síða og þó það falli ekki fullkomlega inn í umhverfið er útlit þess húss þó eins og perla á sorphaugi miðað við þessa fyrirhuguðu hörmung við Lækjargötu 12.

Enn og aftur ítrekar maður áskorun sína til skipulagsyfirvalda borgarinnar að afstýra þessu umhverfisskemmdarverki.  Satt að segja er maður þó ekki bjartsýnn á að hægt sé að  treysta á það apparat.

Axel Jóhann Axelsson, 4.7.2015 kl. 12:59

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Þetta er eins og skotbyrgi á austurvígstöðvunum.

FORNLEIFUR, 6.7.2015 kl. 10:14

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Af þeim myndum sem fylgja fréttinni má sjá að í ofanálag er gert minna úr þessum steinkulbald en raunveruleikinn mun sýna. Vísvitandi er húsinu þjappað saman svo það virðist lægra en það kemur til með að vera. Þetta sést með því að bera saman þau hús sem sjást í nágrenninu við kulbaldann.

Nema, auðvitað, að ætlunin sé að byggja þarna hótel fyrir dverga eða ferðafólk frá suð-austur Asíu.

Gunnar Heiðarsson, 8.7.2015 kl. 21:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband