Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Skýtur sendiboðann í sáttaskyni

Steingrímur J. hefur alveg örugglega rétt fyrir sér þegar hann segist hafa verið að stunda vandaða stjórnsýslu, þegar hann sendi "einkapóst" til félagsmálaráðherra með kröfu um frágang á skaðabótagreiðslu til meðferðarheimilisins Árbótar, sem fyrir algera tilviljun er staðsett í kjördæmi fjármálaráðherrans.

Steingrímur J. sagði m.a. í umræðu um málið á Alþingi. "Það er svo önnur saga hvernig sá einkapóstur milli okkar félagsmálaráðherra er allt í einu kominn í blöðin, að því er virðist í gegnum Barnaverndarstofu. Það er örugglega þeirra framlag til að reyna að skapa sátt og frið um þennan málaflokk."

Það er örugglega framlag Steingríms J. til að reyna að skapa sátt og frið við guð og menn að skjóta sendiboðann og senda sprengju inn á Barnaverndarstofu. 


mbl.is Sakar Barnaverndarstofu um að leka póstunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SovétEvrópa færist nær

Samstarf ESBþjóða um evruna er í dauðateygjunum, eins og fjármálaástandið í Grikklandi, Írlandi, Spáni, Portúgal, Ítalíu o.fl. sýnir svart á hvítu og veldur þetta ástand hreinni skelfingu meðal allra helstu ráðamanna væntanlegs stórríkis Evrópu.  Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir að nú verði að renna styrkari stoðum undir sameiginlega hagstjórn í Evrópu og að eina lausnin við vandræðunum á evrusvæðinu sé að koma á miðlægari stjórn peningamála í Evrópu.

Í viðhangandi frétt er haft eftir Strauss-Kahn:  „Hjól sameiningarinnar snúast of hægt. Miðjan verður að taka frumkvæðið á öllum sviðum sem eru lykillinn að því að ná fram sameiginlegum örlögum sambandsins, sérstaklega í fjárhagslegri, hagfræðilegri og félagslegri stefnumótun. Ríki verða að vera reiðubúin að gefa eftir meira af valdi sínu til miðjunnar.“

ESB sinnar á Íslandi hafa alltaf þrætt fyrir að stefnt sé að sameingingu Evrópuríkja, en slík áform koma skýrt fram hjá Strauss-Kahn, ásamt því að bráðnauðsynlegt sé að hraða því að koma öllu ákvörðunarvaldi álfunnar undir miðstjórn Þýskalands og Frakklands og hugsanlega Bretlands, þó þar hafi menn ekki viljað sjá að taka upp evruna.

Óttinn við hrun gjaldeyrissamstarfsins og þar með alls grundvallar ESB kemur einnig skýrt fram í ÞESSARI frétt, sem sýnir að meira að segja er farið að ræða um að skipta evrunni upp í tvær myntir, aðra fyrir stórþjóðirnar "í miðjunni" og hina fyrir undirtyllur höfðingjanna í Sovétinu.

Ekki þýðir lengur fyrir ESBsinna á Íslandi að reyna að ljúga þjóðina inn í sovétið með blekkingum og falsi um staðreyndir.


mbl.is Evrópa sameini hagstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk réttarhöld sem standast ekki ákvæði stjórnarskrárinnar

Alþingi samþykkti, eins og frægt er af endemum, að ákæra Geir H. Haarde, einn ráðherra úr síðustu ríkisstjórn, fyrir brot á ráðherraábyrgð samkvæmt stjórnarskránni.  Samkvæmt réttindum sakborninds samkvæmt sömu stjórnarskrá óskaði hinn ákærði nánast strax að sér yrði skipaður verjandi, en í  lögum um Landsdóm segir svo: 

"15. gr. Forseti landsdóms skipar ákærðum svo fljótt sem verða má verjanda úr hópi hæstaréttarlögmanna, og skal við val á verjanda farið eftir ósk ákærða, ef ekkert mælir henni í móti. Rétt er, að ákærður haldi sjálfur uppi vörn fyrir sig ásamt verjanda. Skipun verjanda skal tafarlaust tilkynnt saksóknara Alþingis."

Forseti landsdómsins hefur ekki svarað ósk sakborningsins um skipan verjanda, en mun hafa sent umsóknina til umsagnar saksóknara Alþingis, sem samkvæmt lögunum hefur ekkert um málið að segja, en á hins vegar að fá tilkynningu um skipunina, eftir að hún hefur farið fram.  Eiríkur Tómasson, prófessor, segir að hér sé um skýrt brot á stjórnarskránni að ræða og ekki síður brot á mannréttindasáttmála Evrópu.

Mál sem rekið er vegna ákæru um brot á stjórnarskrá er sem sagt ekki rekið samkvæmt þeirri sömu stjórnarskrá og málsmeðferðin hafin með því að brjóta stjórnarskrárvarinn rétt sakborningsins.  Skyldi dómsforsetinn álíta að orðalagið "svo fljótt sem verða má" nái yfir það, að skipa hinum ákærða ekki verjanda fyrr en að réttarhaldi loknu og dómur hefur verið kveðinn upp?

Allir skulu teljast saklausir uns annað verður sannað fyrir dómi.  Er ekki lágmark að farið sé eftir stjórnarskránni, þegar ákært er fyrir brot á henni, jafnvel þó um pólitísk réttarhöld sé að ræða?


mbl.is Skipa hefði átt verjanda um leið segir lagaprófessor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útrásarvíkingur í vesturvíking

Nú er útrásarvíkingurinn Pálmi í Iceland Express kominn í víkingahaminn á ný og nú á að sýna flugrekendum í Evrópu og Bandaríkjunum hvernig á að reka flugfélag, en af því hefur Pálmi mikla reynslu og nægir þar að benda á þátttöku hans í að rýja Icelandair af öllu eigin fé, þátttaka í gríðarlegu tapi af kaupum í American Airlines, kaupum, sölu og gjaldþroti Sterling ásamt því að koma Icveland Express undan þrotabúi Fons á gjafverði.

Þessi nýja útrás felst í því að selja flugfargjöld til Ameríku frá Danmörku á slíkum spottprís, að gamalgróin flugfélög í Evrópu, sem enn hafa nokkru eigin fé á að skipa í rekstri sínum, geta ekki með nokkru móti keppt við verð Iceland Express, enda hefur það flugfélag og eigendur þess aldrei þurft að hugsa um rekstarhagnað og eigið fé, enda aðstendurnir með mikla reynslu af rekstri félaga með tapi og uppþurkun eigin fjár, sem hvort tveggja hefur síðan verið látið öðrum til að borga, þ.e. lánadrottnum og íslenskum skattgreiðendum.

Eina spurningin sem vaknar við lestur fréttarinnar er hvort öllum sé sama þó sömu persónur og leikendur séu enn að bendla nafni lands og þjóðar við útrásarrugl.


mbl.is Iceland Express efnir til verðstríðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðskrum

Framsókn og Hreyfingin hafa nú farið fram á fund með ráðherranefndinni, sem enn er að störfum við að finna út hvernig á að útskýra fyrir fólki að ekki verði um frekari ráðstafanir að ræða af hálfu hins opinbera vegna skuldamála einstaklinga.

Þó Jóhanna Sigurðardóttir hafi látið það út úr sér í skelfingarkasti vegna drunanna í tunnunum á Austurvelli 4. október s.l., að vel kæmi til greina að fara út í 15,5% flata niðurfellingu á öllum húsnæðisskuldum, þá meinti hún auðvitað ekkert með því og var enda löngu búin að gefa út yfirlýsingu um að ekkert slíkt væri í spilunum.

Nú ætla Framsókn og Hreyfingin að snúa hnífnum í sári Jóhönnu og pína út úr henni nýja staðfestingu á því að ekki standi til að ráðast í almennar aðgerðir vegna húsnæðisskulda og má reyndar segja að tími sé til kominn að fólk sé upplýst um það í eitt skipti fyrir öll og hætti þar með að bíða eftir því sem aldrei kemur.

Það er tómt lýðskrum að halda áfram að ýja að því að eitthvað verði af flatri lækkun húsnæðisskulda. Það er heiðarlegra að segja sannleikann strax og þá hættir fólk að bíða eftir því sem aldrei kemur og snýr sér að því að vinna í sínum málum miðað við þá raunverulegu möguleika sem það hefur í sinni stöðu.

Það er vel gert af Framsókn og Hreyfingunni að knýja á um heiðarlega yfirlýsingu frá Jóhönnu og Steingrími og hætta um leið öllu lýðskrumi sjálf.


mbl.is Þingmenn óska eftir fundi með ráðherrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lilja flytji vantrauststillögu á ríkisstjórnina

Lilja Mósesdóttir hefur undanfarna mánuði talað eins og harðasti stjórnarandstæðingur og hefur marg lýst því yfir að ríkisstjórnin sé á algerum villigötum og vinni í raun gegn hagsmunum almennings í landinu.

Allt er þetta rétt og satt hjá Lilju og því er alveg óskiljanlegt að hún skuli ennþá segjast vera stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar og hefur passað vandlega upp á að frumvörp ríkisstjórnarinnar komist klakklaust í gegn um þingið og allar hinar ómögulegu aðgerðir, að áliti Lilju, hafa orðið að lögum, sem eins og hún segir hafa stórskaðað hag heimilanna í landinu.

Einnig gefur Lilja sig út fyrir að vera algjöran andstæðing fjárlagafrumvarpsins og niðurlægir formann flokks síns með því að segjast vera fylgjandi einhverju óljósu bulli í Jóhönnu Sigurðardóttur um þau, en eins og allir vita segir Jóhanna eitt í dag og annað á morgun.

Flytji Lilja ekki vantrauststillögu á ríkisstjórnina á fyrsta þingfundi eftir helgi, stimplar hún sig endanlega inn í þingsöguna sem einn mesti lýðskrumari sem þar hefur setið og aldrei verður tekið mark á einu orði sem frá henni kemur framar.


mbl.is Líkjast kommúnistaflokkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsdómsmálið hlýtur að vera dautt

Málshöfðunin á hendur Geir H. Haarde fyrir Landsdómi, sem Alþingi samþykkti í bráðræðiskasti, hlýtur að verða felld niður og þeim tvöhundruð milljónum, sem kosta átti til þessara sýndarréttarhalda, að verða varið til þarflegri hluta, eins og t.d. til heilbrigðis- eða velferðarmála.

Lögin um Landsdóm virðast vera svo ruglingsleg, að forseti dómsins skilur þau ekki einu sinni og er engu líkara en að hann haldi að saksóknari eigi að skipa sakborningi verjanda en ekki dómsforsetinn, þó slíkt standi í lögunum og að forseti dómsins skuli gera það svo fljótt sem verða má. Að svo einföld aðgerð skuli vefjast fyrir forseta dómsins í margar vikur er hreint ótrúlegt og enn lýgilegra að hann skuli óska álits saksóknarans á þessu atriði.

Enn alvarlegra er að þessi sami dómsforseti skuli telja lögin, sem ákært var eftir svo óskýr að nokkuð víst sé að hinn ákærði verði sýknaður og því hafi hann lagt fyrir ráðherra tillögur til breytinga á lögunum og meira að segja ráðherra sem samþykkti ákæruna og ætti síðan að leggja breytingarnar fyrir sama þingmeirihluta og samþykkti ákærurnar eftir gildandi lögum.

Lög geta aldrei gilt aftur fyrir sig og þá varla lög um Landsdóm, frekar en önnur. Ef skoðun forseta dómsins er sú, að ákærurnar séu lagðar fram á hæpnum forsendum miðað við gildandi lög, á hann ásamt öðrum dómurum einfaldlega að vísa málinu frá dómi.

Landsdómi, ráherra, Alþingi ber að fara að gildandi lögum, annars er málið dautt.


mbl.is Átelur vinnubrögð landsdóms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslyndasti páfi sögunnar

Frá örófi alda og fram á þennan dag hefur það verið opinber kenning kaþólsku kirkjunnar að eina ásættanlega og guði þóknanlega getnaðarvörnin væri að stunda ekki kynlíf. Samkvæmt þeirri kenningu átti kynlíf að þjóna þeim eina tilgangi að geta börn og allar aðrar kynlífshugsanir, að ekki sé talað um athafnir, væru alger synd og óeðli.

Allir páfar frá upphafi hafa haldið sig fast við þessa kenningu og ekki ljáð máls á nokkurri undantekningu frá henni og það þrátt fyrir síaukna útbreiðslu kynsjúkdóma, þar á meðal alnæmis, sem er orðin alger plága víða, t.d í Afríku.

Nú gerast þau stórtíðindi, að Benedikt páfi 16. virðist vera að færa sig í átt að ótrúlegu frjálslyndi í kynferðismálum, því hann er farinn að viðurkenna að notkun smokka geti verið réttlætanleg til að sporna við kynsjúkdómum.

Þar sem páfi hlýtur að gera sér grein fyrir að kynsjúkdómar eru ekki mjög alvarleg áhætta í kynlífi hjóna, sem aldrei stunda það hvort sem er nema í þau fáu skipti sem þau eru ákveðin í að geta barn, þá verður þetta að teljast ein af merkilegri yfirlýsingum kaþólks trúarleiðtoga í mörg hundruð ár.

Þessi yfirlýsing Benedikts 16. hlýtur að vera undanfari stórkostlegrar breytingar á afstöðu Vatikansins til kynlífs utan hjónabands.
Jafnvel gæti svo farið að innan mörg hundruð ára verði kaþólskum prestum leyft að kvænast.


mbl.is Páfi hlynntari smokkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppan varir næstu tíu til fimmtán ár

Ríkisstjórnin keppist við að að blekkja þjóðina með síendurteknum yfirlýsingum um að nú sé botni kreppunnar náð og smjör fari að drjúpa af hverju strái strax næsta vor.  Einnig slá ráðherrarnir úr og í varðandi aðgerðir í skuldamálum heimilanna og þrátt fyrir að vera búin að slá flata skuldaniðurfellingu allra fasteignalána  út af borðinu, kom Jóhanna Sigurðardóttir fram í sjónvarpi, skelfingin uppmáluð og með hellur fyrir eyrum eftir tunnuslátt á Austurvelli þann 4. Október s.l., og lofaði að farið yrði í 15,5% niðurskurð allra slíkra lána og yrði það nánar kynnt "í næstu viku", þegar búið yrði að "útfæra" tillögurnar nánar.

Kjarkinn hefur Jóhanna verið að endurheimta smátt og smátt og er farin að gefa í skyn aftur að ekki sé "hagkvæmt" að fara í flata skuldaniðurfellingu, en það sé ekki af því að hún vilji það ekki sjálf, heldur vegna þess að bankar, lífeyrissjóðir og aðrar lánastofnanir séu þau illu öfl, sem hún ráði ekkert við.

Ríkisstjórnin er nú búin að sitja við völd í tæp tvö ár og í stað þess að leiða þjóðina út úr kreppunni hefur hún unnið að því öllum ráðum að lengja hana og dýpka með því að berjast gegn hvers konar atvinnuuppbyggingu og nægir að nefna svik hennar við allt sem hún lofaði í Sólstöðusamningunum, sem endaði með því að bæði atvinnurekendur og ASÍ slitu samstarfinu og telja öll tormerki á að vinna með þessari ríkisstjórn framar.

Því hefur oft verið haldið hér fram að kreppan verði bæði djúp og löng og nú staðfestir OECD þau orð , en viðhangandi frétt hefst á þessum orðum:  "Greining Íslandsbanka segir að aukin svartsýni Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) varðandi efnahagsmálin á Íslandi komi ekki á óvart enda hafi efnahagsbatinn hér á landi dregist á langinn. OECD reiknar nú með því að samdrátturinn verði bæði dýpri og viðsnúningurinn hægari hér á landi en stofnunin reiknaði með fyrr á árinu."

OECD spáir því einnig að atvinnuleysi verði meira á næsta ári en því sem nú er að líða, eða aukist úr 7,5% í 8,1% og fari síðan afar hægt minnkandi frá og með árinu 2012.  Með áframhaldandi stjórnarstefnu og verið hefur við lýði hér á landi tvö síðustu ár, verður þjóðféagið varla komið upp úr kreppunni fyrr en á árabilinu 2020-2025 og er það skelfileg framtíðarsýn.

Við verðum að fara að gera okkur fulla grein fyrir þessu og hætta að reikna með einhverjum jákvæðum breytingum á afkomunni fyrr en að mjög mörgum árum liðnum. 

Næstu tíu til fimmtán árin verða ár hertrar sultarólar og fátæktar stórs hluta þjóðarinnar.


mbl.is Svartsýni OECD kemur ekki á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsdómur greiddur af heilbrigðiskerfinu

Mikill styrr hefur staðið undanfarnar vikur vegna niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu og ekki síst vegna nánast lokunar ýmissa sjúkrastofnana hringinn í kringum landið.  Útlit er fyrir að loka þurfi langlegudeildum og þjónustuheimilum fyrir aldraða vegna nokkurra tuga milljóna reksturskostnaðar, sem Steingrímur J. segir að ekki sé með nokkru móti hægt að fjármagna úr ríkissjóði lengur.

Fjölskylduhjálp Íslands sótti um fjögurra milljóna króna styrk af fjárlögum til starfsemi sinnar, en samtökin hafa, ásamt fleiri slíkum, annast neyðaraðstoð við fólk sem ekki getur séð sér og sínum farborða lengur.  Fjárlaganefnd Alþingis vísaði erindinu frá vegna þess að það barst ekki á réttum tíma til nefndarinnar og því ekki hægt að taka slíkar upphæðir til athugunar, því slíkt myndi rugla öllu skipulagi nefndarinnar.

Nú er birt kostnaðaráætlun við að rétta fyrir Landsdómi yfir einum fyrrverandi ráðherra með svo óraunhæfum sakargiftum, að allar líkur eru á algerri sýknu, en til að ná fram þeim dómi þarf að kosta til a.m.k. 150 milljónum og af gamalli reynslu má reikna með að upphæðin fari ekki undir 200 milljónir.

Vegna þessara vitlausu 200 milljóna króna aukaútgjalda þykir sjálfsagt að flytja breytingartillögu við fjárlögin, en 4 milljónir til Fjölskylduhjálpar Íslands verður sjálfsagt að vísa frá, enda niðurskurður í gangi og allt kapp lagt á að loka sjúkradeildum, lækka bætur og hækka skatta.

Er þeim sem þessu stjórna ekki sjálfrátt?


mbl.is Landsdómur kosti 113 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband